Ég skrifaði þessa grein fyrir tæpum tveimur árum en treysti mér ekki til að birta hana fyrr en nú.
Ég á erfitt með að koma hugsunum mínum í orð. Að flokka þær úr þrumuskýinu sem vofir yfir mér akkurat núna. Að ákveða hvað skiptir máli og hvernig ég vil koma því til skila. Að byrja. En ég held að það gæti hjálpað mér að vinna úr ýmsu og kannski að skilja sjálfa mig betur. Ég ákvað að skrifa þennan pistil af því að í dag er dagur þar sem ég ætlaði að vera dugleg og reyna að redda málunum. Komast yfir hluti sem hafa setið á hakanum allt of lengi. Læra í allan dag því ég fékk frí í vinnunni. En það kom eitthvað upp á sem sló mig út af laginu, ég gleymdi einhverju mikilvægu sem ég átti að gera og mætti ekki. Dagurinn fór því í eirðarleysi og lamandi kvíða, þyngsli fyrir brjóstinu, þungan og hraðan hjartslátt og hugsanaóreiðu.
Ég greindist með ADHD með ríkjandi athyglisbrest fyrir nokkrum vikum eftir að hafa verið á biðlista hjá greiningarteymi Landsspítalans í 2-3 ár. Og þrátt fyrir að ég væri í raun nokkuð viss um að ég myndi fá greininguna og búin að vita af þessu í þó nokkurn tíma, þá er þetta búið að vera algjör tilfinningarússíbani. Ætli það hafi ekki verið í menntaskóla sem mér var fyrst bent á að ég gæti verið með athyglisbrest. Einn kennarinn minn hafði orð á því við mig en ég var ekki opin fyrir því þá.
Þegar ég byrjaði hjá sálfræðingi 21 árs gömul tilkynnti hún mér að hún teldi mig vera með athyglisbrest. Það kom sem algjör skellur. Það er eiginlega fyndið að hugsa til þess núna. Við tók eitthvað svona minniháttar sorgarferli. Afneitun, reiði, sorg og sátt. Fyrst í raun ákveðin vanlíðan og upplifun um að það væri eitthvað að mér. Að ég væri gölluð. Þó mér finnist annað fólk með ADHD alls ekki gallað. Síðar fólst í þessu ákveðin huggun því þetta hjálpaði mér að skilja afhverju ég er eins og ég er. Afhverju ég á svona erfitt með að hætta að grípa óvart fram í fyrir fólki þótt ég vilji það alls ekki og sé mjög meðvituð um það í hvert skipti. Afhverju ég týni hlutum endalaust og gleymi svo mörgu. Afhverju ég tala svona mikið, líka þegar ég vil það ekki og þá sérstaklega þegar ég er stressuð. Afhverju þarf að sitja yfir mér svo ég geti klárað ritgerðir þegar ég er fullorðin manneskja. Í raun þeir þættir sem ég upplifi sem mína helstu galla.
Ég kynnti mér ADHD á þessum tíma en leyfði mér ekki að sökkva mér ofan í það, þar sem ég var ekki komin með greiningu. Mér fannst ég ekki mega það. Hvað ef þetta væri svo ekkert ADHD og ég væri bara ótrúlega misheppnuð manneskja? Ég fór í gegnum stöðuga hringrás þar sem ég styrkti mig andlega og reif mig niður til skiptis.
Þegar ég fór svo í sjálf greiningarviðtölin nokkrum árum seinna tók við annar tilfinningarússíbani. Í viðtölunum er farið yfir sögu og heilsufar fólks frá móðurkviði. Þar er einnig skimað fyrir öllum helstu geðröskunum til þess að athuga hvort eitthvað annað búi að baki einkennunum. Viðtölin tóku svakalega á mig, þau voru löng og mér fannst erfitt að muna og svara spurningum um fortíðina. Áföll og einelti í fortíðinni hafa orðið til þess að minningar frá ákveðnum tímabilum eru þokukenndar. Ég átti erfitt með að einbeita mér og var hrædd um að svara vitlaust. Þótt það séu eflaust engin vitlaus svör í slíkum aðstæðum.
Það er erfitt að samþykkja að þú sért með eitthvað sem ekki er hægt að laga eða breyta. Að ég muni alltaf vera með ADHD. Að ég muni alltaf þurfa að díla við það. En þó er svo margt sem er hægt að bæta, framfarir sem geta orðið og bjargráð sem hægt er að grípa til. Það er hægt að fá hjálp. Að vera að nálgast 25 ára aldur við greiningu þýðir að ég hef þróað með mér ýmis bjargráð (e. coping mechanisms) í gegnum tíðina. Sum þeirra eru góð og heilbrigð en önnur ekki og gera hlutina jafnvel verri til lengri tíma litið. Þau virka eins og tímabundinn plástur. Sum þeirra espa upp aðra erfiðleika, líkt og þunglyndi og kvíða. Sum þeirra einangra. Þegar áreitið verður of mikið þá sef ég, ef ég get. Sef og sef og sef og sef lífið í burtu.
Ég hafði þegar glímt við viðbrögð fólks við andlegum veikindum eftir að ég leitaði mér hjálpar vegna þunglyndis og kvíða, byrjaði að taka lyf og þorði að tala opinskátt um það og lotugræðgina sem ég hafði glímt við þegar ég var yngri. Ég var að mörgu leyti undirbúnari fyrir þau þegar ég fékk ADHD greininguna en ég hefði annars verið. Það er miklu auðveldara fyrir fólk að segja bara að þú sért löt og værukær en að takast á við vandann eða samþykkja það sem þú ert að ganga í gegnum. Það er óþægilegt.
En það tekur svakalega á að mæta stöðugt skilningsleysi og fordómum. Það tekur á að fá að heyra setningar á borð við „æjji eru ekki allir með ADHD þessa dagana?“. Það tekur á að lesa neikvæðar greinar um ADHD lyf sem ýta undir fordóma gagnvart þeim sem taka þau, þótt auðvitað sé mikilvægt að þau séu ekki misnotuð. Það tekur á að finna endalausa þörf á að verja veruleika sinn, að leiðrétta fólk sem trúir hinum ýmsu mýtum eða finnst þetta bara vera einhversskonar afsökun. Oft er það þó fólk sem er ekki tilbúið að viðurkenna fyrir sjálfu sér sína eigin erfiðleika.
Þess vegna finnst mér mikilvægt að fræða og koma í veg fyrir fordóma. Það er erfitt þegar fólk gerir lítið úr einhverju sem hefur veruleg áhrif á þitt líf og getu þína til að gera það sem þig langar til, eiga í samskiptum við fólk og viðhalda heilbrigðum samböndum.
Önnur vandamál eru minna þekkt, sérstaklega þau sem hafa með tilfinningahliðina að gera, höfnunarkennd og ótti við að standa sig illa. Þau hafa verið minna rannsökuð en fá vonandi þá athygli sem þau þurfa sem fyrst.
Ég held að sumt fólk haldi að þetta sé einhverskonar útgönguleið. Leið til að þurfa ekki að takast á við afleiðingar eða taka ábyrgð á lífi okkar. En það er misskilningur sem byggist á vanþekkingu. Í sumum tilfellum geta afleiðingar jafnvel hjálpað okkur. Ef það liggur mikið undir getur það hvatt okkur til að byrja og klára eitthvað, það er, ef við lömumst ekki af kvíða fyrst.
Ég reyni að hugsa ekki of mikið um hvað hefði getað orðið. Hvort sjálfsálit mitt væri betra ef ég hefði fengið hjálp fyrr. Hvort ég væri komin nær markmiðum mínum. Hvort ég hefði ekki gefist upp á sumum draumum mínum. Hvort ég hefði passað betur inn félagslega þegar ég var yngri og ekki sagt hluti af hvatvísi. Ekki orðið fyrir einelti.
En ég veit að það þýðir ekkert og ég veit að eineltið var ekki mér að kenna. Að vera með ADHD hefur líka marga kosti þótt það sé kannski erfitt að sjá það þegar illa gengur.
Ég óttast líka að fólk sem veit af greiningunni myndi sér fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig ég er. Ég er enn að læra á sjálfa mig en ég er sama manneskjan og ég var fyrir greiningu, bara með meiri skilning á sjálfri mér og betri verkfærakistu.