18. nóvember 2020

Er átröskun samfélagslega samþykkt í heimi óraunhæfra fegurðarstaðla? Er það þess vegna sem hún er ekki tekin alvarlega? Er það þess vegna sem það viðgengst að ákveðin meðferðarúrræði eru ekki lengur til staðar? 
Raunveruleikinn er sá að átröskun er lífshættulegur sjúkdómur með hæstu dánartíðni geðsjúkdóma. Það er hægt að sigrast á átröskun með viðeigandi meðferð en eins og staðan er í dag er meðferð sem er í boði mjög takmörkuð

Nýverið lauk átaki Geðhjálpar, 39.is, sem flestir hafa vonandi tekið eftir og stutt með undirskrift sinni. Á síðasta ári féllu 39 einstaklingar fyrir eigin hendi og með herferðinni er barist fyrir því að stjórnvöld setji geðheilsu í forgang. Þetta er gríðarlega mikilvægt átak fyrir samfélagið okkar. Allir sem glíma við geðsjúkdóma eiga að hafa jafnt aðgengi að hjálp. Til að þetta verði að veruleika er mikilvægt að upplýsa almenning um mismunandi geðsjúkdóma, auka skilning og útrýma fordómum. Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað, sem hefur skilað sér í minni fordómum og meiri skilningi á ýmsum geðsjúkdómum. Átröskun hefur af einhverjum ástæðum ekki verið jafn áberandi í umræðunni síðustu ár. 
Til þess að eitthvað breytist þarf að opna umræðuna og auka skilning stjórnvalda og almennings á átröskunum. Þess vegna langar mig að segja mína sögu og upplifun af kerfinu. 

Það var vorið 2018 sem ég leitaði til átröskunarteymis Landspítalans. Eins og með fleiri deildir innan geðsviðs þá leggst starfsemin niður yfir sumartímann. Sólin skín nefnilega alveg 4x í mánuði og allir eru glaðir. 
Við tók mjög erfitt sumar þar sem mér hrakaði mikið og vanlíðanin jókst en það sem hélt mér gangandi var að í lok sumars myndi ég fá símtal frá teyminu og fá hjálp.
Í lok ágúst fékk ég símtal þar sem mér var sagt ég kæmist ekki að núna og það yrði haft samband eftir þrjá mánuði. Þarna missti ég alla von. Ég var búin að berjast við vanlíðanina allt sumarið, tók hvern hálftíma í senn alla daga og beið eftir því að fara að sofa. Vanlíðanin var svo mikil og sár — ég gat ekki hugsað mér 3 mánuði í viðbót af þessu. 
Ég var svo heppin, ef svo má segja, að einhver hætti við að taka plássið sitt og því var hringt í mig tveimur dögum seinna og mér boðið pláss. Sem ég þáði fegin. Mig langaði nefnilega ekkert heitar en að ná bata. En það er ekki nóg, maður þarf að fá hjálp frá fagaðilum. 
Ég var í 16 mjög erfiðar vikur á dagdeildinni og náði góðum bata sem ég hefði ekki náð án hennar. 
Vorið 2019 byrjar mér að hraka og lenti í slæmu bakslagi. Í lok sumars 2019 var ég komin á verri stað en ég hafði nokkurn tímann verið áður, bæði líkamlega og andlega. Ég var svo hrædd við að biðja um hjálp, fannst ég ekki tilbúin og gat ekki höndlað tilfinningarnar sem fylgja því að sleppa tökum á átröskuninni. Fólkið í kringum mig var orðið áhyggjufullt og ég fékk símtöl frá grátandi aðstandendum að biðja mig um að leita eftir aðstoð. Ég gaf undan og leitaði til teymisins aftur. Nú var sagan önnur, það var enga dagdeildarmeðferð að fá — og það var ekki út af löngum biðlistum. Nei það var út af fjármagnsskorti. 


Þannig er mál með vexti að í byrjun árs 2019 kom upp mikið mygluvandamál í húsnæði teymisins. Starfsemin var lögð niður og teymið átti að flytja á Klepp og halda starfseminni áfram þar. Átröskunarteymið er staðsett á Kleppsgöngudeild eins og er, en engin dagdeildarmeðferð er í boði. Á Kleppi er gangur sem er ætlaður teyminu, en þennan gang þarf víst að gera upp áður en hægt er að taka hann í notkun. Það er svo sem skiljanlegt að dagdeildin legðist niður á meðan þessar framkvæmdir ættu sér stað. Nema það að engar framkvæmdir hafa átt sér stað. Það er allt tilbúið til framkvæmda; búið að teikna ganginn og gera öll plön — en það fæst ekki fjármagn. Það fæst ekki fjármagn fyrir meðferð sem er lífsnauðsynleg fyrir veika einstaklinga. Núna fer að líða að lokum árs 2020 og ekkert hefur verið gert. Í byrjun árs 2019 voru einstaklingar á leið í dagdeildarmeðferð, alvarlega veikir einstaklingar, en sú meðferð er ekki enn hafin.

Biðlistinn hefur lengst úr þremur mánuðum upp í ár. Biðlistinn fyrir einstaklinga sem þola ekki bið hefur lengst í 2-4 mánuði. Þeir einstaklingar sem eru í lífshættu eru lagðir inn á geðdeild þar sem enga sértæka meðferð er að fá. Sumir eru sendir erlendis, í hrikalega krefjandi meðferð á öðru tungumáli, fjarri sínu tengslaneti og þar sem fólk fær t.d. ekki að fara á salernið eitt! 
Að leggja fólk inn á bráðageðdeild eða senda það í meðferð erlendis kostar miklar fjárhæðir. Að hafa fólk veikt mánuðum eða árum saman, sem gæti verið orðið frískt og komið á atvinnumarkað, kostar einnig mikla peninga.

Það þarf engan sérfræðing til að átta sig á því að það er mun skynsamlegra að leggja fjármagn í almennilega meðferð sem kemur fólki svo aftur út í samfélagið.

Fyrir utan að þetta ætti ekki að snúast um peninga heldur að fólk hafi jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu, sama um hvaða sjúkdóm sem er að ræða.

Hvers vegna viðgengst það að ekkert breytist? Ég vil ekki trúa því að stjórnvöldum sé sama um þennan hóp. Ég get einnig fullyrt það að stjórnvöld viti af þessu vandamáli. Í febrúar 2020 fékk ég nóg af aðgerðarleysinu. Ég skrifaði opið bréf til heilbrigðisráðherra. Ég fékk svar og málið var tekið upp á fundi þar sem áhersla var lögð á að það þyrfti að koma þessu í lag. Málið kom í kvöldfréttunum á RÚV. Þrátt fyrir það hefur enn ekkert verið gert. 
Hafa stjórnvöld ekki ennþá skilning á alvarleika málsins? Er það vegna þess að átröskunarsjúklingar skammast sín oft fyrir veikindin sín og þora þar af leiðandi ekki að láta í sér heyra? Á það að vera á ábyrgð notenda að berjast fyrir nauðsynlegri meðferð? Það eru að minnsta kosti skilaboðin sem ég fæ þegar ég leita svara. Fyrir hönd þeirra sem nú bíða eftir aðstoð sem ekki er í boði, þeirra sem hafa enn ekki lagt í að biðja um aðstoð og allra aðstandenda sem þurfa að horfa ráðlausir upp á ástvini sína týna lífinu sínu, vil ég árétta hversu alvarlegur sjúkdómur átröskun er. 

Afleiðingar átröskunar eru margvíslegar. 
Alvarlegt þunglyndi
Kvíði
Áráttu og þráhyggjuhegðun
Hjartsláttartruflanir
Beinþynning
Þindarslit
Skemmdir á vélinda
Ófrjósemi
Minnkun á hvítum blóðkornum
Nýrnasjúkdómar

Dánarorsakir eru t.d.: Sjálfsvíg, hjartáfall vegna kalíumskorts, hjartastopp vegna hægslátts, skemmdir á vélinda o.fl. 


Það er ekki hægt að vinna í þessum afleiðingum ef átröskunin er ennþá til staðar. 
Átröskun er oft misskilin sjúkdómur sem er ekki tekinn alvarlega. Röskunin er gjarnan „glamúríseruð“ og hún ekki litin alvarlegum augum, nema að fólk sé alvarlega vannært og í undirþyngd. Klassíska myndin, sem allir hafa séð í fræðslu um átröskun, er af beinaberu stelpunni sem horfir í spegil og sér feita stelpu í speglinum. Það er ekki algengasta birtingarmynd átröskunar. Meirihluti þeirra sem eru með átröskun eru í eða yfir kjörþyngd. Þetta gerir það t.d. að verkum að fólk í yfirþyngd leitar sér síður hjálpar því það passar ekki inn í þá ímynd sem samfélagið hefur búið til. Þyngd er ekki einkenni átröskunnar. Að vera í undirþyngd, eða yfirþyngd, getur hins vegar verið afleiðing átröskunar.
Átröskun spyr ekki um kyn, aldur, líkamlegt ástand eða þjóðerni. Það er hægt að greinast með átröskun á unglingsaldri eða fullorðinsárum. Bæði ungir strákar og fullorðnir menn geta greinst með átröskun. Birtingarmyndir röskunarinnar eru marvíslegar og ekki til ein týpísk birtingarmynd. Margt getur búið að baki röskuninni en áföll, léleg sjálfsmynd, einelti og matarkúrar sem ganga of langt, eru dæmi um það sem getur komið átröskun af stað.  
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að hafa greiðan aðgang að þessari þjónustu. Unga fólkið okkar elst upp í ruglandi heimi Instagram áhrifavalda og TikTok stjarna, og verður fyrir barðinu á óraunhæfum og hættulegum útlitskröfum, enda fer aldur barna sem hafa áhyggjur af útlitinu sínu snarlækkandi. Við þurfum að koma umræðunni af stað um alvarleika átröskunnar og neikvæðrar líkamsímyndar. Byrjum á að fræða á réttan hátt og með réttum upplýsingum.  

Að lokum skal tekið fram að það er auðvitað hægt að leita til sérfræðinga utan Landspítala sem sérhæfa sig í átröskunum en það er mjög dýrt og alls ekki á allra færi.— — —

Frekari upplýsingar um átraskanir má finna inn á gedfraedsla.is.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Ef ekki núna — ný lög um niðurgreiðslu geðheilbrigðisþjónustu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kynferðislegt ofbeldi: Það myndi enginn nauðga feitri konu

næsta grein
Geðheilsa: Pósturinn sem fékk mig til að langa til að labba fyrir bíl


Lesa meira um...

Átröskun – samfélagslega samþykkt?