Ég sat og horfði á mig í speglinum. Sá nakinn líkamann bylgjast yfir sjálfan sig. Ég tók eftir öllum slitunum, ójöfnunum og fellingunum. Þessum fellingum þar sem liðamótin beygjast og vöðvar, skinn og holdið allt þjappast saman öðrum megin við liðinn og hinum megin strekkist á því. Þessar mjúku fellingar sem renna saman, bugðóttar og ávalar línur.
Ég einblíni á maga, rass og læri og býsnast yfir fellingum þar. Á sama tíma tek ég ekki eftir olnboga, úlnlið, ökkla eða hné. Allir þessir staðir eiga það sameiginlegt að húðin krumpast þegar liðamótin leggjast saman.
Þetta er sama innihald. Bein, vöðvar og skinn að beygjast um liðamót. Af hverju hefur samfélagið, hefðin, útlitsdýrkunin og brenglaða sjálfsmyndin ákveðið að ein felling sé betri en önnur? Af hverju þarf húðin að vera lýtalaus en ekki með þessar náttúrulegu mjúku línur sem myndast? Afhverju eru fellingar, ör, hár, litbrigði, slit og allt það sem gerir hana að húð dæmt sem lýti þegar líklega engin húð í heiminum er laus við þessa eiginleika? Þessi húð sem er utan um eintak af manneskju sem verður ekki endurgert sama hversu miklar tækni- og vísindaframfarir verða í heiminum.
Það er auðvelt að segja bara „Elskaðu sjálfan þig!“ og „Þér á að þykja vænt um allt á þér!“ en það er ekki svo auðvelt að hundsa þessar raddir sem eru til staðar í hausnum á hverri manneskju.
Við erum alltaf að bera okkur saman við „draumalíkamann“ sem er aðeins ímynd okkar byggð á brengluðum fótósjoppuðum líkömum á samfélagsmiðlum.
Allir líkamar heimsins eru ólíkir. Það eru 7,8 milljarðar manneskja í heiminum og engin þeirra er með nákvæmlega eins líkama og þú. Kannski svipaðan en ekki alveg eins. Ekki með alveg eins slitum, fellingum, hárum, húðflúrum, götum, litbrigðum, freknum, fæðingarblettum og öðru sem gera líkamann einstakan. Og þetta eina eintak sem þú átt af þínum eigin líkama má vera nákvæmlega eins og þú vilt hafa það. Það hefur enginn ákvörðunarvald yfir þessum líkama nema þú.
Ég stend upp og strýk yfir allar þessar fallegu fellingar, ör og slit sem segja lífssögu mína. Segja frá því hvernig ég hef gengið í gegnum hóla og dali á þessi lífsferðalagi. Ég ákveð að reyna að hlusta ekki á röddina í höfðinu. Ákveð að láta mína rödd yfirgnæfa röddina í höfðinu. Ákveð að reyna að bæta um betur fyrir næstu kynslóð. Ákveð að ég ætli að vera nákvæmlega eins og ég er.