Líklega kannast flestir við Ariönu Grande. Hún hefur verið í bransanum frá unglingsaldri og gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2013, þá tvítug. Ariana hefur á stuttum tíma orðið risavaxin poppstjarna, þrátt fyrir að vera ekki nema einn og hálfur metri á hæð. Hún var valin kona ársins 2018 af tímaritinu Billboard og sagði þar meðal annars: „Ég er smágerð. Fólk á það til að vanmeta það.”
Hún segir að hún hafi upplifað frekar kynjað viðhorf í stúdíóinu, að kvenleiki hennar hafi gert það að verkum að hún þurfi að berjast fyrir því að á hana sé hlustað og stundum þurft að taka sérstaklega fram að smágerðar konur geti líka unnið tónlist. Ímynd Ariönu hefur alla tíð verið stelpuleg, hárið tekið saman í hátt tagl og hún er oftar en ekki klædd stuttum flíkum og háum stígvélum. Í viðtölum er hún oft dæmd fyrir fram en hún er snögg í tilsvörum og lætur fréttafólk ekki komast upp með neitt rugl.
Ariana hefur verið ansi öflug í tónlistarsköpun en í byrjun febrúar sendi hún frá sér plötu númer tvö á rúmum sex mánuðum. Sú plata, thank u, next, er hrárri og mun einlægari en það sem hún hefur sent frá sér áður. Hugmyndir um kvenfrelsi og réttindabaráttu kvenna eru Ariönu hugleiknar og hafa verið undirliggjandi þemu í mörgum af hennar nýrri verkum. Það er því viðeigandi að titillag plötunnar sé öflugt „girl-power“ lag.
Textinn er mjög persónulegur „this one’s gonna last, cause her name is Ari”, en þar vísar hún í nýleg sambandslit og fráfall fyrrverandi kærasta. Myndbandið við lagið byggir á „chick-flick“ kvikmyndunum Bring It On, 13 Going On 30, Mean Girls og Legally Blonde sem eiga það sameiginlegt að fjalla um vináttu og sjálfsást sem jafn mikilvæga eða mikilvægari rómantískri ást. Það eru myndir þar sem konur þurfa ekki að biðjast afsökunnar á, eða fela kvenleika sinn.
Fyrir þau sem ekki þekkja þessar kvikmyndir eru aðalpersónurnar ungar konur í mennta- og háskóla og félagslíf þeirra. (13 Going on 30 sker sig þó úr.) Það sem er svo fallegt við þessar myndir er að þær snúa upp á þá gamalgrónu hugmynd að konur séu konum verstar og sýna fram á hið gagnstæða, að konur geta staðið saman.
Það er því ekki skrítið að Ariana hafi valið þessar kvikmyndir til þess að leika sér með í myndbandinu við thank u, next, þar sem hún þakkar fyrrverandi kærustum fyrir samveruna en vill nú einbeita sér að sjálfri sér og vinkonum sínum.
Í janúar kom svo lagið 7 rings út, en þar skrifar Ariana sig inn í rapphefðina með því að fjalla um peninga og „bling“en segja með að það sé að kvenlegri hátt en áður hefur verið gert. Kveikjan að laginu varð til þegar hún keypti demantshringa í skartgripaversluninni Tiffany & Co handa sér vinkonum sínum sex. Í myndbandinu eru þær allar saman vinkonurnar baðaðar bleiku ljósi með hringa á fingri. Ariana sækir aftur í vestrænan dægurmenningararf en hún fær lánað stefið úr My Favourite Things sem Julie Andrews flytur í hinni klassísku kvikmynd The Sound of Music.
Textinn í 7 rings fjallar um þá hluti sem Ariana geti keypt og að ríkidæmi hennar geti leyst öll hennar vandamál. Flestir aðdáendur hennar áttu ef til vill svolítið erfitt með að samsama sig þessu lagi en bíðið róleg. Ímyndum okkur að við séum stödd í strætó klukkan átta á föstudagsmorgni. Það er dimmt, það er frost og í þéttsetnum strætónum opnum við símann. Leiðin liggur beint á samfélagsmiðla og þar sjáum við að Ariana Grande er búin að senda frá sér lag og myndband.
Við göngum inn í bleikan, glitrandi heim. Stemningin er svolítið eins og partý sem er við það að fara úr böndunum. Ólíkt okkar dimma, kalda veruleika. Við fyrstu hlustun gæti nývöknuð meðvitund okkar átt erfitt með að greina mikið meira en efnislega áherslu lagsins. En við næstu hlustun gætum við kveikt á því að hún er ekki aðeins að gorta sig af því að vera laus við peningaáhyggjur heldur er hún líka að segja eitthvað meira.
Kvenleiki og kynþokki Ariönu spilar inn í þetta konsept, hún á pening en aðrir “ain’t got no money to pay me respect.” Hún er sjálfstæð í lagasmíðum jafnt sem ákvörðunum “write my own checks like I write what I sing.” Ariana þarf ekki á karlmanni að halda til þess að sjá fyrir sér, „wearing a ring/but ain‘t gonna be no mrs.“
Ariana vill stíga inn í rappheiminn en gerir það á sínum kvenlegu forsendum, rétt eins og til dæmis rappararnir Nicki Minaj og Cardi B hafa gert. Ariana kýs að finna valdið í sínum eigin búning en ekki búningi núverandi valdhafa, það eru engin jakkaföt hér. Hún leikur sér með tvenns konar viðhorf, annars vegar er það einlægnin og viðkvæmnin í thank u, next og hinsvegar áherslan á fjármuni og sjálfstæði í 7 rings.
Þetta er ákveðið framhald af þema thank u, next þar sem Ariana klæðir sig upp sem Elle Woods (úr Legally Blonde) og sigrar lögfræðiheiminn. Ariana er mætt í tónlistarbransann og ætlar að hrista upp í hlutunum á sinn eigin kvenlega hátt. Það má segja að hugmyndin um virðingu sé viðloðandi á báðum þessum smáskífum en á mjög ólíkan hátt.
Í thank u, next er umfjöllunarefnið hefðbundið, sjálfsást og vinátta en í 7 rings reynir hún að brjóta sér leið inn í hina karllægu rapphefð. En hún gerir það á sínum bleiku háhæluðu forsendum, rétt eins og áðurnefnd Elle Woods. Viðfangsefni 7 rings eru peningar og skart, stöðutákn sem sjást víða í rappinu, en það er ekki gin og djús sem hún drekkur, heldur bleikt kampavín.
Þessar sterku andstæður sjálfsástar og hugmyndarinnar að peningar geti keypt hamingju er ef til vill ákveðinn liður í hennar ferli í að finna hvað er valdeflandi fyrir henni. Ariana er á þessum smáskífum að leika sér enn frekar með sína stelpulegu ímynd og ýta á mörk þess sem er talið virðingarvert í okkar samfélagi.