12. mars 2021
texti:
Eva Lín Vilhjálmsdóttir
@3va_lin

myndir:
Skjáskot af vef- og instagramsíðu The White PubeÍ augnablikinu prýða plaggöt veggi á víð og dreif um Lundúnir — sem og aðrar borgir í Bretlandi. Plaggötin kalla eftir auknu gegnsæi í listheiminum, borgaralaunum og að fjarlægð verði rasísk verk úr opinberum stofnunum Bretlands. Á bakvið plaggötin stendur tvíeyki sem kallar sig The White Pube. Þær Gabrielle de la Puente og Zarina Muhammad nálgast list og ýmislegt sem þeim dettur í hug af nánd og einlægni — í því er markmið þeirra falið: að fá persónulega nálgun á eitthvað sem við köllum „Listheiminn“ og er oft nokkuð ópersónulegt fyrirbæri, sérstaklega þegar það kemur að umræðu eða listrýni. Nafnið, The White Pube, er skírskotun til og grín að gallerí keðjunni The White Cube, sem á sér bækistöðvar víðsvegar um heim og nær samtímis að vera fyndið en líka djúp gagnrýni í sjálfu sér.

Almennt er hinn hvíti kubbur hugsaður sem eins konar rými þar sem hægt er að skilja umhverfið eftir fyrir utan — gallerírýmin eru hvítmáluð vegna þess að það er listin sjálf sem á að fá að njóta sín án truflana. Lífið getur beðið fyrir utan galleríið og hið hversdagslega amstur og álag á ekki að hafa áhrif á nautnina eða tilfinningarnar sem listin sjálf á að tjá og einstaklingurinn að túlka.

En virkar það í alvöru þannig að skoða list? Ef einhver er spurningin þá er þetta spurningin sem vakir fyrir þeim. Er listheimurinn laus við hversdaginn?

Svarið er nei, langt því frá. Og með þessu nei-i varpar tvíeykið ljósi á breitt umræðuefni. Sem spannar allt frá byrjun ferlisins, við gerð listaverksins og möguleikann til listnáms, til loka afurðarinnar sem er til sýnis og gestir virða fyrir sér á opinberri stofnun eða í galleríi. 

Í fyrsta lagi er áhorfandinn ekki hlutlaus, þrátt fyrir að rýmið sé strípað. Áhorfandinn getur verið í vondu skapi og líkað listin illa eða á hinn bóginn ástfanginn og finnst allt æðislega nett. Huglægt mat á listaverki frá okkar eigin sjónarhorni á alveg jafnan rétt á sér hvort sem við erum menntuð til að „skilja“ tilvísanirnar sem verkin eiga að vitna í eða ekki. Okkur getur einfaldlega fundist eitthvað verk óþægilegt, bíómynd sorgleg eða lag leiðinlegt vegna þess að það er vont veður og við erum blaut í fæturna.

Í öðru lagi þá hafa ekki allir jöfn tækifæri til þess að vera listamenn. Til dæmis: hvernig hafa listamenn efni á að vera listamenn? Stór spurning sem varpað er fram á einu af plaggata þeirra: 004: „people across the creative industries need to declare if they have rich parents who helped them get where they are today.“

Það er ekki eingöngu það að vera listamaður: það eru líka umsóknirnar, leigan og tíminn sem fer í að vinna til hliðar við listina. Hvernig sækir myndlistarfólk um styrki? Hvaða áhrif hafa þessar fjárhagslegu hliðar á listina? 

Gagnsæi er eitthvað sem þær halda í hávegum. Eitthvað sem er erfitt að nálgast í jafn óreiðukenndum starfsferli og í listum. Þær gefa upp á heimasíðunni sinni hvað þær fá borgað að hverju sinni og eru ekki styrktar af opinberum stofnunum. Þær bjuggu til bókasafn fyrir styrki, með dæmum af verkefnum sem hafa fengið styrki (í Bretlandi) og hægt er að skoða á heimasíðunni. Gagnsæi getur líka verið gaman og einlægt. Því gaman og gagnsæi er ekki andstæðupörun. Ekki allir hópar hafa jafnan aðgang að upplýsingum. Það er leiðinlegt, viðheldur einsleitni og takmarkar möguleika hópa til listsköpunar og sýnileika.
Þegar ég var að velja fyrirmyndir sem ég myndi vilja skrifa um fyrir þennan pistil hugsaði ég mig um vel og lengi. Fyrirmyndir geta verið ýmiskonar og af öllum kynjum. Hvaða fólk ætti ég að taka fyrir? Það eru svo margar fyrirmyndir sem koma til greina, dánar eða lifandi? Gamlar eða ungar? 

Ég fékk fluguna í höfuðið einn morguninn meðan ég var að skrolla á Instagram, stoppaði við póst hjá The White Pube og hugsaði með mér ,,ohh þær eru svo cool – af hverju er ég ekki svona óhrædd við að tjá mig á netinu? Hvernig fara þær að því að vera með svona einlægan internet presence?“ og hægt og rólega áttaði ég mig á því að ég væri í raun bara smá abbó. En það er ekkert að því að vera smá abbó — þær eru tussu cool!

Og þess vegna valdi ég þær sem fyrirmyndir. Í stað þess að velta mér upp úr því hversu lítilsverð afbrýðissemi mín var í morgunsárið þá hugsaði ég að hún væri kannski til marks um að þær gerðu eitthvað sem mér fyndist töff en þorði ekki að gera sjálf. Að kannski langaði mig sjálfa að vera aðeins einlægari á internetinu.

Hvað þýðir það að vera einlæg á netinu? Þær birta greinar einu sinni í viku og eru vinsælar á Instagram. Það gæti talist auðvelt að vera einlæg á persónulegri heimasíðu sinni en aðrir miðlar eins og Instagram meta efnið sem birtist á út frá öðrum stöðlum. Mælieiningarnar eru þannig gerðar erfiðar, sérstaklega þegar það kemur að einlægni, og margir eiga erfitt með að feta þann gullna milliveg á milli þess að „vera það sjálft“ og að vera birtingarmyndin ein á miðlinum. Þeim tekst einmitt að feta þennan milliveg. Geggjuð blanda af málefni og persónuleika er eitt af því sem heillar mig við þær. Lesandinn getur verið ósammála og það skiptir ekki öllu máli því það er samtalið sem er mikilvægt.
Markmið þeirra er hrátt og nálgunin einnig. Það er ekki stórbrotið umbrot á samtímanum sem sóst er eftir heldur er það hversdagsleg gagnrýni á einhverju sem þarf að breyta en mun ekki breytast nema að umræðan haldi áfram. Það þarf þó ekki að vera sligandi. Í einlægni tvíeykisins er mikilvægi gamansins falin. Þær binda sig ekki takmörkunum um hvað skrifin ættu að vera og þannig ná þær einnig að skrifa einlægt og frá hjartanu. Önnur byrjaði sem dæmi að skrifa gagnrýni um tölvuleiki frekar en list vegna þess að það höfðaði meira til hennar. Það er hægt að vera gagnrýnin og alvarleg án þess að vera leiðinleg (sem er vond steríótýpa sem við viljum losna við).

Það eru einstaklingar, ungir og aldnir, sem eru að vinna að breytingum á samtímanum, stórar sem smáar, og það er mikilvægt að viðurkenna það og geta fagnað því. Setjast með á vagninn og vera aðeins einlægari á netinu, viðurkenna misskiptingu upplýsinga sem og tækifæra og taka þátt í breytingunum. Skilaboð The White Pube eiga ekki bara við um myndlist, eða listheiminn, heldur um flesta starfsferla og hópa í samfélaginu okkar: hvort sem það er í pólitík, í viðskiptalífinu, eða í persónulega lífinu — þá má spurja sig hvort allir standa jafnt þegar það kemur að auði, tækifærum og upplýsingum. Það er einfaldlega ekki þannig, við ættum að hætta að láta eins og það sé raunin vegna þess að það er kúgandi. Því meira sem við þorum og erum viljug til að tala um það, þeim mun betra — og sérstaklega þegar það er af einlægni.  
— — —

Heimildir:

www.thewhitepube.co.uk

www.tate.org.uk/art/art-terms/w/white-cube

www.thewhitepube.co.uk/podcast-origin-story

— — —

Skoðaðu vefsíðu The White Pube hér.
Fylgdu The White Pube á instagram hér.
— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Svartar konur í afþreyingarmenningu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Flæði listagallerí: Leitumst eftir samstarfi við samfélagið

næsta grein
Fyrirmyndir í lífsins ólgusjó


Lesa meira um...

List: The White Pube