12. mars 2021


Fyrirmyndir geta skipt miklu máli og haft áhrif á mótun einstaklinga og val þeirra á námi og störfum. Af hverju hafði mér aldrei dottið í hug að verða verkfræðingur? Það sagði mér enginn að ég gæti það ekki, en það var heldur enginn kvenkyns verkfræðingur í mínu umhverfi. Af hverju vildi ég verða búðarkona og flugfreyja þegar ég var lítil stelpa? Voru það sýnilegu störfin sem konur sinntu? Fyrirmyndir síast inn í undirmeðvitund okkar og það er ferlega erfitt að uppræta þær og jafnvel erfiðara að koma auga á þær staðalímyndir sem þær leiða af sér.
Það er ekki meðvitað val að okkur finnist eðlilegra að konur eldi matinn og sjái um heimilisþrif á meðan karlar gera við bílinn og skipta um ljósaperur. Ég ákvað ekki sjálf að mér fyndist leikskólakennari og hjúkrunarfræðingur vera kvennastörf og framkvæmdastjóri og lögregluþjónn vera karlastörf. Það er ekki börnunum að kenna að stelpurnar vilja vera prinsessur á öskudaginn og strákarnir ofurhetjur. Þessi viðhorf má rekja til samfélagslegra vandamála sem eiga sér djúpar rætur og engar tilbúnar skyndilausnir. Staðalímyndir eru afleiðing fyrirmynda og birtingamynda kynjanna sem umkringja okkur frá blautu barnsbeini í auglýsingum, sjónvarpi, kvikmyndum, bókum, fréttum og daglegu lífi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. 

En af hverju datt mér ekki í hug að ég gæti orðið verkfræðingur?

Afburðanámskona í öllum fögum, þá sérstaklega raungreinum þar sem ég fór leikandi létt í gegnum stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði. Samt hvarflaði aldrei að mér að skoða háskólanám í þessum fögum og hvað þá verkfræði eða tölvunarfræði. Það var bara ekki einu sinni inni á radarnum hjá mér. Þarna hefur mig greinilega skort fyrirmyndir og þess vegna tek ég fagnandi verkefnum eins og Stelpur og tækni á vegum HR, sem hefur það að markmiði að vekja áhuga ungra stúlkna á tækninámi. 
Það vildi þó þannig til að vinkona mín var hugrökk og skráði sig í heilbrigðisverkfræði. Mér fannst námið hljóma virkilega spennandi og sameina mín helstu áhugasvið, mannslíkamann og raungreinar.

En ég hugsaði samt að það væri alveg ómögulegt val því það væri alltof erfitt og flókið nám fyrir mig. Þessi vinkona mín, sem hafði farið með mér í gegnum grunnskóla og menntaskóla, sagði svo við mig eftir fyrstu önnina sína “fyrst ég gat þetta, þá getur þú það”.

Það kom svo á daginn að hún hafði rétt fyrir sér og fimm árum seinna útskrifaðist ég með M.Sc. í heilbrigðisverkfræði. Áhrif jafningjafyrirmynda eru nefnilega mikil. Það er svo áhrifaríkt þegar þú sérð vinkonur þínar og stelpur á þínu reki afreka hluti sem veita þér innblástur til þess að elta þína eigin drauma. Ég hef mikið sótt í þessar jafningjafyrirmyndir í bland við hinar hefðbundnu eldri fyrirmyndir í félagsskap Ungra Athafnakvenna (UAK) en helsta markmið félagsins er að stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Stjórn UAK vill gera allt sem í valdi félagsins stendur til að jafna stöðu kynja á íslenskum vinnumarkaði með því að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Þar skipta fyrirmyndir höfuðmáli og við þreytumst ekki á því að minna á hvað þær eru mikilvægar, því auðvitað skiptir það máli að ég sjái t.d. konu sem er forstjóri til þess að undirmeðvitund mín meðtaki það að konur geta verið forstjórar.

Það er svo hvetjandi að sjá konur ögra fyrirfram ákveðnum staðalímyndum og ryðja veginn fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma. 

En hvernig getum við svo breytt þessum staðalímyndum til frambúðar? Til þess þurfum við hugrekki til þess að stíga fram, þora að fara á móti straumnum, finna kjark hjá okkur sjálfum og fá innblástur frá fyrirmyndum. 

Dropinn holar steininn og breytingin byrjar hjá okkur sjálfum.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Sígilda fyrirmyndin Helen Keller lendir á Tiktok

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Ungar athafnakonur: Feminísk leið til að bjarga umhverfinu

næsta grein
Að finna sig - mikilvægi fjölbreyttra fyrirmynda fyrir transfólk


Lesa meira um...

Ungar athafnakonur: Ef hún getur það, þá get ég það