17. september 2018

*TW* Minnst er á kynferðisofbeldi í samhengi við þolendur og gerendur

Þegar nemandi útskrifast úr grunnskóla er hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi hlotið fullnægjandi kennslu í fögum á borð við ensku, íslensku og stærðfræði. Kynfræðsla er hins vegar fag sem ekki er óvarlegt að áætla að nemandi sem útskrifast úr grunnskóla hafi ekki fengið fullnægjandi fræðslu í. Í gegnum grunnskólagöngu hans er gert ráð fyrir því að hvert fag fái nægilegt vægi í stundatöflu nemandans svo nemandinn mæti hæfniskröfum námsskrár við útskrift.

Nemandinn mun koma til með að nýta sér þá þekkingu sem honum var fengin í grunnskóla í ýmislegt nytsamlegt á lífsleiðinni og að öllum líkindum mun nemandinn sækja í frekara framhaldsnám. Einhverra hluta vegna er kynfræðsla eitt þeirra faga sem ekki er lögð þessi ríka áhersla á í grunnskóla.

Kynfræðsla snýr að mestu að kynjuðum líkamleika. Hún kennir nemendum um líkama og þróun þeirra að því leyti sem þeir eru kynjaðir. Kynfræðslan snertir þess að auki á kynsjúkdómum, auk réttrar notkunar getnaðarvarna. Það hefur títt verið talað um að gera kynfræðslunni frekari skil innan menntakerfisins en nú er gert og margar herferðir hafa komið og farið sem barist hafa fyrir markvissari kynfræðslu í grunnskólum.

Í þeim herferðum sem hafa vikið að kynfræðslu reynist megininntak herferðanna oftar en ekki snúast að endurmati á kynfræðslu í skólum landsins. Herferðirnar krefjast þess að kynfræðsla hefjist fyrr á grunnskólastigi og einnig að kynfræðikennsla líti handan hins kynjaða líkamleika. Til þess að hægt sé að tala um fullnægjandi nám í kynfræðslu þyrfti nefnilega að taka mið af öðrum þáttum en aðeins þeim líkamlegu; kenna þyrfti grundvallaratriði heilbrigðra samskipta hvað viðkemur „kyn-lífi“ sem slíku.

kynfræðsla

„ÉG VISSI BARA EKKI BETUR“

Venjan virðist vera sú að nemendur hljóti kynfræðslu í 6. og 9. bekk. Þótt til sé uppskrift að markvissri kynfræðslu frá 1. til 10. bekkjar fyrir skólahjúkrunarfræðinga í grunnskólum þá er þeirri uppskrift sjaldnast fylgt. Gera má því ráð fyrir því að útskrifaður grunnskælingur hafi hlotið að meðaltali um tvær til þrjár klukkustundir af kynfræðslu. Það væri ólíklegt að foreldri eða forráðamaður samþykkti að barn þeirra fengi einungis örfáar klukkustundir til þess að ná færni í öðrum fögum svo sem stærðfræði eða íslensku. 

Merki þess að kynfræðsla sé hvorki nógu markviss né hefjist nægilega snemma eru því miður auðfundin. 

Árlega koma ungir gerendur fram sem brotið hafa á öðrum einfaldlega ,,því þeir vissu ekki betur“

og algengt er að þolendur kynferðisofbeldis beri ekki kennsl á ofbeldið sem átti sér stað fyrr en mikið seinna. Ungmenni sem hafa útskrifast úr grunnskóla, menntaskóla og jafnvel háskóla ganga um með óljósa hugmynd um hugtök á borð við samþykki, ofbeldi, mörk og virðingu — og það er óásættanlegt. 

Það að fyllileg fræðsla á þessum hugtökum sé ekki veitt skipulega innan menntakerfisins veldur því að ungmenni leita sjálf á aðrar lendur sér til þekkingaröflunar, svo sem í gegnum sjónvarpsþætti, kvikmyndir, netspjöll eða klám. Allir þessir miðlar, ef svo má kalla, skapa brenglaða ímynd af heilbrigðum samskiptum.

Löðrungurinn sem kærastan veitir kærasta sínum í vinsælum sjónvarpsþætti er talinn tákna ástríðu, stjórnun kærastans á kærustunni þykir sýna ást hans í garð hennar, jafnvel þótt hún megi þar með ekki hitta vini sína, og klámið sýnir að óþarfi sé að fá samþykki fyrir kynlífi, að hlutgerving og kúgun kvenna sé eðlileg og að það sé jafnvel eitthvað sem konur þrá.

Það er bæði ósanngjarnt og raunar stórhættulegt að viðhalda menntakerfi sem veitir nemendum sínum ekki almennilegt tækifæri til þess að ala með sér gagnrýna hugsun gagnvart þeirri nauðungarmenningu sem ríkir. Hér er vert að benda á hversu hjálplegt væri að flétta kynjafræði saman við kynfræðslu nemenda. Inngangsþekking á kynjafræði getur veitt nemendum góða byrjunarinnsýn í heim samskipta og samþykkis með því að skoða líkama í ljósi hlutverkanna sem við spilum.

kynfræðsla

BÖRNIN ÞÍN FARA AÐ SKOÐA KLÁM FYRR EN ÞÚ HELDUR

Sumir foreldrar og forráðamenn hafa lýst áhyggjum yfir því að kynfræðsla hefjist fyrr á skólagöngu barna sinna þar sem þau sum hver telja að slík kennsla sé ekki við hæfi á ungum aldri. Svo þessum áhyggjum sé svarað verður að skiljast að börn verða óhjákvæmilega snemma forvitin um kynlíf. Jafnvel þó þau sæki ekki sjálf í frekari upplýsingar því tengdu er engu að síður líklegt að barnið komist óvart í tæri við klámfengið efni. Þá er langtum betra að börnunum sé tryggð heilbrigð og nákvæm fræðsla innan skólakerfisins en að þau verði fyrir áhrifum af öðrum eitraðri miðlum. 

Rannsóknir sýna að íslenskir strákar séu að meðaltali um ellefu ára þegar þeir byrja að horfa á klám. Út frá þeim niðurstöðum einum saman er deginum ljósara að efla þarf fræðslu og gagnrýna hugsun gagnvart klámi í kynfræðslu. Það er nefnilega hægt að ræða klám við nemendur með því að leggja áherslu á virðingu, mörk og samþykki við börn á yngri stigum, svo að nemandinn geti metið skaðsemi kláms með gagnrýninni hugsun þegar það mætir honum. Slík fræðsla mun einungis bæta mat nemendans á því samfélagi sem hann tilheyrir, sem og á honum sjálfum.

kynfræðsla

GEFUM KYNFRÆÐSLU MEIRA VÆGI

Krafan um markvissari kynfræðslu sem hefst fyrr á skólastigi kemur til vegna óska um að okkur eigi að líða betur. Kerfið hefur sýnt í verki að það hefur verið glórulaust þegar viðkemur því að meta hvaða vitneskju sé gott að hafa í farteskinu. Uppvaxtarár okkar skipta sköpum þegar kemur að því að þróa með okkur samskiptahæfileika sem og virðingu gagnvart okkur sjálfum og öðrum. 

Það er því ólíðandi að ætlast til þess að nemendur ,,finni bara út úr þessu“ þegar slíkt viðhorf getur leitt til afbrota. 

Það er nefnilega auðvelt að meðtaka þá brengluðu mynd af samskiptum og kynlífi sem finnst í kringum okkur og halda sig við hana um ókomin ár. Það er auðvelt að brjóta á einhverjum sem þér er annt um, einfaldlega því enginn útskýrði fyrir þér mikilvægi samþykkis.

kynfræðsla

Kynfræðsla ætti að hafa jafn mikið vægi í skóla og hvert annað fag, þá sérstaklega þar sem kynfræðslan hefur tök á því að leiðbeina nemendum í átt að heilbrigðum samskiptum, eitthvað sem er svo gífurlega mikilvægt í okkar nærumhverfi. Það dugir ekki að setja einungis fáeinar klukkustundir til hliðar fyrir fræðslu heldur á kynfræðsla að vera fag sem skipulögð vinna er lögð í — það þarf að sigta kynfræðslu inn í hausinn á nemendum líkt og við látum nemendur margendurtaka sagnir í ensku til að festa þær í minni.

Við þurfum að ráðast á rót vandans og gefa þann tíma og starfskraft sem þarf svo nemendur geti útskrifast með sanngjarna og fullnægjandi fræðslu. Það hlýtur að vera hverjum ljóst að það sé ósanngjarnt að nemandi þurfi að vera heppinn til þess að hljóta ákjósanlega kynfræðslu. 

Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi bendum við þér á að hafa samband við Stígamót eða Bjarkarhlíð til að fá aðstoð.

Ef þú hefur beitt aðra manneskju ofbeldi, bendum við þér á að hafa samband við Heimilisfrið til að fá aðstoð. Sími 5553020.

Fleiri greinar eftir Steinunni Ólínu Hafliðadóttur.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Konur á móti körlum: Aðskilnaður kynjanna í Mexíkóborg

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Skilgreiningar: Mér finnst að þér ætti að finnast

næsta grein
Manic Pixie Dream Girl: Hún – fyrir hann


Lesa meira um...

,,Ég vissi ekki betur“ – Kynfræðsla og gerendur