Þegar ég var að alast upp spáði ég lítið í hvaða fólk væri mínar fyrirmyndir eða þá hvort ég væri fyrirmynd einhverra. Lífið bara var eins og það var og ég partur af því. Er ég hugsa til æskunnar sé ég að tvíburasystir mín var mín helsta fyrirmynd. Verandi heilli mínútu eldri en ég var hún vitaskuld mun lífsreyndari og vissi mun betur hvernig tækla átti lífið — hélt ég. Foreldrarnir voru á stalli, sem og eldri systkini og börnin í hverfinu sem voru eldri en ég. Ef þau voru ekki villingar!
Ég sveif inn í fullorðinsárin á minn hátt og varðaði það mig litlu máli hvort það sem ég gerði hefði áhrif á einhvern. Ég vildi koma vel fram við fólk, standa mig í lífinu og helst ekki slá feilnótu. Var prúð, stillt og mikið í mun að gera allt vel sem ég tæki mér fyrir hendur. Ef ég var ekki viss um hvort mér tækist vel upp sleppti ég bara að gera hlutina. Ég var engum háð.
Þegar ég stóð frammi fyrir því að vera á leið að feta slóð foreldrahlutverksins laust sú hugmynd mig að nú væri ég komin í þau spor að hafa ekki hugmynd hvort mér myndi takast vel upp í því hlutverki — en ég kæmist ekki upp með að sleppa því að sinna því. Ég settist niður með sjálfri mér og átti við mig samtal. Ég gerði sjálfri mér ljóst að ég stæði frammi fyrir stærsta hlutverki sem skolað hefði upp á fjörur mínar og héðan af yrði það mér kappsmál að verða börnunum mínum sú allra besta fyrirmynd sem ég gæti orðið.
Aldrei hvarflaði það að mér að þessu yrði líka öfugt farið. Að dætur mínar myndu einnig eiga eftir að verða mínar helstu fyrirmyndir í lífinu. Það var til dæmis dóttir mín sem vakti hjá mér löngun til að berjast á móti óréttlæti þar sem hún var og er einn mesti réttlætissinni sem ég hef kynnst.
Mér varð strax ljóst að ég vildi að dætur mínar byggju yfir þeim eiginleika að geta verið þær sjálfar. Þeim þætti þær ekki þurfa að vera í einhverju hlutverki og mikilvægt þótti mér einnig að þær gætu tjáð mér og öðrum hvað þær langaði í eða þyrftu á að halda.
Ég vissi að þetta gæti ég best þjálfað upp með því að vera ég sjálf í hvívetna og orða óskir mínar. Á mínu heimili gefum við ekki vísbendingar með hvað okkur langar í heldur biðjum beint um það. Ef ég til dæmis vil að dætur mínar loki glugga því mér er kalt bið ég þær að loka glugganum fyrir mig í stað þess að segjast vera kalt og vonast eftir að önnur þeirra loki glugganum.
Ég býð þeim alltaf að viðra óskir sínar með allt á heimilinu og tek tillit þeirra óska. Með því trúi ég að þær eigi auðveldara með að tjá hvað þær langar í. Á sama tíma fá þær æfingu í mótlæti. Allt sem þær langar í er ekki alltaf í boði og þá fá þær tækifæri til að æfa sig í að taka mótlætinu sem er mikilvæg æfing fyrir framtíðina. Ég er líka dugleg að tala um það sem mig langar í en get ekki fengið til þess að vera þeim fyrirmynd þegar kemur að því að taka höfnun með reisn.
Framan af ævi minnar átti ég í miklu basli með að tjá tilfinningar mínar og að tengja við líðan mína. Það flæktist mikið fyrir mér á flestum sviðum lífsins. Ég gerði mér því ljóst að ég vildi að dætur mínar upplifðu það að eiga móður sem talar opinskátt um tilfinningar sínar og líðan og gefur þeim á sama tíma svigrúm til að tjá sig tilfinningalega. Ég hef lagt upp með að tengja ákveðna hegðun við tilfinningarnar sem eru á bakvið og stýra hegðuninni.
Ég segi þeim opinskátt ef mér líður illa, ef ég er reið, þreytt og svo framvegis, og að það sé ekkert sem þær hafi gert til að valda þeirri líðan. Ég þyrfi að fá svigrúm til að jafna mig. Ég hvet þær til að tala um líðan sína og koma tilfinningunum í orð án þess að pressa á þær og gef þeim pláss til að jafna sig. Ég trúi því að með þessu sé ég að hjálpa þeim að tengjast tilfinningum sínum.
Lífið er uppfullt af alls konar og siglir engin vandræðalaust í gegnum það. Ég ákvað strax að vera dætrum mínum öflug fyrirmynd þegar kæmi að því að leysa þau vandamál sem upp koma. Saman reynum við að tækla alla erfiðleika hið snarasta, sem detta inn á borð hjá okkur. Fyrir vikið er ég ekki alltaf vinsæl í þeirra augum, sér í lagi ef það snýr að því að leysa vandamál sem eru utan heimilisins. Ég geng einnig eftir því að taka stöðuna á erfiðum málum, í hvaða farvegi málið er hverju sinni ef ekki er hægt að leysa það á staðnum. Ég sé að þetta skilar sér í áhuga þeirra á að sætta sig ekki við erfiðleika heldur vilja bæta þá. Ekkert er bara látið óáreitt og vonast eftir að það lagist.
Það hefur alltaf verið mér mikið kappsmál að tala ekki neikvætt um fólk fyrir framan dætur mínar og dæma ekkert fyrirfram. Ég reyni að sjá það jákvæða í öllu þó skoðanir mínar séu stundum aðrar. Ég vil ekki að þær alist upp með móður sem dæmir náungann og gefur þeim þau skilaboð að það sé í lagi að rægja fólk. Það barn sem býr við hnjóð lærir að fordæma og það er ekki það veganesti sem ég vil dætrum mínum.
Eitt af því mikilvægasta sem ég vil skilja eftir hjá dætrum mínum er að kunna að biðjast fyrirgefningar ásamt því að vita að fullorðnir geta líka ruglast í lífinu.
Og þegar það gerist er í boði að biðjast afsökunar á því sem gerðist og bæta fyrir það. Sá sem við brutum á hefur svo val um hvort hann vilji fyrirgefa okkur skaðann eða ekki. Og við þurfum að virða það. Engin manneskja er svo helg að geta farið í gegnum lífið án þess að misstíga sig en þá er um að gera að snúa vörn í sókn og fagna því að fá að læra af reynslunni.
Ef við viðurkennum misstök okkar, biðjumst fyrirgefningar og bætum fyrir ráð okkar erum við öflugar fyrirmyndir æskunnar. En börn læra með því að framkvæma svo við þurfum að halda utan um þau í sömu aðstæðum, þegar þau misstíga sig. Gefa þeim tækifæri til að viðurkenna það sem betur hefði mátt fara og þjálfa þau í að biðjast fyrirgefningar. Ekkert gerist að sjálfu sér.
Að lokum hef ég alltaf haft það að leiðarljósi að kenna dætrum mínum taka sig ekki það alvarlega að ekki sé hægt að hlæja að eigin mistökum. Ég geri ítrekað góðlátlegt grín að því sem hendir mig og við hlæjum saman að því. Ef þær lenda í þeirri stöðu að vera leiðar yfir að hafa gert sig að fífli eða eitthvað slíkt, reyni ég að hjálpa þeim að sjá það fyndna við það. Það gerir lífið svo mun skemmtilegra og afslappaðra.