12. mars 2021

Þankagangur um hinseginleika og fyrirmyndir

Ég vildi óska þess að ég gæti verið fyrirmynd, hvort sem það væri fyrirmynd annarra eða mín eigin fyrirmynd. Eina fyrirmyndin sem ég gæti hugsað mér að vera er „fyrir” parturinn af fyrir-eftir ljósmyndum megrunakúra, fitubollan sem enginn vill vera. Þá þyrfti síðan að photoshoppa myndina af öðrum líkama yfir minn til að geta logið til um einhvern árangur sem að samfélagið hefur ákveðið að geri fólk að fyrirmyndum. 

Með ólympískri hugarleikfimi get ég þá kallað líkaman minn fyrirmynd. Feiti, hinsegin, kynsegin og taugsegin (e. neurodivergent) líkaminn minn. Hver er þá eftirmyndin. Eftirmyndir af því sem að samfélagið vill að við öll sækjumst eftir: manneskjurnar sem að við erum ekki ennþá heldur eigum eftir að verða, seinna. Kapphlaup um að verða betri, en umfram allt — eins og aðrir. Sanna fyrir öðrum, og sjálfu mér, að allir lestir mínir eru yfirstíganlegir. Eiga mynd af mér úr fortíðinni, til að sýna öðrum hversu mikið mér hefur farið fram. Stranglega bannað að horfa aftur á við með hlýhug, heldur halda áfram, gera betur. Gleyma tilhugsuninni að vera nóg eins og við erum núna, nema í því samhengi að við erum aðeins skárri núna en við vorum einu sinni. Undirliggjandi skilaboðin um það að besta útgáfan af okkur er ekki komin, við getum ekki elskað okkur, ekki strax.

Kannski þegar að ég er búin með mennta mig, kannski þegar ég hef fjárfest í steypu, kannski með því að eignast börn og maka. Kannski þá, þá verð ég ánægt. Kannski. Það vantar alltaf bara eitt í viðbót, næsta skrefið. Bara þetta eina í viðbót, áður en að ég verð betri útgáfa af mér. Hamingjusamt.




Markmiðið að nálgast hamingju með að sækjast eftir veraldlegum eiginleikum. Markmið sem verða til af því að heyra „fyrir-eftir” sögur; „léttist um 50 kíló og fann ástina“, „fann sig í móðurhlutverkinu“, „dúxaði og fékk draumastarfið“. Þetta eru fyrirmyndirnar, þau sem að lifðu hamingjusöm til æfiloka. Eftirmyndirnar þeirra koma sjaldnar upp á yfirborðið: hvert líf þeirra leiddi eftir þennan hápunkt, hver var fórnarkostnaðurinn. Þau lifa hinu fullkomna líf, það hlýtur að vera. Svo heldur lífið áfram og ég reyni að troða mér í mótin sem mér eru sett. Mótin til að verða eftirmynd þeirra, líkt og stjúpsystur Öskubusku gerðu þegar þær skáru af fótum sínum til þess að fanga drauma prinsinn.

,,Sátt manneskja kaupir sér ekki neitt”1, markaðsöflin vinna í því að gera okkur óhamingjusöm og búa til fyrirmyndir til að selja okkur varning. Ekki bara varning, heldur ímynd sem að verður af veruleika, en bara ef að við eignumst þennan varning.

Þekja almannarými með endurteknum skilaboðum um að þú ert ómöguleg manneskja nema að þú eignist þeirra vöru. Þá er ástæðan bak við þessi skilaboð ekki flókin: Það að fólk sé óánægt með sjálft sig getur ýtt undir alveg gríðarlega neyslu, sérstaklega ef að skilaboðin eru sú að hægt sé að kaupa sér hamingjuna. Tekjurnar á bakvið megrunariðnaðinn einan og sér velta á mörgum milljörðum, hvort sem um ræðir djúskúr, ketó eða lífsstílsbreytingar. Sömu lögmál gilda um marga aðra iðnaði sem að búa til tekjur með að grafa undan sjálfstrausti einstaklinga. Að fólk sé ekki nógu góðir foreldrar, nógu fallegt, nógu skemmtilegt, nógu gáfað. Þau skilaboð enduróma og skjóta niður rótum í samfélaginu. Hið venjulega hugsanafar fer að snúast um að við erum ekki nóg.




Það róttækasta sem að ég get ímyndað mér að gera er að stefna að því að vera sátt við að vera ég sjálft. Að stefnan sé ekki að breyta því sem er að utan, heldur að leyfa lífinu að ganga í sínu nátturulega flæði. Það eina sem ég stefni á er að elska mig í öllum mínum myndum, bæði „fyrir og eftir” viss tímabil, en mest af öllu því sem að ég er núna.



— — —



1 Ragna B. Garðarsdóttir – www.ruv.is/frett/satt-manneskja-kaupir-ser-ekki-neitt og www.ums.is/leitin-ad-peningunum/hladvorp/satt-manneskja-kaupir-ser-ekki-neitt-ragna-benedikta-gardarsdottir



— — —



Höfundur er master í félagssálfræði og framtíðar keramiker.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Geðheilsa: Öðruvísi amma

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Pólitísk sjálfsást

næsta grein
Nýsköpun: Hugsjónir geta drepið konu


Lesa meira um...

Eftirmyndir: Þankagangur um hinseginleika og fyrirmyndir