Smásaga eftir
Natan Jónsson
Elínborg heyrði að hann var búinn að leggjast upp í rúm. Hann reyndi að kaffæra öskrin ofan í koddan. Hafði læst sig inni í herberginu og nú stóð hún fyrir utan hurðina að reyna að ná til hans. Hún vissi að það þýddi ekki, ekki þegar hann var í miðju kasti. Gefðu þessu tíma, hann róast niður að lokum. En á bak við þá hugsun nagaði sannleikurinn hana. Þau hefðu ekki tíma, ekki núna.
Hann var við það að fara út um dyrnar þegar hann bað um húfuna sína. Var ekki búinn að nota hana í margar vikur. Þess vegna gleymdi hún að gera ráð fyrir henni. En hún hefði átt að vita að hann myndi vilja nota húfuna rétt eftir klippingu.
Hún þreifaði á sprungnu vörinni eftir hann, hún var farinn að bólgna. Þetta ætti eftir að líta illa út í viðtalinu. Bitfarið sæist að minnsta kosti ekki.
Hann hafði verið sáttur með nýju klippinguna þegar hann fékk hana. Eitthvað hlýtur að hafa komið fyrir í skólanum. Það leið varla sá dagur þar sem eitthvað tilfelli kom ekki upp. Elínborg gerði dauðaleit að húfunni án árangurs. Það var eins og hún hefði hreinlega gufað upp. Daníel neitaði að fara út án hennar. Þegar hún reyndi að tala um fyrir honum rauk hann upp í skapi og lamdi hana í andlitið.
Hún þurfti að beita öllu sínu afli til þess að halda honum áður en hann færi að velta öllu um koll í íbúðinni. Þá beit hann hana í handlegginn. Síðermabolurinn veitti henni litla vörn gegn tönnunum sem virtust hnífbeittar. Þegar hún kippti hendinni burt fann hún hvernig húðin rifnaði. Það myndaðist ljótt sár og blæddi úr því. Daníel hljóp inn í herbergi og læsti hurðinni. Á næsta ári yrði hann líklegast orðinn of sterkur fyrir hana.
Hann var hættur að öskra.
„Daníel… Daníel minn.”
„Ríddu þér!”
Kennari Daníels hafði tilkynnt Elínborgu að félagsráðgjafi skólans myndi sitja fundinn með þeim. Hún þoldi ekki þegar hann kom. Þoldi ekki að sitja með þeim og hlusta á allar hrollvekju sögurnar af Daníel með hnút í maganum. Hvernig hann væri að hellast úr lestinni í náminu. Hvernig hann tók reiðisköst. Hvernig hann grýtti grjóti í eldri krakkana sem hefðu gert grín að honum. Hvernig hann hafði sent einn kennarann upp á spítalann þegar hann kýldi hana í nárann.
Alltaf spurðu þau hvernig gengi með hann heima.
Alltaf svaraði hún eins. „ Hann er allt annar strákur heima við. Ég kannast ekkert við þetta sem þið eruð að lýsa.”
„Hefurðu heyrt um PMT?” það var Guðríður, félagsráðgjafinn, sem talaði.
„PM?..”
„Parent Management Training. Þetta er námskeið sem er snérsniðið fyrir foreldra barna sem glíma við hegðunarvandamál. Þar er farið yfir aðferðir sem þú getur beitt til þess að tækla þessi frávik sem hann á við að stríða, t.d. að setja hann í einveru þegar hann óhlýðnast eða að koma upp verðlaunakerfi til þess að ýta undir góða hegðun.”
Frábært, á ég s.s. að setja ellefu ára gamlan strák í skammarkrókinn?
„Ég sagði að það gengi allt vel heima.” Hún var orðin pirruð á því að sitja alltaf undir ásökunum frá þeim. Hvað voru þau alltaf að skipta sér af hennar uppeldi. Gátu þau ekki bara tryggt það að hin börnin væru ekki að leggja hann í einelti. Daníel gat varla labbað heim án þess að vera áreittur af einhverjum krökkum úr skólanum. Kom oft heim lemstraður eftir slagsmál. Þessi börn, þessi helvítis börn eru viljandi að espa hann upp. Ef þau létu hann bara í friði væri hann ekki alltaf að taka þessi köst.
Hún sagðist hugsa málið en þegar kom að því að hafa samband við námskeiðshaldarana þá fékk hún sig ekki til þess. Hún óttaðist hvað aðrir myndu segja. Konan sem gæti ekki alið upp barnið sitt.
Vaktin var byrjuð þegar hún gekk inn á kaffihúsið.
Hérna brosti hún framan í kúnnana og leyfði sér að gleyma vandamálunum sem biðu hennar heima. Hún skipti um föt og kom síðan fram að afgreiðsluborðinu. Þar beið Stella með bros á vör.
„Hvaða glott er þetta?”
„Þrándur ætlar að halda staffadjamm á morgun. Hann var að pósta því inn á grúbbuna.”
Þrándur hafði byrjað að vinna þarna fyrir tæpum tveimur mánuðum. Hann var að læra lögfræði í háskólanum og ákvað að fá sér hlutastarf til þess hafa efni á leigunni á miðbæjaríbúðinni. Þau byrjuðu fljótt að daðra við hvort annað. Hún var orðin nokkuð viss um að þau gætu byrjað saman. Henni hafði tekist að halda því leyndu fyrir honum hvernig Daníel væri. Var hrædd um að það myndi fæla hann frá, var búið að koma fyrir áður.
Hún byrjaði að ímynda sér að þau sætu saman í sófanum í partíinu. Þau myndu stelast til þess að koma við hvort annað. Passa að enginn tæki eftir því. Síðan myndu þau kyssast á dansgólfinu á Prikinu, djammsleikur. Hann byði henni aftur heim með sér og svo og svo. Það var orðið svo langt síðan hún hafði verið með einhverjum. Þráin eftir nánd stigmagnaðist hverja einustu helgi sem hún var föst heima á meðan allir fóru út á lífið. Þrátt fyrir að vera aðeins tuttugu og sex ára gömul leið henni eins og hún væri fertug.
Þegar pásan hennar byrjaði bjallaði hún í mömmu sína og spurði hvort þau gætu passað Daníel fyrir sig. Það var þungur tónn í rödd mömmu hennar, eins og alltaf þegar Elínborgu vantaði pössun. Hún sagðist ætla að athuga með pabba hennar fyrst.
Getið þið ekki bara gert þennan litla hlut fyrir mig? Það var ekki eins og þau væru að passa fyrir hana oft og tíðum. Það var oftast ekki nema í neyð sem hún bað einhvern að vera með Daníel fyrir sig. Pabbi hans vildi ekki sjá hann. Var löngu búinn að gefast upp á þessum köstum hjá honum. Ekki vildu foreldrar hans hjálpa til fyrst hann var sjálfur ekkert að því. Var búinn að eignast annað barn og hamingjusamur með þá fjölskyldu.
Svartsýnin var orðin einum of mikil og Elínborg fór að einbeita sér að vinnunni. Hún fór oft að þrífa kælinn þegar það var ekkert annað til að leiða hugann hennar frá þessum hlutum. Núna var hún komin niður á hnén með sótthreinsibrúsann og skrúbbaði kælinn tandurhreinan.
„Ertu nokkuð upptekin?” Það var Þrándur sem stóð þarna yfir henni.
„Jú gífurlega, komdu aftur seinna.” Kímnigáfa hennar var ekki ennþá komin á fullt skrið þennan dag.
„Ætlarðu að mæta á morgun? Ég tók þennan dag frá sérstaklega fyrir þig.”
„Nú er það já? Þá verð ég að að minnsta kosti að kíkja við.” Það glaðnaði yfir henni og hnúturinn í maganum var að losna.
„Ég er á leiðinni upp í skóla að læra. Langaði að kaffa mig í gang. Ertu til í að gefa mér einn cappuccino?”
„Ekki málið.” Á meðan hún lagaði kaffið víbraði síminn hennar á afgreiðsluborðinu. Mamma hennar var að svara henni. „Nei við getum það ekki því miður. Pabbi þinn er svo slæmur í bakinu.” Helvítis.
Þegar hún rétti honum kaffið var brosið sem var rétt nýkomið á bak og burt. „Ég kemst því miður ekki. Næ ekki að redda pössun.”
„Æi, það er leitt að heyra.” Þrándur hélt brosinu sínu. „Þú mætir þá bara næst. Það munu verða fleiri staffadjömm í þinni nánustu framtíð.”
„Heldurðu það?”
„Já, tilhvers að eiga íbúð í miðbænum ef maður heldur ekki partí hverja helgi.”
Ok ég næ þér næst.
Hún velti því fyrir sér hvort hinir væru að skemmta sér. Líklegast. Bara að hann væri örlítið eldri, þá hefði hún getað skilið hann eftir einan heima. Leyft honum að panta sér pizzu og horfa á þessa þvælu fram á nótt. Eftir að Daníel sofnaði fór hún inn í eldhús og blandaði sér vodka með appelsínusafa í glas. Pirringurinn óx innra með henni. Þetta á ekki að þurfa að vera svona erfitt. Getur hann ekki bara lært að haga sér? Þarf þetta alltaf að enda í ósköpum. Hún hellti sér nokkrum sinnum í glas og sofnaði síðan útfrá sjónvarpinu.
Bréfið beið hennar þegar hún kom heim. Það var falið innan um reikninga og hún tók ekki eftir því þegar hún skellti bunkanum á eldhúsborðið.
Daníel hljóp beint inn í herbergi og fór í tölvuna. Þetta var það eina sem hann nennti að gera heima, hanga í tölvunni eða að horfa á sjónvarpið. Það þýddi ekkert að bjóða honum út, sat bara þögull þegar þau voru á kaffihúsinu. Hann vildi bara spila tölvuleiki við ókunnugt fólk úti í heimi. Yrti ekki á hana í marga daga stundum en talaði við einhverja kauða í útlöndum á reiprennandi ensku. Hvenær varð hann svona sleipur í enskunni?
Þetta var ekki búinn að vera góður dagur. Í fyrstu pásunni dró Stella hana út í sígó og fór að segja henni frá öllu sem fram fór í partíinu. Elínborg hlustaði áhugafull til að byrja með og hló af skondnum uppákomum sem áttu sér stað.
„Ég svaf hjá Þrándi.”
„Ha?” Hnúturinn í maganum myndaðist aftur. Henni leið eins og hún þyrfti að gubba. Djöfulsins asni. Bæði tvö, djöfullinn hafi þau.
„Já við vorum að reykja á kaffibarnum þegar hann bauð mér aftur heim með sér í eftirpartí.”
Hún vildi ekki heyra þetta en gat ekkert sagt. Var aldrei búin að segja Stellu að hún væri hrifin af Þrándi
„Svo vorum við bara tvö eftir ein og eitt leiddi að öðru.”
Næstu fjóra tímana forðaðist hún augnsamband við Stellu. Vildi ekki að hún sæi að eitthvað amaði að. Þegar Þrándur mætti á vakt lét hún sem hún heyrði ekki í honum þegar hann heilsaði. Náði í sótthreinsibrúsann og byrjaði að þrífa kælinn.
Þegar þau voru að keyra heim bað Daníel um að fara í klippingu. Hún samþykkti það og þau keyrðu niður í miðbæ. Hann var mjög sáttur við nýju klippinguna. Stelpan sem klippti hann var sæt og hann roðnaði þegar hún talaði um hvað hann væri myndarlegur. Síðan settust þau inn á kaffihús rétt hjá og fengu sér heitt kakó. Þetta var róleg stund og þau fylgdust með fólkinu sem gekk framhjá glugganum. Þau töluðu ekki um skólann, töluðu ekki um neitt. Ung kona stoppaði fyrir framan þau og reimaði skóinn hjá stráknum sínum, síðan leiddust þau yfir götuna. Elínborg mundi ekki hvenær hún og Daníel leiddust síðast.
Bréfið gægðist út úr bunkanum. Þetta var ekki reikningur heldur póstur. Elínborg opnaði bréfið, það var frá Barnavernd. Hún var boðuð í viðtal næsta fimmtudag.
Nei, nei, nei. Hvernig gátu þau gert þetta? Ekki ræð ég því hvernig hann hagar sér í skólanum. Gerðu það guð, ég skal bæta mig. Ég lofa. Ég get þetta ekki.
Hún lá andvaka alla nóttina hugsandi um hvað biði hennar.
Elínborg tilkynnti komu sína hjá afgreiðslunni. Daníel var með henni. Eftir að kastið með húfuna hafði runnið sitt skeið tók hún hann með sér. Hún lofaði honum að þau fengju sér ís þegar hún væri búin á fundinum. Daníel gekk hljóðlátur á eftir henni þegar þau fóru inn í bygginguna. Hann virtist finna á sér að eitthvað væri að.
Þau voru send upp með lyftunni og Björk, miðaldra kona, tók á móti þeim þegar þau stigu út. Hún var vingjarnleg þegar hún heilsaði þeim. Daníel var boðið að vera í leikhorninu þar sem hann fékk að fara í leikjatölvu á meðan mamma hans kæmi inn á skrifstofu í spjall.
„Jæja Elínborg, ástæðan fyrir því að þú varst boðuð hingað er að við fengum tilkynningu um hugsanlega vanrækslu og ofbeldi”
„Ha!” Þetta sagði hún bara beint við hana. „Hver sagði þetta? Kennarinn hans?”
„Það er trúnaðarmál hverjir tilkynna til okkar..”
„Ég hef aldrei lagt hendur á hann. Þetta er bölvað kjaftæði.” Reiðin kraumaði í henni. Þetta var verra en hún hélt. Hún myndi aldrei meiða hann, aldrei.
„Segðu mér, hvernig greiningu er strákurinn með?” Björk var að reyna að ná valdi á aðstæðunum.
„ADHD.” Svaraði Elínborg og róaðist aðeins. „Hann er búinn að vera á lyfjum í þrjú ár.”
„Er það eina greiningin?”
„Hvað meira viltu?”
„Ekki neitt, en miðað við lýsingarnar sem okkur hafa borist þá hljómar það eins og það gæti verið eitthvað meira sem amar að.” Björk þagnaði í smá stund. „Hvað kom fyrir vörina á þér?”
Ógleðistilfinningin var stanslaus en hún gat ekki kastað upp af því hún var ekki búin að borða neitt í tvo daga.
Björk var að bíða eftir svari en tók loks sjálf til máls. „Í tilkynningunni er greint frá háværum öskrum sem berast frá íbúðinni daglega. „Oft má heyra húsgögnum velt um koll og smáhlutum grýtt í veggi. Barnið kallar fólkið í nágrenninu illum nöfnum og æpir á móður sína að hún sé hóra. Hann er margoft búinn að hóta að drepa hana sem og aðra. Móðir stráksins sést oft með áverka daginn eftir köst og teljum við að það þurfi að grípa inn í hjá þeim áður en það verður of seint.” Björk þagnaði til þess að gefa Elínborgu færi á að svara fyrir sig en hún bara starði út um glervegginn.
„Það eru til úrræði fyrir svona tilfelli. Það er ekki okkar markmið að taka hann frá þér. Hins vegar er það orðið ljóst að þú þurfir hjálp með hann. Það þarf að fara með hann aftur í greiningu af því miðað við það sem er sagt í þessu bréfi þá hljómar það eins og hann sé á einhverfu rófi.”
Einhverfur? Er hægt að vera ofvirkur og einhverfur? Elínborg starði áfram fram á gang í átt að leikhorninu. Björk var farinn að tala um að sækja um pláss fyrir Daníel á Bugl en hún var hætt að hlusta. Hún horfði bara á hann í leikhorninu.
Hann sat þar í sófanum og lék sér í leikjatölvunni. Bar það ekki með sér að vera ofbeldisfullur. Leit út eins og öll hin börnin, alveg venjulegur. Andlitið á honum var saklaust. Hann var svo fallegur. Hún fann þegar tárin byrjuðu að streyma niður kinnarnar. Hún elskaði hann svo mikið, gat ekki hugsað sér að missa hann.