1. september 2019

Guðrún Svavarsdóttir er siðfræðingur og heimspekingur að mennt. Um þessar mundir er hún í meistaranámi í hagfræði við Háskólann í Lundi þar sem hún skrifaði nýverið námsritgerð um koltvísýringslosun Íslendinga, skoðaði ólíkar tegundir útreikninga á þessari losun og bar saman lönd í því samhengi. Við settumst niður hvor í sínu landinu fyrir framan tölvuskjáinn og ræddum þessa áhugaverðu ritgerð.

Áhugann á viðfangsefninu segir Guðrún hafa kviknað við lestur á grein sem birt var í kjölfar meistararitgerðar sem skrifuð var af Jack Clarke í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, þar sem sama viðfangsefni var skoðað. Þegar fjallað er um koltvísýringslosun einstakra landa er venjulega átt við útreikninga sem byggðir eru á losun sem verður við framleiðslu innan landamæra hvers lands fyrir sig, sem hefur verið kölluð framleiðsludrifin losun. Losun sem verður við neyslu í viðkomandi landi er þá ekki tekin sérstaklega til greina, þ.e. losunin sem verður vegna framleiðslu á neysluvarningi annars staðar, sem síðan er fluttur til landsins.

,,Ef við tökum dæmi þá er losunin sem verður við framleiðslu á einum iPhone, sem keyptur er á Íslandi, skrifuð á Kína eða þau lönd sem framleiða íhluti fyrir símann. Ef við skoðum hinsvegar losun sem verður vegna neyslu, þá væri það sem losnar við framleiðslu á iPhone, sem keyptur er á Íslandi, skrifað alfarið á Ísland, þar sem losunin verður vegna neyslu Íslendings.“

Þannig er það skilgreiningaratriði hvar losunin á sér stað, báðir útreikningar, þ.e. framleiðslu- og neysludrifnir, eru mikilvægir og nytsamlegir og heildarlosun út í andrúmsloftið er alltaf sú sama sama hvorir útreikningarnir eru skoðaðir. Þetta eru þannig tvær hliðar á sama peningi, en Guðrún hafði hug á að bera saman þessar tvær aðferðir við útreikning ásamt því að skoða hvernig Ísland stæði miðað við önnur lönd ef dæminu er snúið svona.

Í umræðunni um loftslagsmál er oft mikil ábyrgð sett á neytendur. Við eigum að neyta minna, flokka meira rusl, ferðast minna, eignast færri börn, borða minna kjöt og þannig hafa minni skaðleg áhrif á jörðina. Þá eru margir sem benda á hvernig allar þessar aðgerðir séu einungis dropi í hafið ef heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er skoðuð, þar sem t.d. 100 stórfyrirtæki Bandaríkjanna beri ábyrgð á um 71% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, og þau fyrirtæki ásamt ríkisstjórnum séu í raun þau einu sem geta nokkuð í málinu gert.

Guðrún vill þó benda á að í raun sé ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur, þar sem fyrirtækin eru öll að framleiða varning fyrir neytendur.

Samhengið þarna á milli er kannski ekki öllum augljóst en sem dæmi er Equinor meðal efstu 40 fyrirtækjanna á áðurnefndum lista. Equinor er það fyrirtæki sem Ísland kaupir nær allt sitt eldsneyti af og þannig er norska ríkið, stærsti eigandi Equinor, ábyrgt fyrir losuninni sem verður við framleiðslu alls eldsneytis sem flutt er til Íslands ef við höldum okkur við þessa framsetningu, þ.e. að stórfyrirtækin beri ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til þeirra. Þegar heildarmyndin er skoðuð svona er augljóst að allir þurfa að leggja sitt af mörkum, neytendur, fyrirtæki og ríkistjórnir.

losun

Guðrún nefnir að í alþjóðasamfélaginu séu til dæmis uppi háværar raddir og mikill þrýstingur á Kína að lækka kolefnisfótsporið sitt. Kína hefur á síðustu 20 árum orðið eitt helsta framleiðsluland heimsins og framleiðir 60% af öllum skóm í heiminum og 70% allra síma.

Ef framleiðsludrifin losun Kína er borin saman við neysludrifna losun, þá lækkar heildarlosun landsins um 15% sem skýrist að miklu leyti af framleiðslu á varningi sem er fluttur er út og neytt er í öðrum löndum. Kína ber þó ábyrgð á þessari losun í almennri umfjöllun en einnig í þeim útreikningum á losun sem notast er við t.d. í Parísarsáttmálanum. Þrýstingurinn ætti því alveg eins að vera á okkur að skapa ekki eftirspurn eftir vörum framleiddum í Kína eins og á Kína að hætta að losa gróðurhúsalofttegundir.

Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda til að ná markmiðum Parísarsáttmálans leggur mesta áherslu á að minnka losun vegna framleiðslu hérlendis. Það er meira að segja tekið fram að einstök ríki séu ekki ábyrg fyrir kolefnislosun vegna innflutnings og því sé aðallega miðað við bókfærða losun samkvæmt reglum alþjóðlegra umhverfisstofnanna.

,,Í raun gætum við þá tekið upp á því að flytja einhverjar vörur inn í stað þess að framleiða þær hér, því slík losun myndi ekki hafa áhrif á þær losunartölur sem tekið er mið af í Parísarsáttmálanum. Í raun yrði samt mögulega minni losun ef varan væri framleidd hérlendis, en þá yrði losun hennar skrifuð á Ísland“, segir Guðrún.

Miðað við niðurstöður ritgerðarinnar, bendir margt til þess að mögulegt sé fyrir Ísland að standast Parísarsáttmálann með samdrætti í framleiðsludrifinni losun án þess að umbreyta neysluhegðun sinni. Þetta myndi þó líklega leiða til þess að losun erlendis vegna íslenskrar neyslu drægist ekki saman, og því gæti það endað með því að heildarlosun vegna Íslendinga í heiminum myndi ekki minnka þó að Ísland stæðist Parísarsáttmálann á blaði. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að skilja hvað liggur að baki talnanna sem notaðar eru í umræðu um losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðspurð hvort hún hafi skoðað útreikningana per einstakling, líkt og er mjög gjarnan gert, segist Guðrún hafi sleppt því alfarið þar sem markmiðið hafi verið að bera saman lönd og að áherslan hafi verið á heildarlosun. „Ég skil vel þegar viðfangsefnið er sett í þetta samhengi þegar er verið að tala til neytenda.

Hinsvegar er þessi samanburður líka villandi, það þarf ekki nema eitt álver til viðbótar á Íslandi og þessari tölur snarversna fyrir okkur vegna fólksfæðar, en ef sama álver með sömu losun væri byggt í Svíþjóð þá myndi losun á mann ekki hækka jafnmikið þó að heildarlosunin sé alveg sú sama. Í Pakistan er til dæmis losun per einstakling að lækka en heildarlosun þar að aukast, sem kemur til vegna örar fólksfjölgunar.“

Guðrún vill þó setja þann varnagla í alla þessa umræðu þar sem útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda er því miður oft rangir, vegna þess að það þarf að gefa sér margar forsendur. Því tengt var losun á metangasi í Bandaríkjunum til dæmis lengi rangt reiknuð og var í raun hundraðfalt meiri en haldið hafði verið fram.

Þá er oft óljóst hvar losun við flutning á vörum reiknast inn. Guðrún benti jafnframt á hvernig útreikningar á því hve mikið votlendi bindur af kolefni séu oft óáreiðanlegir, líkt og aðrir hafa bent á. Hinsvegar er áhugavert að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því að ekki hefur verið endurheimt nema brotabrot af votlendi á Íslandi.

,,Ef binding kolefnis með því að endurheimta votlendi myndi á einhvern hátt hjálpa íslenskum stjórnvöldum að ná Parísarsáttmálanum, værum við löngu búin að því?“

Í umræðunni um loftslagsmál á Íslandi getur verið auðvelt að afskrifa þessar áhyggjur, ákall eftir aðgerðum og mótmæli, með það í huga hve lítið Ísland er í alþjóðlegu samhengi. Í huga margra skiptir okkar nokkurra þúsunda tonna losun gróðurhúsalofttegunda á ári engu máli ef Indland breytir ekki sínum framleiðsluaðferðum. En nákvæmlega þar stendur hnífurinn í kúnni.

,,Verandi siðfræðingur finnst mér umræðan um hamfarahlýnun sérstaklega áhugaverð. Kannski breyta aðgerðir mínar einhverju, en það er ekki bara þess vegna sem ég geri það sem ég geri. Ég geri það sem ég geri því það er það rétta í stöðunni. Aðgerðir við hamfarahlýnun eru ein tærasta mynd siðferðis, að mínu mati.”

Aðspurð hvað hafi komið mest á óvart við skrif á ritgerðinni segir Guðrún að það hafi sennilega verið hvað Ísland er langt eftir á miðað við t.d. Svíðþjóð og Danmörku sem hafa minnkað losun sína mjög mikið. Ísland, sem þó sparar ekki stóru orðin um að vera umhverfisparadís með græna raforku og hita, hefur í þessu samhengi í besta falli staðið í stað.

,,Önnur lönd þurfa að umturna orkukerfum sínum en á Íslandi virðist flest framkvæmt með lágmarks fyrirhöfn í stað þess að nýta forskotið sem við höfum. Eins og við séum að bíða eftir að aðrir nái okkur.“

Þegar Guðrún varði ritgerðina sína í Lundi í júní byrjaði hún á að setja ritgerðina í samhengi við íslensk stjórnmál. Hún sagði frá hvernig ríkisstjórn Íslands samanstæði af hægri íhaldsflokki og svo vinstri grænum flokki og því tæklaði ritgerðin í rauninni mótsögn innan ríkisstjórnarinnar; að vilja hagvöxt og efnahagslegan stöðugleika en á sama tíma leggja áherslu á metnaðarfull markmið í loftslagsmálum.

Hún fékk í kjölfarið spurningu hvort slík samsetning myndaði ekki mikla togstreitu í íslenskri pólitík. Eftir nokkra umhugsun svaraði Guðrún neitandi: „Við erum virkilega góð í að hólfaskipta vandamálum okkar. Ríkisstjórnarsáttmálinn snýr bæði að efnahagslegum stöðugleika og á sama tíma að því að vera umhverfisvæn – án þess í raun að fatta að þessi tvö atriðið vinna að mörgu leyti hvort gegn öðru. Við viljum rafvæða bílaflotann okkar, en samt auka flugsamgöngur?”

Til að draga umræðuna saman segir Guðrún mikilvægt að minna sig af og til á það hvert lokamarkmiðið okkar er. Er nauðsynlegt að vita nákvæmlega hversu miklu það skilar að moka í skurði á Íslandi ef það er ljóst að það kemur til með að binda kolefni? „Er markmiðið kannski orðið að ná Parísarsáttmálanum? Af hverju gerðum við sáttmálann til að byrja með? Endanlegt markmið þarf auðvitað að vera að minnka losun kolefnis út í andrúmsloftið – alls staðar. Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir eru ábyrgir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda annars staðar í heiminum þó við séum lítil og langt í burtu.“

Fleiri greinar eftir Elínóru Guðmundsdóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Dropinn sem meitlar steininn

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Núvitund í +3,5°C

næsta grein
Ásbjörn Erlingsson: Afhverju eruði ennþá að væla yfir femínisma?


Lesa meira um...

Mín eða þín losun?