19. apríl 2020

Ég sat við eldhúsborðið með símann við eyrað og sólin skein beint inn um gluggann á kjallaraíbúðinni. Þetta var frekar hár kjallari svo það var nóg af birtu. Ég gat rétt svo setið á stólnum. Maginn á mér var grænn og fjólublár, allur bólginn og mig verkjaði í skurðinn neðarlega vinstra megin á maganum sem var ekki enn gróinn. Það lak hor úr nefinu á mér og tárin runnu niður kinnarnar. Ég man að mér líkaði ekki við fötin sem ég var í. Þetta voru einhver ‘heimaföt’ og það var ekkert kósí við þau lengur. Ég var búin að vera of lengi í þeim og núna voru þau samofin einhverjum sársauka.

,,Mig langar bara ekki að vera til lengur,“ sagði ég við systur mína í símann og tók ekkasog. Ég var búin að gefast upp. Ekki á mér sjálfri heldur líkamanum.

Ég var ekki alvarlega veik, líkaminn átti eftir að jafna sig og það eina sem varð eftir var frekar lítið ör. En vonbrigðin, gremjan og reiðin út í minn eiginn líkama voru lengi að gróa.

Samband okkar við líkamann getur verið eins margbreytilegt og við erum mörg og það getur breyst töluvert gegnum ævina. Ég hafði sjaldan leitt hugann að því að líkaminn minn gæti brugðist mér. Líkaminn minn er líkami gífurlegra forréttinda, hann er hvítur, ekki í yfirþyngd, ekki fatlaður og því samfélagslega samþykktari en margir aðrir líkamar eru. Ég hef ávallt gengið að því vísu að líkaminn minn virki, geti framkvæmt það sem ég ætlast til af honum. Líkaminn er alltaf til staðar þó ég kæri mig ekki alltaf um sífellda áminningu um það hvað hann gerir og getur tekið upp á að gera að mér óaðspurðri. 

Ég hef lifað með hægðatregðu stóran hluta ævinnar. Það veldur því að það er alltaf ákveðin spenna í loftinu og mikilvægt að huga vel að tímasetningu og kjöraðstæðum. Hvar er hægt að vera lengi á klósetti, jafnvel með bók, án þess að vera trufluð, vekja grunsemdir eða athygli?

Sveskjur, sveskjusafi, hörfræjaolía, vatn, vatn, vatn, sorbitol, klix, sveskjur sem liggja í bleyti yfir nótt, husk, magnesíumpillur en ,,nei, því miður ekki í dag“ segir líkaminn.

Ég hef setið tímunum saman á klósettinu og grátbeðið hann um að skila af sér. Lofað honum öllu fögru en án árangurs. 

Fyrir tæplega sex árum varð ég ólétt. Ég var sjúklega ánægð með að vera ólétt, mér leið vel og ég var full af gleði. Ég bölvaði ennþá hægðatregðunni, sem varð mun verri á meðgöngunni, en skartaði lítilli bumbunni sem stækkaði stöðugt með stolti. Klæddi mig óspart í alla þrengstu kjólana mína svo ég gæti gefið öllum færi á að sjá mig og magann minn sem í þetta skipti var ekki bara uppblásinn af hægðatregðu heldur fullur af lífi. Þegar meðgangan var hálfnuð komst ljósmóðirin að því að ég var með allt of háan blóðþrýsting. Það var ekki neitt sem ég gat gert, blóðþrýstingurinn hækkaði ekki vegna streitu eða slæmra matarvenja. Ég var sett á lyf og viku seinna var ég lögð inn á spítala. Líkaminn sinnti ekki skyldum sínum, vanrækti legkökuna, hélt áfram að spóla blóðþrýstingnum í háloft og hunsa bænir mínar. 

Á endanum var Mosi, litla barnið mitt, tekið úr maganum ellefu vikum fyrir settan dag og fært í upphitaðan kassa í staðinn. Ég svaf ekkert fyrstu næturnar eftir keisaraskurðinn. Þegar ég loksins sofnaði vaknaði ég upp með andfælum fimm mínútum seinna og spurði sjálfa mig grátandi í myrkrinu hvar barnið mitt væri. Eina tilfinningin sem ég hafði var missir, Mosi var ekki lengur inn í maganum. Ég fékk svefnlyf. Sorgin fór ekki og vonbrigðin yfir misheppnaðri meðgöngunni uxu. Mér fannst líkaminn minn einskis nýtur. 

Mosinn hafði það gott, hann var hetja. Mér leið ekki eins og hetju, þó svo líkaminn hefði gert frábæra hluti sem ég vissi ekki að hann ætti til. Hann framleiddi brjóstamjólk sem passaði sérstaklega vel fyrir fyrirbura, hann greri vel og hægðirnar bötnuðu til muna. Kannski sá hann að sér. 

Þremur árum seinna fékk ég símtal frá heimilislækninum: „Ekki vera hrædd, en þú verður að fara strax upp á bráðamóttöku.“ Ég var með lífshættulega mikið kalk í blóðinu og var lögð inn á spítala, aftur. Fyrsta kvöldið brotnaði ég niður, grét og gargaði á hjúkrunarfræðinga. Ég hafði ekki gert ráð fyrir annarri spítalavist. Góðkynja æxli í hálsinum var fjarlægt í skurðaðgerð. Ellefu mánuðum síðar þurfti að skera mig aftur. Í þetta sinn til þess að fjarlægja hnút hjá keisaraskurðinum, „þetta er lítið inngrip“ sagði læknirinn. Bataferlið var hinsvegar erfitt og langt. Það blæddi mikið undir húðina, skurðurinn átti erfitt með að gróa og ég þurfti að fara oftar en ég kæri mig um að muna á bráðamóttökuna vegna erfiðleika eftir aðgerðina. Það var þá sem ég sat í eldhúsinu og grét í símann á meðan systir mín reyndi að hughreysta mig.

Líkaminn hafði snúið lífi mínu á hvolf, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég bölvaði honum, líkamanum. Með hori og tárum öskraði ég á hann: „Af hverju ertu að þessu drullumalli?“. Mér leið eins og ég hefði enga stjórn og það kvaldi mig.

Í þessu stjórnleysi rann þó einhver sannleikur upp fyrir mér. Kröfur mínar til líkamans voru óraunhæfar, það er ekki ég sem stýri honum. Hann stjórnar sér sjálfur og ég ákvað í fyrsta skipti að virða það.

Það var ákveðinn léttir að sleppa takinu og viðurkenna að völdin væru í líkamans höndum. Ég ræð ekki hvað það tekur líkama minn langan tíma að jafna sig eftir skurðaðgerð. Ég ræð heldur ekki hvort ég geti gengið með barn fulla meðgöngu, hvort ég verði langveik eða eigi erfitt með hægðir. Það er mitt hlutverk að fara vel með líkamann minn, virða hann, veita honum öryggi og umhyggju. Ég reyni ekki lengur að segja honum hvað hann á að gera og hvað ekki. Líkaminn var aldrei búin að lofa mér einu né neinu en ég get lofað honum að hvað sem gerist þá verð ég hér og við tökumst á við það saman.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Af örum, slitförum og fellingum

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Lapis Lazuli

næsta grein
Líkamsvirðing og fatlaðir líkamar: aðgengisnánd og réttlæti


Lesa meira um...

Líkaminn minn hefur völdin og það er smám saman að verða allt í lagi mín vegna