18. nóvember 2020

Við höfum öll heyrt talað um það að vera fullkomnunarsinni. Það er algengur misskilningur að halda að fólk með fullkomnunaráráttu sé með allt á hreinu: geri alla hluti 100%, sé ofurskipulagt og hafi alltaf hreint og fínt í kringum sig. Það er langt frá því að vera raunin, allavega í mínu tilfelli. 

Ég hef lengi glímt við mikla frestunaráráttu, sérstaklega í námi. Ég hef aldrei skilið almennilega af hverju það hefur stafað, alltaf talið að ég þyrfti bara að skipuleggja mig betur og að vandinn fælist í því. Þegar ég heyrði fyrst talað um tengingu fullkomnunar- og frestunaráráttu fannst mér það einfaldlega ekki ganga upp. Það var í samræðum við vinkonu mína sem ég á mjög margt sameiginlegt með. Við deilum áhugamálum, höfum valið svipaðar leiðir í lífinu, okkur hefur alltaf gengið vel í skóla og erum, þó ég segi sjálf frá, bara frekar klárar. Framan af þurftum við að hafa voða lítið fyrir því – sem er á kaldhæðnislegan hátt bæði kostur og galli. Námið lá vel fyrir okkur í grunnskóla og jafnvel framhaldsskóla, komumst upp með það að lesa ekki fyrr en daginn fyrir próf en ganga samt mjög vel, jafnvel betur en öðrum sem lögðu sig meira fram. Ég átta mig á því að það eru mikil forréttindi að hafa flotið tiltölulega auðveldlega í gegnum skólakerfið því það lá vel fyrir mér – en það kom síðan í bakið á mér seinna meir. 

Margar stelpur eru aldar upp við það að fá hrós fyrir að standa sig vel í námi, fá góðar einkunnir og er hrósið einna helst fólgið í því. Þegar ég var í grunnskóla fóru mæður okkar með mig og bestu vinkonu mína á kaffihús í lok hverrar annar, eftir að einkunnaspjöldin voru komin í hús. Til að fagna því hvað einkunnirnar voru háar. Þetta var að sjálfsögðu gert í góðri trú – hver vill ekki fagna því að barninu sínu gangi vel í námi? 

En það sem þetta kenndi mér líka var að ég byrjaði að trúa því að góður árangur væri það sem skipti mestu máli. Að það sé það sem skilgreini virði mitt.

Og ég er langt frá því að vera ein um það.  Við verðum hræddar við það að gera mistök – því það er jú staðfesting á að við séum ekki nógu góðar. Það verður okkar versti ótti að fá staðfestingu á því að við séum ekki nógu hæfar, nógu klárar, nógu mikið með allt á hreinu. Og það leiðir til þess að við bæði sleppum því að gera hluti sem okkur langar til að gera en finnst við ekki nógu góðar í og frestum því að gera hlutina fram á síðustu stundu. 

Ég veit ekki hversu oft ég hef frestað ritgerðaskrifum. Mér finnst ég ekki vita nógu mikið til að byrja, finnst ég ekki vera í rétta skapinu, rétta umhverfinu, hafa nógu mikinn tíma akkúrat núna og vil ekki fá lága einkunn (sem er auðvitað mesta þversögnin). Það var ekki endilega bara það að ég frestaði því að vinna – ég eyddi líka endalausum tíma fyrstu dagana í að skoða efni og lesa greinar út í eitt, án þess að takast að koma neinu á blað. Las kannski tíu langar greinar fyrir eina stutta málsgrein og notaði tvær af þeim. Svo þegar ég var búin að sóa öllum þessum tíma í örfá orð, tróð ég meginþorra vinnunar niður á síðustu klukkutímana. Og ótrúlegt en satt, endaði ég yfirleitt á að fá 9 í einkunn. Þetta er ekki sagt til þess að monta mig – því þetta ferli var helvíti í hvert einasta skipti. En huggunin fólst í því að geta skýlt mér á bakvið það að útkoman var á endanum jákvæð, sem hlýtur að þýða að ég sé svona rosalega klár – pældu í því ef ég hefði byrjað enn fyrr! En þessi hugsunarháttur er knúinn áfram af óttanum við það að mistakast og allra helst því að leggja okkur fram og ná samt ekki nógu góðum árangri. 

Það er nefnilega langt því frá að ég vilji ekki vinna þau verkefni sem ég fæ í skólanum eða lesa lesefnið, því ég hef alltaf haft virkilega gaman að því námi sem ég hef verið í (þótt vissulega séu sumir áfangar áhugaverðari en aðrir). Það er frekar sú tilfinning að ef mér finnst ég ekki skilja efnið 100% um leið og ég byrja að lesa það, eða veit ekki nákvæmlega í hvaða átt ég á að fara með ritgerðina sem ég þarf að skrifa, þá upplifi ég mig ekki nógu klára, vanhæfa, og ég vil ekki horfast í augu við þá staðreynd að ég sé ekki nógu klár. 

Þessi hugsunarháttur hefur ekki leitt mig á góða staði. Þrátt fyrir að mér hafi alltaf gengið vel í námi þá hefur það alls ekki verið auðveld vegferð og ég ýtti mér í gegnum hana á óheilbrigðan hátt.

Ég hefði líka ábyggilega notið þess mun meira ef ég hefði leyft mér að hvílast – í stað þess að vera alltaf með nagandi samviskubit yfir taka pásur, að vera ekki þessi duglega stelpa sem allir sögðu að ég væri. Eftir á að hyggja hefur þessi ótti við að vera ekki nógu góð og trúa ekki á eigin hæfni, nema að fá staðfestingu á henni í formi góðrar einkunnar eða annars konar viðurkenningar, blundað í mér nánast frá því að ég man eftir mér. 


Fyrir um tveimur árum fór þessi ótti að snúast upp í mikinn kvíða. Ég held í rauninni að hann hafi verið undirliggjandi í mun lengri tíma. Lengi vel kom ég mér áfram á kvíðanum eins og með svipu, ég trúði því að ég gæti ekki gert hlutina vel nema undir pressu og tókst nokkurn veginn að halda honum í skefjum. En í kjölfar mikilla breytinga í lífinu mínu og nokkurra áfalla braust hann loks út í mars 2019 þegar ég fékk fyrsta kvíðakastið mitt. Allavega svo að ég tæki eftir því sjálf. Í kjölfarið gekk ég í gegnum mjög erfitt tímabil en ég var ótrúlega heppin með stuðninginn sem ég fékk í gegnum það og ákvað líka snemma að leita mér hjálpar til að takast á við kvíðann. 

Sú vegferð var í raun mikið gæfuspor fyrir mig, því þá fyrst þurfti ég að fara að pæla í því að það væri kannski ekki sniðugt að vera alltaf með svipu á sjálfri mér og að ég þyrfti kannski ekki að sýna fram á árangur til að vera einhvers virði. Ég lærði líka að ég léti þessa þörf á staðfestingu hamla mér í að prófa nýja hluti. Það að takast á við kvíðaröskun er ekki endilega beintengt við fullkomnunar- og frestunaráráttu en í mínu tilfelli hefur það spilað inn í óöryggið mitt. 

En hvað er hægt að gera til að sporna við þessari frestunaráráttu? Það getur vissulega hjálpað að reyna að skipuleggja sig betur, að notast við öpp sem stýra tímanum sem þú vinnur og hjálpa með einbeitingu og að takmarka tímann sem þú leyfir þér á samfélagsmiðlum með öppum sem blokka þau.

En það leysir ekki rót vandans, því hún liggur miklu frekar í þessari þrá að vera alltaf fullkomin.

Ég reyni þess vegna að vera meðvituð um þessar hugsanir og reyni að hindra þeim frá því að aftra mér. Það er gott að leggja áherslu á hugarfar sem felst í því að leggja vinnu í hlutina, frekar en að útkoman þurfi að vera fullkomin. Það er ekki dauðadómur á getuna þína þótt þú fáir ekki hæstu einkunnina eða að heyra að verkefnið þitt sé óaðfinnanlegt. Með því að halda aftur af okkur og sleppa því að prófa okkur áfram missum við nefnilega af svo miklu: Tækifærinu á því að ná framförum. Að læra nýja hluti. Að læra að kunna ekki allt. Og samþykkja það. Að byrja frekar en að bíða og læra að þekkja óttann um að vita ekki allt og láta þá rödd sem vind um eyru þjóta. 

Samfélagið setur miklu hærri kröfur til kvenna, sem leiðir til þess að þær setja líka miklu hærri kröfur á sjálfar sig.

Þetta aftrar okkur í að láta til okkar taka, bæði vegna þess að við gagnrýnum okkur sjálfar svo hart og að við erum hræddar um að okkur verði verr tekið. Höfum þetta á bakvið eyrað þegar við tölum við ungar stelpur og hrósum þeim fyrir vinnuna sem þær leggja í verkið, frekar en útkomuna. Leyfum okkur að prófa okkur áfram og læra að heimurinn ferst ekki þótt við fáum ekki 10 í hvert skipti, það er bara tækifæri til að vaxa og þroskast. 

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Þú lítur ekkert út fyrir að vera einhverf

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Ástæður fyrir ungar konur til að flytja út á land (atvinnutækifæri eru ekki ein þeirra)

næsta grein
Geðhvarfasýki: Jafnvel lognið er hvasst, á hliðarlínunni


Lesa meira um...

Baráttan við fullkomnunaráráttuna