18. nóvember 2020

Ímyndaðu þér tvö ung börn, strák og stelpu. 

Strákurinn er alltaf á iði, talar mikið, truflast auðveldlega, gerir oft fljótfærnisvillur, týnir hlutum, grípur fram í og truflar aðra. Hann á líka erfitt með að sitja kyrr, klára heimavinnu, fylgja leiðbeiningum og halda athygli við leik og nám. 

Stelpan er hljóðlát og feimin í skólanum, hún vill helst sitja aftast í tímum og tjáir sig ekki mikið. Hún virðist oft vera annars hugar og hún er gleymin. Hana skortir sjálfstraust og hún á ekki marga vini. Hún er óskipulögð, misskilur fyrirmæli og er með mikinn frammistöðukvíða í námi.

Ímyndaðu þér núna að þér sé falið að greina vanda barnanna út frá þessum lýsingum (greiningarvinna fer alls ekki þannig fram í rauninni). Ef þú notar þá þekkingu sem þú hefur um börn og algeng vandamál hjá þeim, hvað myndir þú halda að hrjái strákinn? En stelpuna?

Mörgum dettur eflaust í hug að strákurinn sé með ADHD. ADHD er taugaþroskaröskun sem rúmlega sjö prósent barna og um það bil fimm prósent fullorðinna glíma við og flestir vita að getur birst með þessum eða svipuðum einkennum. Ef þú heldur að einkenni stráksins bendi til ADHD þá hefur þú rétt fyrir þér.

Ef þú heldur að einkenni stelpunnar bendi einnig til ADHD þá hefur þú líka rétt fyrir þér og ert hluti af fámennum hópi lesenda sem veit að ADHD birtist oft með gjörólíkum hætti hjá strákum og stelpum.

Kannski veistu að stelpan er líklega með það sem er stundum kallað hljóðláta gerðin af ADHD og er algeng birtingarmynd ADHD hjá stelpum. 


Lýsingin á börnunum er einföldun á ADHD en ADHD skiptist í fjölmargar gerðir og getur birst með afar ólíkum hætti hjá einstaklingum. Mörg einkenni ADHD eru jafnvel enn minna þekkt en einkenni hljóðlátu gerðarinnar. Til að átta sig betur á fjölbreytileika ADHD er gott að skoða vel merkingu orðanna athyglisbrestur og ofvirkni (þekktustu einkenni ADHD). Brestur á athygli er ekki endilega skortur heldur nær hugtakið yfir alla erfiðleika við að hafa stjórn á athygli.

Hjá sumu fólki kemur athyglisbrestur fram þannig að það á erfitt með að festa hugann við eitthvað, hugsanirnar flögra úr einu í annað og það truflast auðveldlega. Athyglisbrestur getur líka verið að halda ofureinbeitingu við eitthvað ákveðið í mjög langan tíma, eyða alltof löngum tíma í það og eiga verulega erfitt með að slíta sig frá því. Ofvirkni spannar einnig vítt svið og getur komið fram með lítið áberandi hætti, svo sem að fikta mikið í hlutum, hárinu á sér, pennum og svo framvegis.

Sumar gerðir ADHD eru algengari hjá strákum eða stelpum en engin gerð er algjörlega bundin við kyn og fólk af öllum kynjum er með allar mögulegar gerðir af ADHD. Hugmyndir flestra um ADHD taka ekki mið af þessum breytileika. Staðalímyndin af ADHD er af æstum strák með einkenni svipuð þeim sem lýst var fremst í greininni. Staðalímyndir eru sjaldan af hinu góða en þegar þær tengjast heilbrigði einstaklinga eru þær sérlega skaðlegar og mikilvægt að reyna að útrýma þeim. Þetta sést einna best í ADHD staðalímyndinni og skaðsemi hennar fyrir stelpur og konur með ADHD.

Stelpur, sem greinast með ADHD, greinast að jafnaði fimm árum seinna en strákar.

Rannsóknir sýna að inngrip og aðstoð skila meiri árangri því fyrr sem þau eru veitt. ADHD hefur lengi mælst mun algengara hjá strákum en rannsóknir síðari ára benda til þess að stór hluti kvenna með ADHD fái aldrei greiningu eða séu ranglega greindar með eitthvað annað en ADHD. Talið er að það sé vegna skorts á þekkingu um einkenni sem eru algengari hjá stelpum.

Jafnvel þegar stelpur sýna ADHD einkenni sem flestir ættu að þekkja sem slík þá leiðir það ekki endilega til greiningar, heldur eru þær oft stimplaðar sem strákastelpur. Staðalímyndin af einkennum og hugmyndir um að ADHD sé strákaröskun draga úr líkum á því að stelpur fái greiningu. ADHD sem ekki greinist getur haft slæm áhrif á sjálfsmynd og skólagöngu, valdið þunglyndi, kvíða og leitt til drykkjuvanda, svo eitthvað sé nefnt. 

Kynjaðar staðalímyndir eiga hvorki erindi í heilbrigðismálum, né annars staðar. Samt eru þær eldgamalt og viðvarandi vandamál, bæði þar og á mörgum öðrum sviðum. Forngrikkir héldu því fram að hystería gæti bara hent konur og stafaði af því að legið hreyfðist til, nafnið hystería er dregið af orðinu hystera sem þýðir leg.

Nú til dags birtist vandamálið í hugmyndum um og greiningum á ADHD, einhverfu og fleiri röskunum. Staðalímyndir hafa líka hræðileg áhrif fyrir karla en rannsóknir sýna að læknar eru líklegri til að greina konur með þunglyndi þó þær skori jafnhátt og karlar á mælikvörðum eða séu með sömu einkenni og þeir. Nánar má lesa um skaðsemi staðalímynda fyrir geðheilsu karla í grein minni úr öðru tölublaði Vía; Tölum um tilfinningar.


Það að útrýma kynbundnum staðalímyndum hefur lengi verið feminískt baráttumál.

Kynbundnar staðalímyndir draga úr lífsgæðum allra kynja.

Þær viðhalda hugmyndum um að allar konur séu dramatískar, veikburða, tali mikið, séu góðar í heimilisstörfum og illa til þess fallnar að stjórna fyrirtækjum og löndum. Staðalímyndin um karla sendir skilaboð um að þeir eigi að vera sterkir, stórir og harðir af sér, helst bara alveg tilfinningalausir.

Kynbundar staðalímyndir taka ekkert tillit til fjölbreytileika samfélagsins. Þær byggja á kynjatvíhyggju og skortir svigrúm fyrir mun á milli einstaklinga. Það er auðvelt að setja feminíska baráttu í samhengi við fyrirbæri eins og óútskýrðan launamun kynjanna, skort á kvenkyns forstjórum og kynbundið ofbeldi. Ávinningurinn af því að útrýma kynbundnum staðalímyndum myndi þó hafa jákvæð áhrif á  öllum sviðum samfélagsins, þó það sé ekki alltaf jafn augljóst.

Við sem samfélag verðum að halda áfram að berjast gegn staðalímyndum og úreltum hugmyndum um kyn. Þannig getum við gefið öllum rými til að vera þau sjálf, stuðlað að bættri geðheilsu allra kynja og aukið lífsgæði.



— — —

Áhugasömum um ADHD er bent á fræðsluefni hér:

— ADHD samtökin halda úti vefsíðunni adhd.is þar sem finna má vandað fræðsluefni. Í vefverslun þeirra er einnig hægt að kaupa bækur tengdar ADHD.

— Safn upplýsinga og hagnýtra ráðlegginga ætluð foreldrum og kennurum barna sem glíma við einkenni ADHD, kvíða eða álíka vanda. Tekið saman af fagfólki Þroska og hegðunarstöðvar og byggð á vönduðum og viðurkenndum hand- og fræðibókum.
https://www.heilsugaeslan.is/serthjonusta/throska-og-hegdunarstod/#Tab8

— Dr. Russell Barkley er einn helsti sérfræðingur í ADHD í heiminum í dag. Eftir hann eru til ýmsar bækur og fræðigreinar auk þess sem hægt er að finna fjölmörg myndbönd á youtube með viðtölum og fræðslu frá Barkley. Nóg er að slá inn “Barkley ADHD” á youtube til að finna ýmis áhugaverð myndbönd.

Gagnlegar bækur um ADHD:

— Lærðu að hægja á og fylgjast með eftir Kathleen G. Nadeau og Ellen B. Dixon. Meðal annars fáanleg hér: https://www.forlagid.is/vara/l%C3%A6r%C3%B0u-a%C3%B0-h%C3%A6gja-a-og-fylgjast-me%C3%B0/

— ADHD og farsæl skólaganga sem gefin var út af Menntamálastofnun og má nálgast frítt í rafrænni útgáfu hér:
https://mms.is/namsefni/adhd-og-farsael-skolaganga-handbokrafbok

Heimildir:

https://pediatrics.aappublications.org / content / 135 / 4 / e994.short

https://link.springer.com / article / 10.1007 / s00431-006-0299-5

https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov / 12402565













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Flóra samfélagsins og heilbrigðiskerfið

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Hömlur: Tölum um tilfinningar

næsta grein
Skref í átt að bata - Viðtal við tvær starfskonur í Bjarkarhlíð - miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.


Lesa meira um...

ADHD: Skaðlegar staðalímyndir og ósýnilegar stelpur