14. október 2020

Í Reykjavík eru að staðaldri haldnar nokkrar dragsýningar á mánuði þar sem alls kyns draglistafólk kemur fram. Senunni hér hefur verið lýst sem einstakri vegna samstöðunnar og fjölbreytileikans sem einkennir hana, en slíkt tíðkast ekki víða erlendis og listafólk að utan hefur oft hrósað þessari sérstöðu. Ég, höfundur þessarar greinar tilheyri þessari senu og er ein af þessum furðuverum – ég er dragdrottning. 

En hvað er þetta listform, drag?

Drag er…

Ég hef aldrei getað skilgreint drag sem einn hlut né komið því í eina setningu. Draglistin er töfrandi og er sjón sögu ríkari. Ég hvet þig kæri lesandi til að mæta á næstu sýningu!

Drag er leikur að tjáningu. Í grunninn byggir drag á því að leika með kyn og staðalímyndir þess. Í sínu einfaldasta formi felst drag í því að leika eftir eða klæða sig upp sem annað kyn en það sem þú tilheyrir. Drag er eitt þeirra listforma sem getur fangað með sér heilmörg önnur listform. Í heimi drags mætast tónlist, sviðslist, myndlist, förðun, hönnun og svo margt fleira og skapa heild. Stutt atriði eru algengt form í dragi, þau geta snert á hinum ýmsu viðfangsefnum. Lip-syncing er vinsælt í drag-atriðum þar sem listamaðurinn „mæmar“ við tónlist, þessu fylgir oft dans og leikur, jafnvel bútar úr sjónvarpsefni. En drag getur verið gífurlega fjölbreytt. Grín, dramatík, pólitík og sorg eiga öll jafn mikið við draglistina, sem er það sem gerir hana svo aðgengilega. Drag er lifandi, það breytist og þróast með hverjum listamanni fyrir sig.  

Fyrir seinni bylgju Covid hafði ég, ásamt frábærum hóp af listafólki, skipulagt dragsýningu sem átti að bera nafnið Drag er list. Markmiðið var að sýna akkúrat hversu fjölbreytt drag getur verið og bjóða listafólkinu að sýna hvað drag þýðir fyrir þau. Í aðdraganda sýningarinnar, sem við því miður þurftum að fresta, báðum við listafólkið sem ætlaði að taka þátt um að svara með einu orði hvað drag væri fyrir þeim.

Niðurstaðan var að drag er kraftmikið, fyndið, fjölskylda, frelsandi, tjáning. Listinn er ekki tæmandi. 

[Drag kóngurinn Milo de Mix tekur lagið Getting Bi ásamt backup-dönsurunum glæsilegu Yannuss Starr og Chardonnay Bublée]


Drag spyr ekki um kyn

Oft fæ ég undarleg viðbrögð þegar ég segi fólki að ég sé dragdrottning. Það er vegna þess að fólk er ekki vant því að konur séu áberandi innan listformsins, en ég er nákvæmlega það, kvenkyns dragdrottning. Ég leik mér með ýkt kvenlegt útlit og deili á kröfur sem settar eru á konur í samfélaginu. 

[Kvenkyns dragdrottningar eru einnig oft kallaðar bio-drottningar (stendur fyrir biological woman), afab-drottningar (stendur fyrir “assigned female at birth”) eða hyper-drottningar (sem vísar til þess að þær ýkja hina kvenlegu ímynd). Einnig eru konur oft dragkóngar, þar er leikið með staðalmyndir karla og oft er eitruð karlmennska tekin fyrir. Einn flokkur í viðbót eru það sem við heima höfum byrjað að kalla drag-skrímsli, karakterar sem ekki endilega passa innan ákveðins kyns eða staðla, oft deila þau einnig á fegurðarstaðla með undarlegu, jafnvel óhugnanlegu, útliti. Í dragi þarf enginn að passa innan ákveðinna staðla.]

Því miður er það drag sem flestir þekkja og sem tilheyrir meginstraumnum sú tegund sem birtist í hinum vinsælu raunveruleikaþáttum RuPaul’s Drag Race, þar sem eingöngu karlar fá að taka þátt.  Þetta hefur leitt til þess að konur innan listgreinarinnar hafa átt erfiðara með að fá viðurkenningu og samþykki. Drag þar sem karlmaður „þykist” vera kona er þó aðeins lítill partur þess sem drag býður upp á. Drag spyr nefnilega ekki um kyn, hvorki kyn drag-persónunnar sem leikin er né kyn þess sem leynist undir gervinu. Þetta sést á svo fallegan hátt innan senunnar á Íslandi þar sem fólk af öllum kynjum kemur fram. Konur eru áberandi og kröftugar í dragsamfélaginu og stundum eru heilar sýningar haldnar þar sem eingöngu koma fram konur. Einnig eru einstaklingar sem ekki skilgreina sig innan kynjatvíhyggjunnar áberandi. Þetta er dæmi um þann fjölbreytileika sem íslensku senunni hefur verið hrósað fyrir, á mörgum stöðum sést það ekki að dragdrottningar og dragkóngar komi fram saman en hér eru sýningar byggðar upp af öllum mögulegum útgáfum dragpersóna sem toga til og móta reglur kyntjáningar og draglistarinnar.

Drag stendur fyrir fjölbreytileika og möguleikann að geta verið nákvæmlega það sem þú vilt vera. Það er dragið sem tíðkast hér á Íslandi. 

[Augnablik úr atriðinu Konur gegn Trump]


Lausnin í listinni

Drag er í eðli sínu pólitískt. Drag krefst frelsis hvað varðar kyn og tjáningu og fer því gegn því sem almennt tíðkast í samfélaginu. Þetta heillaði mig mest við draglistina, tækifærin til óhindraðar tjáningar. Drag-atriði geta tekið á viðfangsefnum líkt og hinseginhatri, ofbeldi, samböndum og mörgu fleira. Margir hafa nefnt að drag virki hálfpartinn eins og þerapía og sjálf hef ég notað listformið til að takast á við afleiðingar ofbeldis og öðlast þaðan styrk. Það myndast kraftur þegar maður fær óhindrað tækifæri til að tjá sínar tilfinningar og salur fullur af fólki hlustar og stendur með þér. Það er valdeflandi að hafa með sér dragpersónuna sem öryggisnet, jafnvel grímu. Sviðinu fylgir líka ábyrgð, við getum notað þennan vettvang til að vekja athygli á mikilvægum málefnum sem og hvetja til umræðu og samtöðu með þeim sem þurfa. Draglistafólk hefur oft verið í framlínu réttindabaráttu, bókstaflega, ásamt því að bera út boðskap með listinni. Sem dæmi um það langar mig að nefna atriði sem ég setti á svið í fyrra og nefndi Women against Trump – það ætlar ég svo sannarlega að sýna aftur í haust þegar líður að kosningum í Bandaríkjunum. Þar sem drag er jaðarlistform er ekkert sem hindrar okkur í að fara lengra með boðskapinn, að hrópa hærra. Við höfum alltaf þurft að verja tjáningu okkar hvort eð er. Oft hef ég áhyggjur af förðuninni vegna þess að ég græt yfir styrk og magnaðri tjáningu annarra listamanna upp á sviði.

Ég þakka fyrir að vera partur af hóp þar sem ég lít upp til hugrekkis og fegurðar hvers og eins. 

[Jenny Purr, Chardonnay Bublée og Lola Von Heart taka drag-útgáfu af Cell Block Tango]


Heima er best

Fyrir ári síðan flutti ég til Englands í lítinn smábæ. Þar var ekki dragsena eða hinseginsena, svo ég ákvað að gera það sem ég gat til að skapa slíkt umhverfi sjálf. Þá fyrst áttaði ég mig á dýrmæti þess sem ég á hér heima. Stuðningurinn sem mér er veittur hér, líkt og öðrum sem koma inn í samfélagið, er ómetanlegur og hefur fleytt mér þangað sem ég er í dag. Nú reyni ég að  veita öðrum þann sama stuðning. 

Dragsenan á Íslandi er samfélag þar sem list og frelsi ræður ríkjum. Innan veggja þessa samfélags gerast töfrar og ég tel það vera vegna þess að hver sem er getur fundið sig þar. Mismunandi persónur, skoðanir og útlit koma saman og skapa stórkostlega heild. Sýningarnar sem eru ekki hugsaðar sem samkeppni eða tækifæri til að sanna hver sé bestur, heldur sem tækifæri fyrir listafólk að tjá sig og áhorfendur að njóta. 

Það er líka lítið mál að prófa drag og stíga fyrstu skrefin. Meðal þeirra sýninga sem eru haldnar mánaðarlega er sýningin Drag-Lab sem sérstaklega var búin til fyrir nýtt listafólk. Ef þig dreymir um að byrja, eða bara kitlar örlítið í að prófa er einfalt að senda skilaboð á einhvern draglistamann eða mæta á sýningu og tala við okkur!

Drag gerir ekki kröfu um kyn, kynhneigð eða reynslu, einungis að þú komir inn með opinn huga og helling af ást.



Glóey Þóra Eyjólfsdóttir // Chardonnay Bublée 



[Gógó Starr gefur Chardonnay Bublée kveðjugjöf áður en hún flytur til Bretlands, Lola Von Heart Twinkle Starr, Jenny Purr og Manea Nocturna umkringja hana]



[Svipmynd úr hópatriði á sýningu Drag-Súgs]



[Jenny Purr, Chardonnay Bublée og Lola Von Heart taka drag-útgáfu af Cell Block Tango]



[Hópur af meðlimum Drag-Súgs kemur saman fyrir lokalag]













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Fötluð lyftingarkona sem enginn þekkir

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kvenleiki: Vald í nýju bleiku ljósi

næsta grein
Berskjöldun kvenna í kreppu: COVID-19 í femínísku ljósi


Lesa meira um...

Drag í Reykjavík