*TW* Minnst er á kynferðisofbeldi.
Ég velti fyrir mér virðingu í nútímanum. Hvað er virðing og hvernig sýnum við hana? Þegar virðingu er flett upp í orðabók1 er gefið upp að virðing sé kvenkyns nafnorð en öll dæmin eru í karlkyni. Þó virðing sé kvenkyns nafnorð þá er konum ekki alltaf sýnd virðing. Það er hægt að segja að grunnþörfum kvenna sé ekki mætt í hversdagsleikanum og er nóg að taka sem dæmi skort á dömubindum og túrtöppum á almenningsklósettum. Það er á ábyrgð okkar kvenna að vera vopnaðar og ávallt tilbúnar.
Ímyndum okkur að geta ekki skeint sér eftir óvæntan niðurgang fjarri heimilinu og að hafa gleymt klósettpappírnum, því þú gerðir ekki ráð fyrir að þurfa að skeina þér. Væri þetta svona ef allir færu á túr? Einhvern veginn efast ég um það. Það að setja smokka og dömubindi í sama flokk er svo afskaplega absúrd og fáránleg hugmynd og sýnir þeim sem fara á túr vanvirðingu. Konum er nú þegar sýnd sú mikla vanvirðing að leggja svokallaðan bleikan skatt á nauðsynjavörur. Það að krefjast þess að fá eitthvað í staðinn á karlaklósett er einnig vanþekking á líkamsstarfssemi kvenna, þeir sem vilja eitthvað í staðinn mega fá túrverkina mína frítt.
Það að þrjátíu og sjö trúarfélögum sé boðið að skila inn umsögn um frumvarp um þungunarrof, tólf ríkisstofnunum en ekki nema einu femínísku félagi er óborganlegt djók. Legið mitt hefur verið utan trúfélaga í þónokkur ár. En ekki kemur á óvart að háværustu gagnrýnisraddirnar frá trúfélögum séu karlar sem fá að viðra skoðanir sínar í hátalarakerfi fjölmiðla.
Bróðir minn er faðir þriggja barna og hann segist hafa orðið meðvitaðri um framkomu sína og sýni meiri virðingu eftir komu barnanna. Því jú, börn læra það sem fyrir þeim er haft. En hví erum við allt í einu meðvitaðri þegar við erum orðin fyrirmynd fyrir börnin okkar? Við erum fyrirmyndir áður en við erum búin að gera afrit af genunum okkar. En getum við sagt að við séum að sýna börnunum okkar virðingu í uppeldinu? Við ljúgum um tilvist góðra ævintýralegra vera sem jú, gleðja en á sama tíma er verið að rækta ákveðið vantraust.
Við neitum þeim um nammi og tölum um skaðsemi þess en svo troðum því svo í okkur eftir að börnin eru sofnuð. Við segjum í ýmsum aðstæðum; NEI! Þetta er fyrir fullorðna! Þetta er of flókið fyrir þig! Passa sig! Virðum við þau með því að grípa fram fyrir hendurnar á þeim og skýla þeim? Umhyggja og tilfinningar flækja oft hvernig við sýnum virðingu. Við krefjumst virðingar frá þeim en erum ekkert alltaf að sýna þeim gagnkvæma virðingu.
Þegar ég var lítil fór mamma oft með þessa vísu fyrir mig:
Farð’ að sofa, blessað barnið smáa,
brúkaðu ekki minnsta fjandans þráa.
Haltu kjafti! Hlýdd’ og vertu góður!
Heiðra skaltu föður þinn og móður.
Virðum foreldra okkar og þau sem eru eldri eða æðri en hvað með að virða okkur sjálf? Við skulum bara segja að ég fattaði ekki alveg djókið í vísunni.
Fyrir mér er virðing að skilja, að hlusta og taka mark á öðrum. Ég hef upplifað það sem kona að þurfa að vinna mér inn virðingu. Koma mér í stöðu þar sem ég finn að ég geti unnið mér inn virðingu. Ég stundaði það að vinna strákana í póker á bókasafninu í Hagaskóla og sýndi fram á það að ég ætti alveg heima með strákunum.
Karlalandsliðið fyllir Laugardalsvöll en það þarf átak og hvatningu til að fylla hann fyrir kvennaliðið. Strákar sem sparka í bolta eru einhvern veginn betri eða mikilvægari en stelpur sem sparka í nákvæmlega eins bolta. Minningu listamanna er frekar haldið á lofti en listakvenna og líklegra að það sé hangandi mynd af naktri konu á listasafni heldur en mynd eftir konu. Á bakvið hvern merkan kall var sögð vera merk kona, í skugga hans. Eigum við ekki að fara að draga þær fram í dagsljósið?
Byrjunarstaða okkar hefur verið ráðin frá fæðingu okkar og virðingarstigagjöfin hafin. Það skiptir máli hvaða kyn við fæddumst sem, í hvaða póstnúmeri einstaklingur býr í, hvað foreldrarnir gera og hver virðingastaða þeirra er. Hverjir vinirnir eru á Facebook, hvað einstaklingurinn fær mörg læk á mynd á Instagram. Hversu margir koma í jarðaförina þína þegar þú deyrð.
Svo virðist sem virðing geti aukist eftir dauðann. Eins og klassísku dæmin um málarann van Gogh, ljóðskáldið Emily Dickinson og rithöfundinn Oscar Wilde (saga virðingarrússíbana hans er efni í aðra grein). Öll voru þau metin miklu meira eftir dauða sinn en á lífstíð sinni. Er það sanngjarnt?
Er kannski auðveldara að bera virðingu fyrir þeim látnu því þau eru ekki að fara gera neitt nýtt? Þau hafa ekkert meira að segja og allt sem þau gerðu er opið fyrir túlkun annarra og þau geta ekki neitað.
Til eru ýmsar gerðir af virðingu. Með ógn eða skelfingu er hægt að vinna sér inn ódýra virðingu, þar sem þú sýnir einhverjum virðingu vegna ótta eða af skyldu. Eins og með aðalhetjurnar í sögubókunum, auðvitað voru allir karlkyns sem fólk bar virðingu fyrir vegna þess að því fannst það knúið til þess þrátt fyrir að þeir hafi ollið stríðum og styrjöldum. Einræðisherrar sem halda fólki í gíslingu með því að vanvirða skoðanir þeirra og hleypa þeim ekki að borðinu í umræðum. Berum við virðingu fyrir fólkinu sem ber óttablendna virðingu fyrir einræðisherrum?
Í mörgum tungumálum er notast við þéranir, þú sýnir virðingu án þekkingar um stöðu ókunnugra en vilt sýna þeim kurteisi og virðingu. Einhverskonar tungumálsbundin virðing.Við íslendingar þérum ekki í daglegu tali. Við í besta falli kvittum undir tölvupósta; virðingafyllst. En erum við full af virðingu?
Eða frekar bara full af okkur sjálfum.
Þegar ég var tólf ára áttaði ég mig fyrst á því að ég gæti ekki unnið mér inn virðingu með því að sýna að ég væri klár og hefði skoðanir á málum líðandi stundar: stríðinu í Palestínu og kvenréttindum, umhverfismálum og Kárahnjúkavirkjun. Ég hlustaði á aðra segja sína skoðun en fékk ekki að viðra mína eigin vegna aldurs og var sökuð um að tala of mikið og ég ætti frekar að þegja og hlusta. Jafnaldrar mínir botnuðu lítið í mér og gerðu oft lítið úr skoðunum mínum. Ég öðlaðist ekki virðingu með því en hins vegar gat ég klipið frá mér (afsakið þeir sem eruð með ör eftir þumalnöglina mína — ég vona að það grói sem bros:)).
Þegar ég skrifaði ritgerð upp úr Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason vorið 2006 sendi ég spurningalista á nokkra fullorðna einstaklinga varðandi skoðanir þeirra á umhverfismálum og hvar þau stæðu gagnvart náttúrunni okkar. Formaður Landsvirkjunar á þessum tíma svaraði og virtist ekki bera mikla virðingu fyrir tólf ára mér. Hann talaði niður til mín og reyndi að snúa út úr því sem ég spurði um. Ég var þá 12 ára nemi í Melaskóla sem vildi aðeins fá svör um hverju það skilaði að sökkva dásemdar landsvæði undir virkjun og lón. Ég kleip hann ekki — þó að mig langaði til þess.
Fyrsta kynlífsreynsla mín var uppfull af virðingarleysi. Ég þagði um óþægilega framkomu fyrrum vinar vegna virðingar við hann (eitthvað sem hann sýndi mér ekki þegar ég þurfti að ýta honum ítrekað ofan af mér). Enn þann dag í dag finnst mér ég eiga að hylma yfir því sem gerðist til að sverta ekki mannorð hans og tala því um óþægindi í stað áreitis. Ég vil ekki vanvirða hann.
Ég er undir meðalhæð, tiltölulega krúttleg og með miklar skoðanir. Ég hef ógnað fólki með stóru skapi og ríkri réttlætiskennd. Ég hef jafnframt upplifað vanvirðingu sem og sýnt sjálfri mér litla sem enga virðingu. Komið hafa tímar þar sem mér finnst ég ekki einu sinni eiga mína eigin virðingu skilið. Slík upplifun getur verið lífshættuleg fyrir líkama og sjálf.
Virðing fyrir sjálfri mér er eitthvað sem ég er enn, 25 og hálfs árs, að læra. Að vita hvar mín eigin mörk liggja, ég megi segja nei við plasti í búðum og við kjöti í fjölskylduboðum af virðingu fyrir umhverfinu. Ég megi virða líkamlegar þarfir mínar um næringu, svefn og fullnægju. Ég hef lært að ég þurfi ekki alltaf að halda kjafti, hlýða og vera góð þrátt fyrir að það sé til að sýna virðingu.
Elsku mamma og pabbi, ég virði ykkur en mér finnst mikilvægara þegar allt kemur til alls að virða sjálfa mig.
Gagnkvæm virðing:
• Að virða skoðanir annarra
• Að virða trúarbrögð annarra
• Að virða venjur og siði annarra
• Að virða lífshætti annarra (mataræði, hreyfingu ofl.)
• Að virða kynþætti, kynferði og kynhneigð annarra
• Að virða tjáningarfrelsi
• Að taka tillit til heimilisaðstæðna annarra
• Að geta tekið á móti réttmætri gagnrýni
• Að vera umburðarlyndur í garð annarra
1 Íslensk nútímamálorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstjórar). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://islenskordabok.arnastofnun.is (desember 2018).
Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi bendum við þér á að hafa samband við Stígamót eða Bjarkarhlíð til að fá aðstoð.