MSN lán ættu að vera fyrir öll, en þau eru það ekki. Árið áður en ég fór í nám, og fyrstu tvö árin af náminu mínu var ég með um það bil tvær milljónir í tekjur á ári, fyrir skatta. Þar að auki fékk alls tvær milljónir í námslán, yfir þessi tvö ár. En ég átti ekki rétt á hærri námslánum af því ég var svo tekjuhá.
Ég var að leigja stúdíóíbúð í kjallara sem var með einum opnanlegum glugga sem var svo hátt uppi að ég þurfti að standa ofan á eldhúsinnréttingunni til að opna hann og ég var að borga niður lán eftir misheppnaða tilraun til að láta draum minn rætast og fara í háskólanám til Bandaríkjana á tímabili þar sem ekkert erlent BA-nám var lánshæft hjá MSN (þá LÍN). Og ég átti gamlan bíl til að komast á milli skóla og vinnu. Svo ég var ekki að lifa neinu lystisemdarlífi, eins og MSN virðist oft ímynda sér að lánshafar þeirra lifi.
Samtals átti ég mögulega meira en einhver önnur til aflögu eftir greiðslu reikninga, eða u.þ.b. 30-60.000kr á mánuði, en samt sem áður var það alltof lítið og mér tókst að koma mér í miklar skuldir og að eyðileggja lánshæfismatið mitt. Staða sem ég er fyrst að byrja að koma mér upp úr núna, 11 árum síðar, og ég er enn í námi.
Ég veit ekki um neinn háskólanema sem er í vinnu með skóla til að kaupa sér rándýra merkjavöru eða til að fara út að borða á dýra veitingastaði oft í mánuði. Flest okkar vinna til að hafa í okkur og á, og kannski til að fá okkur ristað brauð með avókadó um helgar til að gera okkur dagamun.
[Myndirnar að ofan – Ætihvönn, Geldingahnappur og Greni – ásamt fleiri myndum eftir Tinnu Eik eru fáanlegar hér á Uppskeru listamarkaði.]
Það síðasta sem ég þurfti, á meðan ég var í námi, voru fjárhagsáhyggjur og því næst vandræði. Ég kem ekki úr vel efnaðri fjölskyldu, og ég kem utan af landi, ég var með lán á bakinu sem ég vildi greiða upp sem fyrst og eins og mjög margir námsmenn hér á landi hef ég unnið meðfram skóla síðan ég var 13 ára.
Að vissu leiti er það vegna endalausra flutninga og áskorana í persónulegu lífi, en helsti áhrifavaldurinn á þetta langa nám mitt er fjárhagsáhyggjur og of mikið álag, en ég hef verið í skóla og vinnu samtals í að meðaltali 170% hlutfalli í öll þessi ár.
Margt hefur breyst síðan ég hóf fyrst nám, og meðal annars er nemendum sem vilja taka námslán ekki refsað eins harkalega fyrir tekjur sem þau hafa áður en nám hefst. En betur má ef duga skal, og taka þarf enn stærri skref til þess að taka tillit til mismunandi stöðu, mismunandi nemenda til að tryggja það að þau standi eins jafnt og mögulegt er á sínum námsferli. Eitt af því er að hækka eða afnema viðmið um lánaveitingar til þeirra nemenda sem vinna meðfram námi.