19. apríl 2020

Ég sat og horfði á mig í speglinum. Sá nakinn líkamann bylgjast yfir sjálfan sig. Ég tók eftir öllum slitunum, ójöfnunum og fellingunum. Þessum fellingum þar sem liðamótin beygjast og vöðvar, skinn og holdið allt þjappast saman öðrum megin við liðinn og hinum megin strekkist á því. Þessar mjúku fellingar sem renna saman, bugðóttar og ávalar línur. 

Ég einblíni á maga, rass og læri og býsnast yfir fellingum þar. Á sama tíma tek ég ekki eftir olnboga, úlnlið, ökkla eða hné. Allir þessir staðir eiga það sameiginlegt að húðin krumpast þegar liðamótin leggjast saman.

En af hverju ætli það sé að sumar fellingar séu óvelkomnar og aðrar velkomnar? Af hverju ætli mér finnist fellingin á mjöðminni, milli maga og læris, verri en sú sem er á olnboganum, milli upp- og framhandleggs?

Þetta er sama innihald. Bein, vöðvar og skinn að beygjast um liðamót. Af hverju hefur samfélagið, hefðin, útlitsdýrkunin og brenglaða sjálfsmyndin ákveðið að ein felling sé betri en önnur? Af hverju þarf húðin að vera lýtalaus en ekki með þessar náttúrulegu mjúku línur sem myndast? Afhverju eru fellingar, ör, hár, litbrigði, slit og allt það sem gerir hana að húð dæmt sem lýti þegar líklega engin húð í heiminum er laus við þessa eiginleika? Þessi húð sem er utan um eintak af manneskju sem verður ekki endurgert sama hversu miklar tækni- og vísindaframfarir verða í heiminum.

Það er auðvelt að segja bara „Elskaðu sjálfan þig!“ og „Þér á að þykja vænt um allt á þér!“ en það er ekki svo auðvelt að hundsa þessar raddir sem eru til staðar í hausnum á hverri manneskju.

Hugsunum um að þú sér ekki nóg, þú eigir ekki að líta svona út heldur hinsegin. Að ÞÚ sért vandamálið, en ekki samfélagið. Útlitsdýrkandi samfélag sem græðir á því að manneskjur vilji breyta því hvernig þær líta út.

Við erum alltaf að bera okkur saman við „draumalíkamann“ sem er aðeins ímynd okkar byggð á brengluðum fótósjoppuðum líkömum á samfélagsmiðlum. 

Allir líkamar heimsins eru ólíkir. Það eru 7,8 milljarðar manneskja í heiminum og engin þeirra er með nákvæmlega eins líkama og þú. Kannski svipaðan en ekki alveg eins. Ekki með alveg eins slitum, fellingum, hárum, húðflúrum, götum, litbrigðum, freknum, fæðingarblettum og öðru sem gera líkamann einstakan. Og þetta eina eintak sem þú átt af þínum eigin líkama má vera nákvæmlega eins og þú vilt hafa það. Það hefur enginn ákvörðunarvald yfir þessum líkama nema þú. 

Ég stend upp og strýk yfir allar þessar fallegu fellingar, ör og slit sem segja lífssögu mína. Segja frá því hvernig ég hef gengið í gegnum hóla og dali á þessi lífsferðalagi. Ég ákveð að reyna að hlusta ekki á röddina í höfðinu. Ákveð að láta mína rödd yfirgnæfa röddina í höfðinu. Ákveð að reyna að bæta um betur fyrir næstu kynslóð. Ákveð að ég ætli að vera nákvæmlega eins og ég er.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Ta meg imot

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Ég snoðaði mig

næsta grein
Líkaminn minn hefur völdin og það er smám saman að verða allt í lagi mín vegna


Lesa meira um...

Af örum, slitförum og fellingum