14. október 2020

Margir muna eftir því þegar milljónir Egypta þustu út á götur Kaíró í arabíska vorinu árið 2011 til að krefjast aukins frelsis, betri lífskjara og afsagnar spilltra stjórnvalda. Færri veittu því þó athygli að egypskar konur spiluðu gríðarstóran hluta í hreyfingunni en voru þær um helmingur mótmælenda. Eflaust vita enn færri að í Persaflóaríkjum á borð við Sádi-Arabíu og Katar hljóta fleiri konur háskólagráður á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði en á Vesturlöndum miðað við höfðatölu. Þá eru konur í Mið-Austurlöndum hvað iðnastar og frumlegastar í stafrænum femíniskum aktívisma á heimsvísu, en á síðustu árum hafa þær látið raddir sínar heyrast í gegnum fjölda myllumerkja á borð við #Women2Drive, #MosqueMeToo og #InsideOutAbaya. Þrátt fyrir aragrúa tilvika um femínískar hreyfingar í Mið-Austurlöndum allt frá 1923 ríkja hins vegar miklar ranghugmyndir og skaðlegar staðalímyndir um konur í þessum heimshluta á Íslandi og víðar – en hvers vegna?

Þegar ég skrifaði BSc-ritgerðina mína um kvenkyns frumkvöðla í Sádi-Arabíu árið 2017 voru það algeng viðbrögð fólks að flissa og spyrja hvort það fyrirbæri væri til yfir höfuð. Þvert á slíkar hugmyndir, þá gerast sífellt fleiri konur í Sádi-Arabíu frumkvöðlar á hinum ýmsu sviðum og nýta sífellt fleiri þeirra samfélagsmiðla til að vekja athygli á kynjabundinni mismunum þrátt fyrir möguleika á hörðum viðurlögum. Sem dæmi leiddi hreyfingin #Women2Drive í Sádi-Arabíu að endingu til þess að konur mega nú keyra í landinu en konur í forystu hreyfingarinnar þurftu að sæta fangelsisvist, pyntingar og kynferðislegt ofbeldi af hálfu ríkisins fyrir sína þátttöku. Sé litið til allra þeirra hugrökku kvenna sem berjast ötullega fyrir auknum réttindum í hinum ýmsu kimum Mið-Austurlanda eru ríkjandi staðalímyndir þeirra á Vesturlöndum í algjörri mótsögn við raunveruleikann.

Því spyr ég aftur: hvers vegna er svo algengt að konum í Mið-Austurlöndum sé lýst sem undirgefnum, kúguðum húsmæðrum sem ekki gera annað en að bugta sig og beygja fyrir karlmönnum? 
Svarið má að stórum hluta rekja til nýlendustefnu vestrænna ríkja í Norður-Afríku og á Arabíuskaganum á nítjándu og tuttugustu öld og því hugmyndakerfi sem upp úr stefnunni spratt. Fræðimaðurinn Edward Said nefndi það orientalisma, en í grunninn lýsir orientalismi því hvernig heiminum var skipt upp af þeim sem höfðu menningarleg og fræðileg yfirráð í „við og hin“ eða „austrið“ og „vestrið“ þar sem það seinna er æðra því fyrra. Hugmyndafræðin var mikilvægur liður í því að réttlæta yfirráð evrópskra nýlenduherra í Mið-Austurlöndum en voru íbúar þeirra framandgerðir og lýst sem vanþróuðum og lægra settum hvort sem er af vestrænum fræðimönnum eða í vestrænni dægurmenningu. Leifar þessarar hugmyndafræði má finna víða á tuttugustu og fyrstu öldinni en tölfræðin sýnir skýrt fram á áhrif hennar á framsetningu mið-austurlenskra persóna í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þar eru arabískar konur í flestum tilfellum í hlutverki kúgaðra kvenna og þjónustustúlkna auk þess sem þær eru iðulega bendlaðar við hryðjuverkastarfsemi. Eflaust kunna þá einhverjir að spyrja sig hvort slíkt sé ekki endurspeglun á raunveruleikanum, en það er vel þekkt staðreynd meðal fræðimanna að mið-austurlenskt, svart og annað litað fólk er hlutfallslega miklu oftar sett fram í vestrænni dægurmenningu sem glæpamenn eða persónur með neikvæða eiginleika heldur en fær við raunveruleikann staðist. Til dæmis má þess geta að síðustu ár hafa hryðjuverk af völdum hvítra öfgasinna verið margfalt fleiri í Bandaríkjunum en hryðjuverk af völdum íslamskra öfgasinna. Rannsóknir sýna að slíku ójafnvægi í framsetningu fylgja afleiðingar; múslimskar konur búsettar á Vesturlöndum og þá sérstaklega þær sem kjósa að bera höfuðklút eða annan múslimskan klæðnað þurfa iðulega að sæta áreiti og mismunun á vinnumarkaði, svo eitthvað sé nefnt. 
Réttindi kvenna í Mið-Austurlöndum eru heilt yfir vissulega meðal þess sem verst gerist í heiminum. Flest landanna í þeim heimshluta eiga það sameiginlegt að hafa öðlast sjálfstæði um miðja síðustu öld og hefur pólitískur óstöðugleiki og jafnvel stríð einkennt mörg þeirra síðan þá.

Slíkt ástand kemur alltaf verst niður á viðkvæmustu hópum samfélagsins, þá sérstaklega konum.

Breytir það þó ekki þeirri staðreynd að femínískar hreyfingar innan heimshlutans hafa látið til sín taka í tæplega hundrað ár og það í mun meira krefjandi samfélagslegum, lagalegum og pólitískum aðstæðum en venjulega þekkjast í Evrópu og Bandaríkjunum. Eiga þær kjörkuðu konur sem berjast fyrir sínum réttindum þrátt fyrir hættu á áreiti annarra samfélagsþegna eða harðra viðurlaga af höndum yfirvalda ekki meiri viðurkenningu og virðingu skilið en gengur og gerist? Og eiga ekki einnig þær konur sem kjósa að bera höfuðklúta eða starfa innan veggja heimilisins virðingu okkar skilið? Þegar allt kemur til alls, þá snýst femínismi ekki um að ákveða fyrir aðrar konur hvað er þeim fyrir bestu, heldur að konur hafi það frelsi og þau réttindi sem þær þurfa til að lifa lífi sínu eins og þær kjósa.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Alþjóðlegur femínismi: Femínismi fyrir öll, líka Mið-Austurlenskar konur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Alþjóðlegur femínismi: Femínismi fyrir öll, líka Mið-Austurlenskar konur

næsta grein
Ástæður fyrir ungar konur til að flytja út á land (atvinnutækifæri eru ekki ein þeirra)


Lesa meira um...

Af femínisma í Mið-Austurlöndum og orientalisma