2. september 2019

Á undanförnum árum hefur gríðarleg vitundarvakning orðið á þeim vanda sem loftslagshamfarir eru, enda eru þær eitt helsta vandamál heimsins í dag. Hitastig jarðarinnar fer sífellt hækkandi og er það að stærstum hluta af mannavöldum. Við vitum að vandamálið er til staðar. Við vitum að mannkynið hefur átt stóran þátt í að skapa vandamálið og með tímanum höfum við komist að mögulegum lausnum vandans.

Tengingin á milli kvenréttindabaráttu og loftslagsmála er alls ekki augljós. Hins vegar er nokkuð ljóst að bæði málefnin eru mannréttindamál.

Ungar athafnakonur og stjórn okkar, gátum einfaldlega ekki annað en tileinkað einn viðburð síðasta starfsárs umhverfismálum. Þar sem aðalbaráttumál okkar er jafnrétti kynjanna fannst okkur tilvalið að sameina þessi tvö málefni og fá fleiri baráttuglaða einstaklinga að borðinu. Við settum okkur því í samband við Unga umhverfissinna og ákváðum að halda opinn viðburð á vegum félagana tveggja.

Viðburðurinn bar yfirskriftina „Feminísk leið til að bjarga umhverfinu” en tilgangur hans var að skapa öruggan vettvang til að ræða loftslagshamfarir, þau vandamál sem þær hafa í för með sér og mögulegar lausnir. Þar að auki vildum við velta upp tengingunni á milli umhverfismála og jafnréttismála.

Við fengum Rakel Guðmundsdóttur til að stýra umræðum kvöldins en hún býr yfir mikilli þekkingu á umhverfismálum. Auk Rakelar fengum við Þóru Arnórsdóttir, fjölmiðlakonu, til að vera með hugvekju, en hún hefur lengi brunnið fyrir málaflokknum. Rakel og Þóra fylltu gesti viðburðarins miklum eldmóði. Þær fjölluðu báðar um mikinn ágang mannfólksins á auðlindir jarðar og hvernig við höfum síðan seint á sjöunda áratug síðustu aldar haldið ótrauð áfram að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið.

En nú þarf að vakna og gera eitthvað. Ungar athafnakonur og önnur sem voru á viðburðinum voru sammála um að nú væru loksins orðin einhver vatnaskil þar sem fleiri væru farnir að hafa áhuga á umhverfismálum og viðburðurinn okkar renndi svo sannarlega stoðum undir þá fullyrðingu. Á viðburðinum sköpuðust afar lifandi og áhugaverðar umræður. Farið var um víðan völl í umræðum þetta kvöldið en rauði þráðurinn var samband jafnréttis- og umhverfismála.

Ungar athafnakonur

1. AUKIN KVENRÉTTINDI FYRIR LOFTSLAGIÐ

Hvað er það sem hefur gert það að verkum að loftslagshamfarir eru til staðar og hvers vegna hefur ekki verið gripið inn í fyrr? Þrátt fyrir að einstaklingsframtakið hafi oft verið nefnt er óhjákvæmilegt að líta til fyrirtækja og ábyrgðar þeirra í þessu samhengi. Athyglisvert dæmi er sú staðreynd að aðeins 100 fyrirtæki Bandaríkjanna bera ábyrgð á u.þ.b. 70% af allri losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum.

Það sem er í raun enn athyglisverðara er að karlar eru í miklum meirihluta forstjóra þessara fyrirtækja. Það er óhætt að segja að heiminum hafi lengi vel verið stjórnað af karlmönnum. Fleiri karlar eru þjóðarleiðtogar og fleiri karlar stjórna stærstu fyrirtækjum heimsins.

Hingað til hafa konur yfirleitt ekki tekið jafnan þátt í ákvarðanatökum er varða umhverfismál enda hafa þær ekki notið sömu forréttinda og þeir karlar sem hafa ákvarðanavaldið. Eins og Rakel benti okkur á er augljóst að aukin réttindi kvenna hafa jákvæð áhrif á loftslagið. Réttindi eins og menntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu geta haft áhrif á að öðruvísi eða að minnsta kosti fjölbreyttari ákvarðanir verði teknar.

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er gríðarlega mikilvæg og nauðsynlegt að beygja frá þeirri græðgi sem hefur lengi vel einkennt fyrirtækjarekstur.

2. KONAN OG UMHVERFIÐ

Það var áhugavert að velta fyrir sér hinu margumtalaða kvenlega eðli og hvernig það horfir við okkur þegar kemur að umhverfismálum. Sterka tengingu má sjá milli þess sem talið er vera kvenlegt annars vegar og umhverfisins hins vegar. Þar má meðal annars nefna hvernig við tölum um umhverfið og hvernig það smitar mögulega út frá sér ákveðnum hugmyndum.

Við tölum til dæmis um móður jörð sem er bein tenging við konuna. Þóra Arnórs talaði einnig um hvernig litið væri á áhuga á umhverfismálum sem kvenlegt áhugamál „fyrir konur”. Það að hafa áhuga á umhverfismálum, plöntum og dýrum hefur lengi vel verið talið kvenlegt og má sjá ýmsar birtingarmyndir þessara hugsanatengsla í dag, m.a. að fleiri konur tala um umhverfismál opinberlega.

Í umræðunni um loftslagsmál og feminískar áherslur þarf að gæta þess að þetta verði ekki ,,kvennavandamál“ sem konur eigi að takast á við einar. ,,Við eigum ekki að eigna okkur vandamálið það mikið að aðrir geti fríað sig ábyrgð,“ sagði Þóra. Allir eiga að tala um umhverfismál enda er þetta vandamál sem við þurfum að takast á við í sameiningu.

3. HLUTVERK INNAN HEIMILA

Á viðburðinum ræddum við einnig okkar nærumhverfi og hvort það skipti máli í umhverfissamhenginu að hafa jafnrétti innan heimilsins. Það er áhugavert að líta til þess hvernig hlutverkum innan heimila gagnkynhneigðra para er háttað. Með breyttum tíðaranda er jöfn þátttaka kynjanna innan heimilanna vissulega að aukast. Hins vegar er það enn þann dag í dag algengara að konur sinni börnum sem og miklum meirihluta heimilisstarfa. Þannig hafa þær bein áhrif á mikilvæga þætti eins og innkaup á mat- og þrifavöru.

Konur pæli meira í því hvaðan maturinn kemur, hvort þær kaupi kjöt eða grænmeti, hvernig umbúðum vörurnar eru í, hvort þvottaefnið sé umhverfisvænt eða hvort þær noti plastpoka í búðarferðinni. Þær séu því í meiri áhrifastöðu en karlar inn á heimilunum og taki því meiri ábyrgð á neyslumynstri þeirra. Þessi hlutverkaskipting gæti mögulega hindrað karla í að verða meðvitaðri um umhverfið. Það er því vert að velta því fyrir sér hvort að meira jafnrétti innan okkar nærumhverfis geti haft jákvæð áhrif á loftslagshamfarir.

4. NEYSLUHYGGJA

Neysla í vestrænum heimi hefur afar neikvæð áhrif á loftslagið. Við hikum ekki við að kaupa okkur nýtt, aftur og aftur, og erum óhrædd við að henda flíkum og öðru dóti sem við höfum notað í stuttan tíma. Í dag eru Íslendingar neyslufrekasta þjóð heims með háar kröfur til lifnaðarhátta. Rakel benti okkur á að ef allir myndu neyta eins og Íslendingar þyrfti 27 jarðir til að þola álagið.

Rétt eins og Rakel talaði Þóra um hvað við værum neyslufrek og frek á náttúruna. Nefndi hún sem dæmi magnið af fötum og snyrtivörum sem margar íslenskar konur eiga. Markaðssetning neyslunnar er talsvert grimmari og kröfuharðari á konurnar en karlana. Pressan á að kaupa sér nýjan kjól fyrir hvert tilefni og gríðarlegt magn af snyrtivörum í hverjum mánuði er svo mikil að erfitt er að láta ekki undan henni. Á sama tíma fylgir aukinni vitund um neysluhyggjuna aukin skömm.

Skömm sem í þessu tilfelli beinist að miklu leyti að konum. Flestar konur á viðburðinum könnuðust við þessa miklu neyslu og einnig skömmina sem henni nú fylgir. Hinar ýmsu hugmyndir komu fram um hvernig hægt væri að takmarka neysluna. Við getum lagt meiri áherslu á að fá lánuð föt frá vinum eða vinkonum og verslað frekar notaðar flíkur en nýjar. Við getum reynt eftir fremsta megni að kaupa okkur ekki alla varalitina sem okkur langar í eða kremin sem að næsti áhrifavaldur mælir með.

En eins mikilvægt og það er að vera meðvitaður um neysluna þá er ekki síður mikilvægt að þeir sem hvetja til hennar líti í eigin barm. Þegar sífellt er verið að segja okkur að við þurfum að eiga nýtt og kaupa allt það nýjasta er erfitt að fara á móti straumnum og gera það ekki. Tökum ábyrgð og vinnum saman gegn neysluhyggjunni.

5. STAÐALÍMYNDIR KYNJANNA

Rætt var hvernig staðalímyndir kynjanna tengjast umhverfismálum og hvernig áhrif, slæm eða góð, þær hafa. Algengara virðist vera að konur lýsi því opinberlega yfir að þær taki einstaklingsbundnar ákvarðanir sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Sem dæmi má nefna að fleiri gestir viðburðarins þekktu konur en karla sem eru opinberlega grænmetisætur eða vegan.

Við veltum því þar af leiðandi upp hvort aktívismi eins og það að gerast vegan eða keyra ekki bíl falli ekki nógu vel að hinni týpísku staðalímynd karlsins. Að einstaklingsbundnar aðgerðir til að bregðast við loftslagsvandanum passi betur við staðalímynd konunnar en karlsins. Þurfa karlar að borða kjöt eða keyra um á stórum bílum sem menga umhverfið til að teljast karlmannlegir?

Það má einnig velta því upp hvort að þessi tvö kyn líti enn til rótgróinna og gamaldags hugmynda um hlutverkaskiptingu þegar kemur að umhverfismálum. Getur verið að konur líti á það sem sitt hlutverk að taka til eftir fyrrum kynslóðir þar sem þær hafa séð um að taka til eftir karlmenn um ár og aldir? Að lokum má nefna að umræðan um umhverfismál er orðin mjög tilfinningaþrungin. Líkt og Þóra nefndi getur umræðan verið kvíðavaldandi fyrir marga. Þar af leiðandi þarf mikið hugrekki til að líta upp, ræða vandamálið og horfast í augu við það.

Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvort ein birtingarmynd karlmennskunnar, að ræða ekki vandamál eða tilfinningar sínar, geti verið einn áhrifaþáttur þegar kemur að umræðunni um loftslagshamfarir.

6. KONUR Í ÞRÓUNARLÖNDUNUM

Þegar það kemur að sambandi jafnréttismála og umhverfismála sagði Rakel frá því hvernig konur verði frekar fyrir afleiðingum loftslagshamfara. Sem dæmi má nefna að um 80% þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna aðstæðna sem má rekja til loftslagshamfara í þróunarlöndum eru konur. Með hækkandi hitastigi jarðar aukast þurrkar, flóð og aðrar náttúruhamfarir á þessum svæðum. Það er því nokkuð ljóst að ef við gerum ekkert í stöðunni munu konur á þessum svæðum tapa mest.

Einn áhrifaþáttur sem hefur hvað mestu áhrifin á loftslagsvanda heimsins er fólksfjölgun. Það er því afar mikilvægt að auka menntun kvenna á heimsvísu og veita jafnt aðgengi að fræðslu og getnaðarvörnum. Neyslumynstur og hegðun einstaklinga og fyrirtækja í hinum vestræna heimi hafa bein áhrif á þennan hóp kvenna sem hafa lítil sem engin völd til að draga úr þeim. Þessi staðreynd rennir stoðum undir tenginguna á milli kvenréttindabaráttu og loftslagsmála ásamt því að sýna fram á hvernig bæði málefnin snúast um mannréttindi.

Svo virðist sem flestir á umræðukvöldi UAK og UU hafi verið sammála um að það þurfi skýrari stjórnvaldsaðgerðir og sterkari ábyrgð fyrirtækja í þessum mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við trúum því að hægt sé að vinna saman að því að leysa umhverfisvanda heimsins með jafnrétti að leiðarljósi. Til þess þarf þó vilja, samstöðu, baráttuanda og raunverulegar aðgerðir þeirra sem hafa völd. Við Íslendingar þurfum að átta okkur á að við höfum áhrif í þessum málum og ættum að skara fram úr í málaflokknum á heimsvísu.

,,Það þýðir ekki að sitja og nöldra og gera ekkert sjálfur. Þið verðið að taka ykkur pláss og ekki láta neinn segja ykkur að þetta sé ómerkilegt,“ sagði Þóra.

Fleiri greinar eftir Ungar athafnakonur.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Náttúran: Af berjum, jörð og konum

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kynbundið ofbeldi: Birtingarmyndir hlutgervingar kvenna

næsta grein
Dropinn sem meitlar steininn


Lesa meira um...

Ungar athafnakonur: Feminísk leið til að bjarga umhverfinu