Rasískar staðalmyndir drepa #StopAsianHate

23. mars 2021

Höfundur:
Sjöfn Hauksdóttir
@sjofnh
@sjollipjolli
   

Sex konur af asískum uppruna voru myrtar í Atlanta þann 16. mars 2021.

Meira en 3800 hatursglæpir hafa verið framdir gegn asísku fólki í Bandaríkjunum frá upphafi útbreiðslu COVID-19. Ofbeldi gegn asísku fólki hefur einnig aukist gífurlega í Bretlandi. Samkvæmt End the Virus of Racism hafa hatursglæpir gegn fólki af asískum uppruna aukist um 300% síðan heimsfaraldurinn hófst. 

Í mars á síðasta ári var 23 ára breskur nemi af singaporískum ættum beittur svo grófu ofbeldi að hann þurfti að undirgangast lýtaaðgerð á andliti. Breskar konur af austurasískum uppruna tilkynna enn fleiri tilvik þess að vera sagt að fara aftur til Kína, að hypja sig þaðan sem þær komu og taka kínverska vírusinn með sér. 84 ára asískur maður var myrtur um hábjartan dag í San Francisco. 54 ára asísk kona var myrt í New York. Átta manns voru skotnir til bana í Atlanta í árás á þrjár heilsulindir. Sex af átta fórnarlömbum voru konur af asískum uppruna. 

Þegar COVID-19 fór að dreifa sér um heiminn urðu verslanir og veitingastaðir reknir af fólki af asískum uppruna fyrst fyrir tekjutapi. Gilti þetta jafnt um Bandaríkin sem og Evrópu, þrátt fyrir að vírusinn hafi upprunalega dreift sér til Bandaríkjanna í gegn um Evrópu, ekki Asíu. Í kjölfarið hafa nýjar tölur sýnt að asísk-amerískt fólk er nú með hæst hlutfall atvinnuleysis í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að hafa verið með það lægsta fyrir vírusinn. Ekki er skrítið að Bandaríkjamenn kenni asísku fólki um að bera veiruna til þeirra þegar þá sitjandi forseti þeirra kallaði COVID-19 „Kung Flu frá Kína“.

Fólk af asískum uppruna er einnig stöðugt álitið „útlendingar“ á Vesturlöndum, sama hvar þau eru fædd og uppalin. Rannsóknir sýna að vestrænt fólk er gjarnt á að líta alltaf á fólk af asískum uppruna sem „útlenskt“. 

Fjöldamargir atburðir hafa átt sér stað sem eru flokkaðir sem hatursglæpir í lagalegum skilningi, til að mynda aukið smáreiti (e. microaggressions) og hatursorðræða í garð fólks af asískum uppruna. Þetta er ekkert nýtt. þetta er eingöngu hræðileg aukning á vandamáli sem var til staðar áður, ofbeldið og hatrið eru ekki að spretta upp úr engu. 

Þetta er  heldur ekki sérbandarískt vandamál, þetta er vestrænt vandamál. Oft erum við í Evrópu gjörn á að líta á Bandaríkin sem hreiður kynþáttafordóma og fagna því að við séum ekki svona. Þetta sást vel þegar litið er til nýlegra frétta um lögregluofbeldi og morða á svörtum Bandaríkjamönnum. Margir Íslendingar voru fljótir að klappa sér á bakið og segjast fegnir að búa ekki í Bandaríkjunum. Evrópa litar þannig yfir skrautlega sögu sína sem upphafsmenn kynþáttafordóma, enda vorum það við sem nýlenduvæddum allan heiminn. Þá vilja Íslendingar skauta frá því að vera settir á bát með Evrópu í nýlenduhyggju, enda átti Ísland engar nýlendur. En við erum álitin hvít þjóð, þrátt fyrir að eiga Íslendinga af ýmsum uppruna, og það veitir okkur völd í heimi sem setur vestræn gildi í fyrsta, annað og þriðja sæti. Við sjáum okkur, og erum séð, sem hvít, vestræn og siðmenntuð þjóð. Við sjáum fólk af öðrum uppruna en evrópskum sem aðra. Við eigum kannski færri byssur en Bandaríkin, en við eigum meira en nóg af ljótum orðum og hatri.

Ljótt grín og skaðleg öðrun

Vestrið á sér langa og ógeðslega sögu um viðbjóðslega meðferð á asísku fólki. Það þarf ekki að leita lengra aftur í tímann en til síðasta árs, þegar margar íslenskar konur af asískum uppruna opnuðu sig um hatursorðræðu í sinn garð sem þær höfðu upplifað frá blautu barnsbeini og halda áfram að mæta sökum útlits síns og kynþáttar.

Þessar konur áttu það allar sameiginlegt að hafa verið aðraðar strax á barnsaldri og mætt neikvæðum staðalmyndum í sinn garð, margar byggðar á svokölluðu gríni sem hæðist að asískum konum og lítur á þær, meðal annars, sem kynlífsleikföng vestrænna karlmanna. Allar þessar konur sögðu einnig frá því hvernig ofbeldi og hatur gegn þeim gerðist kynferðislegt þegar þær urðu eldri og hvernig hvítir, íslenskir karlmenn voru ófeimnir við að segja þeim að þær væru exótískar, bjuggust við að þær seldu kynlíf og að þær væru á einhvern hátt undirgefnari, meðfærilegri og allt öðruvísi en hvítar konur, eingöngu vegna kynþáttar þeirra. 

Margar þessara kvenna nefndu skaðlegar staðalmyndir og rasískt grín sem ýtir undir öðrun þeirra, til að mynda ógeðslegt grín landsþekkts íslensks grínista, sem hafði mikil persónuleg áhrif á margar íslensk-asískar konur og stúlkur. Grín hans um vændiskonu af asískum uppruna að selja kynlíf brenndi sig inn í sálir margra ungra Íslendinga sem það fyndnasta sem þeir höfðu heyrt, og taldi margur sig knúinn til að endurtaka grínið á kostnað asískra bekkjarsystra sinna í grunnskóla. Húmorinn rjátlaðist aldrei af þeim, þetta var áfram svo rosalega fyndið. Brandarinn um gröðu, asísku vændiskonuna sem talar vesturlandamál með þykkum hreim lifir góðu lífi. En Pétur Jóhann fann karakterinn ekki upp.

Ísland er mjög litað af bandarískri afþreyingarmenningu og við drekkum í okkur sömu neikvæðu staðalmyndir um asískt fólk og fólk sem býr í Bandaríkjunum. 

Allt þetta ofbeldi og áreiti fellur í mót þeirrar löngu sögu sem vestrið á af því að aðra fólk af asískum uppruna, og er það þessi öðrun sem gerir asískt fólk í augum okkar minna mennskt. Við erum föst í staðalmyndum um margar milljónir manna og við neitum þeim um að vera hver og ein sín persóna með sín sérstöku persónueinkenni, við erum viss um að við vitum allt um þetta fólk því við erum lituð aldagömlum staðalmyndum. Þrátt fyrir að margar skaðlegar staðalmyndir séu ríkjandi um fólk af asískum uppruna ætlum við núna að einbeita okkur að staðalmyndinni um asískar konur sem kynlífsviðföng og vændiskonur.

Asískar konur sem kynlífsviðföng

Þessi tilbúna tenging á milli asískra kvenna og kynlífs er  ekki ný af nálinni. Árið 1875 bönnuðu Bandaríkin kínverskum konum að flytja til Bandaríkjanna því sennilegt þótti að þær væru að flytja þangað í ósiðsamlegum tilgangi, til að selja vændi. Það að áætla að allar kínverskar konur sæju sér farborða með kynlífsvinnu, sem mjög var litið niður á, gerði það að ábyrgð kvennanna að sanna að þær væru ekki vændiskonur áður en þær gætu fengið leyfi til að flytja vestur um haf.

Hervæðing Bandaríkjanna í Asíu heldur áfram að ýta undir þessa tilbúnu staðalmynd af asískum konum sem vændiskonum. Allt frá stríðinu í Filipseyjum við upphaf nítjándu aldar og fram yfir Kóreustríðið (1950) og Víetnamstríðið (1970) leituðu vesturlenskir hermenn til kvenna sem höfðu neyðst til að taka upp vinnu í kynlífsiðnaði sökum eyðileggingar heimalanda þeirra í stríði. Enginn athugaði hvers vegna þessar konur neyddust til að stunda vændi (ekkert að vændi ef maður velur sjálfur að stunda það, svolítið annað þegar maður er þvingaður í það sökum stríðs) heldur ályktuðu að þetta væri dæmi um sjúklega greddu og siðleysi asískra kvenna. 

Á sjöunda áratugnum gerðu Bandaríkin samning við Tæland um að taka hlutverk hvíldarstöðva fyrir vestræna hermenn sem börðust í Víetnam. Var stoðum þar með rennt undir kynlífstúrisma Tælands, sem vestrænir menn stunda enn þann dag í dag.

Staðalmynd asískra kvenna sem kynlífsviðfanga vestrænna manna seitlaði einnig inn í dægurmenningu. Ótal dæmi eru um asískar vændiskonur sem ódýran brandara sem ræna raunverulegar asískar konur mennsku sinni í augum vestursins. Ýtir það meðal annars undir kynlífsþrælkun á asískum konum og ofbeldi gegn þeim. Því hvers vegna að virða líf manneskju sem þú lítur á sem einskis virði? Manneskju sem þú telur eingöngu eiga að þjóna rasískum fantasíum hvítra karlmanna?

Ef við lítum á nýlegu skotárásina í Atlanta sjáum við beina tengingu á milli þessarar afmennskunar og ofurkyngervingu asískra kvenna og morðanna. Morðinginn, 21 árs hvítur karlmaður, drap átta manns, þar af sex asískar konur. Hann heldur því fram að hann sé ekki rasisti, hann sé kynlífsfíkill. Hvað kemur meint kynlífsfíkn hans málinu við? Jú, hann álítur að þessar asísku konur séu eingöngu í Bandaríkjunum sem kynlífsviðföng, að þær selji kynlíf, og séu með tilvist sinni að draga hann á tálar. 

Auðveldara er að finna greinar sem segja frá lífi morðingjans en fórnarlambanna.

Xiaojie Tan hefði orðið fimmtug tveim dögum eftir árásina. 29 ára dóttir hennar sagði að mamma sín hafi verið besta vinkona sín.

Delaina Yaun var 33 ára. Hún á 13 ára son og 8 mánaða dóttur.

Daoyou Feng var 44 ára.

Yong Ae Yue var 63 ára móðir.

Hyun Jung Grant var 53 ára einstæð móðir sem gerði allt fyrir syni sína.

Soon Chung Park var 73 ára. Hún var heilsuhraust og allir bjuggust við að hún yrði 100 ára.

Suncha Kim var 69 ára. Hún var mamma og amma, hún var gift í meira en fimmtíu ár og hún elskaði að dansa.

Pauk Andre Michaels var 54 ára og var giftur í 24 ár.

Elcias Hernandez Ortiz er 30 ára. Hann lifði af. Konan hans reynir nú að safna fyrir sjúkrahúskostnaði hans.

Hættum að ýta undir skaðlegar staðalmyndir. Gagnrýnum fólk sem gerir það. Styðjum asíska samfélagið með styrkjum þegar við getum. Lesum okkur til – Internetið er besti vinur þinn. Fræðum okkur um sögu Asíu og sögu asísks fólks í vestrinu. Finnum asískt fólk á netinu sem er að tala um þessi málefni og horfum á efni frá þeim.

#StopAsianHate #StopAAPIHate


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Femínismi og öðrun