Liðið er um ár frá stofnun listagallerísins FLÆÐI. Á þessu eina ári hafa ótal sýningar verið opnaðar í sýningarsal þess sem hefur, þrátt fyrir stutt skeið sitt, þurft að flytja sig um set nokkrum sinnum. Í dag er gallerí FLÆÐI staðsett í björtu rými á Vesturgötu 17 þar sem vikulega eru settar upp nýjar sýningar. Antonía Bergþórsdóttir, Brynja Kristinsdóttir, Dorothea Olesen og Íris María Leifsdóttir standa nú fyrir rekstri gallerísins, en frá fyrstu opnun hafa þær lagt áherslu á að skapa aðgengilegt rými fyrir listafólk, þá sérstaklega innflytjendur og aðra minnihlutahópa, sem að þeirra mati hafa ekki fengið jafn greiðan aðgang að íslensku listasenunni og aðrir.
Antonía: Að mínu mati er FLÆÐI aðgengilegra rými vegna þess að listafólk þarf ekki að borga gjald fyrir að sýna hjá okkur. Útgjöld fyrir sýningar geta oft verið hindrun fyrir marga upprennandi listamenn sem vilja sýna. Ungir listamenn fá líka ekki endilega tækifæri til þess að sýna verkin sín nema þau séu í listtengdu námi.
Dorothea: Einmitt, og svo hafa ekki margir listamenn stóran kapítula á bakvið sig; sem virðist oft vera nauðsynlegt vilji þeir sýna.
Antonía: … eða þá elítutengsl, sem ráða oft miklu um það hvort listamenn nái að skapa tengingu inn í listaheiminn. Að okkar mati er líka mikilvægt að skapa aðgengi í gegnum auglýsingar. Þegar við í FLÆÐI auglýsum sýningarpláss hjá okkur pössum við alltaf upp á það að auglýsingarnar séu líka á ensku. Við viljum nefnilega ná til hópa sem hafa ekki endilega íslensku að móðurmáli, og það skiptir máli. Við beindum sjónum okkur líka sérstaklega að markhópum í úthverfum með því að borga fyrir auglýsingu sem náði til úthverfa. Ég man sérstaklega eftir fyrstu konunni sem sýndi í FLÆÐI á Grettisgötu, þegar við vorum staðsett þar. Hún var frá Póllandi en hafði búið á Íslandi í þrjú ár; var ótrúlega stórt nafn í Póllandi en tímdi samt ekki að prenta út verkin sín á Íslandi því hún var svo óviss hvort þau myndu seljast. Hún hafði sömuleiðis engar tengingar innan íslensku listasenunnar. Engu að síður sá hún auglýsinguna okkar, sló til og sýningin hennar í FLÆÐI heppnaðist mjög vel. Ég man að hún varð mjög meyr yfir því að fá að sýna í FLÆÐI. Var svo þakklát tækifærinu; sagðist aldrei hafa komist í snerti við jafn aðgengilegt sýningarrými. Mér finnst það sýna hvað tungumál er mikill þáttur í því að skapa aðgengi; ef við hefðum ekki sett út auglýsingar á ensku er mjög ólíklegt að þessi listakona hefði slegið til.
Dorothea: Við bjóðum einnig upp á þann mögulega að halda einkasýningu, sem er ekki sjálfgefið. Við höfum líka boðið listamönnum aðstoð við uppsetningu á sýningum þeirra. Allir koma auðvitað inn í rýmið með mismunandi reynslu og þekkingu; sumir koma inn með 100% hugmynd um hvernig þeir vilja fara að sýningunni en aðrir hafa kannski ekki alveg prófað að setja upp sýningu áður. Mér finnst allavega gott að við getum veitt þessa hálfgerðu þjónustu og þannig hjálpað listafólki að koma sér á framfæri
Antonía: Við reynum að stýra listafólki sem minnst. Við viljum helst gefa öllum frjálsar hendur til að segja sína sögu í gegnum uppstillingu verka sinna.
Íris: Það er líka svo mikilvægt að listafólk fái tækifæri til þess að koma sínum skilaboðum á framfæri á sýningum sínum. Og FLÆÐI vill veita listafólki rými fyrir þannig lagað.
Dorothea: Fólk sem mætir til okkar getur þannig verið öruggt á því að það sé að stíga inn í heim ákveðins listamanns þegar það mætir í FLÆÐI.
Antonía: Já, það hefur gengið svakalega vel og við höfum fengið góðar móttökur. Mér finnst líka ánægjulegt að sjá að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem sækja um að sýna í FLÆÐI. Það er líka áhugavert þar sem listheimurinn getur verið svolítið karllægur hérna á Íslandi; sérstaklega þegar kemur að málaralistinni.
Dorothea: En ekki bara á Íslandi heldur einnig í gegnum söguna. Karlmenn hafa fengið meira pláss í listaheiminum enda virðist kerfið oft skapað í kringum þá. Það virðist auðveldara fyrir karlmenn að fá viðurkenningu í listaheiminum og þá sömuleiðis aðgengi að sýningum. Auðvitað hafa miklar breytingar átt sér stað í gegnum árin en maður sér samt ennþá leifarnar af þessu karllæga kerfi. Því er mikilvægt að reyna að viðhalda þessari áframhaldandi breytingu sem reynir að gefa öllum hópum pláss innan listaheimsins. Það er oft erfiðara fyrir listakonur að koma sér á framfæri og því er mikilvægt að hafa rými eins og FLÆÐI sem býður alla velkomna.
Antonía: Mér finnst persónulega eins og konur þurfi að fylgja fleiri ‘reglum’ en karlar þegar kemur að list. List kvenna má ekki vera of klisjukennd, eða má ekki vera of þetta eða hitt; það þyki hallærislegt að mála bara mynd af blómi á meðan karlmenn virðast gjarnan fá meira frelsi varðandi myndefni.
Íris: Já þeir virðast hafa meira rými fyrir mistökum
Antonía: Miklu meira svigrúm. Ég hef oft heyrt frá listakonum sem hafa sýnt í FLÆÐI að þær myndu aldrei þora að sýna verk sem eru enn í vinnslu hjá þeim
Dorothea: Konur eru þess vegna oftar gagnrýnari á sig sjálfar og taka því minni áhættu; kannski einfaldlega því fallið er meira sé list þeirra tekin illa? Stefna FLÆÐI hefur samt aldrei verið einungis beint að konum en að sama skapi er áhugavert að sjá hversu margar konur sækja um að sýna í FLÆÐI í samanburði við karlmenn. Það sendir ákveðin skilaboð finnst mér. Það sýnir að það er ekki nógu mikið af tækifærum almennt fyrir konur eða aðra minnihlutahópa.
Antonía: Hún er mjög þverfagleg. Við höfum sýnt allt frá gjörningalist og sviðslist yfir í málaralist og keramik.
Íris: Og við höfum fengið allskonar umsóknir; bók- og tónlistarútgáfur, jógakennslu, hugleiðslu og heilun
Dorothea: Og ókei, bara svona út frá því langar mig að segja; og ég er kannski ótrúlega ‘biased’ út af þessari ógeðslegu BA ritgerð sem ég er að skrifa, en núna hef ég verið að pæla lengi í kynjun listaheimsins og ég held það sé eitthvað til í því að verk kvenna séu almennt miklu persónulegri og sýna oft einhverja innri sjálfskoðun; persónulega reynslu.
Íris: List er auðvitað rosalega ‘expressíónísk’
Dorothea: Já henni fylgir auðvitað einhver sjálfskoðun sem mér finnst sýnilegri í verkum kvenna en karla.
Antonía: Persónulega finnst mér eins og konur þurfi að sanna að verk þeirra séu merkingarbær svo þær geti komið sér á framfæri. Eins og verkin megi ekki bara vera ‘list’; heldur þurfi þau að vera tengt neikvæðri kvenlægri lífsreynslu.
Dorothea: Og þessi sjálfskoðun sem ég nefndi kemur einhvers staðar frá; við erum að reyna að túlka okkar upplifun; hvernig það er að vera kona í samfélaginu. Og í gegnum listina er hægt að snerta á málefnum sem fá aldrei eins mikið vægi og þau ættu að fá.
Íris: Ég tengi við þetta. Ég tjáði mig um þungunarrof mitt í sýningu sem ég hélt í FLÆÐI fyrr á árinu. Sú sýning skipti mig miklu máli; það er svo mikilvægt fyrir mig að geta tjáð mig í gegnum list. Það veitir einhverja ró, einhverja friðþægingu; en það er líka alltaf gott að geta sagt sína sögu og þá sérstaklega í öruggu rými eins og FLÆÐI. Það fylgir því alltaf berskjöldun að sýna listina sína; maður afhjúpar sig með henni og sýnir hvað liggur manni á hjarta.
Antonía: Já listin liggur alltaf rosalega nærri hjarta manns. Sköpun er svo beintengd því hugarástandi sem maður býr í á þeim tíma sem hún á sér stað. Hver sýning getur þannig verið lýsandi fyrir það hugarástand sem maður var í hverju sinni. Þess vegna er mikilvægt að hleypa alls konar fólki að; þá getur maður komist í kynni og sett sig í spor mismunandi hugarástands mismunandi fólks.
Antonía: Sko ég held að FLÆÐI myndi fá öðruvísi móttökur ef við í stjórn værum fjórir karlmenn; þá sérstaklega varðandi styrki og aðgengi inn á stofnanir. Það er bara mín persónulega skoðun, en mér finnst listaheimurinn í dag styðja sérstaklega við unga karlmenn sem eru að taka sín fyrstu skref í listaheiminum.
Dorothea: Og ekki þá bara í myndlist heldur líka í tónlistarbransanum sem dæmi. Maður sér samt glöggt að fólk hefur ekki eins mikið þol fyrir svoleiðis ‘bias’ og áður. Það sést til dæmis í gagnrýninni sem Keiluhöllin fékk nýlega fyrir að velja einungis karlmenn til að koma að spila á einhverjum tónleikum hjá sér. Það er auðvitað auðvelt að segja að Keiluhöllin hafi ekki ásett sér það að bjóða einungis karlmönnum að taka þátt en engu að síður er þetta val lýsandi fyrir það hversu sjálfgefið það er að karlmenn taki pláss í bransanum. Karlmenn virðast óhræddari við að taka af skarið og koma sér á framfæri, sem mér finnst glatað að segja því ég vil ekki að það túlkist þannig að mér finnist konur á einhvern hátt veikburðari en karlar. Þetta tengist því meira hvernig samfélagið hefur lagt línurnar. Það er minna verið að hvetja stelpur í að láta í sér heyra eða ganga í eitthvað frumkvöðlastarf miðað við stráka. Samfélagið er sem betur fer, að mestu leyti að gangast á móti þessu normi en það breytir því ekki að það er kerfisbundinn staðall til staðar sem hefur ómeðvituð áhrif á öryggi stelpna á þessum sviðum. Ég finn vel fyrir því og hef fundið, án þess að endilega vera alltaf vör um af hverju.
Antonía: Ég hef einmitt heyrt það frá mörgum konum og finn fyrir því sjálf. Mér finnst ég oft ekki mega vera tilfinningarík eða hávær án þess að vera stimpluð sem frek eða díva; að vera of mikið. Og ég meina, ef karlmenn myndu sýna sömu hegðun væri það að öllum líkindum samþykkt sem karaktereinkenni. Það er eins og ‘fagmennska’ eigi að einkennast af tilfinningaleysi.
Dorothea: En svo er það líka spurning; er þetta samfélagið sem við viljum búa í? Þar sem við megum ekki tjá tilfinningar okkar? Og nú tala ég fyrir alla. Af hverju finnst okkur tilfinningaleysi vera merki um styrkleika?
Íris: Já við erum sterkar á því og sú skoðun mótar klárlega FLÆÐI. Við viljum sýna skýrari birtingarmynd jaðarhópa og skapa tækifæri fyrir fjölbreyttari hópa til að segja frá sýnum sögum og tilfinningum.
Antonía: Sem er náttúrulega svo frábært. Rýmið í FLÆÐI gjörbreytist frá sýningu til sýningar vegna þess að fjölbreyttir einstaklingar geta komið þangað inn og haft frjálsar hendur. Húsnæðið á Vesturgötu býður líka upp á fleiri listræna möguleika en áður. Við erum með lítinn bíósal í rýminu þar sem hægt er að sýna hljóðverk eða vídeóverk. Svo einnig bjart rými sem er mjög hentugt fyrir listaverk, gjörninga eða aðrar uppákomur.
Íris: Við viljum vera með puttann á púlsinum varðandi hvað er að gerast í samfélaginu í dag. List endurspeglar hvað er að gerast í nútímasamfélagi. Við höfum verið með sýningar sem miða út frá tilfinningum á tíma Covid-19 og svo vorum við með hinsegin sýningu yfir hinsegin daga og héldum sýningu sem snerti á heimilisofbeldi. Listasýningar geta þannig sýnt hvað er að gerast í samfélaginu og hvernig fólk upplifir sig í því.
Dorothea: FLÆÐI snýst líka kannski svolítið um það; að geta gefið öðrum orðið. FLÆÐI snýst um að skapa öruggt pláss og rými fyrir fólk til að tjá sig. Snýst um að skapa þetta tjáningarfrelsi sem fólk fær hvar annars staðar? Á Facebook? Twitter?
Dorothea: Það væri náttúrulega æðislegt ef við gætum fengið húsnæði sem væri bara FLÆÐI til frambúðar. FLÆÐI er félagssamtök; það er engin fjárhagsleg hagsmunarsemi í þessu starfi. Ég veit ekki hvort það sé einfaldlega vegna þess að fólk áttar sig ekki á því hversu ótrúlega verðmæt menning og list er.
Íris: Starfið okkar er allt unnið í sjálfboðavinnu og við höfum reitt okkur á sjálfboðavinnu fólks sem er tilbúið til að hjálpa og veita okkur jafnvel húsnæði.
Antonía: Við höfum hingað til alltaf verið með rými sem er í einkaeigu. En þá er alltaf tímaspursmál hvenær einkaaðilinn á bakvið það krefst þess að fá eitthvað í kassann. Þess vegna væri æskilegast ef við gætum fundið eitthvað ríkisrekið rými sem er í engri notkun.
Dorothea: Best væri náttúrulega ef Reykjavíkurborg færi á bakvið okkur; borgin ætti að vilja hafa rými eins og FLÆÐI. Það skiptir máli að styðja við menningar- og listasenuna, þá sérstaklega á tímum sem þessum. Það er mikilvægt að við hjálpumst að við að auka sýnileika listamanna.
Hægt er að forvitnast meira um starfsemi FLÆÐI á vefsíðu þeirra eða á Instagram og Facebook. Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netfangið info@flaedi.com.