Birtan gægist inn um gluggann í niðurgröfnu kjallaraíbúðinni. Ljósakrónan titrar þegar konan á efri hæðinni þrammar fram og til baka, eins og til að minna mig á tilvist sína og þegar fótatak hennar nálgast sameiginlegan snertiflöt okkar heyri ég hrópað: „Viltu bragðaref elskan?“ Ég silast upp stigann og samþykki boðið með dauflegu brosi.
Ég sest með foreldrum mínum fyrir framan sameiningartákn fjölskyldunnar og fylgist með karlmanni í kolsvörtum jakkafötum með þráðbeint bak og galopinn munninn: „Virkjanaframkvæmdir eru öflugt mótvægi við þeim gífurlegu efnahagsáhrifum sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér,“ segir hann. Annar (sem er líka í jakkafötum) er ósammála, bendir á að huga þurfi að umhverfisáhrifum. Svo leiðir umræðan aftur að efnahagnum. Ég ranghvolfi augunum meðan ég japla á jarðarberjum og þristi og finn gamla ísinn bráðna á tungunni. Svo hristi ég hausinn yfir umhverfissóðunum sem hyggjast rétta heiminn af með mengun. En hrollur læðist um líkamann þegar frauðílátið utan af ísnum minnir mig á þátt minn í eyðileggingu jarðar. „Afhverju tókstu ekki fjölnotaílát,“ hrópa ég á aumingja móður mína. „U afsakið,“ svarar hún stjörf svo ég biðst afsökunar og hraða mér niður í kjallara í leit að lausnum.
Út á við er ég umhverfisvæn (ég held að margir fylgjendur mínir myndu segja að ég lifi fyrirmyndarlífstíl). Ég lofa sjálfri mér að þetta sé minn seinasti dagur sem umhverfissóði.
Fyrst ætla ég að hjóla niður að fjöru, tína ofgnótt af íslenskum þara og veiða fullt af fisk sem ég gæti ýmist fryst eða þurrkað til að endast mér út veturinn. Þá þarf ég líka að kaupa frystikistu, helst notaða gamla frystikistu sem ég get fundið á Facebook. Ég myndi líka fylla hana af öllu grænmetinu og ávöxtunum í Krónunni sem eru á síðasta séns og kostar 99 krónur. Maturinn myndi endast mér út veturinn, alveg þangað til ég get komið á fót mínum eigin grænmetis- og matjurtagarði.
Ég horfi bjartsýn á bækurnar í svefnherberginu, þessar sem hafa skapað sér sess í áramótaheitum mínum í áraraðir en aldrei verið opnaðar. Ég myndi þræða þær allar og endurnýta blöðin með eigin skáldverkum. Svo þyrfti ég að hverfa af samfélagsmiðlum, losa mig við snjallsímann, stunda jóga og verða hugleiðslugúrú. Veraldleg gæði yrðu óþörf. Ég gæti hætt að skanna fasteignavefi og loksins sætt mig við sjálfskipuðu vistina í kjallaraíbúð foreldra minna. Blaðamenn muna svo líklegast flykkjast að kjallaranum og fjalla um einstakt framlag mitt til umhverfismála sem mun ef til vill leiða til þess að fleiri muni fara að mínum ráðum, bílar verða sjaldséðir í Reykjavík og álverum lokað.
Ég byrja að laga til, geri birgið heimilislegra og móta pláss fyrir frystikistu. Seinasta notkun símans í bili er til að finna notaða frystikistu á Facebook. Ég opna appið, en þegar ég er við það að hefja leitina grípur auglýsing frá Kringlunni athygli mína: „ÚLALA ÚTSALA“ og „Seinasti dagur útsölunnar!“
Með einni fingrahreyfingu er ég búin að hækka yfirdráttarheimildina í bankaappinu, fylla bílinn af bensíni og stend á Stjörnutorgi með ótal plastpoka í höndunum.