18. nóvember 2020

Ég þótti einstaklega ljúft og þægilegt barn en var ákaflega þrjósk og fljót að rjúka upp. Þegar ég reiddist héldu mér engin bönd. Ég var síðan fljót aftur niður og hegðaði mér eins og ekkert hefði í skorist meðan fólk var enn að jafna sig á skapofsakastinu sem ég hafði tekið. Frá því ég man eftir mér hef ég burðast með þungt geð og kvíða sem blossaði svo upp á unglingsárum. Það var ekki fyrr en ég var orðin 26 ára sem ég leitaði mér hjálpar með þunglyndi mitt þegar ég gat ekki meir.

Ég þráði að skilja mig betur og leitaði til geðlækna sem hentu í mig lyfjum. Upp komu hugmyndir um að ég væri bipolar og tók ég lithium við þeim kvilla í fjölda ára. Mér fannst lyfin ekki hafa nein áhrif á mig. Ég var þekkt fyrir að fara alla leið með það sem ég hafði áhuga á, sökkva mér djúpt og af miklum ákafa í málefni sem kveiktu áhuga minn og þótti almennt undarleg á mörgum sviðum. Fólk var duglegt að benda mér á, ef ég var búin að sökkva mér of mikið í eitthvað, að ég hlyti að vera í maníu.

Ég var því alltaf að reyna að berjast gegn þessum óeðlilega áhuga mínum á hlutum, fólki og málefnum því ég vildi forðast afskiptasemi fólks af því sem ég var að gera. 

Ég þoldi alltaf illa álag og var gjörn á að brotna saman og fara í „burn out“. Ég þótti hysterísk og taugaveikluð. Ég man eftir að hafa sagt eitt sinn upp vinnunni minni þegar samstarfsfólk mitt sagði mér að yfirmanneskjan mín væri stöðugt að tala um það hve taugaveikluð ég væri. Mér fannst ég oft á tíðum mislukkuð og of tæp á taugum.

Aldrei hvarflaði þó að mér að ég væri einhverf. Einhverfu þekki ég vel í gegnum starf mitt sem kennari. En ég þekkti bara þá steríótýpísku hlið sem hefur verið flaggað í gegnum árin. Þá hlið einhverfunnar sem eignuð er drengjum. Ég sat eitt sinn fyrirlestur hjá sérfræðingi sem talaði um að fleiri væru að greinast einhverfir í dag vegna þess að það hefði orðið aukning á greiningum. Ekki vegna þess að einhverfa væri að aukast. Við þekktum það jú öll að eiga undarlega FRÆNDUR sem væru eflaust einhverfir. Ekkert talað um undarlegar frænkur. 

[myndin að ofan er fáanleg hér á Uppskeru listamarkaði]


Ég burðaðist með bipolar-greiningu í fjölda ára (sem kom síðar í ljós að voru getgátur en ekki raunveruleg niðurstaða). Ég tók lyf við þeim kvilla sem gerðu ekki neitt fyrir mig. Ég heyrði það ítrekað frá fólki að ég væri bara í maníu ef ég þótti haga mér furðurlega. Eftir öll þessi ár horfði ég á myndina „Að sjá hið ósýnilega“ og sat þá  í Bíó Paradís með tárin í augunum því ég tengdi við svo margt sem kom þar fram. Rétt áður hafði ég farið í gegnum greiningarferli hjá barni og áttaði mig þá á því að ég sem barn tikkaði í mörg box einhverfunnar. Stuttu eftir að ég sá myndina átti ég samtal við einhverfa kunningjakonu mína og tók í kjölfarið ákvörðun um að fara í greiningu.

Meðan ég var í greiningarferlinu ræddi ég það opinskátt við fólk. Aðeins nokkrir viðmælendur voru þeirrar skoðunar að ég gæti mögulega verið einhverf en flestir fundu hjá sér þörf til að segja mér að ég bara gæti ekki verið á rófinu. Ég fékk líka spurningar þess efnis hvers vegna ég vildi endilega vita það hvort ég væri einhverf. Hvað ætlaði ég að gera við þær upplýsingar?

Ég tjáði fólki að vitaskuld vildi ég fá að vita hver ég raunverulega væri.

Hvers vegna ég brygðist svona eða hinsegin við lífinu. Það sló mig harkalega að fá slíkar spurningar þar sem ég er þess fullviss að ef ég hefði verið að bíða eftir niðurstöðum um hvort ég væri með sykursýki, flogaveiki eða krabbamein, þá hefði fólk haft fullan skilning á því að ég vildi fá að vita hvort ég væri með líkamlegan kvilla.


Ég fékk svo niðurstöðu í byrjun nóvember í fyrra. Vitaskuld greindist ég einhverf, eins og ég var orðin sannfærð um. Hér áður fyrr hefði ég fengið greininguna asperger´s. Þetta voru mikil tímamót fyrir mig. Loksins skildi ég mig fyllilega. Allt púslaðist saman. Ég hætti strax að taka lithium og græt það enn í dag að hafa tekið það baneitraða lyf árum saman vegna þess að ég var ekki með rétta greiningu. Eftir að ég fékk greininguna hefur líf mitt tekið stakkaskiptum. Í fyrstu upplifði ég enn undarlega hegðun fólks. Sumir rengdu að ég væri einhverf. Sögðu mig alls ekki líta út fyrir að vera einhverfa! Sumir nálguðust mig eins og ég hefði fengið sorgarfréttir og reyndu að vera uppörvandi. Ein manneskja vottaði mér samúð sína. Ég varð orðlaus. Í sakleysi mínu trúði ég því ekki að viðhorf til einhverfu væri á þessum stað. Ég ákvað því að ég myndi aldrei fara með það í felur að ég væri einhverf og talaði mjög opinskátt um það frá byrjun. Í upphafi sá ég að sumum þótti þetta jafn óþægilegt og þegar ég fór á kaf í önnur áhugamál mín. Sumir ranghvolfdu augunum enn ég lét það ekkert á mig fá. Ég mun aldrei fela það hver ég er. Og þar sem mér finnst mikilvægt að opna augu fólks fyrir ólíkindum kynjanna þegar kemur að einhverfu og hvernig stúlkur hafa verið ósýnilegar í þessum efnum, mun ég aldrei hætta að tala um einhverfu. 

Líf mitt tók U-beygju til betri vegar við greininguna. Ég skil sjálfa mig betur. Fólk skilur mig betur. Ég mæti gríðarlegum skilningi í dag frá fólki í kringum mig.

Ég næ betur að grípa sjálfa mig þegar ég er að fara í „meltdown“ eða sigla í „burnout“.  Mér finnst ég hafa endurheimt sjálfa mig, sem ég þekkti ekki nægilega vel áður. Í hvert skipti sem konur sem eru sannfærðar um að þær séu á rófinusenda mér skilaboð og spyrja mig hvernig ég hagaði mínu greiningarferli þá fagna ég. Vitandi að mögulega eru þessar konur að fara að upplifa sama léttinn og ég. Ég fann síðasta bitann í púslinu mínu og hef loks getu til að skilja sjálfa mig fyllilega. 


Það sem ég vil segja að lokum er: Ef þig grunar að þú sért einhverf/-ur/-t, ekki hika við að tékka á því. Þú munt aldrei tapa á því og mögulega stórgræða. Þú átt möguleika á að finna þinn púsluspilsbita.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Geðheilsa: Pósturinn sem fékk mig til að langa til að labba fyrir bíl

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Velkomin í Druslukórinn

næsta grein
Baráttan við fullkomnunaráráttuna


Lesa meira um...

Þú lítur ekkert út fyrir að vera einhverf