12. mars 2021

Þú fylgdir hjartanu og þannig snertir þú hjarta mitt. Með orðum og hugrekki. Orðum sem snertu mig. Í þeim býr hugrekki sem ég  fann og fylgdi. Orðin höfðu vængi og lyftu mér upp. Í þeim var hluti af sál þinni, sársauka, sorgum, baráttuanda. Viljanum til að rísa upp, hátt yfir kúgun og ofbeldi. Vængir sem ætlaðir voru til flugs, farþegaflugs. Þau bera kraft þinn til kynslóðanna, upp og áfram.

Og ég. Hér á hjara veraldar, norðar en nokkur maður ætlaði að búa. Þar til þau sigldu yfir hafið til að leita skjóls frá kúgun eða eigin syndum. Til þess að finna enn meiri kulda en fundu í staðin land sem varð að heimili. Til þess síðan að ræna sjálf og kúga í ránsferðum um heiminn. 

Og þannig var það en við gleymum fljótt hvaðan við komum og neitum þeim um skjól sem leita hingað, frá ógnarstjórn og ofbeldi. Og hjartað grætur því ég er þau og þau eru ég. 

Já og ég. Hér sem hef í raun allt sem ég þarf. Hef búið við öryggi á yfirborðinu en þó aldrei örugg. Ekki alveg því ógnin við ofbeldi gegn konum umlykur mig. Samfélagið. Þegar kona deyr af völdum heimilisofbeldis veit ég að ég er hún og hún er ég. 

Því við erum ein heild. Keðja sem stöðugt slitnar því við gætum ekki að okkar veikustu. Leyfum þeim sterku að brjóta hlekki,  tengsl og bein, já brjóta bein. 

Þú gefur mér orð sem hafa vængi og ég man að ég fæddist til að rísa upp, enn og aftur, rísa upp. Orð þín gefa mér kraft til að líta ekki undan. 

Og ég stari beint inn í ógnina. Og ég sé að ég er þú og þú ert ég. Og við erum við, þannig rísum við hærra og hærra. Hátt.  

Og orð þín rísa. Þau rísa og hífa okkur upp. 

Takk Maya Angelou.








— — —



Enn ég rís. 

Ljóð eftir Maya Angelou, Still I rise. 
Þýðing Steinunn Ýr

Þú getur skráð mig í sögubækurnar 
sem bitra litla norn, heimska og ljóta. 
Sparkað mér í drulluna með skítugum skóm
en ég rís samt, eins og örn, upp úr  rykinu. 

Er ég of plássfrek fyrir þig? 
Þegar ég geng um eins og drottning 
líkt og ég eigi olíulind, í bakgarðinum
sem þú kemst aldrei með klærnar í? 

Lengra en stjörnur og sólir,
tignalegri  en hafalda í ólgusjó, 
hærra en hæstu vonir 
enn ég rís

Viltu sjá mig sem brotna og auma,
lúta höfði og gráta, hversdagstárum.
Bogna í baki líkt og visnað tré,
veikburða eftir dagsins önn. 

Skín ég of skært fyrir þig? 
Færðu ofbirtu í augun, þegar ég glitra
líkt og gullnáma sé innra með mér
sem þú getur aldrei augum litið. 

Þú getur skotið mig á færi með ljótum orðum,
rist mig á hol með beittu augnaráði.
Drepið mig hægt með innantómu hatri
en samt, rís ég eins og örn, yfir heiðar. 

Er ég of seiðandi fyrir þig? 
Ertu hissa hve kynþokki minn er lokkandi
að ég get dansað eins og villimey
sem geymir demanta milli læranna. 

Yfir smánun aldanna
Ég rís.
Frá fortíðarskömm. 
Ég rís 
Ég er dimmblátt hafið, voldugt og stórt.
Í ölduróti og á móti straumi stend ég sterk
og skil eftir dimmar nætur og sorgartár. 
Ég rís.
Hátt eins og sól að morgni sumardags
Ég rís.
Og færi fram gjafir kvenna frá örófum alda,
Því ég er vonir og væntingar formæðranna. 
Og ég rís.
Og ég rís.
Og ég rís. 




















— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Hamfarahlýnun: Seinasti dagurinn

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Lygin um land hinna frjálsu

næsta grein
Uppeldi: Vegurinn í átt að því að vera fyrirmyndarforeldri


Lesa meira um...

Maya Angelou