12. mars 2021

Við eigum okkur öll fyrirmynd eða –myndir. Sama hvort við áttum okkur á því eða ekki. Í mínum huga er fyrirmynd ákveðin áhrifavaldur í þeim skilningi að fyrirmynd er manneskja sem hefur áhrif á það hvernig við sjáum heiminn. Fyrirmyndir geta breytt sýn okkar til hins betra, sýnt góð fordæmi í verki. Mér er það minnisstætt þegar að móðir mín, ein mín stærsta fyrirmynd, sagði mér frá Vigdísi Finnbogadóttur. Ég ætlaði varla að trúa þessu, einstæð móðir á Bessastöðum óhrædd við að taka pláss og hugrekki hennar að svara skrítnum spurningum sem að aðrir frambjóðendur fengu ekki. Að standa með sér gegn ákveðnu veldi varð til þess að hún leiddi heila þjóð og gerði það með kærleik að leiðarljósi og í verki, eða það var mín upplifun.  Þú varst alinn upp á tros 
í lífsins ólgusjó 
síðan varstu lengi á opnum bát 
í lífsins ólgusjó Ég lærði mikið um íslensku skáldin í menntaskóla og línan “í lífsins ólgusjó” eftir Hörð Torfason og Halldór Laxness fylgdi mér út í lífið eftir útskrift. Upplifanir hvers og eins eru eins misjafnar og þær geta verið margar. Ég lít í kringum mig á hverjum degi meðvituð um að fólk er ekki að upplifa hlutina eins og ég. Við erum öll á okkar eigin opna bát í lífsins ólgusjó. Ég þoldi ekki þessa klisju en þegar ég horfðist í augu við það upplifði ég ekki beint einmanaleika heldur skilning. Það er svo margt sem að spilar inn í það hvernig man upplifir hlutina — félagsleg staða, heilsufar, áfallasaga, fátækt, félagslegur stuðningur og svo mætti lengi telja. Það mætti segja að það sé leikrit lífsins að við náum oft ekki öll að njóta saman en það er líka fjölbreytnin og sagan okkar sem býr að baki.

Ég sé það á fallegan hátt ef ég hef það á bakvið eyrað að upplifun annarra er ekki mín en ég get sýnt þeim samhygð. Góður hjúkrunarfræðingur sagði eitt sinn við mig: ,,sorgir annarra eru ekki sorgir mínar. En ég sit með þeim í sorgunum.“
Upplifun hvers og eins mótar því líka ef man verður fyrir vonbrigðum með fyrirmynd. Ég er óhrædd að segjast taka mér eitthvað til fyrirmyndar, sama hver manneskjan eða dýrategundin er. Ég dáist að hugrekki kettlingsins míns þó ég verði stundum fyrir vonbrigðum með ákvarðanir hans. Ég dáist að seiglu maka míns í tónlist, að hjúkrunarnemum sem ég hef kennt og allt sem þau kenna mér til baka, ég dáist að notendum skaðaminnkunarúrræða og seiglu þeirra. Ég tek mér til fyrirmyndar góð verk og reyni að breyta rétt. En ég er líka mennsk. Manneskjur eru brigðular og gera mistök.

Jafnvel fyrirmyndir gera mistök.  

Á stuttri ævi hef ég átt margar fyrirmyndir en því líka orðið oft fyrir vonbrigðum. Í mínum huga snýst þetta þó ekki um væntingastjórnun heldur að bera virðingu fyrir mismunandi upplifunum án þess að fara í vörn. Þetta snýst um að leyfa sér að upplifa vonbrigði, því við erum öll mennsk (eða kettir). Að sýna hugrekki og vera óhrædd við að taka okkur til fyrirmyndar þá eiginleika sem við viljum ekki endurspegla. Það er allt í lagi. Fyrirmyndir eru kannski líka allskonar.  

Að því sögðu geta manneskjur, sem verða fyrirmyndir, líka öðlast óskýr eða kýrskýr völd og það er ekki hægt að líta framhjá því. Engin manneskja er heilög og það getur orðið skaðlegt ef svo ber við. Því miður er enginn ómissandi en það þýðir ekki að þú sért ekki mikilvæg. Við erum ómissandi fyrir okkur sjálf því annars gætum við ekki siglt áfram í lífsins ólgusjó. Við berum ábyrgð sama hver við erum og að gangast við því að hafa gert mistök er líka í lagi. Í því felst sigur, ekki ósigur. Við getum öll á okkar eigin hátt í hversdagsleikanum verið fyrirmynd.
— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
List: The White Pube

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Úrræði jaðarsettra, aðgengi og hindranir

næsta grein
Hamfarahlýnun: Seinasti dagurinn


Lesa meira um...

Fyrirmyndir í lífsins ólgusjó