14. október 2020

Allt frá upphafi siðmenningar hefur mannkynið þurft að klæða sig í fatnað. Í byrjun var það til þess að vernda líkamann frá náttúruöflunum en varð fljótt tól til aðgreiningar. Það var hægt að sjá á klæðaburðinum einum hvort manneskja var rík eða fátæk. Ef litið er aftur í tímann var ekki aðeins mikilvægt fyrir konur að klæðast ákveðnum flíkum heldur var það mikilvægt fyrir alla. Allir vildu tilheyra ákveðnum hóp innan samfélagsins og allir vilja það enn. Í dag er þó sagan önnur og eru konur helsti markhópur fataiðnaðarins.

Það er hægt að kenna iðnbyltingunni um mörg vandamál heimsins en þar á meðal um fjöldaframleiðslu á fatnaði. Þegar verksmiðjur opnuðu varð hægt að sauma margar flíkur á einu bretti. Þessi fjöldaframleiðsla varð til þess að flíkur lækkuðu í verði og þ.a.l. voru fleiri sem höfðu aðgang að þeim. Í framhaldi af þessari þróun kom að því að það var farið að framleiða fleiri föt en fólk almennt þurfti á að halda. Ætli það sé ekki tímabilið þegar fyrirtæki áttuðu sig á því að þau þyrftu að vera klók og auglýsa fötin sín sem ómissandi í fataskápnum okkar.

Það mætti segja að menn með mikil völd hafi því haft einskonar ákvörðunarvald yfir því hvað þætti æskilegur klæðaburður og stjórnuðu þannig tísku kvenna.

Konur voru hinsvegar fljótar að ögra og vildu fjölbreytni eins og sjá má þegar horft er yfir seinustu 100 ár. 


Staða kvenna í þróunarlöndum sem starfa í fataiðnaðinum er vægast sagt slæm, vegna vinnuálags, aðstöðu o.s.frv. og það er að mestu leiti hraðtískunni að kenna. Sjúkdómar og heilsufarsvandamál má rekja til vinnuaðstæðna þessa hóps, þar sem þær vinna oft í ónýtum mygluðum byggingum og í kringum eiturefni.

Margir velta því fyrir sér hvaða fyrirtæki nýta sér þeirra neyð, og því miður eru mun fleiri fyrirtæki sem gera það en við gerum okkur grein fyrir. Langflestar hraðtísku keðjurnar, stóru verslanirnar og þeirra systurfyrirtæki.

Þrátt fyrir að fyrirtæki framleiði og markaðssetji einstaka flíkur í verslunum þeirra sem vistvænar (e. sustainable) þá gengur dæmið ekki upp. Hvernig getur vistvæn flík verið fjöldaframleidd af konum í þróunarlöndum, þá eftir að vistvæna efnið er ofið í öðru landi, flutt til Evrópu og samt kostað 2.990kr? Í flestum tilvikum eru nýjar línur að koma í búðirnar í hverri viku og þ.a.l. eru þau að gefa í skyn að fötin sem þau seldu í síðustu viku séu orðin úrelt. Þetta er vítahringur sem erfitt er að brjótast út úr.


Tíska er mjög einföld sálfræði. Þeir sem klæðast nýjustu tísku virðast vera í betri stöðu innan samfélagsins. Tíska er í raun bara hugmynd, hugmynd um velmegun. Allir vilja virðast hafa það gott, vera heilbrigðir og hamingjusamir þótt að raunin sé önnur. Eftir nokkra ára dvöl sem mannkyn á samfélagsmiðlum höfum við áttað okkur á þessari blekkingu. Við erum upplýstari nú en nokkru sinni áður um umheiminn og okkur sjálf. Við vitum að útlit er ekki allt sem sýnist og orðið ‘glansmynd’ er notað mun oftar en áður. Þrátt fyrir þetta upplýsingaflæði höldum við áfram að verða fyrir barðinu á tískunni og samfélaginu sem hefur skapast í kringum hana.

Stórstjarna mætir á rauða dregilinn í sama kjól og í fyrra og það þykir fréttnæmt. Fjölmiðlar birta greinar um hvað það sé hrikalegt að láta sjá sig tvisvar í sömu flíkinni, kannski sé hún ekki jafn rík og flott og áður. Þannig er samfélagsleg mótun kvenna og birtingamyndin er neysluhyggja. Við forðumst að klæðast sömu flíkinni tvisvar á samfélagsmiðlum, í partý eða jafnvel á almannafæri. Stundum er flík aðeins notuð einu sinni og síðan sett í fatasöfnunargám. Við erum einfaldlega að forðast það að verða útskúfaðar. Það er því mikilvægt að vera meðvitaður um vítahringinn og þessa brenglun ef við viljum vera hluti af nútíma tísku.


Nútímatíska þarf ekki að snúast um að kaupa alltaf allt nýtt, eiga fullt og skipta reglulega úr fataskápnum sínum. Hún snýst um að nota þær flíkur sem eru nú þegar til. Magn fjöldaframleiddra flíka er orðið of mikið. Við þurfum því ekki að framleiða fleiri flíkur, það er nóg til eins og er og við ættum að vera vinna miklu meira með það.

Við verðum því að nota hverja flík eins oft og við getum, gerum við þær flíkur sem gefa undan, förum vel með flíkurnar og ef við þurfum eitthvað nýtt, að kaupa þá notað.

Það er auðvitað engin fullkominn og stundum þarf fólk að versla ódýra fjöldaframleidda flík í flýti en við hvetjum fólk til þess að vera meðvitað um neyslu sínu og þeim áhrifum sem henni fylgja. 
Einföld ráð frá konunum í Flokk till you drop:

• Finndu þína eigin tísku! Vertu í þeim flíkum sem þér líður vel í og ert sjálfsörugg/ur/t í. Ekki kaupa neon grænu pleður buxurnar sem detta úr tísku eftir mánuð nema auðvitað að þú sjáir mikið notagildi í flíkinni.

• Bættu buxurnar þínar! Ef það byrjar að myndast gat við innanverðu lærin, á hnjánum eða rassinum þá er sniðugt að finna textíl til að sauma yfir svæðið. Þannig geturðu notað flíkina ennþá lengur og  hún verður einstök fyrir vikið.

• Þvoðu flíkurnar sjaldnar á lægri hita! Með því að þvo flíkurnar sjaldnar á minni hita mun sjást minna á henni með tímanum. 

• Ný hlutverk fyrir ónýtar flíkur! Ef flíkin er ónýt og ekki hægt að gera við hana að nota hana í eitthvað nýtt. Hægt er að klippa lak í tuskur, sauma kjóla úr rúmfötum, breyta skyrtu í sundtösku og búa til bangsa úr sokkum sem dæmi. Möguleikarnir eru endalausir.

• Kaupa notað! Verslanir sem við mælum með eru t.d. Rauða kross fatamarkaðir, ABC barnahjálp, Hertex, Basarinn, Spúútnik, Wasteland, Extrarloppan, Barnaloppan og fleira!Hægt er að fylgja okkur á facebook og instagram síðu okkar Flokk till you drop ef þú vilt vita meira um einstaka málefni en þar kryfjum við fataiðnaðinn og textíl neyslu Íslendinga.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Flæði listagallerí: Leitumst eftir samstarfi við samfélagið

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Dropinn sem meitlar steininn

næsta grein
COVID-19: Veiran og samfélagsstaða


Lesa meira um...

Flokk till you drop