Ég hleyp út í sumarnóttina á Jónsmessu og velti mér upp úr dögginni í þeirri von að það muni færa mér gæfu og sælu. Grasið er vott og það er kalt að leggjast í það en það er svo gaman að mér er alveg sama, ég geri þetta hvort sem er ekki oft. Nokkrum árum síðar verð ég heltekin af íslenskum jurtum og stikla um móa og mela að safna jurtum í bauka og bala. Ég helli upp á blóðbergste í afskekktum dal og tel sjálfri mér trú um að þetta sé lífið. Stundum þoli ég samt ekki útiveruna og langar mest að hjúfra mig undir hlýrri sæng og þá sérstaklega þegar það rignir, með náttúruna í plastpottum og aðkeypt te úr verksmiðju sem ég man ekki nafnið á. Það er líka sárt fyrir bakið, fæturna, að ganga og ganga og ganga allan daginn, bresta í grát úti í miðri á og efast um að komast yfir en svo fyrirgef ég ánni og grófu steinunum allt þegar upp á bakkann er komið því þetta er bara stundarsársauki og svo er allt svo fallegt aftur.
Jarðkynhneigð (e. ecosexuality) er hugtak sem listakonurnar og aktívistarnir Elizabeth Stephens og Annie Sprinkle settu fram fyrir nokkrum árum. Þessi kynhneigð er strangt til tekið ekki kynhneigð, heldur tilraun til þess að fá fólk til að líta umhverfisaktívisma öðrum augum. Ný leið til að berjast fyrir jörðinni. Sviðsetningar, absúrd húmor og jákvætt viðhorf til kynlífs er það sem einkennir þessar pælingar ásamt einskonar náttúrugirnd sem mörg okkar tengja ef til vill við, til dæmis þegar við njótum þess að ganga berfætt á heitum moldarstíg eða böðum okkur nakin í hlýrri náttúrulaug.
Við ættum aldrei taka henni sem sjálfsögðum hlut, ganga illa um hana og haga okkur eins og unglingar heima hjá móður sinni. Ég held að við séum flest meðvituð um það að við högum okkur öðruvísi í ástarsambandi á jafningjagrundvelli en heima hjá mömmu okkar sem leyfir okkur ef til vill að komast upp með allskonar hegðun sem væri ekki í lagi í sambúð með maka. Ef við förum að koma fram við jörðina af innilegri ást, leyfum okkur að vera ástfangin af henni, strjúka, snerta, faðma og umlykja hana í eilífðarkærleik, er ekki líklegra að við berjumst fyrir henni af meiri ástríðu?
Í manifestói1 sem Elizabeth og Annie skrifuðu fyrir jarðkynhneigðina eru sex liðir. Hér þýði ég yfirlýsinguna lauslega svo við fáum skýrari mynd af þessari hugmyndafræði.
Við njótum ásta með jörðinni. Við girnumst vatnið, jörðina, eldinn og loftið. Við föðmum tré, nuddum jarðveginn með tánum og hvíslum ástarorðum að jurtum. Við böðum okkur nakin, tilbiðjum sólina og mænum á stjörnurnar. Strjúkum steinum, unnum fossum og dáumst að mjúkum línum jarðarinnar. Við njótum ásta með henni með öllum okkar skynfærum.
Við erum sívaxandi hópur jarðkynhneigðra. Í því samfélagi er listafólk, fræðafólk, kynlífsstarfsfólk, umhverfisaktívistar, kynfræðingar, fólk með náttúrublæti, garðyrkjufræðingar, viðskiptafólk, sálfræðingar, lögfræðingar, friðaraktívistar, umhverfisfemínistar, vísindafólk, kennarar og fleiri verur víða að úr veröldinni. Sum okkar eru jarðkynfræðingar sem rannsaka mörk kynfræði og vistfræði. Við erum meðvituð sem neytendur og reynum að neyta sem minnst og með vistvænum hætti. Hvar sem við erum tengjumst við náttúrunni og finnum til með henni.
Við erum jarðkynlífsaktívistar. Við munum bjarga fjöllunum, vötnunum og himninum með öllum tiltækum ráðum, sér í lagi með kærleik, gleði og þokka. Við munum stöðva misnotkun og eitrun á jörðinni. Við styðjum ekki ofbeldi, þó við gerum okkur grein fyrir því að sum okkar gætu valið að berjast á móti andstæðingum með borgaralegri óhlýðni og róttækum aðgerðum. Við fögnum byltingarkenndum ljóðum, listum, tónlist, húmor og kynferði. Við nýtum okkar tíma og orku í baráttu og leik fyrir jarðarréttlæti og heimsfriði. Sprengjur meiða.
Jarðkynhneigð er sjálfsvitund. Fyrir sum okkar er jarðkynhneigð okkar meginkynhneigð en ekki fyrir öll. Þau sem eru jarðkynhneigð geta verið gagnkynhneigð, samkynhneigð, tvíkynhneigð og hvað sem þau eru og vilja skilgreina sig sem. Við viljum að fleiri komi út sem jarðkynhneigð. Við erum úti um allt. Við erum fjölkær og frækær. Við fræðum fólk um jarðkynhneigð, samfélagið, siði okkar og venjur. Fyrir okkur er þetta sjálfgefinn sannleikur: að við erum partur af og ekki aðskilin frá náttúrunni. Þess vegna er allt kyn jarðkyn.
Jarðkynheit. Ég lofa að elska, virða og varðveita þig, Jörð, þar til dauðinn sameinar okkur að eilífu.
Lifi jarðkynbyltingin!
Uppá síðkastið hefur jarðkynhneigð verið mér hugleikin eða síðan hún kom upp í samtali við kunningjakonu um sjálfsást og nautnir. Konan sem ég átti það samtal við minntist á verkefni sem kallast Ecosexual Bathhouse eftir sviðslistahópinn Pony Express. Þar skapaði hópurinn baðhús þar sem fólk gat snert og átt í nánum kynnum við plöntur, mold og aðra náttúru. Eftir því sem ég kynnti mér þessa hugmyndafræði betur, jarðkynhneigðina, fannst mér hún fallegri og fallegri. Hugmyndin um að við getum elskað náttúruna og allt sem rúmast innan hennar á svipaðan hátt og elskhuga, notað skynfærin okkar öll til að upplifa hana og njóta samvista með henni er eitthvað sem ég held að við gætum öll tileinkað okkur að einhverju leyti.
Þetta samband sem jarðkynhneigða samfélagið einblínir á er stöðugt og eilíft samband okkar við náttúruna annað en ástarsambönd sem endast mislengi. Að vera í ástarsambandi með annarri manneskju gengur oft upp og ofan, stundum er það gott í einhvern tíma en verður verra eftir því sem líður á þangað til því er slitið. Í heilbrigðu sambandi er jafnt framlag einstaklinga af ást, virðingu, hlýju og tillitssemi. Við njótum þess að vera saman og í sundur, stundum gengur allt eins og í sögu en auðvitað koma upp hnökrar eins og í öllum samskiptum.
Jörðin er auðvitað ekki hinn fullkomni elskhugi, oft er veðrið ekki til þess fallið að það sé auðvelt að snerta og skynja með heilum hug og líkama en það er líka eitthvað gott við það slæma og erfiða. Mér líður eins og mitt samband við jörðina muni vara að eilífu, annað en mín sambönd við hitt kynið sem oftar en ekki eru mjög fallvölt.
Við erum öll í þessu sambandi. Jörðin er okkar og við erum hennar, við öndum að okkur loftinu, snertum jarðveginn og böðum okkur úr vatninu. Hún er okkar og við erum hennar, eins og hunangsflugur og hákarlar, fiskiflugur og ólífutré í fjallshlíðum og á ströndinni, í hafinu og uppi á hálendi, öll erum við saman, alltaf og að eilífu, amen.
1 Ecosex Manifesto. http://sexecology.org/research-writing/ecosex-manifesto/