14. október 2020

Ósk Elfarsdóttir hefur undanfarið, ásamt Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, lagt sig fram við að vekja athygli á nýju stjórnarskránni. Í herferð sinni hafa þær sérstaklega beint sjónum sínum að ungmennum, en Ósk segir mikilvægt að ungmenni upplifi sig velkomin í pólitískar umræður. Í von um að efla skilning og lýðræðislega þátttöku ungmenna hafa þær stofnað instagram reikninginn @nyjastjornarskrain þar sem þær birta fræðsluefni um nýju stjórnarskránna, en auk þess hefur Gunnhildur vakið athygli fyrir Tik-tok seríu sína hvar hún hringdi í þingmenn til að spurja þá álits um nýju stjórnarskrána. Umfram allt hvetur Ósk alla til að skrifa undir undirskriftarlista sem finna má *hér*

Um helmingur þjóðarinnar tók þátt í atkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskránna árið 2012, tveim árum eftir að undirbúningur hennar hófst með kosningum til stjórnlagaþings. Kosningar leiddu í ljóst að tveir þriðju kjósenda voru sammála því að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Alþingi kaus hins vegar, í fyrsta sinn, að taka ekki mark á þjóðaratkvæðagreiðslunni. 


Er ekki fremur óvenjulegt að Alþingi kjósi að hafna niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu?

Jú það finnst mér, og mér finnst þessi niðurstaða í grunninn endurspegla þá spillingu sem þrífst í flokkapólitík. Ég og Gunnhildur, og fleiri, erum sammála því að þessi ákvörðun Alþingis sé ólýðræðisleg. Ein af helstu undirstöðureglum íslenskrar stjórnskipunar er jú, að þjóðin sé stjórnskrárgjafinn, en ekki Alþingi; ef þjóðin er fullvalda á hún að fá að ákveða hvaða stjórnarskrá hún hefur. 

Af hverju er mikilvægt að efla skilning fólks, og þá sérstaklega ungs fólks, á nýju stjórnarskránni?

Málið er að á Íslandi ríkir rosaleg spilling. Á Íslandi stjórna ákveðnir forréttindahópar samfélaginu og þótt að við séum álitin eitthvað um fimmta ríkasta ríki heims, samkvæmt höfðatölu, skilar það ríkidæmi sér ekki til þjóðarinnar. Á meðan hagnast ákveðinn hópur um tugi milljarða á ári hverju með því að nýta sér auðlindirnar okkar, þá sérstaklega sjávarauðlindirnar; jafnvel þótt þær séu skilgreindar sem eign þjóðarinnar í íslenskum lögum. Nýja stjórnarskráin var samin í gegnum lýðræðislegasta ferli sem þekkist í mannkynssögunni; þjóðin fékk að koma að gerð stjórnarskráinnar. Þegar nýja stjórnarskráin var samin varð ljóst að Íslendingar vilja leggja áherslu á ríka náttúruvernd. Við viljum að auðlindirnar okkar séu í raunverulegri þjóðareign; en 83% kjósenda sögðust sérstaklega hlynnt því að auðlindirnar yrðu í þjóðareigu. Nýja stjórnarskráin leiðir líka í ljós vilja þjóðarinnar að fá stjórnarskrá sem kveður meðal annars á um frelsi fjölmiðla, upplýsingarétt almennings, jafnt atkvæðavægi, skjóta málsferð flóttafólks og rétt til heilbrigðisþjónustu. Ég segi þetta því að þessi vilji fólksins kemur skýrt fram í nýju stjórnarskránni en samt neita stjórnvöld okkur um hana. Það er mikilvægt að ungt fólk, sem og allir, séu varir um það hvað er verið að neita okkur um með óréttmætum hætti. Nýja stjórnarskráin hefur alla burði til þess að raunverulega betrumbæta íslenskt samfélag. 

Finnst þér að þið hafið náð að vekja athygli fólks á nýju stjórnarskránni með notkun samfélagsmiðla?

Já, það er hægt að ná til svo margvíslegra hópa í gegnum samfélagsmiðla. Það hefur til dæmis borgað sig að deila undirskriftarlistanum grimmt á samfélagsmiðlum. Við erum vel á minnst búin að slá Íslandsmet í staðfestum undirskriftum. Það hjálpar líka hversu auðvelt er að skrifa undir; hægt að notast við rafræn skilríki og nafnið þitt er komið á lista eftir nokkrar sekúndur. Við stefnum síðan á að afhenda Alþingi undirskriftarlistann 20. október næstkomandi, á átta ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána. Með því að nota samfélagsmiðla vonumst við til þess að gera umræður um nýju stjórnarskrána aðgengilegri. Öll pólitísk umræða getur almennt virkað mjög fráhindrandi, sérstaklega fyrir ungt fólk. Pólitík er oft ekki á mannamáli og þess vegna sækist almenningur ekki eins mikið í það að kynna sér þau eins og þau ættu að gera. Ég held samt að það sé að breytast; yngri kynslóðir eru mjög aktívar í að tjá sig um pólitísk málefni á samfélagsmiðlum; og það hjálpar við það að gera þau aðgengilegri. Við erum lausnamiðuð, róttæk og nennum þessu rugli ekki lengur. 

Hafið þið miðað herferðinni eitthvað utan samfélagsmiðla?

Algjörlega, við höfum verið á fullu við að ‘graffa’ kröfur okkar á gangstéttarhellur út um allan bæ. Við skipulögðum og héldum friðsamleg mótmæli núna 3. október. Við höfum einnig unnið og birt auglýsingar, þar sem meðal annars Páll Óskar, Jón Gnarr og aðrir ungir áhrifavaldar og listamenn komu fram. Auglýsingarnar miðuðu að því að hvetja fólk til að skrifa undir kröfu okkar um nýju stjórnarskránna. Mér finnst gott að sjá hversu margir eru að berjast fyrir nýju stjórnarskránni og vilja sjá hana taka gildi. Við verðum að láta í okkur heyra; sýna að við höfum ekki gleymt kröfu þjóðarinnar — Þótt það sé í raun fáránlegt að þurfa að koma svona að þessu, þá er okkur fúlasta alvara. 


Mun pólitíkin hlusta á ykkur?

Það er erfitt að segja til um hvernig þetta mun allt spilast út, en það eru erfiðir tímar í samfélaginu; fólk er atvinnulaust, á alltof lágum bótum og ég held persónulega að það muni leiða til ólgu í samfélaginu. Sérstaklega ef það myndast aftur hægri stjórn eftir næstu kosningar; þá held ég, án þess að hljóma eitthvað út í hött, að það muni leiða til byltingar. Fólk er komið með upp í kok. Vitund um stjórnarskrá þjóðar vaknar líka oft á tímum upprótar í samfélaginu. Gildandi stjórnarskrá var einmitt samþykkt í seinni heimstyrjöldinni; á þeim tímum ríkti ólga sem hvatti Íslendinga til að losa sig við kónginn. Þess vegna er tíminn núna; það segir heimssagan og stjörnurnar líka. 

Við Íslendingar höfum alltaf verið gjörn að státa okkur af náttúrunni og jafnrétti; af hverju heldurðu að við séum samt svona hrædd við að staðfesta þær hugsjónir í stjórnarskránni?

Við svoleiðis auglýsum okkur fyrir að búa við óspillta náttúru, hreint loft og mikilfengleg fjöll, en samt er ekkert ákvæði um náttúruvernd í stjórnarskránni? Hvernig stenst það? Það vantar bara hugrekki. Íslenska þjóðin hefur aldrei samið stjórnarskrána sína af því leyti sem hún samdi nýju stjórnarskrána og þess vegna gæti fólk verið hrætt við hana efnislega; en það er vitleysa. Í grunninn snýst þetta bara um að ákveðnir forréttindahópar vilja viðhalda spillingu því þeir eru hræddir við að missa völd. 

Þið hafið sérstaklega nefnt spillingu kvótakerfisins?

Einmitt. Gögn sýna að kvótaeigendur og útgerðarfyrirtæki hafa hagnast að meðaltali um 44.7 milljarða á ári frá hruni. Fyrir þann pening væri hægt að reka Landspítalann í sjö mánuði, halda tíu Eurovison keppnir eða eða greiða fleiri en 11.000 einstaklingum lágmarkslaun í heilt ár. Og hér erum við bara að reikna út hagnað frá einu ári. En í stað þess að bæta samfélagið að einhverju leyti liggur þessi peningur, sem ætti að renna til þjóðarinnar, hjá útvöldum valdahópum. Það liggja nú þegar fyrir umræður á þingi um breytingar á nýju stjórnarskránni, tæki hún gildi; það sýnir græðgina. Þingið hefur heimild fyrir því að hnoða saman stjórnarskrár breytingum samkvæmt þessari úreltu stjórnarskrá sem er núna í gildi. Ríkisstjórnin er núna með tilbúið ákvæði um auðlindir í rassvasanum sem er bara ‘basically’ framhald af núverandi kvótakerfi og veiku náttúruverndarákvæði. Það ákvæði talar ekki um rétt náttúrunnar eða framtíð kynslóða; og ég bara veit ekki hvað forsætisráðherra okkar er að spá. Ég býst við því að það komi mikill hiti í fólk þegar þau birta ákvæðið; það verða mótmæli og vonandi náum við þá að keyra heim mikilvægi nýju stjórnarskráinnar. 

Skilur nýja stjórnarskráin sig frá þeirri núverandi að einhverju öðru leyti?

Já, nýja stjórnarskráin felur í sér ýmsar stjórnarskrárbætur þó svo hún byggi í grunninn á sömu stjórnskipun og við erum með núna. Nýja stjórnarskráin er sömuleiðis sett fram á skýrari hátt. Nýja stjórnarskráin talar til dæmis um að öllum skuli tryggð vernd frá kynferðisofbeldi. Slíkt ákvæði er ekki til staðar í gildandi stjórnarskrá. Hið sama má segja varðandi ákvæði nýju stjórnarskráinnar um náttúruvernd og svo heilbrigðisréttinn. Í nýju stjórnarskránni eru að finna ákvæði sem byggja á því að fólk geti lifað með mannlegri reisn; geti lifað á laununum sínum. Það á að vera svo sjálfgefið að hjálpa fólki sem á engan samastað; hjálpa fólki sem er á götunni eða ekki með vinnu; fólki sem glímir við neyslu. Það eiga líka ekki 6000 börn að lifa í fátækt á Íslandi, það er fáránlegt. Og já, nýja stjórnarskráin talar líka fyrir frelsi fjölmiðla og upplýsingarétt almennings, sem er ótrúlega mikilvægt en finnst samt ekki í núverandi stjórnarskrá. Svíþjóð hefur verið með þannig ákvæði síðan 1766. Ákvæðið um frelsi fjölmiðla gefur okkur færi á að vera vör um hvaða aðilar eiga hvaða fjölmiðla; hvaða hagsmunir geta legið á bakvið ákveðinn fréttaflutning eða skoðanir. 


Hvað kemur til að samtök kvenna séu í sérstökum fararbroddi í þessari baráttu?

Það virðist ríkja mikill áhugi hjá konum; það gæti verið vegna auðlinda- eða náttúruauðlindaákvæðisins. Ég held líka að svo sé vegna þess að það var með sanni þjóðin sem tók þátt í því að semja nýju stjórnarskrána og þar fengu konur að koma að, sem er ekki hægt að segja um gildandi stjórnarskrá. Nýja stjórnarskráin er meðal annars skrifuð af konum, hinsegin fólki, fólki með fötlun og það skiptir máli. Það meikar ekki sense að verja stjórnarskrá sem var skrifuð af dönskum hvítum körlum fyrir allt annað land. 

Telur þú að ungt fólk hafi minna álit á þingmönnum en áður?

Já ég myndi segja það; það ríkir meira vantraust en áður. Og ég meina lýsir það sér ekki í því að maður reynir að kjósa Katrínu Jakobsdóttur í góðri trú og svo er hún núna að reyna að búa bara til ömurlegasta náttúruverndarákvæði sem ég hef séð, skilurðu hvað ég meina? Ég fékk endanlega nóg við að sjá það; Hvað á maður að gera? Eru allir gegnumsýrðir af valdafíkn og græðgi? 

Þú nefndir einnig mikilvægi þess að rækta gagnrýna hugsun gagnvart nýju stjórnarskránni?

Já, ég nefni það vegna þess að nýlega lauk ég meistaranámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og í náminu var aldrei talað almennilega um nýju stjórnarskrána; ef það var talað um hana var gert lítið úr henni, án þess að því fylgdi efnislegur rökstuðningur. Umræður okkar um nýju stjórnarskrána sendu þau skilaboð að hún væri óþörf þar sem við „hefðum það hvorteð er svo gott“. Svona skilaboð eru lituð af forréttindablindu. Og ég pikkaði upp af þessari umræðu í laganáminu og var um tíma á móti nýju stjórnarskránni og talaði gegn henni. Á þeim tíma hafði ég aldrei kynnt mér hana upp á eigin spýtur og því treysti ég því neikvæða umtali sem var í kringum mig. Fólk var að nefna fræðimenn sem töluðu á móti henni og ég veit ekki hvað og hvað. En síðan fór ég sjálf að skoða málin; líta á rökin og beita gagnrýnni hugsun og þá var alveg ljóst að margt af því neikvæða sem var haldið fram um nýju stjórnarskrána stóðst bara ekki; og hver sá efi sem fannst hjá þeim ónafngreindu fræðimönnum sem var gjarnan vitnað í, var ekki eins slæmur og hafði verið gefið í skyn. Að lokum áttaði ég mig á því að ég væri fylgjandi nýju stjórnarskránni, en um leið var mér brugðið hvernig fólkið í kringum mig hafði talað um hana. Það var eiginlega áfall, mér fannst ég svo svikin. Það er valdamikill og auðsterkur hópur í samfélaginu  sem hefur hagsmuni af því að halda í gildandi stjórnarskrá; fólk sem mun ganga langt til að sjá til þess að hún haldist. Þess vegna er mikilvægt að fólk kynni sér málin sjálft fremur en að leggja trú sína á einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Heimilisleysi er kynheilbrigðismál

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kvenlæg gildi: Mýkt er máttur

næsta grein
Fötluð lyftingarkona sem enginn þekkir


Lesa meira um...

Nýja stjórnarskráin hefur alla burði til þess að raunverulega betrumbæta íslenskt samfélag.