Ég skil hugtakið fyrirmyndir sem það fólk sem hefur áhrif á líf þitt. Þannig er hægt að sækja fyrirmynd til allra sem koma inn í líf þitt. Allir skilja eftir sig einhver spor. Hvað sem þér finnst um það. Hvort við sjáum þar eiginleika sem við viljum tileinka okkur eða forðast.
Þegar við erum lítil eru skilaboðin þau að fyrirmyndirnar séu fólkið sem við lítum upp til og leitum ráða hjá, sterkar fyrirmyndir eins og kennararnir og foreldrar. Sá skilningur er heftandi. Sérstaklega fyrir þau sem búa ekki við gott atlæti eða eru ekki svo heppinn að eiga kennarann sem túlkaður er í kvikmyndum, sem veitir nemendur innblástur og skilur eftir hjá þeim skilning á styrkleikum sínum. Dæmi um andstæðu slíks kennara er sá sem kenndi mér, ómeðvitað, að það er grimmd að horfa uppá einelti og ofbeldi án þess að stíga inn og stöðva það. Ég kom þeim skilning ekki í orð fyrr en þremur áratugum seinna og því síður að ég gerði mér grein fyrir hversu mótandi það var. Hversu mikla skömm því fylgdi að fá ekki staðfestingu fullorðinna á að slíkt væri ofbeldi. En það markaði mig, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Ég er þakklát fyrir að gera mér grein fyrir því í dag og að geta meðvitað dregið af því lærdóm. Fyrir vikið varð ég snemma einstaklingur sem horfði ekki þegjandi upp á að aðrir væru niðurlægðir eða settir á varamannabekkinn en aldrei hleypt inn á völlinn. Ég gerði mér heldur ekki grein fyrir því að það kenndi mér að skilja áhrif ofbeldis í víðara samhengi. Það er líklegast ein af ástæðum þess að hluti ævistarfs mís varð að berjast gegn kerfislægu ofbeldi í réttarkefinu. Kannski er það þess vegna sem mér misbýður að réttarkerfið axli ekki þá ábyrgð sem það ber á því að gerendur kynferðisofbeldis séu gerðir ábyrgir gjörða sinna, leiði þá ábyrgð hjá sér, án almenns rökstuðnings, sem skilur þolendur eftir í meiri sárum en þegar upprunalega var brotið gegn þeim.
Einnig þeim sem gera sér grein fyrir eigin takmörkunum og reyna ekki að axla ábyrgð á öllum vandamálum heimsins. Mér sýnist ég líta upp til þeirra sem láta æðruleysisbænina vera sitt leiðarljós, meðvitað eða ómeðvitað. Sem berjast ekki gegn því sem þær geta ekki breytt heldur hafa kjarkinn og skilninginn til að breyta því sem þær geta breytt, og skilja á milli baráttunnar og sjálfrar sín. Sem verða ekki að vandamálunum sem þær þurfa að leysa og geta gefist upp fyrir lífinu þegar það á við. Þora að halda áfram í trausti þess að allt muni fara eins og það á að fara því öðruvísi geti það ekki farið. Það eru háværu konurnar sem vaða fram með látum og ryðja veginn en ekki síður rólegar konur sem með hógværu og látlausu yfirbragði hola steininn hægt og rólega þar til á endanum er ekki annað hægt en að veita því athygli. Það eru eiginlega allar konur. Allar konur sem ég hef hitt búa yfir eiginleikum sem ég lít upp til. Ég virði þær og dáist að þeim fyrir styrkleikana, ekki síst fyrir styrkinn sem felst í viðkvæmninni og berskjölduninni. Því í viðkvæmninni felst mikill styrkur. Ég kenni dætrum mínum markvisst að hugrekki felst í því að gera það sem þær vilja, þrátt fyrir að þær séu dauðhræddar og óöruggar í fyrstu, jafnvel alltaf. Ég held að allar sterkar konur geri sér grein fyrir því að í viðkvæmni felst styrkur.