„Þegar börnin þín spyrja hvað þú gerðir til að sporna við loftslagsvandanum, hvernig ætlar þú að svara?“
Ég ætlaði ekki að skrifa þessa grein. Í alvöru. Ég var búin að banna sjálfri mér að skrifa fleiri greinar um loftslagsbreytingar í bili. Mögulega að leyfa fólki að lifa í núinu, í núvitund. Þetta væri komið gott og það væri enginn sem nennti að lesa sama rausið um sama efnið, útgáfu eftir útgáfu.
Ég ætlaði að sitja á mér og reyna frekar að nýta tímann í eitthvað annað en svo hugsaði ég „Til hvers?“ Til hvers að eyða púðri í að halda heimilinu hreinu eða hvað það nú var sem ég ætlaði að gera í staðinn, ef að við erum enn föst í sama farinu? Nei, ég ætla frekar að halda áfram að pota þessu málefni að, hvar sem ég get. Þið ráðið svo bara hvort þið lesið það eða ekki.
Ég hef áður komið inn á loftslagssinnuleysi Vesturlandabúa, tilfinningar mínar gagnvart móðurhlutverkinu á þessum síðustu og verstu, loftslagskvíðanum og öllum þeir rófum tilfinningalífsins sem honum fylgja – en það er ennþá eitt málefni sem mig langar að koma betur inn á.
Hvernig getum við sem samfélag réttlætt fyrir sjálfum okkur þá framtíð sem við erum að skapa fyrir börnin okkar? Svona í fullri hreinskilni. Hvað er að okkur?
Mér líður eins og við séum að reyna að krafsa í grafarbakkann með endalausri umræðu um núvitund, að lifa í núinu og vera til staðar núna. „Lífið er núna! Mundu að staldra við. Finndu lyktina af blómunum og hættu að stressa þig á því sem koma skal.“
Það er bara flott að við séum að reyna að viðhalda efnahag landsins með því að flytja inn erlenda ferðamenn í massavís á mengandi breiðþotum sem spúa 90 kílóum af koltvísýringi á klukkustund. Ég veit við ætluðum að reyna að hægja á hlýnun jarðar, halda okkur undir 2°C markinu en þú veist hvernig þetta er, elskan. Meira flug, allir græða. Núna.
Við lifum í samfélagi þar sem allt gengur út á að njóta núna. Það er seinni tíma vandamál hvernig við hyggjumst greiða fyrir allar jólagjafirnar sem við settum á Visa-kortið um jólin, eða hvernig við ætlum að ná að klára að skrifa ritgerðina sem við beiluðum á því við ákváðum að fara frekar út á djammið. Seinni tíma vandamál. Núvitund.
Þennan sama hugsunarhátt má greina í viðhorfi okkar til loftslagsbreytinga. Þetta er seinni tíma vandamál sem, vegna þess að það snertir okkur ekki beint – akkúrat núna – við þurfum ekki að pæla í. Og það er þetta viðhorf sem ég á svo ótrúlega erfitt með. Eins og hin sextán ára Greta Thunberg (ég sagðist mundu tala um hana alls staðar) hefur réttilega bent á í ötulli loftslagsbaráttu sinni, þá verðum við að fara að hysja upp um okkur buxurnar og það núna, ef við ætlum að eiga einhvern séns.
Ef framtíðarkynslóðir eiga að fá einhvern séns. Við náum eflaust ekki að halda okkur undir 2°C markinu með þessum áframhaldi, en við getum samt enn mögulega reynt að afstýra eigin glötun ef við gerum eitthvað núna. Í núvitundinni.
Af því þegar ég segi okkur þá meina ég kynslóðirnar sem á eftir okkur koma. Kynslóð Gretu Thunberg og kynslóð sonar míns, kynslóðirnar á eftir þeim. Hvaða heim erum við að bjóða barnabarnabarnabörnunum okkar upp á? Þau eru seinni tíma vandamálið sem við neitum að horfast í augu við. En við verðum að gera það.
Það er alltaf verið að tala um núvitund og sjálfsvirðingu og að elska sjálfan sig en í dag þegar þessi grein er skrifuð þá segi ég stopp.
Nú, þegar yngri kynslóðin er byrjuð að rísa upp út um allan heim, að íslenskum ungmennum meðtöldum, og krefjast raunverulegra svara þá er tækifæri komið fyrir stjórnvöld að hlusta. Krafan er skýr. 2,5% af þjóðarframleiðslu – að lágmarki – renni óskert í loftslagsmálin. Samstillt átak verði í ríkisstjórn um að tækla vandann og draga úr kolefnislosun þjóðarinnar svo um munar. Aðgerðaráætlunum verði raunverulega fylgt eftir og gríðarleg viðhorfsbreyting verði til neysluvenja almennings. Vandinn sé tekinn alvarlega. Framtíð komandi kynslóða sé tekin alvarlega.
Við höldum því oft fram að loftslagsmálin séu flókin, en staðreyndin er sú að þetta er það bara alls ekki. Næsta kynslóð biður okkur um grið, um einhvern möguleika á sómasamlegri framtíð. Hún biður okkur um framtíð, punktur. Hvernig ætlum við að svara?
Höfundur minnir á Verkfall fyrir loftslagið, vikulega fundi á Austurvelli alla föstudaga og hvetur lesendur til að mæta. Það hefur áhrif, í alvöru.