12. mars 2021
texti:
Elinóra Inga Sigurðardóttir
elinoras@gmail.com

Ég man þegar ég fékk enn einn tölvupóstinn sem innihélt neitun um samstarf  íslenskrar stofnunar við KVENN – félagi kvenfrumkvöðla á Íslandi, sem ég hafði haft frumkvæði að. Höfnunin sem kvenfrumkvöðlar upplifa í nýsköpunarheiminum er gömul saga og ný, þó margt hafi breyst til hins betra síðustu ár – allavega í orðræðunni. 

Fyrirmyndir eru nauðsynlegar fyrir komandi kynslóðir. Það sem hefur drifið mig áfram í mínu hugsjónastarfi er að gera hugvitsfólk, sérstaklega konur, sýnilegri í tengslum við uppfinningar og frumkvöðlastarf. Máltækið segir að „Enginn veit sína ævi fyrr en öll er“ og það eru orð að sönnu. Aldrei kom mér til hugar að ég, sem er menntuð sem jarðfræðingur, hjúkrunarfræðingur, nýsköpunarráðgjafi og með kennsluréttindi, ætti eftir að vera í málsvari fyrir hugvitsfólk á Íslandi í  25 ár. Kynni mín af hugvitsfólki hófust árið 1996 þegar ég sá auglýst námskeið hjá Landssambandi hugvitsmanna og Hugvirkir um framkvæmd hugmynda. Ég var þá með hugmynd um að nýta roð sem féll til í fiskvinnslum landsins og nota það sem hundasnakk. Þarna komst ég í tengsl við hugvitssamt fólk og fannst ég komin heim. Í kjölfarið framkvæmdi ég þessa hugmynd mína, sem ég er enn að selja til Bandaríkjanna. En ekki nóg með það, þetta sama ár var ég beðin um að koma í stjórn hugvitsfélagsins. Í framhaldinu stofnaði ég ásamt góðum norrænum konum tengslanetið QUIN, kvinnliga uppfinnare i Norden, árið 1998. Síðan þá höfum við sett upp sýningar og ráðstefnur í Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og Íslandi oftar en einu sinni. Markmiðið er alltaf að koma hugviti kvenna á framfæri og á markað. Við settum upp heimasíðu árið 1998 þar sem konur áttu möguleika á að setja inn sínar vörur og verkefni en það gekk ekki upp því konur voru svo illa nettengdar á þessum tíma.

Á þessum 25 árum sem liðin eru, hef ég starfað sem formaður hugvitsfélagsins SFH árin 1998-2007 og stofnaði KVENN, félag kvenna í nýsköpun árið 2007 og hef verið formaður þar síðan. Ég hef starfað með Nýsköpunarkeppni grunnskólanna frá árinu 1999-2005 en hugvitsfélagið var einn af stofnendum þeirrar keppni. Ég hef ritað fjölda greina, starfað með erlendum systurfélögum hugvitsmanna og kvenna síðan árið 1996 og er í dag forseti Evrópudeildar GWIIN (Global Women Inventors and Innovators Network) og í framkvæmdanefnd GWIIN og IFIA (International Federation of Inventors Associations). Ég hef tilnefnt yfir 60 íslenskar konur og nokkra karlmenn til alþjóðlegra viðurkenninga fyrir þeirra nýsköpun. Ég hef gert yfir 300 sjónvarpsþætti þar sem ég tók viðtöl við frumkvöðla frá árinu 2008 til 2018, með það markmið að koma frumkvöðlum og vörum þeirra á framfæri. Ég fékk góða dóma fyrir þættina, sem sýndir voru á ÍNN og veit að það hjálpaði mörgum að fá styrki í kjölfarið. Ég hef tekið fólk í ráðgjöf og í jafningjafræðslu því að kostnaðarlausu. Ég hef starfað með stjórnmálaflokkum til að hafa áhrif á að breyta og bæta nýsköpunarumhverfið.En, í  tölvupósthólfinu mínu eru líka yfir 50 neitanir frá íslenskum stofnunum, félögum, sjóðum, einstaklingum og fyrirtækjum um samstörf, atvinnuumsóknir og styrki. 

Á einhverjum tímapunkti var ég farin að efast um eigið ágæti og sótti ég mér þess vegna sérfræðimenntun í nýsköpunarráðgjöf til Svíþjóðar á árunum 2011-2012. Í kjölfarið komst ég að því að ég hafði ýmislegt til brunns að bera og var með mikla reynslu af nýsköpunarferlinu og breiða yfirsýn yfir nýsköpunarumhverfið. Ég fékk hæstu einkunn og lof frá kennurum mínum við útskriftina.


Ég viðurkenni fúslega að höfnun frá íslenska nýsköpunarkerfinu hefur tekið á. Ég hef leitað mér sálfræðihjálpar, en á tímabili þá íhugaði ég alvarlega að taka mitt eigið líf, því hundsun er dauðans alvara. Ég hef þó ákveðið að skila skömminni sem þessari útskúfun fylgir. Hundsun, sniðganga og útskúfun frá kerfinu gefur þér tilfinningu um að það sé eitthvað að þér en í raunveruleikanum þá eru það þau sem þar stjórna, sem eiga að skammast sín. Ég skila því skömminni! 

Við ykkur sem með mér standa og á eftir mér koma vil ég segja, ekki gefast upp. Konur eiga fullt erindi í nýsköpunarheiminn þó okkur sé talin trú um annað. Sækjum um styrkina, eigum samræðurnar, biðjum um samstarfið og vinnum saman að því að gera konur sýnilegar sem uppfinningakonur og frumkvöðlar. Þannig náum við árangri.

Menntun, aldur, kyn, uppruni eða búseta skiptir ekki máli þegar hugmyndir eru annars vegar, það er samstillt átak, rétt stuðningsumhverfi og það að gefa fólki tækifæri á að framkvæma sínar hugmyndir, sem eru lykilatriðin.


Að lokum langar mig að vitna í bók Ólínu Þorvarðardóttur Spegill fyrir skuggabaldur:

„Það er engin klisja að við búum í andverðleikasamfélagi. Það er staðreynd og ástæðan fyrir því er val stjórnmálamanna sem fara með völd að hafa samfélagið þannig. […] Á meðan er háskólafólk og fullt af öðrum sérfræðingum, hrætt við að taka þátt í þjóðfélagsumræðu vegna þess að það er sannfært um að það skaði möguleika þeirra á því að afla lífsviðurværis” (Þórður Snær Júlíusson blaðamaður) (bls.231) 

Mig langar einnig að nota tækifærið og þakka þeim stjórnmálaflokkum sem barist hafa fyrir fjármagni fyrir SFH og KVENN, og öðrum sjóðum og félögum sem styrkja nýsköpun kvenna. Ég þakka Ingva Hrafni Jónssyni fyrir að gefa mér tækifæri á að vera með þáttinn Frumkvöðlar á ÍNN. Ég þakka eiginmanni mínum fyrir að standa með mér bæði andlega og fjárhagslega, án hans hefði ég ekki getað gert helminginn af því sem ég þó hef náð að afreka. Ég þakka vinum og félögum í SFH og KVENN fyrir þeirra stuðning og hvatningu, þá sérstaklega Valdimar Össurarsyni. Þakka Þórunni Bjarneyju Garðarsdóttur fyrir að ráða mig sem hjúkrunarfræðing hjá Múlabæ árið 2016, því starfið þar hefur gefið mér aftur trú á lífið og tilveruna. Takk starfsmenn og skjólstæðingar Múlabæjar, án ykkar væri ég ekki hér!


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Eftirmyndir: Þankagangur um hinseginleika og fyrirmyndir

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Konur í nýsköpun

næsta grein
Líkamsímynd: Öll stöku tárin


Lesa meira um...

Nýsköpun: Hugsjónir geta drepið konu