4. September 2019

Það er súrrealískt að lifa á plánetunni jörð um þessar mundir. Andstæðurnar eru brjálæðislegar. Við ræðum hversdagslega yfir morgunbollanum hvernig 90% af lífríki Íslands mun hverfa innan 50 ára nema við breytum neysluvenjum, lifnaðarháttum og rekstrarumhverfi. Við setjum þetta oft ekki í samhengi en breyttar neysluvenjur gætu til dæmis þýtt að bændastétt Íslands fari á hausinn, við getum ekki skroppið í ársfjórðungslegu helgarferðina okkar, getum ekki keypt okkur nýjan fatnað fyrir hvert tilefni eða nýjan síma því okkur dettur það í hug.

Skógar brenna, jöklar hverfa, stormar verða kraftmeiri og enn fleiri hitamet verða slegin. Atvinnuleysi mun aukast því það verður að framleiða minna, af því hjól efnahagslífsins VERÐA að snúast hægar. Ef ég pæli í stóra samhenginu er bændastétt Íslands eða nýr sími kannski ekki okkar stærstu vandamál. Ekki miðað við alla þá sem munu deyja vegna hamfarahlýnunar, ja eða þá sem búa ekki svo vel að hafa rétt á ágætis atvinnuleysisbótum. Ég hugsa að á þessum tímum sé skandinavískt vegabréf að verða verðmætasta eign mín.

Þrátt fyrir þessa vitneskju fyrirfinnst enn í dag, af einhverjum ótrúlegum ástæðum, það fólk sem nær að láta þetta allt sem vind um eyru þjóta. Að mörgu leyti skil ég málið. Mér liði eflaust betur í mínum hversdagsleika ef ég lifði í lyginni og léti eins og allt léki í lyndi þangað til ég dey. Suma daga lifi ég svoleiðis.

Segi fokkit og borða kjöt og ost, avókadó frá Perú og nektarínur frá Japan. Kaupi mér ný föt og flugmiða til Berlínar. Þið kannist kannski við neyslu af þessu tagi. Það er eitthvað pirrandi við það að gefa upp allt sem er notalegt og næs í lífinu þegar aðrir ætla sér að lifa í veislunni til eilífðarnóns. Við lifum einfaldlega á tímum þar sem forræðishyggja er nauðsynleg. Don’t @me*.

neysla

Ég ræddi við góðvinkonu um daginn sem vinnur fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki á Íslandi. Hún sagði mér frá vangaveltum sínum um að við værum runnin út á tíma. Runnin út á tíma með að breyta skoðunum fólks og sannfæra samfélagið um að hamfarahlýnun sé staðreynd og að við verðum að gera eitthvað. „Bjarga plánetunni“ með því að breyta neysluvenjum og allt það, þið þekkið ræðuna.

Hún vildi meina að þess í stað þyrftum við að markaðssetja hamfarahlýnun einhvernveginn öðruvísi. Rannsóknir sýna nefnilega að eitruð karlmennska hefur áhrif á álit karlmanna á loftslagsmálum, þannig að mönnum finnst aðgerðir gegn loftslagshamförum almennt kvenlegar og eru líklegri til að vera óumhverfisvænir í tilraun til að höfða til ómeðvitaðra karlmennskuhugmynda.

Svipaðar rannsóknir sýna til dæmis að mönnum finnst kvenlegt að vera með fjölnota poka en karlmannlegra að nota einnota plastpoka. Þá er líklegra að menn gæfu pening í sjóð sem héti eitthvað á við Wilderness Rangers sem auðkenndi sig við úlf heldur en hin dæmigerðu félög sem eru „vinir náttúrunnar“ með tré í logoinu. Þetta er því þeir valkostir sem frammi fyrir okkur standa: Eigum við að horfast í augu við stöðuna, stofna karlmannlegan sjóð og fá karlmenn til að gefa pening náttúrunni til bjargar nema á karlmannlegan hátt eða halda áfram að eyða púðri í að fræða og vonandi útrýma eitraðri karlmennsku?

Líklega bæði og vona það besta. Á sama tíma gætum við markaðssett hamfarahlýnun fyrir popúlista einhvernveginn þannig að þau legðu peninga til svo að hægt væri að hægja á flóttamannastraumnum. Svipað og að telja bílelskandi bílaeigendum trú um að almenningssamgöngur séu þeim í hag til þess að minnka umferð — meira pláss fyrir þinn bíl!

Eftir spjall við Guðrúnu Svavars sem ég tók viðtal við fyrir þessa sömu útgáfu, vorum við sammála um að í grunninn snúist þetta mál allt um um þægindi og líf fyrir okkur núna, eða þægindi (tja eða allavega líf) fyrir næstu kynslóðir. Kannski er það bara í eðli okkar að velja fyrir okkur sjálf akkúrat núna? Á sama tíma velti ég fyrir mér, hvort við eigum að hætta að kaupa neysluvarning sem framleiddur er til dæmis í Kína, og þannig valda því að fjöldi fólks þar gæti dáið úr fátækt vegna atvinnuleysis? Eða halda áfram að neyta þessa varnings eins og svín og valda þannig dauða fjölda fólks þar eftir 20 ár úr afleiðingum hamfarahlýnunar, flóði, hita eða uppskerubrests?

Allt ofantalið er brjálæðislega aðkallandi, ógnar lífi okkar allra og ég veit ekkert hvað ég á að gera við þessar upplýsingar. Umræðan um loftslagshamfarir er virkilega lamandi og veldur því oft að það eina sem okkur dettur í hug að gera er að líta í hina áttina og halda áfram með okkar daglega líf. Fáfræði er sæla og allt það. Ég vil því reyna að sporna við því og gera tilraun til að fjalla lausnarmiðað um loftslagshamfarir.

Fyrsta sem við verðum að gera okkur grein fyrir er að vandamálið er okkar, við bjuggum það til og við ein getum leyst það.

En einungis í krafti fjöldans. Það veit auðvitað enginn nákvæmlega hversu mikið hver og einn þarf að draga úr neyslu en það þýðir ekki að við getum hunsað vandamálið þar til einhver segir okkur nákvæmlega í hverju lausnin felst. Í þessu öllu saman verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að enginn er að fara að gefa þér verðlaun fyrir að neyta minna og það er ólíklegt að þú sjáir og lifir þær góðu afleiðingar sem aðgerðir þínar munu leiða af sér. Mjög glatað, ég veit. Eiginlega frekar ömurlegt og niðurdrepandi verkefni.

Í mínum huga er lausnin tvíþætt, stjórnvöld geta sett hömlur á framleiðslu og samfélagsþegnar geta dregið úr neyslu. Þetta er sitthvor hliðin á sama peningi. Kína hættir ekki að framleiða neysluvarning nema við minnkum eftirspurn eftir honum. Flugfélög hætta ekki að fljúga flugvélum á meðan við höldum áfram að kaupa flugmiða. Fjöldaframleiðsla á kjöti heldur áfram á meðan ofneysla okkar kallar á hana. Og svo framvegis og svo framvegis.

SAMGÖNGUR

Flugvélar, ekki svo góðar fyrir umhverfið en einnig ferðamáti sem mjög erfitt er að sniðganga þegar þú býrð á eyju. Þetta vitum við öll. Hér væri þó ansi gott ef allir færu sirka tveimur ferðum sjaldnar í flugvél á ári en þau hafa gert? Nýta tæknina og halda skype-fundi eins mikið og hægt er, ferðast innanlands, kolefnisjafna flug sem þú flýgur og hringferðir sem þú keyrir (ef þú ert ekki á rafmagnsbíl). Lítil skref. Auðvelt mál.

MATUR

Þegar kemur að matvælum þurfum við að sameinast um að kaupa það sem er framleitt í nærumhverfi okkar og minnka þannig losun gróðurhúsalofttegunda sem verður við flutninga milli landa. Og sko, bændastéttin þarf ekkert að fara á hausinn. Bara byrja að framleiða afurðir eins og grænmeti í stað kjöts. Ef landskonur og -menn myndu byrja að hafa 3 kjötlausa daga í viku væri það líka mjög stórt skref í átt að því að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda.

Ef þið pælið í því, er þetta ekki jafn mikið mál og það lítur út fyrir að vera. Velja íslenskt, velja sjaldnar dýraafurðir.

NEYSLUVARNINGUR

Þetta er mörgum gríðarlega erfitt. Þegar kemur að fatakaupum er Ísland að mjaka sér í rétta átt með til dæmis. Barnaloppunni, Extraloppunni og Netportinu (ekki ad). Þar geturðu keypt eitthvað sem er nýtt í þinn fataskáp EN það verður engin frekari losun á gróðurhúsalofttegundum. Á bland.is, í góða hirðinum og á fleiri nytjamörkuðum geturðu fundið allskonar góss sem, aftur, veldur ekki frekari losun.

Svo má alltaf velta fyrir sér hvort hver einasti Íslendingur þurfi í alvörunni að gera upp íbúðina sína og kaupa nýja eldhúsinnréttingu. Hér er lausnin í raun einföld, taktu þátt í að endurnýta og endurnota í stað þess að kaupa nýtt. Og, hugsaðu þig a.m.k. 17 sinnum um áður en þú kaupir nokkuð.

Að auki eru litlir hlutir eins og að koltvísýringsjafna neyslu, t.d. hér inni á kolvidur.is eða skipta um leitarvél og nota ecosia.org sem plantar einu tréi fyrir hverja leit sem gerð er þar.

Það allra allra allra stærsta og mikilvægasta sem við getum gert er þó að halda áfram að senda stjórnvöldum þau skilaboð að við viljum aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og það helst í gær.

Það er alveg ótrúlega pirrandi að hugsa til þess að eyða tíma í að flokka rusl og neita sér um utanlandsferðir ef stjórnvöld heimila svo bara 3 álver og annað kýsilver til viðbótar og auka losun á Íslandi hundraðfalt.

Deilið greinum sem fjalla um loftslagsaðgerðir. Mætið á mótmæli. Sendið bréf til stjórnmálaflokka. Deilið ykkar vegferð í að lifa umhverfisvænna lífi öðrum til innblásturs. Í alvöru. Núna.

Ps. ef þið eruð ennþá að efast um að eitthvað af þessu sé fyrirhafnarinnar virði, lesið t.d. þessa grein.
— — —

* don’t @ me er notað á samfélagsmiðlum þegar varpað er fram skoðun þar sem mælandi hennar hefur ekki áhuga á að rökræða eða rökstyðja hana frekar. Svo að segja er viðkomandi sama um skoðanir annarra á áðurnefndri skoðun.

Fleiri greinar eftir Elínóru Guðmundsdóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Mannmiðjukenningin

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Orð gegn mannorði

næsta grein
MAX


Lesa meira um...

Neysla: Íslenskt vegabréf