10. desember 2019

Hæ. Ég heiti Eva og ég er forréttindapési.

Forréttindi eru margslungin og alls konar. Við erum margslungin og alls konar.

Ég er hvít, ófötluð, gagnkynhneigð, íslensk sís kona. Ég hef aldrei þurft að búa við skort og á góða fjölskyldu og vini sem styðja mig í einu og öllu.

Þegar ég var að alast upp á Siglufirði dreymdi mig um að verða læknir, verkfræðingur, hárgreiðslukona, slökkviliðskona og húsasmiður. Og ekki bara það — ég hefði getað orðið allt þetta ef ég hefði ákveðið það. Mér datt ekki í hug að draumar mínir myndu ekki rætast, mamma og pabbi hefðu staðið á bak við hvaða ákvörðun sem ég tæki og stutt mig „no matter what“. Ég valdi myndlist og fór í myndlist.

Það að ég hafi valið eitt ópraktískasta námið á skalanum, og það erlendis, segir rosa margt um mína stöðu sem forréttindapésa.

Ég fór í skiptinám til Tyrklands í eina önn sem var eitt það skemmtilegasta og lærdómsríkasta sem ég hef gert á ævinni. Hvað þurfti ég að gera? Nánast ekkert. Ég sótti um námið, fékk inn, keypti mér flugmiða og „that’s about it“. Ekkert Visa, ekkert ströggl — bara gaman.

Ég kynntist fólki sem langar að koma til Vestur-Evrópu í nám, en vegna fjárhags og fæðingarlands er það nánast ógerlegt. Vissuð þið að fólk fætt í öðrum heimsálfum en Evrópu þarf að borga a.m.k. fjórfalt hærri skólagjöld í flesta skóla innan Evrópusambandsins? Og ekki nóg með það, þá mæta þau oft útilokun og fordómum innan skólakerfisins (og utan) þegar þangað er komið.

forréttindapési

Á árunum þremur sem ég hef verið búsett og numið við Konunglegu Listaakademíuna í Haag (háfleygt, ég veit) hef ég tekið eftir niðrandi framkomu í garð samnemenda minna. Fólki er mismunað vegna fæðingarlands, tungumáls, kyns og kynþáttar — og hvað geri ég? Oftar en ekki, ekki neitt.

Stundum af hræðslu, stundum af vanþekkingu en oft líka af vanhugsun og leti — forréttindablindu. Það að ég hafi ekki sagt neitt í hvert einasta skipti sem ákveðinn kennari talaði niður til kóreskra bekkjarsystra minna er dæmi um hvernig ég faldi mig bak við mín eigin forréttindi og þægindi.

Það að ég fái frekar íbúð en rússnesk bekkjarsystir mín, það að ég fái frekar atvinnuviðtal en kóreskur bekkjarbróðir minn, það að ég eigi auðveldara með að ferðast en mósambísk vinkona mín og það að ég fái almennt betri þjónustu en tyrkneskur félagi minn er birtingarmynd rasisma — og minna forréttinda.

Réttinda sem ég hef hvorki unnið né greitt fyrir. Réttinda sem mér áskotnuðust af því að við búum í samfélagi þar sem fólki er mismunað vegna uppruna. Þvílíkur lúxus að vera frá Skandinavíu…

Ég er ekki í hjólastól og vegna þess kemst ég á milli staða í skólanum mínum. Aðgengi er lítið sem ekkert og stjórn skólans skýlir sér á bak við það að byggingin sé gömul og merkileg. Það merkileg að viðeigandi ráðstafanir fyrir fólk með fötlun eru aukaatriði. Leiðinlegt, ha? Nei ekki leiðinlegt heldur brot á mannréttindum.

Það er ekki nóg með að fatlað fólk þurfi margt að eyða talsvert meiri tíma og vinnu í að koma sér á milli staða, þegar á staðinn er komið er því neitað um aðgengi að skólanum. Ableismi í sinni hreinustu mynd og mín forréttindi. Það að ég sé með tvo fætur sem bera mig upp og niður alla stigana í skólanum án mikilla óþæginda, eru forréttindi. Það að ég geti tjáð mig á máli sem er skyldufag í skólum og sinnt helstu þörfum án aðstoðar, eru forréttindi.

Og hvað á ég að gera? Það er ekki eins og þetta sé mitt vandamál. Nema jú, þetta er mitt vandamál og annars ófatlaðs fólks. Það er ekki vandamál fatlaðs fólks að ófatlað fólk mismuni því — það er okkar, ófatlaðs fólks.

Ég get nýtt mína tvo fætur og tvö augu til að ganga inn í og um skólann, inn á skrifstofu skólastjórnenda og kvartað undan ójafnrétti.

Það er svo margt sem ég get sem margir aðrir geta ekki. Ég get verið femínisti með læti því ég er fædd og uppalin á Íslandi þar sem við búum við tjáningarfrelsi. Ég get kvartað yfir fordómum og mismunun í garð fólks úr jaðarhópum samfélagsins án þess að verða fyrir aðkasti og ég get rökrætt við hómófóbískan kunningja minn í Tyrklandi án mikillar hræðslu við ofbeldi og útskúfun.

Ég get farið úr húsi án ótta við hryðjuverk og stríð. Ég get farið á bar og fengið mér vínglas á miðvikudegi án þess að fá skammir og móral yfir því að vera eyðileggja mitt eina tækifæri til náms og ég get flutt á milli landa án þess að eiga á hættu að vera rekin til baka í stríðsátök.

Ég get sagt það sem mér finnst, ég get verið eins og ég er, ég get gert það sem mig langar.

Forréttindi eru eftir allt saman ekkert rosalega erfið og flókin.

Sum erum við meðvituð um, önnur ekki. Sum höfum við, önnur ekki. Forréttindi eru ekki mannréttindi. Þau eru okkur ekki lífsnauðsynleg, þau ýta undir og viðhalda misskiptingu í samfélaginu.

 Mér finnst forréttindi felast helst í því að „þurfa“ ekki að hugsa um eigin forréttindi — og hámark þeirra er að forðast að hugsa um þau. Mér finnst við vera á þannig stað í tíma og rúmi að við verðum að hugsa um þau. Við höfum vitneskju og vettvang til þess að lesa okkur til og ljá öðrum rými til að beita áður þögguðum röddum. Við verðum að hætta að gaslight-a“ vandamálin og gera okkur grein fyrir eigin forréttindum.

Nýta þau til góðs og átta okkur á eigin mistökum, viðurkenna þau og gera betur. Við megum ekki vera hrædd við að tala um forréttindi. Við höfum eflaust flest gerst sek um einhvers konar forréttindablindu en við verðum að hætta að traðka á fólki — bara af því að við nennum ekki að pæla í hlutunum eða taka afstöðu — það er afstaða!

Fleiri greinar eftir Evu Sigurðardóttur.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Hláka

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Dropinn sem meitlar steininn

næsta grein
Forréttindapésar: Ekki biðja mig að vinna vinnuna þína


Lesa meira um...

Forréttindapési