Út fyrir kynjatvíhyggjuna: My Genderation
26. maí 2021

Viðtal við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur og Fox Fisher stofnendur My Genderation

Ég hafði samband við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur og Fox Fisher til að ræða um fyrirtæki þeirra My Genderation sem þau reka saman í Englandi ásamt fleirum. My Genderation eru vaxandi kvikmyndaverk um líf trans fólks og hafa nú þegar verið gerðar yfir 100 myndir. Verkin hafa verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn og eru einnig mikið notuð til fræðslu.

Fyrirtækið gengur út frá hugmyndum um samfélagslega nýsköpun en efnið fjallar um jaðarhóp sem upplifir kerfisbundna fordóma og mismunun og er tilgangurinn að varpa ljósi á líf þeirra. Með því að beina sjónum að lífi trans fólks er hægt að uppræta fordóma og leyfa röddum þessa jaðarhópa að heyrast. Á heimasíðu Trans Íslands er trans skilgreint sem  „regnhlífarhugtak fyrir allt það fólk sem er með kynvitund, kyntjáningu eða kyngervi sem er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.” 

Hugmyndina að My Genderation fengu Fox Fisher og Lewis Hancox eftir að hafa tekið þátt í heimildarverkinu My Transsexual Summer árið 2011. Fox fannst erfitt að geta ekki útskýrt eða tjáð sjálfsmynd sína sem kynsegin trans. Kynsegin einstaklingar skilgreina kyn sitt fyrir utan tvíhyggju kynjakerfið, þ.e. skilgreina sig ekki sem eingöngu karlkyns eða kvenkyns.

My Genderation var stofnað með það að markmiði að sýna trans fólk eins og það raunverulega er. Myndirnar eru gerðar af trans fólki, um trans fólk, fyrir allt fólk.

Ég spurði Fox Fisher nánar út í uppruna hugmyndarinnar: „Framleiðendur þáttanna báðu mig um að einfalda upplifun mína þar sem áhorfendur myndu annars ekki skilja” segir Fox og heldur síðan áfram: „Flest efni um trans fólk er gert af fólki sem er ekki trans, sem þýðir að fólk fær í raun aldrei að upplifa okkar raunverulega líf. Oftast er áhersla sett á hluti eins og skurðaðgerðir, viðbrögð fjölskyldna við að koma út sem trans og breytingarferlið. Sjaldan er talað um hluti eins og drauma, ótta og vonir, það að ná langt í lífinu og yfirstíga hindranir. En það er einmitt þar sem við viljum sýna með My Genderation. Með sameiginlegri reynslu okkar getum við sýnt fólki raunverulegt líf trans fólks og með því komið í veg fyrir þessar þreyttu klisjur sem eru oft drifkraftur neikvæðra hugmynda um trans fólk”. 

Ugla tekur í sama streng: 

„Við fjöllum oft um mismunandi gerðir fordóma, hvort sem um er að ræða samfélagslega eða kerfislæga, eins og t.d. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, neikvæð viðhorf, útskúfun og ofbeldi. En okkar sjónarhorn er alltaf öðruvísi heldur en sjónarhorn þeirra sem eru ekki trans, þar sem við getum kafað dýpra og þekkjum þessa reynslu á eigin skinni. Sömuleiðis treystir trans fólk okkur til að sýna þau í réttu ljósi og fara vel með sögur þeirra. Á þann hátt erum við að brjóta upp áralangar birtingarmyndir trans fólks, sem hafa sögulega verið mjög neikvæðar og jafnvel skaðlegar.” 

My Genderation er miklu meira en kvikmyndaverk, þetta er samfélag af fólki sem á það sameiginlegt að vilja fræða um réttindi og líf trans fólks.

Allir sem hafa tekið þátt í verkunum eru sem ein stór fjölskylda. Þau eru virk á samfélagsmiðlum og halda einnig ýmsa viðburði líkt og Trans Pride Film Festival í Brighton.
Ugla nefnir hversu gríðarlega dýrmætt það er að trans fólk fái tækifæri til þess að tjá sig og búa til eigið efni. Því miður eru ekki mörg tækifæri fyrir trans fólk til þess. Með þeirra nýsköpun hefur My Genderation tekist að skapa slíkan vettvang, þrátt fyrir að hafa lítinn aðgang að fjármagni, forréttindum og tenglsum inn í kvikmyndaheiminn. Efnið er öllum aðgengilegt á netinu algjörlega gjaldfrjálst, og er mest öll vinnan gerð í sjálfboðavinnu. 

„Sem betur fer hefur verið meiri vitundarvakning undanfarið að fólk sem vinnur í þágu svona málstaðs eða í samfélagslegri nýsköpun eigi að fá borgað fyrir vinnuna sína. Okkar reynsla er í rauninni sérþekking sem hvergi annars staðar er fáanleg og eigum við því að fá viðurkenningu og tækifæri til þess að segja okkar eigin sögur og fá borgað fyrir okkar framlag til samfélagsins, hvort sem um er að ræða að búa til efni, tala í pallborði eða koma fram á viðburði eða í fjölmiðlum. Þannig er hægt að skapa verðmæti og fólk þarf ekki endalaust að vinna sjálfboðavinnu og leggja ótrúlega mikla vinnu í eitthvað án þess að fá neitt fyrir tíma sinn. Aktívistar og fólk sem berst fyrir ákveðnum málstað á svo sannarlega skilið að fá borgað fyrir sína sérþekkingu og vinnu” segir Ugla. 

Viðtal við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur og Fox Fisher stofnendur My Genderation

Þegar kemur að samfélagslegri nýsköpun þá er mikilvægt að horft sé til fjölbreytileika þar sem áhersla er lögð á að skapa pláss fyrir mismunandi raddir samfélagsins.

Samfélagsleg nýsköpun leitast við að finna lausnir við samfélagslegum áskorunum, sem eiga það til að vera kerfislægar.

Tilgangurinn er að þróa nýjar hugmyndir sem fela í sér ávinning samfélagið. Það felst mikill ávinningur fyrir samfélagið að uppræta þá fordóma í garð trans fólks sem hafa náð að grassera í samfélaginu óhindrað. Áhrifaríkasta leiðin til þess er fræðsla og persónuleg tengsl við fólkið sem um ræðir. Flest fólk sem á einhver alvöru persónuleg sambönd við trans fólk á mun auðveldara með að átta sig á eigin fordómum og aflæra þá. Í huga Uglu og Fox er nýsköpun, líkt og My Genderation, einmitt það — að búa til samfélag þar sem við getum öll verið örugg í okkar eigin skinni og að sérþekking og vinna sé metin að verðleikum. 



— — —



Nýsköpun á jaðrinum í samstarfi við Nýsköpunarvikuna



— — —



Skoðaðu heimasíðu My Genderation hér (https://mygenderation.com/)

Einnig er hægt að fylgja þeim á instagram (https://www.instagram.com/MyGenderation/)

Og svo er hægt að finna öll verkin á youtube (https://www.youtube.com/channel/UCsDRRuhpz3oCi5PABiiY5kA)

(Heimild: https://transisland.is/ordalisti/).













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Skaðaminnkandi hugmyndafræði og sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga - Frú Ragnheiður

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Að finna sig – mikilvægi fjölbreyttra fyrirmynda fyrir transfólk

næsta grein
Konan á bakvið GeoSilica - Fida Abu Libdeh


Lesa meira um...

Út fyrir kynjatvíhyggjuna: My Genderation