22. apríl 2020
texti og myndir:
Mars Proppé

Hvað heitirðu, hvaða fornöfn notarðu og hvernig skilgreinirðu þig?

Ég heiti Sigtýr Ægir Kárason og nota fornöfnin hann og hán. Ég á dálítið erfitt með að skilgreina mig, ég hugsa að það sé skýrast að segja kynsegin transmaður.

Hvernig tengir þú við líkama þinn? Hvort sem er í einrúmi eða í samfélaginu?

Ég á auðveldara með það í einrúmi, þá er ég ekki eins meðvitaður um tenginguna, eða skort þar á, þannig að hún virkar mun sterkari. Það fer líka eftir því hvort að ég sé á einhverri hreyfingu. Þegar það er einhver líkamlegur tilgangur með hreyfingunni, þegar maður er að hjóla eða dansa eða hlaupa eða eitthvað svona, þá verður heilinn að tengja við líkamann. Og að fá hausinn á mér til að tengja við líkamann á þann hátt, á ókynjaðan hátt, það hefur hjálpað mér rosalega.

Hefur tenging þín við líkamann breyst eftir að þú komst út sem trans?

Já, ég varð strax mun meðvitaðari um það hvernig ég væri séður. Að koma út var klárlega punktur sem gerði það erfiðara að vera í kringum fólk, bara út af því að þá var ég ekki lengur að performera eitthvað fyrir sjálfum mér heldur fyrir öllum. Það er kannski svolítið erfitt að útskýra það. Það er nefnilega eitt að gagnrýna sig í hausnum á sér og síðan allt annað þegar aðrir gera það. Maður gagnrýnir sig auðvitað mest sjálfur, en jafnvel þó að ekki allir séu á sama stað hvað það varðar, er oft erfitt að losna undan þeirri tilfinningu eða þeirri móðursýki að allir séu mjög meðvitaðir um hvað maður er að gera. Það er líka bara erfitt að líða ekki eins og maður sé að setja upp vegg þegar maður kemur út fyrir einhverjum eða þarf að leiðrétta miskynjun. Sú tilfinning var sérstaklega slæm rétt eftir að ég kom út. Það var eins og ég væri stanslaust að skella upp einhverjum veggjum, og þá á ég ekki við veggi út af minni eigin móðursýki heldur veggi sem urðu til vegna viðbragða eða vanskilnings annarra. 

Finnur þú fyrir einhverskonar kynama (e. gender dysphoria)?

Ég finn alveg fyrir kynama og hef fundið fyrir mjög lengi. Ekki alveg síðan ég man eftir mér, en í mjög langan tíma. Sem betur fer hefur því farið minnkandi í bylgjum síðan ég kom út. Og núna líður mér betur en nokkurn tímann áður hvað hann varðar, vegna þess að ég hef fengið að prófa mig áfram í kyntjáningu. Því sem ég breyti sem lætur mér líða betur, viðheld ég. Svo einfalt er það. En ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíma sleppa undan öllum kynama.

Hvaða hömlur hefur kynaminn sett á lífið þitt? Hverju hefur hann breytt?

Ég hef verið mjög virkur í því að reyna að félagslega einangra mig ekki. Það var eitthvað sem ég óttaðist mikið rétt áður en ég kom út, þegar ég var ennþá að reyna að setja mér allskonar hömlur til að koma ekki út úr skápnum. Þó að það séu margar áskoranir til staðar er klárlega hætta á því að maður ýki þær sjálfur til að hægja á sér. Ég hugsaði til dæmis að ég myndi ekki þora að fara út úr húsi, og það er alveg tilfinning sem ég þurfti að berjast við. En ég þurfti líka að minna mig á að ég væri samt ég eftir að ég kæmi út, og að ég væri alveg fullhæfur til að takast á við þetta. Það fór rosalega mikil orka í að komast yfir þessa stanslausu löngun að vera bara einn heima, þar sem er engin hætta á því að vera miskynjaður. Það var alveg ótrúlega erfitt í einhvern tíma en með æfingu og stuðningi varð það viðráðanlegt. Maður getur bara gert sitt besta. En að óttast stanslaust miskynjun er rosalega hamlandi. Miskynjun er svo kraftmikil rót félagslegs kynama fyrir marga. Að heyra að aðrir sjái mann ekki eins og maður sér sig sjálfur eru aðstæður sem maður forðast helst eins og heitan eld.

Finnurðu fyrir samfélagslegum væntingum á líkamanum þínum? Það er að segja að hann ætti að ákvarðast meira af kyninu þínu en hann í raun gerir?

Já. Þaðan kom þetta félagslega stress mitt einmitt. En nú er ég bara að reyna mitt besta til að vera meðvitaður um það að væntingarnar komi jafnmikið frá mér og þær koma frá öðrum. Þannig að ég reyni að vera þakklátur fyrir það að ég hafi tækifæri til þess að prófa mig áfram, sem ég fæ frá skilningsríkri fjölskyldu og vinum. Og minni sjálfan mig á það að ég er hérna fyrir mig, ekki fyrir neinn annan. Þannig að sama hvað ég geri í þessu ferli þá er það rétt svo lengi sem mér líður vel með það. Ég er bara að reyna að fylgja því, frekar en að fylgja einhverjum settum ákvörðunum og tímsetningum sem virkuðu fyrir aðra. 

Hvað er langt síðan þú fórst seinast í sund?

Ú, það er nú slatta tími. Ég hef einu sinni farið í sundklefa síðan ég kom út fyrir þremur árum. Þá notaði ég hk. sérklefa en honum hafði verið læst þegar ég ætlaði aftur inn eftir sundið. Þannig að ég þurfti að labba frá lauginni, hringinn í kringum húsið og inn um aðalinnganginn aftur til að komast að sundverði sem hleypti mér í klefann. Ég hef ekki farið síðan þá. Ég hló alveg að þessu þá með sundlaugaverðinum og finnst það ennþá fyndið en raunin er sú að það þarf klárlega skoða skipulagið á sérklefum betur. Ég elska að fara í sund og að nota sérklefa var eina leiðin sem mér fannst þægilegt að fara í sund, þannig að það var svekkjandi og fráhrindandi að rekast á þetta. Þar til að eitthvað breytist skelli ég mér bara í náttúruböð í staðinn þegar tækifæri gefst.

Hvað flík/fylgihlutur er í uppáhaldi á þessari stundu?

Ok það breytist örugglega vikulega en ég var að eignast alveg æðislegan vinnugalla. Hann er rosalega basic en á sama tíma er þetta fyrsti samfestingurinn sem ég hef átt síðan ég var svona 5 ára og mér líður eins og ég sé tilbúinn að takast á við heiminn í honum! Hæfur í garðyrkju, bakstur, á listasýningar og mér líður eins og hann gefi mér milt geimfara-vibe.














— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Dansara stúdía / Dance study

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Líkamsvitund: REGN

næsta grein
Líkamsvitund: VALLÝ


Lesa meira um...

Líkamsvitund: SIGTÝR