Með gervilimum, spelkum og stoðtækjum í hæsta gæðaflokki þjónustar fyrirtækið Össur fólk með fjölbreytta skerta hreyfigetu. Einstaklinga sem hafa misst útlim, fæðst án útlims eða eiga við aðra sjúkdóma eins og slitgigt að stríða.
Árið 2019 velti fyrirtækið hundruðum milljóna bandaríkjadala og hélt stöðu sinni sem næst stærsti framleiðandi gervilima og stoðtækja á heimsvísu. Össur ver um 5% af veltu sinni í þágu rannsókna og þróunar innan fyrirtækisins og starfar í 26 löndum, í nær öllum heimsálfum.
Hver er hins vegar samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins? Hvernig vinnur fyrirtækið með notendum sínum, sem flest allir tilheyra jaðarhóp og hver er það raunverulega sem hefur tök á því efnahagslega að nálgast vöruna?
Til að fá svör við þessum spurningum mælti ég mér mót við Sigríði Harðardóttur sem er titluð Director of R&D Design Center hjá Össuri.
Við hittumst á fjarfundi, báðar við tölvurnar með sitthvorn fataskápinn í bakgrunninum.
Það fyrsta sem við Sigríður ræddum var hver raunveruleg aðkoma notandans að þróunarferlinu er. Sigríður segir að öllum fókus varðandi vöruþróun og þjónustu hjá fyrirtækinu sé beint að stoðtækjafræðingum og þeim sem svo á endanum nota vöruna – notandanum. Þessi fókus er „frá byrjun og til enda“ eins og Sigríður segir. Svokallað user journey experience, sem gæti verið kallað reynsluferli notandans á íslensku, er lykillinn að þróunarferli Össurar. Samtöl við notendur um líðan þeirra og þarfir sem og viðleitni þróunar- og sköpunarteymis til að skilja hvernig það er að missa eða vera án útlims er gríðarlega mikilvægur partur ferlisins samkvæmt Sigríði.
Ég velti því fyrir mér hvort notendur Össurar, einstaklingarnir sem þurfa á vörum þeirra að halda, séu að gefa vinnuna sína þegar að þau deila reynslusögum sínum?
Það er alla jafna ekki nýtt af nálinni að jaðarhópar deili þeirra reynslusögum og mennti fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga um þeirra málefni án þess að fá nokkra þóknun fyrir. Að deila reynslu sinni eða taka virkan þátt í þróunarferli vöru krefst tíma og orku. Fyrirtæki græða oft á þessari vinnu notenda sem svo sitja eftir tómhent við borðið.
„Já, þetta er bara rosalega misjafnt eftir hverju verkefni fyrir sig, eftir því hvaðan einstaklingurinn er eða í hvaða landi við erum að vinna verkefnið. Þá eru bara reglugerðarverk um hvernig maður nálgast þetta.“ Hún segir mér að stundum sé aðeins um netkönnun á Facebook að ræða og að í önnur skipti séu notendur að vinna með þeim í tvær til þrjár vikur „ […] þá að sjálfsögðu fá þau, hvað segir maður, svona compensation fyrir það, allt eftir því í hvaða löndum við erum og hvaða reglugerð er í kringum það“. Compensation er hægt að þýða sem umbun á íslensku.
Sigríður, sem vinnur mikið í ensku málumhverfi, kýs að nota enska orðið amputee í stað íslenska orðsins aflimað / aflimaður / aflimuð eða notar orðið end user yfir notandan. Sigríður segir: „einhvern veginn er það [orðið aflimaður / aflimuð] svo of stýrandi og við tölum ekki um sjúklinga.“
Ég skil vel hvað Sigríður á við með þessu, einstaklingur sem hefur orðið fyrir því að missa útlim eða fæðast án útlims er ekki endilega sjúklingur. Í mismunandi skýrslum frá Össuri eru samt sem áður upplýsingar um að af þeim ríflega 750.000 einstaklingum sem eru aflimuð á neðri fótlegg, á ári hverju, eru 70% vegna sjúkdóma sem eiga rætur að rekja til ýmissa æðasjúkdóma, sykursýki eða krabbameins. Oft eru það þá sjúklingar sem verða fyrir því að vera aflimuð.
Mig langar að vita hvort Össur styrki rannsóknir á þessum sjúkdómum eitthvað frekar. Í minni eigin tungumálaflækju, þar sem ég bý og starfa í Danmörku, mynda ég langa en á endanum ágæta spurningu handa Sigríði: „Ég var að pæla hvort það sé eitthvað samstarf milli Össurar og einhverra stofnana sem eru að vinna með þessa sjúkdóma, eða eru einhverjir styrkir eða eitthvað svona, […] mig langar bara að spyrja hvort að það sé eitthvað samstarf á milli, því Össur í rauninni tekur við af þessum sjúkdómum og hjálpar þegar að skaðinn er skeður?“ Íslenskan mín staðnaði þegar að ég var nýsprungin úr menntaskóla, reyni ég að afsaka fyrir sjálfri mér, þegar ég sit hér og skrifa þetta niður.
Sigríður er ekki alveg klár á því hvort um sé að ræða beint samstarf, hún svarar mér að Össur vinnur náið með samtökum eins og til dæmis Amputee Coalition í Bandaríkjunum og að þau eigi svo í beinu samstarfi við til dæmis ADA (American Diabetes Association, samtök sykursjúkra í Bandaríkjunum). Össur er einn helsti styrktaraðili Amputee Coalition og International Confederation of Amputee Associations. Auk þess styrkir Össur ýmis önnur samtök sem vinna með aflimuðum einstaklingum og hefur einnig tekið þátt í einstaka verkefnum eins og til dæmis þjálfað heilbrigðisstarfsfólk og komið þekkingu áfram á Haítí og styrkt læknasamtökin Stand Tall með stoðtækjum handa fórnarlömbum jarðskjálfta í Sichuan í Kína.
Fókusinn í styrktarframlögum og samstarfi er svo að segja á einum stað. Samtök sem eru með hag aflimaðra og fatlaðra í brennidepli.
„Þú ert ekki að borga þetta úr eigin vasa […] notandinn kemur ekki bara með Visa kortið og borgar fyrir vöruna.“ Áætlað er að um það bil 95% af vörum sem keyptar eru hjá Össuri séu endurgreiddar og/eða niðurgreiddar af þriðja aðila, þ.e.a.s. sjúkratryggingum hjá ríkinu, einkatryggingum eða styrkjum.
Það er hins vegar mikill munur á milli landa hvað þetta varðar. Heilbrigðiskerfi eru ekki öll eins og svo sannarlega ekki sjúkratryggingarnar heldur, ef um slíkt er yfir höfuð að finna í sumum löndum. Svo þegar öllu er á botninn hvolft getur það komið fyrir að notandinn þurfi að borga úr eigin vasa.
„Það er í raun og veru stoðtækjafræðingur eða annar heilbrigðisstarfsmaður sem er kúnninn“, notandinn er „aflimaður einstaklingur, sem getur verið hver sem er“. Hún segir mér frá K-level sem er mælikvarðinn sem notaður er þegar finna á rétt stoðtæki fyrir notandann. Mælikvarðinn er frá 0 – 4 og segir til um hver hreyfigetan er. Afreksíþróttamanneskja er til dæmis á K-4 og varan fyrir þann notanda er líklega allt önnur en varan fyrir notenda sem er á K-1 á mælikvarðanum. Stoðtækjafræðingar eða annað sambærilegt heilbrigðisstarfsfólk eru sérfræðingarnir í því að máta vörurnar og þau taka þá miklu ábyrgð að velja og aðstoða notandann við að velja rétta vöru. Þess vegna er ekki hægt að labba inn af götunni til Össurar og kaupa stoðtæki beint sem notandi.
„Já, alveg klárlega […] það er þetta sem er mjög sýnilegt og fólk þekkir okkur út frá okkar hlaupafótum.“ Í tilefni 50 ára afmælis Össurar hefur fyrirtækið unnið mikið með að upphefja sögur notenda. Sögur sem geta veitt öðrum innblástur og eru hvetjandi, sem geta gert notkun á gervilim eða öðrum stoðtækjum sýnilegri og viðurkenndari í samfélaginu. Össur vill fagna því fólki sem skarar fram úr, fólki sem er fremst á sínu sviði. Hér má til dæmis nefna Team Össur og Össur Ambassadors. Team Össur er hópur afreksíþróttafólks sem vinna mjög náið með fyrirtækinu við að hanna og prófa íþróttafætur og aðra útlimi til íþróttaiðkunnar. Össur Ambassadors eru svo ekki endilega íþróttafólk en „alls konar fólk sem er að gera flotta hluti og eru mjög sýnileg“. Til dæmis fyrirlesarar, sálfræðingur, fyrirsæta og plötusnúður. Sigríður bætir við:
„Það er eitthvað sem er mjög mikilvægt fyrir okkur, að brjóta þetta stigma sem er í samfélaginu“.
„Á sama tíma erum við auðvitað líka með fullt af notendum sem eru eldra fólk og kannski með undirliggjandi sjúkdóma eins og sykursýki og annað sem oft er afleiðing þess að verða fyrir aflimun“, segir Sigríður. Það eru mörg nýsköpunarverkefni hjá Össuri núna sem þjónustar einmitt þennan hóp notenda og fyrirtækið verður með viðburð í nýsköpunarvikunni sem snýr að þeim. Um er að ræða nýja vöru sem, eins og Sigríður orðar það, „er algerlega að umbylta upplifun þessara notenda og gefur fleiri viðkvæmum notendum tækifæri á að geta notað stoðtæki og getað labbað aftur, eitthvað sem annars var ekki mögulegt áður.“
Markmið Össurar er að veita notendum sínum líf án takmarkana — enda eru þessi þrjú orð kjörorð fyrirtækisins. Hér er allt hægt, möguleikar og tækifæri án hindrana, þrátt fyrir áfallið yfir því að missa útlim. Og þetta eru skilaboðin sem Össur vill að sjáist sem víðast.