Við sátum á skerinu, allar dauðþreyttar.
Ég horfði niður í skaut mér sem var fullt af minningum.
Það hafði verið virkilega erfitt að synda alla þessa leið. Ein okkar var við það að drukkna, núna var önnur okkar sem betur fer að halda utan um hana og hugga. Hún var enn með tárin lekandi í stríðum straumum niður eftir líkamanum.
Enginn okkar horfði tilbaka.
PÍKA – hugleyðing um píkuna
Þetta svæði, píkan, fyrirheitnalandið í gagnkynhneigðri menningu. Svæðið sem unglingsdrengir geta varla setið kyrrir í skólanum yfir, hvað þá einbeitt sér, fáum við að vita í amerískum táningamyndum. Svæðið sem getur gabbað alla vondu og góðu kallana í James Bond bíómyndunum, svæðið sem fólk borgar fyrir að fá að sjá og horfa á. Svæðið sem heill iðnaður græðir miljarða á að taka myndir af og myndbönd.
Píkan, mætti maður halda, er átrúnaðargoð hins gagnkynhneigða manns og hefur verið það lengi.
En við sem eru með píku eigum samt helst ekki að komast þangað, til fyrirheitnalandsins. Þú mátt endilega vera með píku, fara vel með píkuna, snyrta hana og þrífa. Bara alls ekki koma við hana, njóta hennar, tala um hana, syngja um hana eða tjá þig opinberlega um visku hennar – gera hana að átrúnaðargoði eða dýrka hana sem slíkt.
Að rúnka sér og vera með píku er ennþá erfitt fyrir suma að ímynda sér að sé hægt. Að við sem erum með píku vitum sjálf hvað okkur finnst vera gott að gera fyrir píkuna eru dularfull vísindi sem erfitt er að komast til botns í fyrir marga. Konur sem rúnka sér eru btw margar.
Það eru vissulega nokkrar góðar og mikilvægar raddir sem tala um konur, rúnk og píkuna nú til dags, bæði á almannafæri, í fjölmiðlum og í skólum landsins og það er frábært. Það er ógrynni af svokallaðri vagina-art – píkulist á netinu í dag sem þú getur skreytt heimilið þitt með og píkuhúfur sáum við öll í mótmælum kvenna í bandaríkjunum við kosningu Trump hér um árið.
Hins vegar er enginn sem teiknar mynd af píku á skólaborðin í unglingadeildinni eða á strætóskýlin. Ef konur syngja eða rappa um píkuna sína og hvað þeim finnst gott að gera við píkuna sína verður það að fréttaefni. Við klæjum okkur ekki í píkunni á almannafæri, við skömmumst okkar ennþá fyrir útferð, píkulykt og guð hjálp mér blóðið sem kemur úr píkunni einu sinni á mánuði.
Bara orðið píka er erfitt fyrir suma að segja upphátt, suma sem geta alveg sagt orðið typpi upphátt. Síminn minn vill ekki einu sinni skrifa orðið, hann heldur að ég sé að meina ‘pína’, honum er alveg sama um typpi.
Píka er ennþá tabú 2021.
Persónulega langar mig hvorki í keramikbolla með fallega handgerði píku á eða vatnslitaða mynd af píku á veggina heima hjá mér. Mig langar að sjá píku krotaða á strætóskýli, jafnvel frussandi, útaf því þá er píka ekki tabú lengur.
Enginn er með vatnslitaða mynd af typpi og pung heima hjá sér.