Ég finn fyrir mér þegar bassinn drynur svo hart að það er næstum sárt. Ég finn fyrir mér þegar tónlistin öskrar hærra en höfuðið á mér. Ég verð að líkama þegar ég gleymi mér í smá stund. Þegar líkamarnir kringum mig eru jafn himinlifandi, jafn týndir, jafn mikið hér og ég. Bassinn. Ekki hugsa. Ljósin. Dansa. Hitinn. Ég svitna, en ég get ekki hætt að dansa. Ég verð að dansa, annars byrja ég að hugsa aftur og það má ekki, það má ekki. Ekki í nótt. Dansa. Ekki hugsa.
Um daginn sagði einhver að ég virkaði eins og manneskja sem getur ekki slappað af þegar allt er kyrrt. Það er satt. Ég get ekki einbeitt mér að sjálfri mér í logni; þegar það er bara ég. Mig langar í, nei, mig vantar eitthvað annað. Eitthvað sem er framandi, sem er andstætt mér. Eitthvað sem staðfestir mörkin mín eins og hafið staðfestir strandlengjuna þegar öldurnar skella á klettunum. Ég vil skynja brimið.
Ég reyndi að ná í mig, í body-awareness tímanum, en það eina sem það sýndi mér var hversu fjarri fætur mínir voru frá mér og hvað það er erfitt að veita líkama sem virkar ekki athygli. Sem var uppspretta sjálfshaturs og vonbrigða. Ég yfirgaf hópinn eftir hálftíma.
Árið 2012, á sama tíma og ég ætlaði að breytast úr barni í stelpu, breyttist það í alopecia universalis. Universalis. Alls staðar. “Það er ekkert vont, ekkert hættulegt“, segja læknarnir. „Ekki líkamlega, nei“, segi ég. Breytingin á lífi mínu var þó universalis. Skömmin varð universalis. Ég þurfti að kenna mér að geta horft á sjálfa mig og lifa með því að vita ekki hvað það var sem starði á mig. Ég breyttist ekki í stelpu. Stelpan fór með lokkunum í ruslið. Ég breyttist í það sem var eftir: Missinn.
Þegar ég fékk hárkollu í fyrsta skipti fór fjölskyldan mín með mér. Við vorum öll fimm í búðinni. Allir voru með skoðun. Nema ég. Ég keypti þá sem leit út mest eins og ég, samkvæmt fjölskyldunni. Það tók nokkra daga fyrir mig að geta notað hana. Mér leið eins og ég væri að ljúga að öllum.
Það er munur á milli þess að vera nakin og að vera nakin án hárs. Hið fyrra er auðvelt. Hið síðara er viðkvæmt, berskjaldað. Nakið. Þessi tilfinning fer ekki burt, þó að ég sé í fötum.
Stundum fer ég út og skil kolluna eftir heima eða í fatahenginu. Fólk hagar sér þá aðeins öðruvísi í kringum mig. En samt dansa ég. Hugsa ekki. Skil skömmina eftir. Skil að það er ekki alopecia sem er universalis. Það er ég.