7. mars 2019

Eitt það mikilvægasta sem við eigum sem einstaklingar erum við sjálf og frelsið til að stjórna okkar eigin lífi. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er hins vegar ekki alltaf virtur.

Þann 23. janúar 2018, stuttu fyrir 28 ára afmælið mitt, fór ég, einhleyp og barnlaus, í ófrjósemisaðgerð. Ég lendi oft í því að fá „þú skiptir um skoðun“ athugasemdir frá bæði kunnugum og ókunnugum, og virkir í athugasemdum fengu skemmtiefni þegar viðtal við mig birtist á fréttavef Vísis í tengslum við aðgerðina.

Fólk hafði þá, og hefur enn, ótrúlega miklar áhyggjur af þessari ákvörðun hjá mér; að ég sé of ung til að vita hvað ég vil, að ég muni skipta um skoðun, að ég muni hitta einhvern sem vill eignast börn, að ég verði einmana í ellinni, að ég hefði ekki kynnt mér getnaðarvarnir nógu vel og þar fram eftir götum. Fólk sem þekkir mig ekki telur sig vita betur en ég.

Þessi ógrynni skilaboða, athugasemda og afskiptasemi eiga það sameiginlegt að litast af þörf annarra að til að ráða yfir mínum líkama og mínu lífi.

Sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama er heitt umræðuefni og þá helst þegar kemur að þungunarrofum. Bæði í þeirri umræðu og umræðu um ófrjósemisaðgerðir kvenna er rauði þráðurinn að konum er ekki treyst. Okkur er ekki treyst til að vita hvað er okkur og okkar lífi fyrir bestu.

Við erum of… of ungar, of óupplýstar, of vondar, of öðruvísi. Að bregða út af spori samfélagsins um fyrirfram ákveðin hlutverk kvenna sem mæður hræðir fólk. Okkur er kennt að vissar leiðir í lífinu séu réttar, og ef þú ferð ekki réttu leiðina þá hlýturðu að vera að fara þá röngu. Það hræðir okkur af því að við vitum ekki hvort eða hverjar afleiðingarnar verða fyrir okkur sjálf.

Ef ég ákveð að eignast ekki börn, er ég þá að setja pressu á annað fólk að eignast ekki börn? Mun fólk núna verða það sem er ,,öðruvísi“ í samfélaginu? Er ég að taka af rétti þeirra? Svarið við þessu öllu er nei, alls ekki.

sjálfsákvörðunarréttur kvenna

Konur þurfa að berjast fyrir trausti í og frá samfélaginu, ekki síst frá hvorri annarri, til að fá að stjórna okkar eigin lífi og líkömum. Feðraveldið og kynjakerfið hefur smitað hugsun okkar allra. Okkur hefur verið kerfisbundið kennt að treysta ekki sjálfum okkur né öðrum konum hvort sem það er með því að draga úr getu okkar og styrk í orðræðu eða hreinlega með beinum völdum og lagasetningum. Hvort sem kemur að líkömum okkar eða lífi.

Fyrsti kvennaskólinn var ekki stofnaður fyrr en 1874 og var það í fyrsta skipti á Íslandi þar sem konum var boðið upp á formlega menntun. (Konur og stjórnmál, e.d.). Það eru bara 104 ár síðan að konur fengu kosningarétt á Íslandi – en athugið að það átti bara við um konur eldri en 40 ára. Það eru ekki nema 99 ár síðan að kosningaréttur karla og kvenna á Íslandi varð jafn (Alþingi, e.d.).

Konum var ekki treyst til að vera í skóla, konum var ekki treyst til að vinna utan heimilisins, konum var ekki treyst til að kjósa…en sjálfsákvörðunarréttur kvenna var samt ekki algjör og konum er enn ekki treyst til að taka ákvarðanir um sinn eigin líkama.

Skortur á sjálfsákvörðunarrétti kvenna leynist víðar en við gerum okkur grein fyrir. Lýta- og fegrunaraðgerðir eru mjög harkalega gagnrýndar af samfélaginu. Það er nefnilega mjög þröngur og afmarkaður rammi líka, hvað má og hvað má ekki, þegar kemur að þessu.

Konur sem fara í brjóstastækkanir eða aðrar fegrunaraðgerðir vegna óánægju og vanlíðunar vegna eigin líkama mega þola gagnrýnisraddir frá ýmsum hópum og eru ýmist stimplaðar sem „bimbó“ eða „að taka þátt í feðraveldinu“. Brjóstaminnkanir eru heldur ekki leyfðar innan þrönga rammans nema með verulegum útskýringum á hræðilegum bakverkjum. Hvað sem áliti okkar á fegrunaraðgerðum líður, þá er þetta eitthvað sem kemur engum við nema þeim sem býr í líkamanum.

Hvernig getum við dæmt val fólks þegar við göngum ekki þeirra leið í lífinu?

Sjálfsákvörðunarréttur kvenna, eða vöntun á honum, birtist líka skýrt í umræðu um brjóstagjöf. Konur eiga að gefa brjóst, en samt bara heima. Eftir að hafa eftirlátið líkama sinn í 9 mánuði til meðgöngu skal kona halda áfram að eftirláta líkama sinn í marga mánuði á eftir, með tilheyrandi tíma og erfiði. Brjóstagjöf er ekki dans á rósum fyrir allar konur og fólk er snöggt að hoppa á fordæmingarvagninn ef barni er gefið pela – hvort sem við vitum ástæðuna eða ekki. Konum er ekki einu sinni treyst til þess að vita hvað er sér og sínu eigin barni fyrir bestu.

Þegar ég byrjaði að skrifa þessa grein hugsaði ég hana eingöngu út frá rétti kvenna til að ráða eigin líkama, en því meira sem ég hugsa um það þá snýst þetta um að konur fái að ráða eigin lífi. Það eru svo ótrúlega margar óskrifaðar reglur um hegðun kvenna sem þarf að stroka út.

Hvað getum við gert? Hvernig breytum við þessum hugsunarhætti? Með því að tala um það. Þessi hugsunarháttur og stjórnsemi yfir konum er svo rótgróinn í samfélagið að við breytum þessu því miður ekki á einni nóttu. Við megum alveg fyrirgefa okkur fyrir viðbrögð sem samfélagið hefur kennt okkur svo lengi sem við erum ákveðin í því að læra af þeim. Í staðinn fyrir að segja fólki til, hvernig því á að líða eða hvað það á að gera, þá skulum við spyrja. sjálfsákvörðunarréttur kvenna er m.a. virtur, með því að spyrja.

Mér þótti vænst um í mínu ferli í tengslum við ófrjósemisaðgerðina og eftir hana, þegar fólk spyr „Vá, af hverju?” í einlægri forvitni en ekki vegna fordóma. Að biðja um upplýsingar til að reyna að skilja af hverju ég er eins og ég er, frekar en að reyna að troða mér inn í ramma samfélagsins. Á sama tíma er mikilvægt að muna að fólk skuldar þér engar útskýringar. Við þurfum öll að fá að lifa okkar lífi á okkar hátt, og læra af okkar eigin ákvörðunum. Ef þú spyrð og færð ekki svar, líttu þá inn á við og reyndu að setja þig í spor annarra. Reyndu að skilja að við erum eins mismunandi og við erum mörg.

Mín upplifun af fordómum samfélagsins vegna ófrjósemisaðgerðar minnar er sú að fólk lítur niður á mig og þar af leiðandi, virðir mig ekki. Mín persónulega ákvörðun stríðir gegn boðum og bönnum samfélagsins og með því að synda á móti straumnum þótti samfélaginu líkami minn skyndilega verða almenningseign, ekki minn eigin.

Þegar ég hef upplifað að fólk líti niður á mig fyrir mína ákvörðun um ófrjósemisaðgerðina þá finn ég mjög sterkt að þau virða mig ekki. Líkami minn verður þá einhvernveginn samfélagsins, hann er ekki minn. En það er ekki rétt. Ég á mig sjálf, ég ræð mér sjálf. Það þarf enginn að feta sömu leið og ég, en ég bið um þá virðingu að fá að feta mína leið í friði.

Án trausts er ekki virðing. Án virðingar er ekkert traust.



— — —

Alþingi. e.d. Kosningaréttur – þingmál og umræður. Sótt 22. janúar 2019 á https://www.althingi.is/

Konur og stjórnmál. e.d. Kvennaskólinn stofnaður. Sótt 22. janúar 2019 á https://www.konurogstjornmal.is/

Hlaðvarpið “Kona er nefnd” sem Tinna Haraldsdóttir er meðstofnandi af.

Verk eftir Öldu Lilju á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Kynjatvíhyggja: Meira en litningar

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Feminist Farming Project

næsta grein
Með fullri virðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólki


Lesa meira um...

Sjálfsákvörðunarréttur kvenna: Ég ræð mér sjálf