Ég hitti þær Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur, teymisstjóra Bjarkarhlíðar og Berglindi Eyjólfsdóttur, lögreglukonu á Zoom um daginn og fékk starfsnemi þeirra Lovísa Kristjánsdóttir að sitja þennan Covid-fría fund og hlusta.
Ég spurði þær út í starfsemi Bjarkarhlíðar og markmið, þau úrræði sem eru í boði til að vinna úr afleiðingum ofbeldis og hvernig þær spegla vinnu Bjarkarhlíðar við verkferla innan lögreglunnar, samfélagsins og annarra úrræða.

Þar sem þema útgáfunnar er geðheilsa spurði ég þær út í birtingarmyndir afleiðinga ofbeldis og áhrif þeirra á líf viðkomandi einstaklinga. Við ræddum þau áföll sem skjólstæðingar eru gjarnan með á bakinu sem og í hverju sú sjálfsvinna felst sem þeir fara í hjá Bjarkarhlíð sem og í kjölfar viðtala og ráðgjafar hjá Bjarkarhlíð og samstarfsaðilum.

Við ræddum mikilvægi þess að vinna úr því ofbeldi sem fólk verður fyrir og að það sé von fyrir þolendur ofbeldis um bata í kjölfar áfalla (post-traumatic growth)

Það væri gott að byrja á því að fara yfir upphaf og starf Bjarkarhlíðar — Hvað er Bjarkarhlíð?

Ragna: „Bjarkarhlíð er hugmynd sem kviknar hjá konum sem eru í framvarðarsveit í þjónustu við konur. Bæði félagsmálaráðherra þáverandi, Eygló Harðardóttir, Sóley Tómasdóttir sem þá var borgarfulltrúi og Sigríður Björk Guðjónsdóttir þá lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.“

Þær Ragna og Berglind segja mér að hugmyndin hafi kviknað á UN Women ráðstefnu í New York 2016, þar sem að íslenski hópurinn skoðaði miðstöðina Family Justice Center í Brooklyn, sem varð svo fyrirmynd hópsins að þeirri starfsemi sem nú má finna í Bjarkarhlíð. Þær Eygló, Sóley og Sigríður Björk (ásamt fleirum) komu heim til Íslands með þessa hugmynd í farteskinu í mars 2016 og búið var að undirrita viljayfirlýsingu um opnun Bjarkarhlíðar í september/október 2016. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg, Kvennaathvarfið og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu höfðu þá unnið að verkefninu, Saman gegn ofbeldi, síðan 2014 sem hafði þá stuðlað að vitundarvakningu og bættum vinnubrögðum innan lögreglunnar í heimilisofbeldismálum. Þetta verklag var upprunnið á Suðurnesjunum þegar Sigríður Björk vann þar og fylgdi henni þegar hún fluttist til Reykjavíkur, þróunarverkefni sem náði að festa sig í sessi.

Viðtökurnar voru góðar og segir Ragna að þegar svona sterkar konur komi saman að þá geti hlutirnir gerst — allt var sett á fullt og Bjarkarhlíð var opnuð 1. mars 2017, ári eftir að hugmyndin kviknaði.

Ragna: „Hugmyndafræðin frá upphafi var s.s. fyrst og fremst að auðvelda þolendum ofbeldis í nánum samböndum að leita sér aðstoðar á einum stað, lækka þessa þröskulda og hindranir sem flestir þurfa að fara í gegnum til þess að leita sér hjálpar […] Einn staður fyrir alla sem hafa orðið fyrir ofbeldi — öll kyn sama hvernig fólk skilgreinir sig, frá 18 ára og eldri, og fólki að kostnaðarlausu. Síðan var svona hliðarafurð af þessu, sem er þetta samstarf ólíkra stofnana og samstarf ólíkra faghópa. Þetta þverfaglega samstarf þar sem að fólk sem kemur að þessum málaflokki hafði þá einn stað til þess að vera saman að kynnast störfum hvers annars — og þá í leiðinni að hugsa og þróa Bjarkarhlíð að þörfum þolenda. Út frá þessum félagslega þætti, sálræna þætti, réttargæsluþætti og lögfræðiþætti.“

Berglind minnist á það sem henni fannst hvað merkilegast var þetta samstarf ólíkra aðila sem komu saman að styðja við brotaþola. Allt var á þeirra forsendum. Einnig þar sem lögreglan kom inn í — það voru engar rannsóknir og lögreglan sá bara um að aðstoða þolendur út frá þeirra hlið og það er eitthvað sem þær höfðu ekki kynnst áður. Hún trúir því að þetta hafi orðið til þess að traust til lögreglunnar hafi aukist sem og öryggi brotaþola.


Nú hafið þið talsvert traust og hafið reynst fólki vel. En hvernig finnst ykkur, og þá beini ég spurningunni kannski frekar að Berglindi, með verkferla innan lögreglunnar í samstarfi við ykkur, þ.e. ef þú berð það saman við tilgangi Bjarkarhlíðar? Hvernig virkar þetta saman?

Berglind: „Eins og fram hefur komið hafa verkferlar breyst talsvert innan lögreglunnar hvað varðar heimilisofbeldi og fleira — og þetta vinnur saman því þú [sem starfsmaður lögreglunnar] ert auðvitað alltaf í tengslum við lögregluna, þú ert þarna sem lögreglumaður og ert alltaf í tengslum við aðalstöðina og þína deild og þá deild sem er að rannsaka þetta mál“

Hún segir þó að það sem er frábrugðið sé aðgengið og upplýsingamiðlunin. Auðveldara sé að koma inn í það umhverfi sem Bjarkarhlíð er og ræða við lögreglu í stað þess að þurfa að fara inn á lögreglustöð. Þetta er flókinn málaflokkur og er heimilisofbeldi margvíslegt. Lögregla fær sjaldan tilkynningar um andlegt ofbeldi, málaflokkarnir (heimilis- og kynferðisofbeldi) fyrnast og lögreglan fer ekki alltaf á vettvang þegar ofbeldið á sér stað. 

Berglind: „En þarna getur þú rætt við lögreglumann um hver staðan þín er. […] og bara vitneskjan um það að þú getir komið og gefið upplýsingaskýrslu um hvað átti sér stað, vitandi það að þú leggur ekki fram kæru — þetta er svona óbein kæra sem þú leggur fram á hendur þess sem braut á þér því málið er fyrnt. Það sem gerist er að þú gefur skýrslu og hún er bókuð inn í kerfið og sá sem braut á þér fær upplýsingar um það að þú hafir gefið þessa skýrslu. Bara þetta eitt og sér hefur oft mikla þýðingu fyrir brotaþola, svo ég tali nú ekki um eitthvað sem átti sér stað fyrir löngu, og bara vitandi það að þú hefur opnað á þetta mál að þá ert þú, eins og margir segja, að skila skömminni og ég held að þetta hafi mikla þýðingu.“

Ragna: „Má ég kannski bæta við öðrum þætti, sem ég sé í sambandi við samstarf við lögregluna, að það er ákveðin þróun. Þetta nýja kerfi kemur 2014 þar sem að verður gjörbreyting á öllu verklagi þegar kemur að heimilisofbeldismálum — þar sem lögreglan er að fara inn á heimilið og byrjar í raun og veru rannsókn þar við fyrstu snertingu. […]  Fyrir tíma Bjarkarhlíðar og þessa breytta verklags, að þá var lögreglan oft að fara inn á heimili í endurtekin skipti og ég veit að margir lögreglumenn áttu mjög erfitt með þetta; að vera alltaf að koma á sama stað, ekkert gerðist, engin breyting, engin úrræði. Af því að eins og Berglind segir, bæði er það eðli ofbeldisins að það eru ekkert allir sem hoppa út úr sambandi þó að lögreglan komi og það tekur oft langan tíma fyrir konur eða fólk að komast úr ofbeldissambandi. Þannig að þá allavegana hafði lögreglan bæði félagsþjónustuna með sér og barnaverndina. Og núna þegar Bjarkarhlíð bætist við, að þá er fólk að vinna við það að styðja þolendur, styðja fólk sem er í þessum sporum.“ 



Í Bjarkarhlíð starfa félagsráðgjafar og lögregla. Og svo er þar að finna lögfræðiaðstoð?

Ragna: „Eins og þetta er í dag þá eru þrír starfsmenn Bjarkarhlíðar, lögreglan er með eitt og hálft stöðugildi í Bjarkarhlíð og síðan eru samstarfsaðilar sem koma frá sínum starfstöðum og veita sína þjónustu í Bjarkarhlíð. Lögfræðingarnir frá Kvennaráðgjöfinni og Mannréttindaskrifstofu, ráðgjafar frá Stígamótum, ráðgjafar frá Drekaslóð og Kvennaathvarfinu. Og síðan hefur Rótin verið hjá okkur núna þetta árið, með tilraunaverkefni, og er Rótin fyrir konur með fíkn og áföll á bakinu. Þannig að við erum komin með mjög sterkan hóp sem er að grípa fólkið, þjónustuþegana, þegar við erum búin að fara yfir söguna og máta fólkið við hvar er best fyrir það að halda áfram.

Nú eru úrræðin í sem í boði eru í samfélaginu ansi fjölbreytt — eru í raun ólíkar hliðar á sama teningnum. En hvernig er Bjarkarhlíð í samanburði við önnur úrræði? Þið einblínið á ofbeldi í nánum samböndum og þetta er kannski fyrsta skrefið í því að leita sér aðstoðar?

Ragna: „Já. Þetta er kannski bæði svona þegar þú ert að átta þig á eða viðurkenna fyrir sjálfri þér að þú ert þolandi ofbeldis. Af því að það getur verið langt ferli, sérstaklega í heimilisofbeldismálum, því þarna ertu í þessu sambandi, búin að vera í mismörg ár — löng saga, börn og fleira, og þú ert kannski búin að fara marga hringi í ofbeldishringnum. Jafnvel búin að fara út og inn aftur. […] Við leggjum upp með að nota þessa áfallamiðuðu nálgun, við bjóðum upp á skilning og stuðning akkúrat við þessar aðstæður; að við vitum að það er ekkert einfalt við þetta að fara úr ofbeldissambandi. Þannig að það er kannski þessi skilningur sem að Bjarkarhlíð stendur fyrir ásamt okkar samstarfsaðilum.“

Þær tala báðar um flækjustig heimilisofbeldis og sér í lagi andlegs ofbeldis. Hindranirnar eru margar þegar konur og fólk [manni hættir svo til að tala um konur af því að það er langstærsti hópurinn sem leitar til okkar þó að 18% þjónustu sé við karlmenn“] fer úr ofbeldissambandi. Það getur þurft fleiri tilraunir en það fylgir því gríðarleg skömm hjá konum sem koma sér úr ofbeldishringnum en fara svo aftur til baka; Húsnæðismál, bið eftir skilnaði hjá sýslumanni og forsjár- og umgengnismál auka flækjustig og eru oft nýtt af gerendum til þess að halda fólki föstu, sem verður til þess að ofbeldið heldur áfram. Þetta verður til þess að brotaþolum finnst allar dyr lokast, sem er alls ekki raunin. Ragna segir brotaþola þurfa mikinn styrk og góða heilsu til þess að komast úr ofbeldissambandi — sem fólk hefur ekkert endilega eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi lengi.



Mikil vitundarvakning varð með komu Bjarkarhlíðar um skaðsemi andlegs ofbeldis á heilsu og líf fólks sem bjó við það: Kvenna, barna og annarra þolenda. Undirliggjandi og stigmagnandi ofbeldi sem gerendur nota markvisst til að brjóta niður þolendur sína með því að niðurlægja þá og þess háttar. Það komi góðir dagar og svo vondir — og svo góður og tveir vondir o.s.frv. En Berglind bendir á að brotaþolum hafi fundist það ákveðinn öryggisventill að geta komið í Bjarkarhlíð og látið bóka að þú komir því þú óttist það að vera heima, þá ertu komin á skrá ef ske kynni og þá eru til upplýsingar um það sem þú hefur þurft að þola; Að þú sért í sambandi, verðir fyrir andlegu ofbeldi og óttist þann aðila sem þú býrð með. En hún nefnir einnig að þetta hafi oft verið það eina sem lögreglan gat gert, án þess að vera sakamál gátu þau lítið annað gert. 

Berglind: „Það sem að ég upplifði þegar ég var í Bjarkarhlíð — það voru þessir einstaklingar höfðu búið við andlegt ofbeldi í langan tíma. Og ég sagði stundum að þetta fyndist mér erfiðasta ofbeldið […] Það er vafinn um það hvar fólk var statt; er þetta bara eðlilegt eða er þetta ofbeldi — og þegar þau töluðu við okkur í lögreglunni, höfðu þau ekkert í höndunum, enga áverka og ekki voru neinar beinar hótanir. […] En það fannst mörgum léttir að geta farið út fyrir þennan ramma, út fyrir heimilið. Þó við settum ekki þann sem á hlut að máli sem gerenda, en nefndum hann í bókuninni sjálfri. Þá var búið að ræða þetta í Bjarkarhlíð og þetta var komið einhvers staðar á skrá.“

Þær segja þessa bókun vera hluta af því öryggismati sem þær eru með innbyggt í móttökuviðtölin. Að fara yfir þætti eins og þessa stigmögnun ofbeldis, og þá sérstaklega þegar fólk er að hætta eða slíta sambandi  — að það geti verið mjög hættulegur tími fyrir þolendur. Og þá sé gríðarlega mikilvægt að hafa lögregluna á staðnum til þess að meta stöðuna.

Berglind: „Ég þori alveg að fullyrða það að það eru margir einstaklingar sem leita í Bjarkarhlíð og það hafði aldrei hvarflað að þeim að leita til lögreglu. En af því að lögreglan var á staðnum að þá voru þau tilbúin að ræða við okkur, en þau hefðu aldrei farið til lögreglunnar annars. […] það eru meira að segja mál sem hafa farið í gegnum dómstóla. Það alvarleg mál að það hefur verið dæmt í þeim og þau farið í gegnum allt kerfið. […] Og það sýnir hversu mikilvægt það er að hafa lögregluna pínulítið út fyrir þennan fasta ramma. Hafa þetta samvefandi net; þú ert með allt á staðnum. Og að einstaklingnum finnist það, þegar hann kemur inn í Bjarkarhlíð, að þar er tekið utan um hann.“

Margir af þeim einstaklingum sem leitað hafa til Bjarkarhlíðar hafa sögu um áföll tengdu ofbeldi, önnur en þau sem knúði þau til að leita sér hjálpar í dag, eða um 80% þjónustuþega: í æsku, önnur ofbeldissambönd eða kynferðisofbeldi. Þannig vissi fólk ekki fyrir víst hvert það ætti að leita en það sem Bjarkarhlíð gerir er að meta stöðuna út frá hverjum og einum skjólstæðingi og aðstoða fólk að finna hver bestu úrræðin eru á þeirra eigin forsendum.


Nú kemur fólk og leitar til ykkar. Fær þjónustu, fær ráðgjöf, móttökuviðtöl. En hvað tekur svo við? Hvert er framhaldið eftir Bjarkarhlíð? Eftir ráðgjöfina hjá ykkur?

Ragna: „Það er svolítið misjafnt eftir málum. Fólk kemur s.s. í móttökuviðtal við starfsmenn Bjarkarhlíðar, og þá lögreglu ef þess er óskað, og það er farið yfir stöðu málsins; hvaða þjónustu fólk hefur fengið áður, hvar það er statt núna og hvað það er tilbúið til að gera. Einmitt alltaf á þeirra forsendum. Og þá er það svolítið misjafnt hvaða samstarfsaðila fólk velur að vinna með.“

Kvennaathvarfið og Rótin eru með meginþorra sinnar ráðgjafar í Bjarkarhlíð. Fólki er þá gefið áframhaldandi viðtal hjá þeirra ráðgjöfum eftir móttökuviðtalið. Og eins eru stundum viðtöl við lögfræðinga í millitíðinni. Stígamót og Drekaslóð bjóða upp á eitt viðtal í Bjarkarhlíð en færa svo viðtölin í sín húsakynni. Svo eru Rótin, annars vegar, og Drekaslóð, hins vegar, með opið hús einu sinni í viku. Það er mjög persónubundið hvaða úrræði fólk nýtir sér í kjölfar móttökuviðtalsins en flestir vilja annað viðtal, þá við lögreglu, lögfræðing eða að komast til stuðningsaðila.

Félagsþjónustan er stundum kölluð til, þá ef að fólk er óvisst um það hvort það eigi rétt á aðstoð með húsnæði, fjárhagsaðstoð eða eitthvað slíkt. Félagsráðgjafi á þeirra vegum kemur þá gjarnan í Bjarkarhlíð því fólk á erfitt með að taka það skref að leita sér aðstoðar annars staðar.

Eins kemur fyrir að einstaklingar eru með meiri vanda en Bjarkarhlíð veitir þjónustu fyrir, því Bjarkarhlíð veitir ekki meðferðir heldur stuðning og ráðgjöf. Þá er fólk jafnvel með sjálfsvígshugsanir eða eitthvað slíkt og er fólk þá hvatt til að fara á bráðamóttöku geðdeildar. En helmingur þeirra sem leita til Bjarkarhlíðar hafa verið með slíkar hugsanir eða gert tilraun til sjálfsvígs. Þá er einstaklingum oft bent á Píetasamtökin

Ragna: „Og síðan eru þá skoðaðir möguleikar með fólki ef þarf, þá sérstaklega hvaða möguleika það hefur á styrkjum fyrir áfallameðferð eða sálfræðimeðferð og þá er fólki bent á félagsþjónusturnar eða stéttarfélögin eða eitthvað slíkt. Og svo er náttúrulega bæði heilsugæslan komin með sálfræðinga og eru sumar komnar með þessar tengingar við geðteymin — Austur, Vestur og Suður […] þverfagleg geðheilbrigðisteymi sem eru í samstarfi við félagsþjónustu og heilsugæslu. Mjög flott teymi. Þannig að stundum þurfum við að hjálpa fólki inn í þau ef að við sjáum að það er ekki nægur þessi stuðningur sem að er í boði hjá okkur. Þannig að það er svolítið okkar faglega mat, þessara ráðgjafa sem tökum fyrstu viðtölin“


Þið eruð með þessa ráðgjafaþjónustu, en þið eruð líka með forvarnir er það ekki, þið eruð með fræðslu?

Ragna: „Já, hún hefur kannski ekki verið nóg. Hún hefur á þessum tímum alveg dottið upp fyrir. Við vorum með opin hús alltaf á föstudögum einu sinni í mánuði og fengum mismunandi aðila til að koma og tala um málefni tengdu ofbeldi, eins og einelti og mansal og fleira.“

Þær nefna það hversu frábært það er hversu margir láta sig þessi mál varða í dag. Þær finni mikinn mun að heyra fleiri raddir, verandi reynsluboltar báðar í þessum málaflokki. Þær fengu til að mynda Þorstein og Sólborgu frá Karlmennskunni og Fávitum sem og Druslugönguna til að halda fyrirlestur. Þær fari með kynningar í þá framhaldsskóla sem hafa samband og taka þátt í ráðstefnum og öðru slíku ef þær eru beðnar um. Anna þannig frekar eftirspurn en að vera virkar í forvörnum, vegna skorts á bolmagni. Bjarkarhlíð eru einnig hluti af Evrópusamtökum samskonar miðstöðva (European Family Justice Centers Alliance) og hafa sent frá sér fræðslumyndbönd um rauð ljós í samböndum og stefna á fleiri í framtíðinni. 

Og þetta er kannski orðið þannig að fólk veit af ykkur og leitar þá til ykkar ef það vill einhverskonar fræðslu eða kynningu á ykkar starfi og markmiðum.

Ragna segir flesta vita af Bjarkarhlíð gegnum vini og kunningja en auðvitað eru einhverjar raddir sem hafa aldrei heyrt af Bjarkarhlíð. En nú er margt í boði og segir hún fólk eiga að vera nokkuð fljótt að átta sig hvar það getur fengið aðstoð. 112 sé komið með ofbeldistorg og 1717 bendi fólki gjarnan á Bjarkarhlíð.

Ragna: „Og eins og þú segir, við höfum verið heppin með góða umfjöllun og trúverðugleika, og ég vona bara að það haldi.“


Hvernig er aðgengi að Bjarkarhlíð, t.d. fyrir fatlað fólk eða jafnvel fólk sem talar ekki íslensku?

Staðsetningin á Bústaðavegi er góð að því leytinu til að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur að sjást. Bjarkarhlíð sé staðsett inni í rjóðri og þrátt fyrir að vera inni í miðri borg að þá kallar Ragna þetta leynistað. Húsið sjálft að innan er aðgengilegt fötluðum og eru þau með ramp fyrir hjólastóla Hún segir bílastæðið þó ekki vera malbikað sem geti verið erfitt. 

Þau vinna með Language Line Solutions sem er fljót þjónusta og aðgengileg og án tengsla, góð fyrsta túlkaþjónusta. Einnig greiða þau fyrir túlka sem fólk kemur með sjálft og vinna í samstarfi við Félag heyrnarlausra. Nýlega fékk Bjarkarhlíð styrk í sambandi við túlkaþjónustuna Fatima sem sinnir fólki frá miðausturlöndum og þeirra menningarheimum. Fatima ætli að vera með námskeið fyrir starfshóp Bjarkarhlíðar um menningarlæsi hvað varðar þennan heim. 

Ragna: „Svo erum við búnar að vera með pólskan hóp kvenna sem hefur verið í samstarfi við okkur. Komu bara inn á sínum forsendum og langaði til að nálgast pólskar konur sem þekktu ekki kerfið og væru í ofbeldisaðstæðum. Og fengu styrk til þess og í samstarfi við okkur eru búnar að vera með opið hús einu sinni í viku og gera mjög flott starf.[…] Þjónustuþegar af erlendum uppruna eru 12-13% sem er á pari við þann fjölda fólks af erlendum uppruna sem búsett er í landinu“


Hvert er framhald Bjarkarhlíðar? Annað en að halda áfram ykkar góða starfi.

Nú er Bjarkarhlíð ekki lengur tilraunaverkefni og komið til að vera, en þau fengu verkefni í sumar frá félagsmálaráðuneytinu, varðandi samhæfingarstöð um mansal; Tilraunaverkefni með því markmiði að kortleggja og skilgreinina þjónustuþörf þolenda mansals. Í viðbót við áframhaldandi þróun á þjónustu með þarfir þjónustuþega að leiðarljósi og aukið álag vegna Covid-19.

Ragna: „En við fengum auka starfsmann á þessu ári, sem munaði mikið um. Og það hefur verið fjölgun á hverju ári — 30% fjölgun hjá okkur núna þetta árið. Þannig að þetta eru stórar tölur af fólki sem er að leita til okkar. Og já, það er svo kannski það sem við heyrum helst, hver eftirfylgnin er, hvort að hún sé næg hjá okkur“

Það er ákveðin meðferð að fá stuðning og áfallamiðaða ráðgjöf en Bjarkarhlíð býður ekki upp á sálfræðimeðferðir. Þetta er undir sama hatti en auðvitað er stigsmunur á.

Þær segja svipaðar miðstöðvar í Evrópu, þar sem hefur orðið hvar mest þróun, hafa stækkað talsvert og séu með sérfræðinga í alvarlegum afleiðingum ofbeldis og vinnu gegn sjálfsvígshugsunum á staðnum sem og sálfræðinga. T.d. Family Justice Center í Antwerpen. Bjarkarhlíð gefi sig ekki út á sálfræðimeðferðir, þó svo að Stígamót hafi til að mynda sálfræðinga á sínum vegum, og þau leiðbeini þjónustuþegum um hvar sálfræðiþjónustu megi finna.

Ragna: „En af því að þú talaðir um birtingarmyndir í tengslum við geðheilbrigðismálin — að þá held ég að það sé náttúrlega mjög mikilvægt að undirstrika þennan heilsufarsvinkil, hversu skaðlegar afleiðingar ofbeldis eru og hversu skaðlegar þær geta verið fyrir heilsu fólks. Hversu stór hluti af þeim sem koma til okkar eru í raun og veru búin að missa heilsuna, eru kannski búin að vera í VIRK eða eru í endurhæfingu og fólk er komið mislangt í að tengja heilsubrest sinn við afleiðingar ofbeldis. Eins og ACE rannsóknin og fleira sem kemur þessari þekkingu miklu lengra; að þegar þú ert í endurteknu ofbeldi eða þegar það eru endurtekin tilvik af áföllum tengdu ofbeldi, að þá ertu útsettari fyrir frekara ofbeldi — og þá ertu einnig útsettari fyrir heilsuvanda í framtíðinni. Og þetta er náttúrulega kostnaðarsamt og getur haft truflandi áhrif á samskipti og daglegt líf og hvernig þú sem manneskja ert að komast áfram í því sem þú vilt með þín markmið í lífinu Og ég held að þarna sé svona kannski pínu gat sem vantar að fylla upp í varðandi upplýsingar og vitundarvakning — að tengja saman geðheilbrigði við þessar afleiðingar ofbeldis. Þær krossast mjög mikið, eins og við erum að sjá. Og þess vegna erum við glaðar að hafa Rótina hjá okkur, því við erum að sjá mjög stóran hóp að glíma við fíknivanda, áfengisvanda, átröskun og sjálfskaðandi hegðun osfrv. Og svo koma áfallastreitueinkennin, þar sem að þú ert ekki með einbeitingu, þar sem að þú getur ekki sofið né hvílt þig og allt þetta. Eins kemur kvíði, af því að þú getur ekki einbeitt þér eða staðið í því sem þú ert að gera af því að það er bara þungt að vera í vanlíðan af því að einhver manneskja sem á að elska og þykja vænt um þig hefur verið vond við þig. Þannig að þetta tengist allt saman.“



Berglind: „Það hefur bara sýnt sig, á þessum tíma sem Bjarkarhlíð hefur verið til, hversu mikilvægt þetta þverfaglega samstarf er fyrir þá aðila sem leita sér aðstoðar — vitandi það að bæði þú stendur ekki einn og líka það að þú getur leitað að allri þjónustu á einum stað, þannig lagað. Þú færð allavega verkfæri og leiðbeiningar um það hvert þú getur leitað.“

Ragna: „Mann langar svo að fólk skilji þetta og mann langar svo að fólk sé með þetta. Og það er kannski það sem við starfsfólk Bjarkarhlíðar þurfum alltaf að gera, þetta er þessi áfallamiðaða nálgun. Við þurfum alltaf að vera þar sem fólkið er, sá fræjum og vera þessi boðskapur vonar. Að þó að vondir hlutir hafi gerst í þínu lífi að þá er alltaf von. Þú hefur alltaf daginn í dag til að bregðast við út frá þínum forsendum, ef þú ert laus undan ofbeldinu. Það að gefa því ekki brautargengi það sem eftir er af lífinu.




















— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
ADHD: Skaðlegar staðalímyndir og ósýnilegar stelpur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Skilgreiningar: Mér finnst að þér ætti að finnast

næsta grein
Greiningar: Daníel


Lesa meira um...

Skref í átt að bata – Viðtal við tvær starfskonur í Bjarkarhlíð – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.