Lygin um land hinna frjálsu
Bandaríkin loga í kjölfar morðs lögreglunnar á George Floyd. En þessi eldur er ekki nýkviknaður, hann hefur logað um aldir. George Floyd er ekki fyrsti svarti maðurinn sem lögreglan myrðir og hann verður ekki sá síðasti. Stjórnvöld reyna að halda því fram að lögreglan sé ekki rotin í gegn og að kerfisbundinn rasismi sé ekki til staðar. Hinir hvítu gráta krókódílstárum og benda fingrum á alla aðra en sjálfa sig og valdakerfið sem upphefur þá á kostnað annara.
Lygin um land hinna frjálsu þar sem allir menn eru skapaðir jafnir byggir á ljótri óskhyggju, yfirhylmingu og algerri afneitun á raunveruleikanum. Hið hvíta valdakerfi er djúpstæður vefur kúgunar gegn svörtu fólki og minnihlutahópum sem hefur kostað óteljandi menn lífið.
Í þessari grein verður litið til uppfinningu kynþátta og valdakerfisins sem við búum í. Við fæðumst kannski ekki rasistar en við fæðumst inn í heimsmynd sem gerir okkur að rasistum frá blautu barnsbeini. Rasismi er ekki bara náungi með hakakross á enninu að öskra white power. Rasismi er lúmskt valdakerfi sem á rætur sínar að rekja til nýlenduhyggju og þrælahalds og gerir okkur öll samsek í að jaðarsetja svart fólk, dýrgera það og ræna mennsku sinni, ala á ofbeldi og líta í aðra átt. Sú lygi að kynþáttur sé líffræðilegur og það sé munur á fólki sökum litarhafts er langlíf, rétt eins og sú trú að við séum ekki öll hluti af ósanngjörnu valdakerfi byggðu á þessum uppspunnu kynþáttum.
19 júní 2019 markar 154 ára afmæli þess að öllum þrælum í Bandaríkjum Norður Ameríku var löglega veitt frelsi frá þrældómi. Þrátt fyrir að þrælahald hafi formlega verið lagt af árið 1865 hafa önnur valdakerfi sem viðhéldu kúgun og undirokun svartra komið í stað þess og sum eru enn til staðar í dag18. Hið hvíta valdakerfi (e. White supremacy) er það sem kenna má um hinn mikla mun á lífsgæðum og afkomu svartra og hvítra Bandaríkjamanna. Ber að nefna að munur á innkomu heimila svartra og hvítra er um 100.000 USD á ári19. Stórt hlutfall svartra Bandaríkjamanna er í fangelsum, fáir svartir eru í valdastöðum og hafa síður aðgang að menntun en hvítir, svartir eiga erfiðara með að færast upp um stétt og lifa í heildina styttra20. Einnig eru svartar konur þrisvar sinnum líklegri en hvítar til að deyja við barnsburð og svört ungabörn mun líklegri til að deyja í fæðingu en hvít21. Lögreglan og almennir borgarar myrða svart fólk á götum úti og á sínum eigin heimilum án dóms og laga.
Algengt er að líta markvisst framhjá tölfræðinni um hvernig hallar á svarta Bandaríkjamenn og kenna öðru um en kerfisbundum rasisma. Auk þess hefur um langt skeið verið álitið svo, af stórum hluta hvítra, að rasismi sé einfaldlega ekki lengur vandamál, og ef einhver á erfitt uppdráttar sé það honum sjálfum að kenna en engu ósýnilegu valdakerfi.
Hið hvíta valdakerfi er ástæða bæði þess hvernig hallar á svarta, konur og alla minnihlutahópa í nútímasamfélagi. Þrátt fyrir að valdakerfið tilheyri og sé nefnt eftir kynþætti valdhafanna eru fleiri atriði sem spila inní. Hið hvíta valdakerfi mótaðist til að viðhalda hinu hvíta kapítalíska feðraveldi sem byggir allan samfélagsstrúktúr okkar. Bæði eru það sjáanlegir þættir sem og ósýnilegir og margt fléttast inn í. Til dæmis hin kapítalíska fegurðarþráhyggja og stigveldi fegurðar, líkamspólitík, rasismi, kvenhatur, stéttaskipting og viðhald elítunnar sem á að haldast hvít og karllæg.
Okkur hefur flestum verið kennt, bæði beint og óbeint, að það sé skýr líffræðilegur munur á kynþáttunum og að auðvelt sé að benda á hann. Þessi líffræðilegi munur útskýrir, samkvæmt gömlum kenningum, sjáanlegan mismun, til að mynda á augnlit, húðlit og hárgerð. Auk þessa útlitslega munar hefur okkur verið kennt að í hinum svokallaða líffræðilega mun milli kynþátta felist einnig persónueinkenni, eins og kynferði, íþróttafærni og hæfni í stærðfræði22. Þessi hugmynd, að kynþáttur sé líffræðileg staðreynd sem feli í sér bæði útlitslega og andlega þætti, gerir það að verkum að það verður auðvelt að sjá aðskilnað milli kynþátta í samfélaginu sem eðlilegan. En kynþáttur er, rétt eins og kyngervi, félagsleg afurð fremur en líffræðileg23.
Raunveruleg vísindi hafa löngum sannað að enginn líffræðilegur munur er á fólki af mismunandi kynþáttum24. Útlitsleg atriði falla auk þess ekki eftir beinum línum milli kynþátta, fólk getur verið með ýmsa augn-, hár- eða húðliti en samt verið álitið hvítt, og fólk af afrískum uppruna getur verið jafn ljóst á hörund og evrópsk manneskja sem er álitin hvít, en samt verið álitið svart og þar fram eftir götum. Genetískur munur á fólki milli kynþátta er jafn smávægilegur og á milli fólks af sama kynþætti með mismunandi augnlit, og þætti flestum fáránlegt að áætla að bláeygt fólk sé almennt betra í stærðfræði en fólk með græn augu. Sú trú að mikill lífræðilegur munur sé á milli kynþátta á sér djúpar rætur í menningu okkar og þrátt fyrir að það hafi verið afsannað erum við enn föst í þessari samfélagslega tilbúnu lygi, sem hyllir hvítum ofar öðrum.
Til þess að komast til botns í hvers vegna það er þarf að líta til þeirra afla sem gerðu það að verkum að þessi trú varð landlæg og hvers vegna nú- og þáverandi valdakerfi hafði hagsmuni í því að búa hana til. Það þarf að skoða þær fjárhagslegu og félagslegu aðstæður sem lágu að baki þess að hinn hvíti maður fann upp kynþætti sér til ávinnings, og hvers vegna þessi gervivísindi manna frá 18. öld eru svo lífsseig25.
Kynþáttur var fundinn upp til að réttlæta kúgun, þrælahald og nýlendustefnu26. Bandaríki Norður Ameríku voru stofnuð árið 1776 á þeirri grundvallarhugmynd að allir menn séu jafnir27. En á meðan hvítir herramenn af evrópskum uppruna rituðu undir þá stefnuyfirlýsingu síns nýskapaða lands vildi svo til að þeir áttu margir hverjir heilmikið af þrælum og bjuggu á landi sem þeir sölsuðu undir sig með skipulagðri útrýmingu á frumbyggjum álfunnar28. Til að passa að þessar staðreyndir sem gáfu þeim ókeypis vinnuafl, land og auð, stönguðust ekki á við þá hugmynd að allir menn í bandaríkjunum væru jafnir, lét Thomas Jefferson, sem sjálfur var þrælaeigandi og nauðgari, einn af stofnmeðlimum Bandaríkjanna, gera „vísindalegar“ rannsóknir á kynþáttunum svokölluðu29. Þessar rannsóknir komu hvítu mönnunum vel, enda var spurningin sem leitast var við að svara ekki hvort hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti heldur, hvers vegna hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti30. Þegar farið er af stað með svo leiðandi spurningu reynist auðvelt að sanna það sem lagt er upp með, þrátt fyrir að rökin væru uppspuni. Og enn þann dag í dag lifa þessar hugmyndir góðu lífi.
Rasismi er ekki eingöngu þessi gamla hugmynd um yfirburði hins hvíta kynþáttar, heldur á hann sér rætur í þeirri hugmynd að það sé í raun til eitthvað sem heitir hinn hvíti kynþáttur og að við séum ólíkar tegundir af fólki31. Einnig ber að nefna að áhugavert er hvaða litir hafa verið gefnir kynþáttunum, því eins og glöggir menn sjá er svart fólk ekki svart, heldur fremur brúnt og hvítt fólk ekki hvítt heldur frekar ferskjulitað eða bleikleitt. Snemma voru neikvæðar og jákvæðar hugmyndir tengdar hugtökunum, ekki eingöngu þegar kom að kynþætti heldur einnig bókstaflega öllu. Svart er neikvætt og hvítt jákvætt32.
Í gegnum tíðina með þessum hugmyndum og gervivísindum sem byrjuðu með nýlendustefnu og þrælahaldi hefur kynþáttur svo orðið til, ekki sem náttúrulegt fyrirbæri heldur félagslegt33. Því núna, þrátt fyrir að enginn líffræðilegur munur sé á hinum svokölluðu kynþáttum, hefur samfélagsgerðin verið sköpuð þannig að hún er hagstæð hvítu fólki ofar öllum öðrum. Michael Eric Dyson segir í inngangi sínum að bókinni White Fragility eftir Robin DiAngelo „Því sannarlega er hvítleiki uppspuni rétt eins og aðrir kynþættir, það sem í akademískri orðræðu er kallað samfélagsleg afurð, samfélagslega samþykkt mýta sem hefur sjáanlega áhrif, ekki vegna þess að hann sé til heldur vegna áhrifana sem hann hefur skapað. En hvítleiki gerir meira en aðrir kynþættir, hann er samfélagslegt flokkunartæki sem virkar hvað best þegar tilvist hans er hafnað.“34
Nú er eingöngu eðlilegt að vilja gera eitthvað, en hvað getur þú gert? Best er að byrja á að viðurkenna vanmátt okkar. Við báðum ekki um að tróna á toppi fæðukeðju hins hvíta valdakerfis en þar erum við samt stödd. Okkur langaði ekki að drekka í okkur rasisma með móðurmjólkinni en það gerðum við nú samt. Svo hvað er næsta skref?