14. október 2020

Umfjöllun um heimilislausa einstaklinga og fólk sem búa við óöruggar aðstæður hefur verið áberandi undanfarna daga, og rödd þeirra sem eru heimilislaus hefur fengið verðskuldað pláss í fjölmiðlum.

Heimilislausir einstaklingar eru eins mismunandi og þau eru því miður mörg en flest eiga þau sameiginlegt að hafa með sér ýmsa erfiða reynslu og áföll í bakpokanum. 

Annað sem heimilislausir einstaklingar eiga sameiginlegt er að þau eru ólíklegri en fólk sem er ekki heimilislaust til að leita sér heilbrigðisaðstoðar þegar þau þurfa á henni að halda. Ástæður fyrir því geta verið skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar, opnunartíma og vegna þess að það reynist einstaklingum erfitt að komast að þeirri þjónustu sem þau þurfa (t.d með tillit til samganga), og vegna fordóma og samskiptaleysi heilbrigðisstarfsfólks (Eiríksdóttir og Marvinsdóttir, 2009). Þetta á þá einnig við heilbrigðisþjónustu vegna kynheilbrigðismála. Kynheilbrigðismál sem heimilislausir einstaklingar leita sér ekki heilbrigðisþjónustu við geta verið ýmsar sýkingar eða kynsjúkdómar, getnaðarvarnir, óþægindi við samfarir, aðstoð eftir kynferðisofbeldi, o.s.frv.

Heimilislaust fólk sem fer á túr hefur jafnvel ekki aðgengi að tíðarvörum og hafa ekki greitt aðgengi að salerni yfir daginn til þess að skipta um tíðarvörur.

Mörg sem eru heimilislaus hafa ekki fengið, og fá ekki, viðeigandi kynfræðslu sem henta þeirra þörfum og tekur tillit til þeirra aðstæðna.

Erlendar rannsóknir benda til þess að meirihluti heimilislausra séu með lágt menntunarstig (Aleman, 2016) og má því draga þá ályktun að þau hafa ekki fengið mikla formlega kynfræðslu og hafa heldur ekki aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum um kynheilbrigðismál. Það hefur verið hávær umræða undanfarin ár að kynfræðsla hefur ekki verið nógu góð í skólakerfinu og kallað hefur verið eftir bættri fræðslu þar. Þá megum við ekki gleyma þeim sem sækja sér ekki hefðbundið nám en heimilislaust fólk sem hefur ekki sótt sér mikla menntun, og leitar sér ekki mikillar heilbrigðisaðstoðar, fær ekki þá kynfræðslu sem þau þurfa og hentar þeim.

Þau vita því heldur ekki hvert þau geta leitað vegna ýmissa kynheilbrigðismála og jafnvel ekki hvenær er ástæða til.


Mörg sem eru heimilislaus vinna við kynlífsvinnu (e. sex work). Það eru allskonar ástæður fyrir því af hverju fólk kýs að starfa við kynlífsvinnu almennt en ástæður fyrir því að heimilislaust fólk leitar í það starf geta verið ýmsar. Til dæmis vegna þess að það þarfnast ekki mikillar sérhæfðar þekkingar og getur tekið stuttan tíma að þjónusta í hvert skipti og getur tímakaupið verið hátt miðað við aðra vinnu, en vert er að nefna að fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir er takmarkað framboð af atvinnutækifærum á Íslandi. Einnig er stór kostur að það er ekki bundið við ákveðinn tíma dags og getur fólk oftast nálgast kúnna hvenær sem er sólahringsins.

Þegar talað er um kynlífsvinnu er mjög mikilvægt að greina á milli ofbeldis og vinnu. Kynlífsvinna í sjálfri sér er ekki ofbeldi, þó svo að ofbeldi sé oft rætt þegar kemur að umræðu um kynlífsvinnu. Að kalla kynlífsvinnu ofbeldi, getur búið til mikla þolendaskömm hjá þeim einstaklingum sem verða fyrir ofbeldi í starfi, þá geta þolendur þá upplifað með þeirri umræðu, að ofbeldið sé þeim sjálfum að kenna, til dæmis ef þau sjálf óskuðu eftir kúnna eða ákváðu sjálf að fara í aðstæður þar sem ofbeldi átti sér svo stað. Því er mikilvægt að greina á milli þess að þjónusta kúnna, þar sem samþykki og ákveðin samningur liggur fyrir og þegar kúnni beitir ofbeldi. 

Kúnnar þeirra sem starfa við kynlífsvinnu eru eins mismunandi og þau eru mörg og líkt og í öllum öðrum þjónustustörfum eru kúnnar ekki gerendur ofbeldis fyrr en þau beita ofbeldi.

Það er þó þannig, að heimilislaust fólk sem stundar kynlífsvinnu, getur verið útsettara fyrir ofbeldi í vinnunni sinni. Ein ástæða fyrir því, sem jú er nokkuð stór og kannski augljós ástæða, er heimilisleysið. Þau hafa þá oft ekki aðgengi að öruggum stað til þess að þjónusta kúnna og eru útsettari fyrir ofbeldi ef þau þurfa fara á stað þar sem þau eru ekki örugg, þekkja ekki útgönguleiðir og eiga erfiðara með leita sér aðstoðar ef þau verða fyrir ofbeldi. Þegar einstaklingur hefur ekki eigin, örugga, aðstöðu til vinnu, getur verið erfiðara að fá kúnna. Þau geta upplifað meiri streitu og verið minna varkár, heldur en ef þau hefðu sitt eigið heimili og þar af leiðandi sína eigin aðstöðu. Þá getur það verið í sumum aðstæðum að þau fá minna greitt fyrir þjónustu sína, heldur en ef þau hefðu eigin aðstöðu og að kúnninn þurfi ekki sjálfur að útvega aðstöðuna.


Heimilislaust fólk í kynlífsvinnu er oft í meiri neyð heldur en fólk sem á öruggt húsaskjól sem gerir þau einnig útsettari fyrir ofbeldi. Greiðslan fyrir kynlífsvinnuna er ekki endilega alltaf bara peningur, en getur líka verið þak yfir höfuðið eða vímuefni. Neyðin gerir það að verkum að það verði erfiðara að setja mörk, eða neita ákveðinni þjónustu, ef neyðin er mikil. Þá eru heimilislausir einstaklingar ólíklegri til að ná að bakgrunnskoða kúnna sína sem gerir starfið áhættusamara. Heimilislausir einstaklingar sem nota vímuefni eru þá ólíklegri til að nota smokka vegna þess að þau hafa ekki fengið viðeigandi fræðslu, hafa ekki efni á þeim eða hafa ekki aðgengi að kynsjúkdóma- og getnaðarvörnum.

Ef heimilislausir einstaklingar verða fyrir ofbeldi í starfi, eru þau ólíklegri til að tilkynna ofbeldið sem þau verða fyrir og leita sér viðeigandi aðstoðar, vegna umræðu um kynlífsvinnu auk þolendaskömmunar (Sprankle 2018). Fordómar og fyrri reynsla við viðeigandi aðila, t.d í heilbrigðiskerfinu og innan lögreglu getur verið stór hindrun fyrir þennan hóp að nýta sér þá aðstoð sem þau þurfa og eiga rétt á.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem hafa mikil forréttindi að berjast fyrir að allir hafi eigið húsnæði.

Það er líka mikilvægt að styrkja verkefni líkt og Frú Ragnheiði, sem þjónustar heimilislaust fólk og fólk sem notar vímuefni í æð, til þess að bæta heilsu þeirra og velferð skjólstæðinga sinna, meðal annars með kynheilbrigðisfræðslu.

Við þurfum líka að hlusta á raddir fólks sem heimilislaust og fólks í kynlífsvinnu, fræðast um stöðu þeirra og notað hlutlaus orð um kynlífsvinnu heldur en þau neikvætt hlöðnu orð sem hafa verið notuð áður til þess að stuðla að minni skömm í kringum þennan málaflokk. Við getum styrkt og fylgst með Rauðu Regnhlífinni (t.d á Facebook), en það eru samtök aktívista sem berjast fyrir öryggi og réttindum fólks í kynlífsvinnu.— — —

Aleman, A. (2016). Education & Homelessness. Sótt 14. september 2020 af www.homelesshub.ca/blog/education-homelessness

Eiríksdóttir, H. R. og Marvinsdóttir, K. (2009). Heilbrigðisþarfir heimilislausra kvenna, 60.
Sprankle, E., Bloomquist, K., Butcher, C., Gleason, N. og Schaefer, Z. (2018). The Role of Sex Work Stigma in Victim Blaming and Empathy of Sexual Assault Survivors. Sexuality Research and Social Policy, 15(3), 242–248. doi:10.1007/s13178-017-0282-0

— — —

Höfundur er kynfræðingur, fyrrum starfsmaður neyðarskýlis fyrir heimilislausar konur og sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Uppgjör við kynjahalla listaheimsins

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Exótískur dans: Þitt eigið kynferðislega tjáningarfrelsi

næsta grein
Nýja stjórnarskráin hefur alla burði til þess að raunverulega betrumbæta íslenskt samfélag.


Lesa meira um...

Heimilisleysi er kynheilbrigðismál