,,Hver ákvað að við hefðum áhuga á að vita hverju konur klæðast en ekki hvað þær segja?“
Fjölmiðlar eru alltumlykjandi, en það er femínismi ekki. Fréttir, skoðanir, dægradvöl, áróður, mótmæli og fróðleikur flæðir fyrir vitum okkar hverja sekúndu og við pöpullinn eigum ekki séns á að beita gagnrýninni hugsun á þann urmul upplýsinga sem sífellt blasir við okkur. Í raun er lítið af vitneskju okkar um veröldina upprunnið í eigin upplifunum heldur í fjölmiðlum og þeirri mynd sem þeir birta okkur af heiminum. Fjölmiðlar eru fyrir vikið ansi valdamiklir ― þeir ráða því kannski ekki hvað okkur finnst en hafa mikil áhrif á hvað við hugsum um.
Af og til eru birtar greinar sem hrista duglega upp í samfélaginu, eins og nýverið þar sem Fréttablaðið fjallaði um hvernig konur eiga að hegða sér á ströndinni á sumrin. Ekki borða meira en hnefafylli af mat og grafa lærin létt í sandinn svo þau virki minni ― gæti vissulega virkað saklaust uppfylliefni í mest lesna dagblað landsins. Fréttablaðið vissi aldeilis ekki hverju það átti von á.
Yfir samfélagið steyptist flóðbylgja umræðna um skaðleg fegurðarviðmið og í hverjum kima netheima ómuðu reiðar gagnrýnisraddir femínista þar sem allir voru og eru sammála um hve gamaldags og röng slík skilaboð eru. Þegar betur er að gáð og rýnt í annað almennt fjölmiðlaefni sem beint er til kvenna, er nákvæmlega þetta að finna allastaðar, kannski aðeins betur orðað, aðeins meira í takt við tíðarandann, aðeins meira undir áhrifum frá áhrifavöldum. En sannarlega alls staðar, alltumlykjandi.
Við gerum okkur nefnilega enga grein fyrir því í amstri hversdagsins hve stóran þátt fjölmiðlar eiga í að viðhalda valdamisrétti milli kynjanna og ríkjandi kynjahlutverkum. Allt sem er ekki gagngert femínískt efni hefur tilhneigingu til að vera akkúrat and-femínískt og karllægt ― og yfirleitt alveg óvart. „Harða“, mikilvæga efnið í fjölmiðlum er fyrir karla, um karla, skrifað af körlum, þar sem talað er við karla og fréttirnar fluttar af körlum ― og hitt fjölmiðlaefnið um fólkið, lífið og útlitið á sama hátt ætlað konum og þeim sem tjá kyn sitt á hefðbundinn kvenlegan hátt. Við lítum svo á að verið sé að höfða til ólíks áhugasviðs kynja.
Við gerum einfaldlega ráð fyrir að konur hafi meiri áhuga á uppskriftum og kremum heldur en jafnlaunavottun eða vísitölum.
Fjölmiðlaefnið sem ætlað er konum er beinlínis valdur að því að jafn fáar konur og raun ber vitni vita að launaleynd m.a. heldur launum kvenna lágum og launum karla háum. Hvað græðum við eða töpum á kynjakvótum? Hver ákvað að við hefðum áhuga á að vita hverju konur klæðast en ekki hvað þær segja?
Blessunarlega erum við alls konar og höfum áhuga á alls konar og ég er því ekki hér til þess að setja út á áhuga á snyrtivörum eða frægu fólki.
Mér er þó í mun að skilja hvernig ,,me-time“ nútímakonunnar snýst um að smyrja sig kremum sem stinna, slípa og slétta, að lita á sér augabrúnir og fjarlægja hin ýmsu líkamshár. Tími sem á að vera tileinkaður okkar velferð og ánægju fer alfarið í að breyta sér sem allra mest.
Ég velti fyrir mér hvílíkt þrekvirki markaðsaflanna það er að hafa selt okkur þessa pælingu. Hugsum okkur hve mörg fyrirtæki færu á hausinn ef konur myndu vakna einn daginn og ákveða að vera ánægðar með sjálfa sig.
Við sem samfélag þyrftum að girða okkur í brók, gera meiri kröfur, vanda okkur meira og vera meira feminísk. Skrifa fegrunarráð sem er ekki ætlað að breyta konum, minnka, sminka, skera af og grafa niður í sand. Skrifum um það hvernig öll geta verið heilbrigðari, hamingjusamari og liðið betur í eigin skinni. Hættum þessari áráttuhegðun um hvernig líkamar eru eftirsóknarverðir og spyrjum kannski frekar hvernig heili er eftirsóknarverður?
Hugsum okkur frelsið sem fælist í því að hafa ekki áhyggjur af hvaða máltíð kemst fyrir í hnefafylli og geta frekar snúið okkur að einhverju sem skiptir í alvöru máli.
Hér erum við komnar, flokkur feminískra kvenna sem langar að vanda til verka. Okkur langar að femínismi sé ekki undirgrein félagsfræðinnar heldur alltumlykjandi. Fjölmiðlaefni ætti að vera fjölbreytt og valdeflandi fyrir öll, hvetja öll til að láta drauma sína rætast og líða vel. Vitiði hvað ég meina?