Borgaravísindi og samfélagsleg nýsköpun – CCP Games
26. maí 2021

CCP er rótgróið tölvuleikjafyrirtæki sem starfrækir meðal annars leikinn EVE online.

Bergur Finnbogason hefur starfað hjá CCP í 11 ár og hefur verið creative director á EVE online í þrjú ár.  





Það vakti áhuga minn að CCP hefur nýtt þann gífurlega fjölda notenda sem spila EVE Online til þess að aðstoða vísindasamfélagið við rannsóknir. Ég hitti Berg að heimsfaraldurshætti á Zoom til að fræðast um þá samfélagslegu nýsköpun sem CCP hefur unnið að undanfarin ár. 

CCP hefur undanfarin ár unnið að samfélagslegri nýsköpun með verkefni sem heitir Project Discovery og byggir það á hugmyndinni um borgaravísindi (e. citizen science) og bað ég Berg um að segja mér frá því hvernig þetta verkefni byrjaði. Ég spyr hann „Nú erum við aðallega að skoða svona nýsköpun á jaðrinum en líka samfélagslega nýsköpun. Þið hafið verið að vinna í Project Discovery í nokkur ár, geturðu sagt mér aðeins frá því?“

„Þetta verkefni byrjaði fyrir 5-6 árum síðan byrjaði í rauninni sem hugarfóstur manns í Sviss sem heitir Attila Sanches og rekur fyrirtæki sem heitir MMOS. Gífurlega mikill tími vísindamanna fer í það að gera hluti sem eru aðeins of flóknir fyrir algóriþma til að framkvæma og það þarf hið mannlega innsæi til að leysa þessi vandamál.“

„Hugmyndin um citizen science (ísl. borgaravísindi) er tiltölulega gömul, þessi hugmynd um að dreifa þessum vandamálum á marga einstaklinga ná þannig að leysa flókin vandamál í krafti fjöldans“,   

Bergur útskýrir að í verkefnum sem byggja á borgaravísindum sé gjarnan mjög erfitt að halda fólki inni, þ.e. að fólk prófi einu sinni eða tvisvar en detti svo út og komi aldrei aftur. Oft þarf að byggja upp ákveðna þekkingu áður en að fólk byrjar að leggja sitt af mörkum í borgaravísindum svo þetta skapar ákveðin vandamál. Hugmyndin hjá Attila og MMOS var að blanda þessum tveimur heimum saman, leikjaheiminum og vísindaheiminum með því að setja borgaravísindin inn í leikinn. „Við auðvitað bara, verandi Íslendingar og ótrúlega nýungagjörn og spennt fyrir öllu sem hljómar eins og það sé kúl, stukkum á þetta, vitandi að þetta væri örugglega alveg ógeðslega erfitt, sem þetta var, stórkostlega flókið og skemmtileg áskorun, þannig að við unnum með þessu fyrirtæki og komum með fyrstu útgáfuna af project discovery árið 2016.“ segir Bergur. Leikir með stóran notendahóp á borð við EVE Online eru því tilvalinn vettvangur til þess að setja borgaravísindin inn í, þar sem að þau hafa náð að besta hugmyndafræðina um að fá fólk til að koma og spila aftur og aftur. 

„Þau vandamál sem hægt er að notast við borgaravísindi í eru gjarnan vandamál sem krefjast gífurlega mikillar handavinnu en þurfa samt mannlegt innsæi til að leysa.“

„Síðan er hægt að nýta gögnin sem koma úr svona til að kenna tölvu algóriþmann. Þannig að það sem var áður eitthvað einhverjir aumingjans post-doc og doktorsnemar að gera leiðinlega vinnu, er núna orðið að algorithma sem EVE hjálpaði þeim að búa til.“

Fyrsta verkefnið sem CCP nýtti borgaravísindin í var unnið með rannsóknarstofunni Human Protein Atlas í Svíþjóð. Hugmyndin var sú að fá verkefni sem væri tiltölulega lítið í sniðum til að byrja með. Bergur segir að þetta verkefni hafi passað mjög vel inn í það. Verkefnið snerist um að kortleggja það sem kallað er sub-cellular protein atlas. „Upphaflega bjuggumst við við að þetta myndi taka svona þrjá mánuði að gera þetta en það tók okkur undir þremur vikum að ná að kortleggja allan þennan atlas.“ Verkefnið kláraðist því á mettíma en það var keyrt áfram í heilt ár. Gagnasettið var keyrt í gegn sjö sinnum sem bjó til gífurlegt magn af gögnum sem hægt var að nýta til að kenna algoriþmanum í Human Protein Atlas að leysa þessa hluti sjálfkrafa í gegnum machine learning. 

Næsta verkefni sem var innleitt í Project Discovery var unnið í samstarfi við Háskólann í Genf og prófessor þar að nafni Michel Mayor. Sá vann meira að segja nóbelsverðlaun árið eftir, sem Bergi þykir mikið til koma. Hann er þekktur fyrir það að finna fyrstu exo pláneturnar í geimnum en það eru plánetur sem eru á sporbaug utan um þær sólir sem við sjáum á himninum.  Að sögn Bergs finna vísindamenn þessar plánetur með því að beina stjörnukíki á sólina og greina ákveðið fall í ljósmagninu. Með því að mæla þetta er hægt að finna umferðartíma plánetunnar. „Þetta er náttúrulega algjört draumaverkefni, EVE Online er leikur sem gerist í geimnum, þarna horfum við á geiminn til að finna exoplánetur þannig þetta var alveg match made in heaven.“ Vandamálið var hins vegar að það er gífurlegur fjöldi stjarna á himninum en mjög fáar þeirra með exoplánetur. „Við fengum gagnasett upp á einhverjar þrjúhundruðþúsund stjörnur með, og frumútreikningar gáfu í skyn að það væru kannski níu plús mínus þrjár stjörnur með plánetum í kringum sig. Þannig þarna ertu í raun og veru einhvern veginn komin í það að reyna að búa til leik í kringum það að finna nál í heystakk.“

Þriðja verkefnið, sem er enn í gangi byrjaði svo 2020 þegar Covid-19 faraldurinn var að fara af stað. 

Bergur segir að þegar Covid-19 faraldurinn hófst hafi CCP viljað hjálpa og þau hafi kastað út netinu til að sjá hvort þau gætu einhvern veginn hjálpað. Þau fengu verkefni í hendurnar sem er unnið í samstarfi við McGill háskólann í Kanada og nokkrum stofnunum í Bandaríkjunum og á Ítalíu.

Það tókst nokkuð hratt a byggja upp verkefnið í kringum rannsóknir á veirunni en upphaflega var unnið með gögn frá Norður-Ítalíu sem var einn mesti suðupunktur veirunnar á þeim tíma. Verkefnið miðar að því að kortleggja svokallað flow-cytometry til að skoða smitrakningu veirunnar. Tengiliður þeirra á Norður-Ítalíu var prófessor sem hefur mikið rannsakað flow-cytometry en á þeim tíma setti hann upp rannsóknarstofu í bílskúrnum heima hjá sér. „Þannig að við vorum bara að fá gögn beint úr bílskúrnum hjá aumingja manninum og hann var bara að vinna allan sólarhringinn í einhverju massa stressi að reyna að finna út hvað væri hægt að gera.“

Það sem hefur verið skoðað út frá þessu var fyrst hvernig veiran ræðst á ónæmiskerfið og síðan hvernig að bóluefnin verka gegn veirunni. 

Að sögn Bergs er ákveðinn kostur fólginn í því að það sé tölvuleikjafyrirtæki sem millilið í þessum rannsóknum, þar sem að CCP sem slíkt hafi engan hvata innan lyfja- eða heilsufarsiðnaðarins eða ríkisstjórn sem þrýsti á að þeirra bóluefni komist í gegn. Þetta veiti CCP ákveðið sjálfstæði innan þessa geira.

CCP hefur sett sér nokkur viðmið um það hvaða skilyrði verkefni þurfa að uppfylla til að verða hluti af Project Discovery. Fyrsta reglan er sú að þau vilja bara verkefni sem eru óeigingjarns eðlis, til dæmis við að hjálpa við að lækna sjúkdóma. Næsta regla er að verkefnið verður að passa innan þema leiksins. „Um leið og þú loggar þig inn í Eve og ferð inn í leikinn þá viljum við ekki brjóta fjórða vegginn, við skuldum spilurunum okkar það að þeir megi bara immersa sig inn í heiminn og þú ert bara einn með heiminum og öðrum spilurum sem eru að spila þannig að það verður að vera auðvelt að thematically folda þetta inn. Þess vegna viljum við til dæmis alls ekki fá myndir af sebrahestum, því það eru engir sebrahestar í EVE Online.“ Þriðja reglan er sú að hvert verkefni verður að taka svipað langan tíma. Það skiptir máli upp á það að fólk viti hversu miklum tíma það er að fjárfesta í verkefnið. Fjórða reglan er sú að gagnasettin þurfa að vera af vissum skala og vissri stærð. Eftir að Human Protein Atlas kom út var fimmtu reglunni svo bætt við um að verkefnin verði að vera visst flókin, sem var einmitt raunin bæði með exoplánetuverkefnið og Covid verkefnin.  



Borgaravísindi og samfélagsleg nýsköpun - CCP Games


Til að fá notendur EVE til að taka þátt í verkefnum þurfa svo að vera ákveðnir hvatar og ég spurði Berg nánar út í það hvernig þau fari að því að fá fólk til að taka þátt í Project Discovery. Að hans sögn eru þrjár megin ástæður þess að fólk tekur þátt. Sú fyrsta er að fólk sé ákaft í að taka þátt í þessari sögu, það er líklega minnsti hópurinn. Næst er tiltölulega stór hópur sem spilar af því að þetta eru vísindi og þau vilja leggja sitt af mörkum og fær mikið stolt út úr því að taka þátt í vísindastarfi. Síðasti hópurinn og jafnframt sá stærsti er aðallega í þessu fyrir peningana, þar sem að spilarar sem taka þátt í Project Discovery fá fyrir það peninga sem eru notaðir í EVE og ýmis verðlaun á borð við skinn á skipin sín, föt á karaktera og þvíumlíkt. 
Bergur segir einnig að innan þess stóra samfélags sem spilarar EVE Online er sé mikið stolt af því að geta lagt sitt af mörkum til að auka þekkingu vísindasamfélagsins. Hann bætir við að leikurinn sem slíkur skipti í raun gífurlega miklu máli fyrir marga.

„Við höfum séð alveg rosalega fallegar sögur úr EVE, fólk að byggja upp rosalega sterkar vináttur. Við erum búin að vera með miklar rannsóknir á því hvernig EVE getur hjálpað fólki að berjast við einmanaleika og allskonar svoleiðis. Svo er auðvitað fullt af fólki sem hefur hitt maka sinn og eignast börn í gegnum leikinn.“

Það er greinilegt að það skiptir fyrirtækið máli að hafa jákvæð áhrif og ég spyr hann út í það og hvort fyrirtækið hafi einhverja stefnu um samfélagsleg málefni almennt. 

„Við erum kannski ekki með hreina stefnu um þetta, en eins og flest fyrirtæki er jafnrétti innan fyrirtækisins er okkur mikið hjartans mál. Við erum búin að vera með jafnlaunavottun núna í nokkur ár og auðvitað gengur hún bæði út á jafnrétti kynjanna en hún gengur líka út mjög mikið út á jafnrétti fólks af mismunandi uppruna.“

Hann bætir við hversu frábær þessi iðnaður sé, þar sem að starfsfólk virkjar hugmyndaflugið sitt og getur framkvæmt svo ofboðslega mikið án þess að skilja eftir allt of stórt fótspor. 
Fyrirtækið er tiltölulega gamalt í tölvuleikjaheiminum, til að mynda er EVE Online ári eldri en World of Warcraft sem margir þekkja. Bergur segir að það sé mjög sjaldséð að leikir lifi svona leng og EVE hafi í raun og veru aldrei staðið betur heldur en akkúrat núna. Þegar fyrirtæki eru ung og ný þá keyri þau sig áfram á trúnni á hugsjónina en Bergur segir að síðustu ár hafi CCP getað farið úr því að vera algjörlega byggt á hugsjón yfir í að byggja sig meira á staðreyndum. 

„Hluti af því var bara að spyrja okkur mjög erfiðra spurninga, af hverju spilar fólk leikinn okkar? Af hverju heldur fólk áfram að spila? Hvað er það við EVE sem gerir hann áhugaverðan?“ 

„Það hefur leitt okkur niður að rosalega spennandi götur þar sem við byrjuðum að rannsaka samfélagið okkar og af hverju er svona mikil heild í því. Það leiddi okkur síðan út í eitthvað sem við köllum EVE Effect, sem er svona hvernig fólk finnur sér hóp og býr til vinskap og hvernig við styrkjum vináttu og búum til vináttu.“

Bergur bætir við að lokum að eftir að CCP byrjaði með sitt Project Discovery hafi nokkur önnur leikjafyrirtæki fylgt á eftir og gert slíkt hið sama.

„Við höfum verið mjög opinská með hvað við höfum lært og við höfum deilt okkar reynslu með öðrum og við erum algjörlega ófeimin við að deila því með öðrum því það græðir enginn á einhverjum iðnaðarleyndarmálum hérna.“

Hann telur að það sé einungis til góðs að deila þessari tækni með fleirum sem geti þá einnig lagt sitt af mörkum við að bæta við vísindalega þekkingu og nefnir leikinn Borderlands 3 sem hefur bætt borgaravísindum inn í sinn leik með því að skoða DNA. 

Það er ljóst að það eru ýmis tækifæri fólgin í því að leyfa tölvuleikjanotendum að spreyta sig á borgaravísindum og að það getur verið mjög gagnleg leið til að fá fólk til að taka þátt í slíkum verkefnum. Við hlökkum til að fylgjast með því hvernig þessari þróun vindur fram í tölvuleikja- og vísindaheiminum.



— — —



Nýsköpun á jaðrinum í samstarfi við Nýsköpunarvikuna













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Konan á bakvið GeoSilica - Fida Abu Libdeh

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Berskjöldun kvenna í kreppu: COVID-19 í femínísku ljósi

næsta grein
Aðgengi og verðmætasköpun fyrir samfélagið - TravAble


Lesa meira um...

Borgaravísindi og samfélagsleg nýsköpun – CCP Games