Þegar við hugsum um líkamsvirðingu höfum við tilhneigingu til þess að beina sjónum okkar að virðingu fyrir margbreytilegu útliti og holdafari. Ýmsum herferðum hefur verið rutt af stað í því skyni, sem er gott, en sjaldnar er hugað að líkamsvirðingu í stærra samhengi. Jafnframt fá ákveðnir líkamar, sem eru til dæmis álitnir ,,of” feitir, fatlaðir eða svartir, ekki sitt pláss og rými í slíkum herferðum.
Fyrir mig sem fatlaða, feita konu í líkama sem er mjög óhefðbundinn í útliti er ótal margt sem hefur áhrif á mína líkamsmynd og -virðingu hverju sinni. Aðstæður sem ýta undir óöryggi varða vissulega útlit. Í fataverslunum er ég rækilega minnt á afbrigðileika líkama míns þar sem engar gínur líta út eins og ég og megnið af fatahönnun er hugsuð fyrir ófatlaðar, uppistandandi, grannar konur og henta því ekki mínum líkama. Ég fyllist oft óöryggi þegar ég fer út að skemmta mér eða á samkomur þar sem aðalmálið er að líta vel út og vera settleg. Þó ég reyni af veikum mætti að bera mig ekki saman við ófatlaðar og grannar konur að þá missi ég oft tökin og öll mín orka fer í að komast í gegnum kvöldið og ég skemmti mér ekki vel. Það fyllir mig einnig vanmætti að vera í aðstæðum þar sem flestir eru, beint eða óbeint, í makaleit. Kynjakerfið gerir það að verkum að ég hræðist augnaráð karlmanna sem oftast felst í útilokun eða hinu þveröfuga, að farið sé yfir mörkin mín.
Það er svo ótal margt annað en útlitskröfur sem vegur að virðingu minni fyrir eigin líkama. Líkamlegir verkir hafa mótandi áhrif á hvernig ég upplifi líkama minn, hversu mikla virðingu ég sýni honum og hve örugg ég er í eigin skinni. Fötlun mín er þess eðlis að ég beinbrotna oftar en flestir og brotin og ýmsar afleiðingar þeirra geta stuðlað að verkjum. Þegar ég er mjög verkjuð er líkamsímynd mín óstöðugri og stundum fer ég jafnvel að finna fyrir andúð gagnvart honum. Ég hef minni orku í að hafa mig til og mig langar ekki að vera í kringum annað fólk svo ég dragi ekki athygli að líkamanum.
Útilokun og þvinguð nánd fylla mig líkamskömm og svokölluðum aðgengiskvíða. Útilokun hefur auðvitað margar birtingarmyndir og getur birst sem hunsun á tjáningu, tilvist og skoðunum. Hún getur verið í formi þvingaðrar nándar, t.d. þegar það gleymist að gera ráð fyrir mér og aðgengisþörfum mínum eða þegar ég finn að fólki finnst tilvist mín og plássið sem ég tek íþyngjandi og byrði. Einnig þegar fólk sem aðstoðar mig við persónulegar athafnir eða veitir mér heilbrigðisþjónustu hlustar ekki á leiðbeiningar mínar, er áhugalaust, kaldranalegt og jafnvel pirrað líður mér svo illa í eigin líkama að ég reyni að aðgreina mig frá honum. Ég reyni að senda hugann eitthvað annað, bara hvert sem er, svo ég finni ekki fyrir óþægindum.
Mia Mingus (2017, 6. ágúst) kynnti hugmyndir um þvingaða nánd til leiks en hún á sér stað þegar við þurfum að reiða okkur á aðra án þess að hafa um það frjálst val, þiggja aðstoð sem felst í snertingu líkama okkar eða þegar aðgengi er þess eðlis að það er smánandi, t.d. þegar einhver keyrir/færir hjólastólinn okkar eða skoðar og snertir líkamann án leyfis. Útilokun og aðgengiskvíði haldast í hendur en aðgengiskvíði er hugtak sem spratt upp í grasrótarstarfi feminísku fötlunarhreyfingarinnar Tabú og nær vel utan um sameiginlega reynslu fatlaðra og langveikra kvenna af því að vera aldrei öruggar um aðgengi.
Aðgengiskvíði getur hæglega dregið úr félagslegri þátttöku og tilfinningunni um að tilheyra (Freyja Haraldsdóttir, 2017).
Síðustu ár hef ég meðvitað verið að reyna að auðga líkamsvirðingu í eigin garð og iðka fötlunarfemínisma (Rosemary Garland-Thomson, 2001) í mínu daglega lífi. Því hann er eftir allt saman sá eini sem ég á – og hann hefur staðið með mér í gegnum hvern storminn á fætur öðrum. Hann á virðingu mína og annarra skilið. Í gegnum þá vinnu hef ég hugsað mikið um hvar mér líður vel í eigin skinni, hvar ég upplifi öryggi, get tengst líkama mínum og öðrum manneskjum í trausti. Ég hef komist að því að fyrst og fremst er það þar sem ég upplifi frelsandi aðgengi og aðgengisnánd.
Mia Mingus (2017, 12. apríl) skilgreinir frelsandi aðgengi á þann hátt að það bjóði manneskju velkomna í rými þannig að hún upplifi sig tilheyra, finni fyrir skilningi, að á hana sé hlustað og borin sé virðing fyrir sögu hennar. Frelsandi aðgengi geri okkur kleift að sameinast í mennskunni og að koma í veg fyrir útilokun með því að taka ábyrgð á aðgengisskortinum (Mia Mingus, 2017, 12. apríl).
Einnig þegar það er ekki óþægilegt fyrir okkur að segja hverju við þurfum á að halda og þegar fólk lærir hvernig þarfir við höfum og leggur sig fram við að bæta úr aðstæðum sem eru ekki góðar. Aðgengisnánd getur skapað rými fyrir aðra nánd, t.d. tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega, og þannig átt þátt í að binda enda á einangrun og skapa tengsl, vináttu, ást og sjálfsvirðingu (Mia Mingus, 2017b).
Barátta fyrir líkamsvirðingu snýst þess vegna ekki eingöngu um að virða útlit fólks, mitt eigið og annarra. Líkamsvirðing fyrir mér kemur ekki bara innan frá heldur mótast hún mikið af samfélaginu og framkomu annarra í minn garð. Líkamsvirðing er að ég upplifi mig tilheyra án þess að finnast ég vera byrði á öðrum. Að ég finni að á mig sé hlustað og að sagan mín sem og saga líkama míns sé mikilvæg. Að ég geti gengið að því vísu að öryggi mitt sé tryggt svo ég þurfi ekki að vera aðgengiskvíðin í sífellu. Líkamsvirðing er að fólk leggi sig fram um að læra inn á mínar þarfir og ábyrgist mistök sín. Líkamsvirðing er að þurfa ekki að aftengja hugann frá líkamanum til þess að lifa af. Líkamsvirðing á sér ekki stað nema að ég geti verið í mínum líkama nákvæmlega eins og ég þarf að vera. Líkamsvirðing er vissulega mjög persónulegt ferli en hún er fyrst og fremst pólitísk, sameiginleg barátta okkar fyrir tilveru allra líkama og félagslegu réttlæti.
Freyja Haraldsdóttir er baráttukona fyrir fatlaða einstaklinga og ein stofnenda Tabú.
Freyja Haraldsdóttir. (2017). ‘I am discriminated against because I exist’: Psycho-emotional effects of multiple oppressions for disabled women in Iceland (meistararitgerð, Háskóli Íslands, Reykjavík). Sótt af https://skemman.is/handle/1946/26559https://skemman.is.
Garland-Thomson, R. (2001). Re-shaping, Re-thinking, Redefining: Feminist Disability Studies. Barbara Waxman Fiduccia Papers on Women and Girls with disabilities. Washington DC: Center for Women Policy Studies.
Mia Mingus. (2017, 6. ágúst). Forced Intimacy: An Ableist Norm [bloggfærsla]. Sótt af https://leavingevidence.wordpress.com/2017/08/06/forced-intimacy-an-ableist-norm/https://leavingevidence.wordpress.com.
Mia Mingus. (2017, 12. apríl). Access Intimacy, Interdependence and Disability Justice [bloggfærsla]. Sótt af https://leavingevidence.wordpress.com/2017/04/12/access-intimacy-interdependence-and-disability-justice/https://leavingevidence.wordpress.com.