Köngulær og Louise Bourgeois

25. ágúst 2020

Höfundur:
Lára Sigurðardóttir
   

Systir mín er hrædd við köngulær. Mjög hrædd.

Ég er hrædd um systur mína, hún varð fyrir slysi. Hún féll úr stiga og lenti illa á handlegg og öxl. Kannski getur hún aldrei notað hægri handlegg á sama hátt og áður. Hún er ekki örvhent, því miður. Bróðir okkar er það. Ætli þau geti býttað?

Mér líkar ágætlega við köngulær – núna. Ég var hrædd, líkaði illa við þær, hélt að þær væru vondar eða vildu mér eitthvað illt. Ef ég sá könguló inn í herbergi fór ég ekki þangað inn, ef ég þurfti nauðsynlega að labba framhjá einni hélt ég niðrí mér andanum á meðan að ég hljóp framhjá. 

En það breyttist, mest vegna konu sem heitir Louise Bourgeois. Hún er stórkotlegur listamaður. Meðal annars býr hún til skúlptúra sem líkjast risavöxnum köngulóm. Köngulær eru hennar innblástur, hennar tenging við móður sína, æskuna og bernskuslóðir. Louise ólst upp í Frakklandi, fjölskyldan átti verkstæði fyrir neðan íbúðina þeirra í París þar sem móðir Louise vann við að gera við gömul veggteppi. Eins og köngulóin spann og óf móðirin þræði sem urðu að heild – vef, teppum sem prýddu veggi.

Fyrir Louise var móðirin könguló.

Köngulóin hefur átt erfitt uppdráttar í nútíma samfélagi okkar, sérstaklega í dægurmenningu. Og oftar en ekki er köngulóin í líki konu, vond eins og hin hræðilega Shelob í Hringadróttinssögu Tolkeins, en í líki karlmanns er köngulóin ofurhetja eins og Köngulóarmaður Stan Lee.

Köngulær hafa fylgt manneskjunni og ímyndunarafli okkar frá örófi alda. Allt frá forn Egyptum (Neith), Súmerum (Uttu) og Grikkjum (Arachne) má finna tákn og goðsagnir tengdar köngulóm og þá lang oftast í líki konu, móður og gyðju. Köngulóin er oftar sem ekki verndari vefnaðarlistarinnar og verkefna heimilisins. Gyðjan sem köngulóin persónugerir spinnir ekki aðeins þræði til efna og teppa gerða, hún spinnir lífið sjálft og örlögin.

“The Spider is an ode to my mother. She was my best friend. Like a spider, my mother was a weaver. My family was in the business of tapestry restoration, and my mother was in charge of the workshop. Like spiders, my mother was very clever. Spiders are friendly presences that eat mosquitoes. We know that mosquitoes spread diseases and are therefore unwanted. So, spiders are helpful and protective, just like my mother.” 

Louise Bourgeois um köngulóarverk sín.
(heimild: https://www.tate.org.uk/press/press-releases/tate-acquires-louise-bourgeoiss-giant-spider-maman sótt 14. Júlí 2020) 

Kynni mín af köngulóm áður en ég heimsótti safn og kynntist þessari frábæru konu, Louise Bourgeois, voru aðallega gegnum sögur af Mola litla flugustrák skrifaðar af Ragnar Lár. Og þegar að maður er fluga er könguló vissulega hræðslunnar verð. Allar flugur eru þó ekki Moli og í dag leyfi ég fúslega köngulónum að spinna sína vefi í hornunum á háu loftinu heima hjá mér. Þeim er velkomið að japla á mýi og öðrum óboðnum skordýragestum. Ég lít á þetta sem gagnkvæma virðingu. Köngulóin vill mér nefnilega ekkert illt, hún hefur ekki áhuga á mér heldur lífinu sjálfu. Hún vill skapa sér heimili, koma sér vel fyrir, fanga bráð og tryggja þar með öryggi afkvæma sinna. 

Kannski er köngulóin meiri aðdáunar verð en ótta.  

Daginn sem ég fékk harmafréttirnar af slysi systur minnar hitti ég könguló. Mér leið eins og að hún starði á mig, svo stíft eins og að hún væri að biðja mig um athygli sína. Ég náði því sem næst kemur augnsambandi við hana og tók á móti skilaboðunum: þó svo systir þín missi mátt eins handleggs hefur hún ennþá mátt sjö arma í hinum handleggnum.

Bónus: ef þú hræðist köngulær er piparmynta góð til að fæla þær frá. Þú getur til dæmis látið piparmyntu vaxa í eldhúsglugganum eða skvettu smá ilmkjarna piparmyntuolíu í tjaldið þitt í útilegunni.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Íslenskar listakonur: Þær voru svo margar ― þetta voru ekkert bara þessir karlar