GeoSilica er fyrirtæki sem framleiðir fæðubótarefni úr kísil sem er unninn úr jarðhitasvæðum Íslands. Vörur þeirra eru 5 talsins og eru allar vegan vottaðar. Kísill er algengt fæðubótarefni og líkamanum nauðsynlegt hvort sem við fáum það gegnum mat eða fæðubótarefni. Verðmæti GeoSilica felst meðal annars umhverfisvænni framleiðslu efnisins, en þau hafa þróað aðferð sem gerir þeim kleift að aðskilja steinefni beint úr jarðhitasvæðum án þess að nota skaðleg efni í ferlinu. GeoSilica var stofnað árið 2012 og var árið 2019 metið á 700 milljónir íslenskra króna.
Konan á bakvið GeoSilica er Fida Abu Libdeh. Fida er fædd í Jerúsalem í Palestínu og flutti til Íslands 1995, með móður sinni og 5 systkinum. Hún útskrifaðist úr orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og MBA frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015. Hún starfar sem forstjóri GeoSilica, er formaður sprotafyrirtækja á Íslandi og hlaut hvatningarverðlaun FKA 2020.
Ég hitti Fidu á fjarfundi til að ræða feril hennar, sigra, mistök og sýn á samfélagslega ábyrgð. Mér langaði að vita hvernig upplifun hennar er sem kona og af erlendum uppruna í nýsköpunarheiminum. Ég spurði hana hvort hún hefði fundið fyrir því að uppruni hennar hafi áhrif á tækifæri og sýnileika hennar í nýsköpunarheiminum.
„Ég held sem kona af erlendum uppruna að það sé erfiðara að ná markmiðunum þínum, erfiðara að komast að, en þegar þú ert komin inn þá muna allir eftir þér, því við erum ekki svo margar.“
„Nýsköpunarheimurinn er mjög enskuvætt samfélag svo tungumálið er ekki hindrun. Það er kannski samt svona einhver ómeðvituð hugmynd annarra að ég kunni eða viti eitthvað minna út af uppruna mínum.“
Það er auðséð ef rýnt er í frumkvöðlasenununa á Íslandi að fjölbreytileiki frumkvöðla er ekki mikil, hún gæti allavega verið töluvert meiri. Af hverju heldurðu það séu svona fáir innflytjendur í nýsköpunarheiminum á Íslandi?
„Þetta er alveg ótrúlega erfitt. Erfitt í upphafi, erfitt regluverk, hvar þú getur sótt þér þjónustu. Að kyngja því þegar þú verður fyrir mismunun og láta það ekki hafa áhrif á þig – reyna kannski að breyta því þegar þú ert komin aðeins lengra. Þetta er fjárhagslega, andlega og félagslega erfiðara fyrir innflytjendur.“
Hvað með hvata og hindranir, finnst þér nægilega mikið gert til að hjálpa fólki sem ýtt er á jaðarinn til að nýta sér sína lifuðu reynslu til þess að skapa eitthvað nýtt fyrir samfélagið, þar sem þau búa yfir öðru sjónarhorni, reynslu, menningu sem fyrirfinnst ekki á „miðjunni?“
„Nei alls ekki, ef eitthvað þá er dregið úr því. Alltaf lögð áhersla á það sem fólk kann ekki og getur ekki. Hugsar ekki út í það sem fólk getur bætt við okkar samfélag. Það er ekki mikill stuðningur við jaðarhópana, hvorki innflytjendur, konur eða landsbyggðina. Alltaf verið að horfa á það sem við höfum ekki. Það hefur verið töluvert átak í að efla konur undanfarið, það er mjög áberandi. Sérstyrkir fyrir konur, sér námskeið fyrir konur. Konur af erlendum uppruna komast alveg þarna með en karlmenn af erlendum uppruna eru skildir útundan.“
Konur hafa sannarlega verið að fá meiri hvatningu undanfarið og ýmsir hvatar til staðar nú sem ekki voru fyrir einhverjum árum. Þá hefur umræðan einnig breyst mikið til hins betra, en þó er meirihluti frumkvöðla ennþá hvítir karlmenn. Hverju myndir þú breyta í nýsköpunarkerfinu til að gera það aðgengilegra fyrir fleiri?
„Fyrst og fremst að nýsköpunarhraðlar nái til allra. Þau sem taka þátt í hröðlunum núna er flest menntað fólk, fólk fætt á Íslandi. Það er ekki mikið af hröðlum sem innflytjendur eða ómenntað fólk getur sótt um. Það hefur hugmyndirnar en þurfa kannski annars konar stuðning.“
„Það þarf að breyta hröðlununum eða einfaldlega stofna nýja. Svo eru hraðlarnir í dag flestir bara fyrir höfuðborgarsvæðið, landsbyggðin er mjög útundan, t.d. fer 90% styrkja til verkefna á höfuðborgarsvæðinu. Annað er að ríkisstjórnin verður að búa til hvata fyrir fjárfesta til að taka „high risk“ svo þau fjárfesti í sprotum. Hækka skattaafsláttinn fyrir stór fyrirtæki svo þau sjái hag sinn í því að fjárfesta í áhættusamari verkefnum. Svo þurfa stærri fyrirtæki að styrkja nýsköpun af alvöru, nýsköpun þarf ekki að vera innan fyrirtækisins. Erlendis er það mikið gert að stór fyrirtæki kaupa sprota og leyfa þeim að vaxa innan fyrirtækisins án aðkomu fyrirtækisins nema með fjármagni. Hér er mjög mikið verið að reyna að gera alla nýsköpun sjálf eða kaupa þjónustu erlendis frá en lítið verið að fjárfesta í frumkvöðlum á Íslandi.“
Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki getur verið eitt verkfæri í að sýna samfélagslega ábyrgð. En hvernig sýnir Fida samfélagslega ábyrgð, og hvað þýðir það fyrir henni?
„Það skiptir mig mjög miklu máli. Allt sem ég geri vil ég gera svo ég sé ekki ein að græða á því. Ég hef fengið mikla aðstoð. Ég væri ekki þar sem ég er án stuðnings og aðstoðar samfélagsins í kringum mig. Gildi fyrirtækisins endurspegla gildin mín, og strax í upphafi ræð ég ný útskrifaðar konur úr tækni og verkfræði, til að þær fái tækifæri til að öðlast starfsreynslu. Ég ræð konur af erlendum uppruna til starfa, við vinnum á ensku svo tungumálið er ekki mikilvægt, og því ég veit hvað það er erfitt að taka fyrsta skrefið. Ein sem byrjaði að vinna hjá okkur og við áttum eiginlega ekki efni á laununum hennar, hún var búin með meistaranám og var að reyna að komast inn á markaðinn en alltaf var verið að biðja um starfsreynslu. Við tókum hana inn til okkar og hún var hjá okkur í nokkur ár, framúrskarandi starfskraftur, núna hún er í phd námi núna í HÍ. Mér finnst svo gaman að hjálpa öðrum ef ég get, og ekki bara ef ég get heldur má það líka alveg fara aðeins út fyrir áætlanirnar mínar. Staldra við og byggja upp í samfélag fyrir mig og alla í kringum mig.“
Ég las grein, þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi Iðnaðar- og viðskiptaráðherra talar um „Fiduáhrifin“, sem felast í því að hafa kjark til að láta vaða, seiglu og staðfestu til að takast á við alla þá erfiðleika sem upp koma á leiðinni, óbilandi trú á verkefninu til að missa aldrei sjónar á endatakmarkinu og endalausa bjartsýni til þess að hafa gaman á leiðinni. Hvaðan færðu þennan kraft, til að halda áfram þegar á móti blæs?
„Sennilega uppruni minn. Ég er tvítyngd þannig séð, fædd í Jerúsalem en er alin upp á Íslandi eftir 16 ára svo ég þekki landið, tungumálið, menninguna og allt, og þessi blanda gerir mig að mér.“
„Þessi blanda styrkir mann, ég hugsa sennilega aðeins öðruvísi. Ég kom til Íslands á þessum aldri sem er náttúrulega ekki auðvelt og hjá mér smá sorglegt. „Auðvelt“ er ekki eitthvað sem ég er vön. Smá hindranir hafa bara aldrei stoppað mig svo það er eitthvað í eðli mínu að halda bara áfram.“
„Ég veit hvað ég vil og ég ætla að ná í það. Spurningin er bara hvað það tekur langan tíma og hvað það kostar. Áður en ég stofnaði GeoSilica var ég orðin þreytt á fólki og samfélaginu að draga úr mér. Svo ég valdi bara að fara mína eigin leið og gera mig sjálfa hamingjusama.“
Mig langar svo að spyrja þig um sigra og mistök sem eru órjúfanlegur partur af nýsköpunarferlinu. Hefurðu einhvern tíman gert stór mistök og hvernig vannstu þig út úr þeim, og hver er þinn stærsti sigur?
„Sko, ég geri sko mistök daglega, en ég er mjög dugleg að læra af þeim. Ég er alls ekki fullkomin. Ég fylgist mjög mikið með mistökum annarra, og læri af þeim líka. Ég eyði ekki allri orku og tíma í að prófa sjálf, ef ég er að fara að gera eitthvað sem ég veit einhver er búinn að prufa myndi ég spyrja hvernig þau myndu gera þetta í dag. Ég veit ekki, það er alltaf allskonar mistök í daglegu lífi en ég myndi kannski ekki endilega segja mistök, frekar bara áskoranir sem ég klára.“
En hvað með sigra?
„Hvert tímabil í lífi mínu eða sprotans míns eða nýsköpunar hefur sína sigra. Til dæmis þegar við fengum fyrst milljón króna styrk þegar við byrjuðum var það geggjað, við skáluðum í kampavíni og fögnuðum þeim sigri. Eftir 3-4 ár fengum við svo 30 milljón króna styrk og þá var það sigurinn. Eftir það seldum við hlut í fyrirtækinu og vorum þá metin á 700 milljónir sem var rosalega gleðilegt. Hver fasi er sigur. Ég er alltaf að hækka markmiðin og ná hærra og hærra. En ég var ótrúlega hamingjusöm þegar við fengum þetta háa verðmat. Eftir 5 ár án fjárfestingu, ekkert fjármagn, bara eigið framlag og söluhagnaður, allir að vinna á lágmarkslaunum. Búin að vinna dag og nótt til að skapa þetta verðmæti og fáum svo staðfestingu á því. Þetta er verðmætt. Það er stór sigur.“
Nú er nýsköpunarvikan nýhafin og ég velti fyrir mér hvaða ráð þú gefur þeim sem eru að byrja sína vegferð, en kannski ekki komin á áfangastað?
„Ég myndi segja jákvæðni. Segja alltaf já. „geturðu tekið þátt í þessu? já. Hugsa eftir á hvernig þú kemur þessu að, hvernig á að hafa tíma fyrir þetta. Segja bara já og vera forvitin. Hlusta mjög vel og taka vel eftir, ég er ennþá að fletta upp upplýsingum sem ég fékk fyrir 5 árum. Svo þó eitthvað sé ekki að nýtast þér akkúrat núna þá er mjög líklegt það muni nýtast síðar.“