12. mars 2021

Þetta var ósköp venjulegur dagur í annars tilbreytingarlausu barneignarleyfinu. Barnið okkar var rétt svo hálfs árs og allt gekk samkvæmt því óútreiknanlega. Ég hafði fengið æfingu með heim frá mæðrahópnum mínum sem sálfræðingur og hjúkrunarstarfsmaður sáu um. Þetta var bunki af miðum með mismunandi fullyrðingum og hvert foreldri átti svo að velja þrjá miða út frá því hvað þeim fannst mikilvægast í nýju lífi með barni, svo áttu foreldrarnir að tala saman um af hverju einmitt þessir miðar urðu fyrir valinu. Á einum af mínum miðum stóð eitthvað álíka: ‘ég vil halda áfram að vera ég sjálf’. Mér fannst það, ásamt tveimur öðrum fullyrðingum sem ég man ekkert hverjar voru, vera mikilvægast. 

Þegar ég valdi miðann hugsaði ég ósjálfrátt til mömmu sem var hinum megin við gríðarstórt haf og sem ég saknaði ótrúlega mikið þá stundina. Ég hugsaði um allt sem hún hafði fórnað fyrir mig og systkini mín. 

Ég var líklega ekki meira en svona átta ára þegar ég byrjaði að skammast mín fyrir mömmu þegar við fórum í sund. Mamma var ein af mjög fáum konum á Íslandi sem um miðjan tíunda áratuginn gekk í g-streng. Í tíma og ótíma tjáði hún líka ást sína og aðdáun á Hollywood stjörnum þessa tímabils: Daniel Day-Lewis, Kevin Costner og Mel Gibson sem var óþægileg áminning um að mamma væri kynvera, mér til mikils ama. 

Syngja hátt (og vel) með útvarpinu, fara í vinnuna sem leikskólakennari á háum hælum og rífa kjaft við sjónvarpið, mamma var og er ekki þögul, heldur ekki þegar vinir okkar voru í heimsókn. Hún lét menningu (háa sem lága), stjórnmál og fréttir sig máli skipta og fannst hún sjálf skipta máli.

Nokkrir strákar í hverfinu gerðu grín að því hvernig mamma var klædd; það var ekki auðvelt að láta framhjá sér fara, háa, marglita og röndótta sokkana við dr. martins skó, hatta og húfur hvert öðru eftirtektarverðara – svo ekki sé minnst á ótal hárliti og hárgreiðslur sem móðir mín hefur skartað. Þetta með klæðaburðinn sveið kannski mest þegar ég var á miðjum pre-teen árunum. Á sama tímabili varð mamma ástfangin af konu. Í einni svipan endaði slitrótt samband foreldra minna og önnur ljónynja flutti inn. Ég var gífurlega meðvituð, alltaf hrædd um hvað öðrum fyndist um hana og skildi ekki afhverju hún gat ekki bara verið einhver drapplituð mamma.

Extravaganza er ágætt orð til að lýsa móður minni, samt er hún líka svo undur venjuleg og hlédræg — nánast feimin.






Hún var öðruvísi en hinar mömmurnar en í langan tíma var það mín heitasta ósk að hún væri eins og þær. Mamma þverneitaði til dæmis alltaf að koma á jólaföndur í skólanum vegna þess að henni fannst það drullu leiðinlegt, eitthvað sem ég oftar en einu sinni grét mig í svefn yfir. Með þessu kenndi hún mér að standa með sjálfri mér, ég þarf ekki að mæta á jólaföndur til að vera góð mamma. 

Mamma kenndi mér að konur eins og hún, sem skúra í leikskólanum eftir lokun, eru í g-streng eða ala upp börn einsamar, eru ekki minna virði en karlar í jakkafötum, að þær hafa nákvæmlega jafn mikinn rétt á því að tjá sig og að þeirra heimur er jafn mikilvægur.

Þó svo að konur eignist börn eru þær ekki bara ‘mamma einhvers’, þær eru líka þær sjálfar og það er þess virði að huga að því. 

Mamma mín hélt alltaf áfram að vera hún sjálf, þó svo hún ætti þrjú börn fyrir þrítugt og líka þegar aðrir (lesist móðir hennar, amma mín) reyndu að troða henni í kassa. Mamma mín sagði aldrei ‘af því bara’ eða ‘svona er það bara’. Mamma mín spurði frekar: af hverju er þetta svona? Eða: er ekki hægt að breyta því? 

Þegar ég var unglingur og búin að marínera í þó nokkuð mörgum tölublöðum af Veru og Vogue (tvö tímarit sem móðir mín var áskrifandi af) og búin að fá gamla og slitna útgáfu af femíníska doðrantinum Kvennaklósettið eftir Marilyn French að láni hjá henni fór ég að kunna að meta þetta sjálfstæði. Hugrekkið og atorkuna við að sinna því hver maður er. Núna þegar ég sjálf er mamma reyni ég að fara að fordæmi móður minnar. Ég syng hátt með Eros Ramazzotti á brútallí lélegri ítölsku þegar ég elda mat, ég reyni að setja spurningarmerki við alla heteronormatívu þvæluna sem barnið mitt dregur með sér heim úr leikskólanum og ég set þarfir mínar og ástríðu ekki í síðasta sæti.

Ég held að mömmu sé ekki sama um hvað öðrum finnst um sig en ég veit að henni þykir mikilvægara að fara sínar eigin leiðir. 

Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir að kenna mér að standa með sjálfri mér, þó svo mitt eigið barn eigi eftir að rúlla augunum yfir fatavali mínu í framtíðinni.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Láglaunastörf: Skúra, skrúbba og strita

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Köngulær og Louise Bourgeois

næsta grein
Sígilda fyrirmyndin Helen Keller lendir á Tiktok


Lesa meira um...

Móðurhlutverkið: Venjulega extravaganza