18. nóvember 2020

— TW —

Fyrir ári síðan las ég póst. Ég var reyndar að leita að öðrum pósti þegar að ég fann þennan sem ég las en við komum að því síðar. 

Í póstinum sem ég las var starfsmannastjóri á vinnustað, sem að ég starfaði tímabundið á, að bjóða öllu starfsfólkinu í hina árlegu nýársgleði vinnustaðarins. Þetta var í ársbyrjun 2017 og ég hafði unnið tímabundna verkefnavinnu á staðnum haust og vetur 2016. Starfsmannastjórinn bað fólk um að láta vita hvort að það kæmist og þeir sem kæmust áttu að senda henni nafnið á tveimur óskalögum fyrir partýið. Ég svaraði samviskusamlega að ég kæmi, að ég hlakkaði til og að óskalögin mín væru Let’s dance með David Bowie og allt með Beyoncé (but of course). Svona tveimur dögum eftir að ég svaraði skrifaði starfsmannastjórinn: „úps, þetta var vitlaus póstlisti og þú hefur óvart verið með, sorrý“. Einhvernveginn fóru þessi skilaboð framhjá mér og þegar að ég kom heim úr utanlandsferð í byrjun febrúar og fattaði að ég hefði gleymt öllu um þetta vinnupartý fannst mér ekkert sjálfsagðara en að skrifa starfsmannastjóranum póst þar sem að ég baðst afsökunar á því að hafa skrópað í þessa gleði og að ég vonaði nú mikið að allir hefðu skemmt sér vel. Ég fékk aldrei svar við þessu síðasta.

Þessi téði póstur sem ég fann fyrir ári síðan var í rauninni alls ekki hrikalegur í sjálfum sér. Það sem gerðist var að ég fattaði bara rúmlega tveimur árum of seint að mér hefði ekki verið boðið í þetta vinnupartý. Mín vanlíðan var hinsvegar svo mikil að þegar að ég las póstinn brotnaði ég niður. 

Já, þú last rétt. Fyrir ári síðan þegar að ég, af einhverjum ástæðum, ákvað að lesa þessa samskiptarullu milli mín og vinnustaðar, sem skipti mig engu máli lengur, brotnaði ég niður. Ég gjörsamlega missti það litla sem eftir var af þreyttri og tættri sjálfsmynd minni. Skömmin og sjálfshatrið fyllti vit mín og ég grét svo mikið að ég missti næstum andann. Þennan dag fann ég hvernig ofur þunn skelin af sjálfri mér brotnaði og restin af því hver ég var rann út í sandinn. 


Vanlíðan mín fyrir ári síðan var byrjuð að hafa alvarleg áhrif á líf mitt áður en umtalaður póstur kom við sögu. Svona tveimur mánuðum áður var ég byrjuð að taka eftir óvenjulegum skapsveiflum. Ég reiddist barninu mínu oft, hafði mjög litla þolinmæði og fannst erfitt að gefa af mér. Maðurinn minn tók á móti þessu öllu og tárum sem streymdu oft á dag. Ég einbeitti mér eins vel og ég gat að því að vera manneskja og gera venjulega hluti: kaupa inn, sækja á leikskólann, þvo þvott. Ég fann að það varð samt erfiðara og erfiðara að vera manneskja.

Ég var að skolast út, hver var ég eiginlega? Ég gat ekki verið ég, ég var ekki til. Ég var týnd. 

Eftir að ég las póstinn varð það of sárt að vera manneskja. Að láta mig detta niður stigann bakdyrameginn heima hjá mér varð allt í einu eftirsóknarvert, láta eitthvað annað taka við sársaukanum. Eða labba fyrir bíl á umferðamikilli götunnu handan við hornið og láta sársaukann hverfa alveg. Láta mig hverfa. Alveg. 

Ég ákvað að segja systur minni og manninum mínum frá þessum hugsunum. Ég varð að deila þessum sársauka með einhverjum, þetta var svo þungt og vont að ég hafði ekki undan að bera þetta allt saman ein. Ég hringaðist um sjálfan mig, ég gat ekki verið í eigin líkama, engdist um af sjálfshatri og snýtti hori og tárum í fötin mín. Ég gat ekki horft í augun á fólkinu sem að mér þótti svo vænt um. Ég klóraði mér óþægilega í enninu, eins og Carrie Bradshaw þegar að hún er búin að skíta upp á bak. Ég þoldi ekki þegar að hún gerði þetta og núna stóð ég þarna í stofunni heima hjá mér fyrir framan þau tvö og gerði það sama, nákvæmlega það sama. Mér fannst ég vera eitthvað úrhrak sem best væri ef bara myndi hverfa. 

Eftir óbærileg samtöl við manninn minn og systur mína hringdi ég loksins í neyðarlínu geðhjálpar hér í Danmörku, þar sem að ég bý. 


Ég komst að því að ég var veik, alvarlega veik. Ég var veik í huganum mínum. Eftir samtöl við geðlækna og annað geðheilbrigðisstarfsfólk byrjaði ég á lyfjum og í samtalsmeðferð. Ég var í svokallaðri heimainnlögn í tvo mánuði þar sem að sálfræðingur kom einu sinni í viku og heimsótti mig í klukkutíma í senn. Ég gat alltaf hringt og haft samband ef það var eitthvað að angra mig. 

Núna ári seinna hugsa ég hvað það er dýrmætt að hafa fólk í kringum mig sem sá mig og fann mig þegar að ég var týnd. Að hafa fólk í kringum mig sem að gat hjálpað mér að vilja vera til.

Sársaukinn sem ég bar var of þungur til að bera ein, vandamálin í huganum mínum voru of loðin til að reyna að greiða úr þeim ein. 

Pósturinn sem að ég upprunalega var að leita af þarna um árið, sem að ég minntist á í byrjun þessarar greinar, var póstur frá sálfræðingi sem að ég hafði hitt nokkrum árum áður og vildi hafa samband við aftur. Ég var oft búin að hugsa að það væri kannski tímabært að fá einhvern fagmann til að skoða mína vanlíðan en ég dró alltaf fæturna með það.

Það að ég las óvart póstinn frá fyrrnefndum starfsmannastjóra bjargaði lífi mínu. Það erfiðasta er nefnilega að gefast upp. Láta sig falla og halda ekki í neitt á leiðinni niður. Í mínu tilviki láta vita að ég vissi ekki hver ég var. Láta vita að ég þurfti á hjálp að halda. Þessi póstur varð til þess að ég leitaði mér hjálpar. Ég veit ekki hvað það hefði liðið langur tími þangað til að ég hefði leitað mér hjálpar annars. 

Ég er ennþá í samtalsmeðferð og ég er ennþá á lyfjum. Let’s dance með David Bowie er ennþá uppáhalds lagið mitt ásamt öllu með Beyoncé. Í dag veit ég hver ég er – fyrir utan svona þrjár árlegar tilvistarkreppur. 

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Átröskun – samfélagslega samþykkt?

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Líkaminn minn hefur völdin og það er smám saman að verða allt í lagi mín vegna

næsta grein
Þú lítur ekkert út fyrir að vera einhverf


Lesa meira um...

Geðheilsa: Pósturinn sem fékk mig til að langa til að labba fyrir bíl